Fréttabréf Grenivíkurskóla
3. tbl. 1. árg. - nóvember 2020
Kæra skólasamfélag
Tíminn æðir áfram og nóvember að hefjast. Skólastarfið gengur vel og fá nemendur daglega að kljást við fjölbreytt verkefni. Covid-19 setur vissulega sinn svip á skólastarfið, t.d. að því leyti að við getum ekki boðið foreldrum og öðrum gestum til okkar. Mestmegnis hefur starfið verið í föstum skorðum, þó nú séu sannarlega blikur á lofti. Við munum gera okkar besta að miðla hratt og örugglega til ykkar upplýsingum ef gera þarf breytingar á skipulagi skólahalds á næstunni.
Kennarar skólans héldu innanhússþing á starfsdegi, föstudaginn 23. október sl., þar sem til umfjöllunar voru hin ýmsu mál er snúa að skólastarfinu. Þingið var gagnlegt og skemmtilegt, líflegar umræður áttu sér stað, og ljóst að framundan er vinna við að koma spennandi hugmyndum í framkvæmd. Eitt af því sem var til umræðu voru kennsluhættir og námsmat út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár, en á næstunni verður unnið að því að marka stefnu skólans í þeim málum. Þegar sú stefna hefur verið mörkuð munum við leggja áherslu á að kynna hana vel fyrir nemendum og foreldrum/forráðamönnum, enda mikilvægt að sameiginlegur skilningur ríki um slík mál.
Miðvikudaginn 4. nóvember nk. eru foreldraviðtöl, en sökum aðstæðna verða þau rafræn að þessu sinni. Leiðbeiningar hafa verið sendar í tölvupósti og vonandi gengur allt vel. Í viðtölunum verður að vanda farið yfir námslega stöðu nemenda ásamt því sem tækifæri gefst til að ræða ýmislegt fleira. Við hvetjum foreldra og forráðamenn og, ekki síst, nemendur til þess að koma vel undirbúin í viðtölin.
Í fréttabréfinu kennir annars ýmissa grasa og um að gera að skoða það vel.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Danskennsla og sýning
Elín Halldórsdóttir, danskennari, hefur undanfarnar vikur komið til okkar og kennt nemendum hina ýmsu dansa. Kennslan hefur gengið vel og nemendur eru áhugasamir og duglegir.
Síðasti danstíminn verður föstudaginn 6. nóvember og þann dag er einnig stefnt að því að halda danssýningu kl. 13:00. Því miður leyfa aðstæður í þjóðfélaginu ekki að við bjóðum áhorfendum að koma og horfa en í staðinn er stefnan að taka sýninguna upp og veita foreldrum og forráðamönnum aðgang að upptökunni.
Endurskinsmerki
Ökumenn sjá vegfarendur með endurskinsmerki a.m.k. 5 sinnum fyrr en aðra. Best er að staðsetja endurskinsmerki fremst á ermum, á skóm eða buxnaskálmum, á bakpoka eða skólatösku eða hangandi meðfram hliðum.
Grænfáninn: 10 hugmyndir frá Landvernd
Heilsueflandi skóli: Geðrækt - 10 daga átak
10. október síðastliðinn var Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn víðs vegar um heim, en markmiðið er að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum í garð geðsjúkra.
Í síðbúnu tilefni af þessum degi viljum við hvetja ykkur til að taka þátt í 10 daga geðræktarátaki með fjölskyldunni. Geðræktardagatalið má sjá og sækja hér.
Frekari upplýsingar um Alþjóða geðheilbrigðisdaginn er að finna á http://www.10okt.com/
Barn sem nýtur réttinda sinna
Útiskóli í nóvember
- 5.-6. bekkur: Hólareitur og Norðurstrandarleið
- 1.-4. bekkur: Ræktun og umhverfismennt
Á döfinni í nóvember
Athugið að allt saman gæti þetta breyst ef skólastarf þarf að lúta takmörkunum
- 4. nóvember: Foreldraviðtöl (rafræn í gegnum Google Meet vegna Covid-19)
- 6. nóvember: Síðasti danstíminn. Danssýning kl. 13:00, án áhorfenda, en verður tekin upp og gerð aðgengileg foreldrum/forráðamönnum
- 8. nóvember: Baráttudagur gegn einelti. Þar sem dagurinn fellur á sunnudag verður dagur gegn einelti í Grenivíkurskóla mánudaginn 9. nóvember
- 16. nóvember: Dagur íslenskrar tungu. Undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina í 7. bekk hefst
- 20. nóvember: Dagur mannréttinda barna
- 25. nóvember: Skólaráðsfundur kl. 14:10

Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla