Flataskólafréttir

Skólaárið 2021-2022 - 1. febrúar 2022

Kæra skólasamfélag!

Það verður að segjast eins og er að janúarmánuður hefur verið heldur undarlegur hvað varðar skólastarf, og hreint ekki sá skemmtilegasti! Eins og allir vita hefur verið gríðarlega mikið um forföll bæði hjá nemendum og starfsfólki og því er óhjákvæmilegt að ýmsar áætlanir hafi farið úr skorðum. En allt saman hefst þetta nú með samstilltu átaki og jafnaðargeði allra aðila.

Nú væntum við þess auðvitað að í næsta mánuði förum við loks að sjá faraldurinn dvína fyrir fullt og allt. Svo verður að koma í ljós hvort febrúar standi undir þeim væntingum en það má kannski búast við að staðan versni aðeins áður en hún fer að batna.

Eins og kynnt hefur verið er skólinn nú hættur að vinna með almannavörnum að framkvæmd á sóttkví og smitgát enda þeim úrræðum bara beitt þegar um er að ræða smit innan heimila. Við gætum átt von á því að smitum fjölgi eitthvað á næstunni en enn sem komið er sjáum við ekki aukningu á forföllum nemenda, hvað sem síðar kann að verða.

En við höldum auðvitað bara okkar striki og febrúar hefur að venju fasta liði eins og samtalsdag og vetrarfrí grunnskólans. Samtölin verða rafræn eins og oft áður á undanförnum misserum og svo stefnum við að sjálfsögðu að því að allt verði orðið slétt og fellt eftir vetrarfrí þannig að síðustu mánuðir skólaársins geti orðið með eðlilegum hætti.

Enn og aftur þökkum við nemendum, starfsfólki og foreldrum fyrir gott samstarf, þrautseigju og stuðning á þessum skrýtnu tímum. Og nú er bara endaspretturinn eftir!


Bestu kveðjur úr skólanum!

Stjórnendur

Helstu viðburðir framundan:

  • 2. feb - Samtalsdagur
  • 4. feb - Bólusetningar í 1.-6. bekk, kennslu lýkur kl. 11:00 hjá þeim bekkjum
  • 6. feb - Dagur leikskólans
  • 21.-25. feb - Vetrarleyfi í grunnskólum Garðabæjar
  • 28. feb - Bolludagur
  • 1. mar - Sprengidagur
  • 2. mar - Öskudagur - styttri skóladagur

Skráning í frístund í vetrarleyfinu

Frístund skólans, Krakkakot, er að venju opin í vetrarleyfinu í febrúar fyrir þá nemendur sem þar eru skráðir. Opnað verður fyrir skráningar á föstudaginn, 4. febrúar, og þeim þarf að vera lokið þann 18. febrúar. Skráning fer fram í gegnum Völuna (www.vala.is) Foreldrar munu fá tölvupóst frá umsjónarmanni Krakkakots í vikunni vegna þessa.

Viðhald á húsnæði skólans

Þessi misserin fer fram töluvert viðhald á húsnæði skólans enda er hluti skólahúsnæðisins kominn til ára sinna og ýmislegt sem þarf að endurnýja og betrumbæta. Síðastliðið sumar var hafist handa við að skipta um glugga í skólanum auk þess sem skipt var um járn á þaki suðurálmu hússins o.fl. Fyrirhugað er að halda þessum framkvæmdum áfram á þessu ári.

Fyrir áramótin létum við taka myglusýni á nokkrum stöðum í húsinu eftir ábendingum starfsmanna sem eru næmir fyrir loftgæðum. Þessi athugun leiddi í ljós að í norðurhluta miðálmu skólans eru vísbendingar um að myglu sé að finna. Ekki greindist neitt á öðrum stöðum en við ætlum í framhaldinu að biðja um fleiri athuganir til að hafa vaðið fyrir neðan okkur. Í umræddum hluta skólans eru tvær bekkjardeildir staðsettar, ein úr 3. bekk og önnur úr 4. bekk. Við erum núna í vikunni að loka þessum hluta skólahúsnæðisins og flytja bekkjardeildirnar í aðra hluta hússins. Norðurhluti miðálmu skólans verður semsagt lokaður í þær 5 vikur sem áætlað er að taki að lagfæra húsnæðið. Að því búnu verður það rannsakað og svo væntanlega flutt inn í stofurnar á nýjan leik.

Í sumar verður svo haldið áfram með aðrar fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir samkvæmt áætlun.

PMTO námskeið fyrir foreldra 4-12 ára barna

PMTO (Parent Management Training) Foreldrafærninámskeið verður haldið í Garðabæ á miðvikudögum kl. 16:30 – 18.30

vorið 2022.

Námskeiðið hefst 23.febrúar til 4 maí, (páskahlé 13 og 20 apríl)

Þátttökugjald er kr. 15.000 fyrir fjölskyldu. Innifalin eru námskeiðsgögn og veitingar.

Gert er ráð fyrir að báðir foreldrar komi á námskeiðið. Lágmarksþátttaka þarf að vera sjö fjölskyldur, svo námskeiðið verði haldið. Verði þátttaka yfir tíu fjölskyldur verður gerður biðlisti.

PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, er sannprófað meðferðarprógramm ætlað foreldrum barna með hegðunarerfiðleika. Úrræðið hentar foreldrum barna á leik -og grunnskólaaldri. Rannsóknir hafa leitt í ljós að PMTO dregur úr hegðunarerfiðleikum barns á heimili og hefur auk þess jákvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldu og frammistöðu barns í námi.

Lögð er áhersla á vinnu með verkfærum PMTO og sveigjanleika til að mæta þörfum hverrar fjölskyldu. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðari hegðun barns og draga úr hegðunarvanda. Foreldrar vinna heima á milli tíma.

Á námskeiðinu er m.a. farið í eftirfarandi þætti;

- Nota skýr fyrirmæli

- Hvetja börn til jákvæðrar hegðunar

- Setja mörk

- Efla virk samskipti innan fjölskyldu

- Vinna með tilfinningar og samskipti

- Hafa markvisst eftirlit

- Leysa ágreining


Upplýsingar og skráning :

Skráning fer fram í gegnum „þjónustusíðu Garðabæjar“ á eyðublaði 05 innan félagsþjónusta, merkt PMTO foreldrafærni.

Umsóknarfrestur er til og með 14 .febrúar 2022

Svar um pláss á námskeiði verða send 16-18 febrúar.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Berglind B. Sveinbjörnsdóttir uppeldisfræðingur Fjölskyldusvið Garðabæjar og Margrét H. Þórarinsdóttir sérkennslufulltrúi og PMTO meðferðaraðili Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar. Hægt er að hafa samband við námskeiðshalda fyrir frekari upplýsinga í sími 525-8500

Umferðaröngþveiti á Stekkjarflöt

Enn og aftur berast okkur ábendingar um að foreldrar aki um Stekkjarflöt til að sleppa börnum sínum úr bíl eða jafnvel leggja þar bílum meðan börnum er fylgt í skólann. Við viljum því eindregið beina þeim tilmælum til foreldra að nýta frekar þar til gerð sleppistæði og bílastæði við skólann. Stekkjaflötin er ekki gerð fyrir umferð af þessu tagi og þessu fylgja mikil óþægindi fyrir íbúa þar og hætta fyrir vegfarendur.

Ráðleggingar um morgunnesti grunnskólanema

Embætti landlæknis hefur gefið út einblöðung með ráðleggingum varðandi morgunnesti nemenda í grunnskólum sem ágætt er að kynna sér. Smellið hér til að skoða..

Upptakturinn

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listnemenda og listamanna. Upptakturinn er opinn ungmennum í 5. – 10. bekk. Áhersla er lögð á að hvetja börn og ungmenni til að semja tónlist og styðja þau í fullvinnslu hugmyndar. Ungmennin sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Verkin þurfa að vera 1 – 5 mínútur að lengd og þarf að skila inn í nótnaformi eða mp3 upptöku á netfangið upptakturinn@gmail.com fyrir 21. febrúar.

Við hvetjum forráðamenn og nemendur í 5.-7. bekk til að kynna sér málið betur en allar upplýsingar má finna á https://www.harpa.is/upptakturinn

Endurskinsmerki

Núna í skammdeginu geta endurskinsmerki skipt sköpum en upp á síðkastið hafa einmitt verið í fréttum skelfilegir atburðir þar sem ekið hefur verið á gangandi vegfarendur. Það er því seint of oft minnt á mikilvægi endurskinsmerkjanna og biðjum við foreldra um að yfirfara útifatnað og töskur barnanna þannig að þau séu eins örugg í umferðinni og unnt er.
Big picture
Skólamatur - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.