Setbergsannáll

Vorönn 2020

Frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra

Kæru foreldrar og forráðamenn.


Nú er komið að lokum þessa skólaárs. Liðinn vetur hefur á margan hátt verið óvenjulegur vegna þess ástands sem skapaðist af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Á augabraði var nauðsynlegt að breyta öllu skólastarfi frá því sem skipulagt hafði verið og bregðast við aðstæðum þannig að starfið gæti haldið áfram með sem minnstum skaða fyrir nemendur.


Í þeim aðstæðum sem við stóðum öll frammi fyrir stóðu kennarar, foreldrar og aðrir sem að skólastarfinu koma saman í því verkefni að láta þetta ástand hafa sem minnst áhrif. Lærdómur okkar er í fáum orðum sá að nemendur eru viljugri og færari um að stunda námið sitt á sjálfstæðan hátt en við höfðum átt von á. Segja má að sterk staða okkar varðandi tækninotkun hafi verið lykillinn að því að skólastarfið gat haldist þó nemendur hittu kennara sína aðeins stutta stund á dag og nemendur og kennarar nýttu aðrar leiðir til samskipta. Kennarar eiga hrós skilið fyrir að standa einhuga að því að láta skólastarfið ganga upp við þessar aðstæður, nemendur fyrir jákvæðni og dugnað og foreldrar fyrir að styðja við bakið á okkur öllum.


Til að standa undir þeirri ábyrgð að búa nemendur sem best undir lífið og áfarmhaldandi nám og þroska þarf skólinn ávallt að vera í endurnýjun og endurskoðun með það í huga að þróast í takt við þarfir samfélagsins hverju sinni. Það merkir í raun að skólinn þarf að taka tillit til samfélagsaðstæðna og það gerðum við svo sannarlega þetta árið.


Við þökkum ykkur fyrir samstarfið við skólann. Það er gæfa okkar hér í Setbergsskóla að eiga öflugt bakland í foreldrahópnum en gott samstarf heimilis og skóla er forsenda þess að vel takist til um nám og þroska barnanna.


Foreldrafélaginu færum við þakkir fyrir stuðninginn við skólastarfið nú í vetur og þá viðburði sem það hefur staðið fyrir. Slíkur stuðningur er skólanum ómetanlegur. Ég vil einnig þakka fulltrúum foreldra í skólaráði fyrir gott samstarf.


Við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars.


Með bestu kveðju,


María Pálmadóttir, skólastjóri og

Margrét Ólöf Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri.

Big picture

Útskrift 10. bekkjar

Við samgleðjumst þeim nemendum sem nú útskrifast frá Setbergsskóla. Allir þessir ungu og glæsilegu nemendur hafa tekið miklum framförum í þroska og kunnáttu á liðnum árum. Starfsfólk hefur tekið eftir hvað samheldnin í hópnum hefur farið vaxandi og tengsl styrkst. Þess má einnig geta hvað nemendur eru hjálpsamir og hvetjandi hver við annan. Við höfum líka séð ríka þrautseigju meðal nemenda en sá eiginleiki er það sem við einnig köllum vaxandi hugarfar.


Þau sem höfðu umsjón með útskriftarnemendum þetta árið eru Zulaia Johnston da Cruz, Kjartan Ingi Jónsson og Hanna Guðrún Pétursdóttir. Þeim færi ég mínar bestu þakkir. Eins og gefur að skilja hefur fjöldi kennara og annarra starfsmanna tekið þátt í kennslu og umönnun þeirra nemenda sem við útskrifum nú. Öllu því fólki vil ég þakka fyrir vel unnin störf.


Ég vil færa bekkjarfulltrúum sérstakar þakkir fyrir það frumkvæði að standa að skemmtilegri ferð fyrir nemendur við lok þessa skólaárs en eins og við öll vitum varð ekkert af Þórsmerkurævintýrinu í þetta sinn en ýmislegt annað skemmtilegt gert til að gleðja nemendur við skólalok.


Veittar voru viðurkenningar fyrir námsárangur, framfarir og vaxandi hugarfar og hér fyrir neðan má sjá mynd af þeim nemendum sem hlutu viðurkenningar. Þá hlaut Hafþór Óskar Kristjánsson viðurkenningu fyrir bestan námsárangur.

Big picture

Skólaslit hjá nemendum í 1. til 9. bekk skólaárið 2019 til 2020

Nemendur voru kvaddir formlega á sal skólans. Þeir nemendur sem tóku þátt í rýnihópum fengu þakkir fyrir, en öll skólastig áttu fulltrúa í þeirri vinnu.

Nemendur fóru svo ásamt umsjónarkennurum sínum í heimastofur og fengu vitnisburðarblöð sín afhent áður en þau héldu út í sumarið.

Vinaliðaverkefni - gjöf frá foreldrafélagi Setbergsskóla

Foreldrafélag Setbergsskóla færði skólanum rausnarlega gjöf við útskrift 10. bekkinga. Gjöfin hljóðar upp á 350.000 króna styrk til að hefja innleiðingu Vinaliðaverkefnisins en verkefnið hefur það að markmiði að bæta skólabrag og auka vellíðan nemenda. Nemendur fá leiðtogaþjálfun og öðlast þannig aukna færni í jákvæðum samskiptum. Eldri nemendur styðja þá sem yngri eru og gæsla á skólalóð eflist með vinaliðum. Við hlökkum mikið til að verða þátttakendur í þessu skemmtilega verkefni og erum mjög þakklát foreldrum fyrir að styðja við okkur við innleiðingu þess. Verkefnið verður nánar kynnt í haust.

Stóra upplestrarkeppnin - Setbergsskóli í 3. sæti

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar var 9.mars í Setbergsskóla á sal skólans en 10 nemendur voru valdir úr 7. bekkjum til þátttöku.


Þrír nemendur fengu viðurkenningu, Sigurrós Hauksdóttir í fyrsta sæti, Dagbjörg Birna Sigurðardóttir í öðru sæti og Elin María Rúnólfsdóttir í þriðja sæti.


Nemendur í tveimur efstu sætunum voru valdir til að taka þátt í lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin var þriðjudaginn 26. maí í Víðistaðakirkju og hreppti Dagbjörg Birna Sigurðardóttir þriðja sæti í keppninni.

10. ZJ - Útskriftarferðin; Paintball og flúðasigling

Útskriftarferðin var með öðru sniði en venjulega þetta árið. Í stað Þórsmerkurferðar var farið í tvær dagsferðir. Fyrri daginn var farið í paintball í Skemmtigarðinum sem öllum fannst mjög gaman. Krakkarnir voru klæddir hlífðarfatnaði með gleraugu og andlitsgrímur og svo hófst skothríðin. Það var mikið fjör og flestir fóru glaðir heim, þrátt fyrir smá mar.

Seinni daginn var farið í dagsferð með rútu austur fyrir fjall þar sem farið var í flúðasiglingu niður Hvítá. Þetta fannst krökkunum skemmtilegt. Það tók klukkutíma að fara niður ána á bátum, margir duttu útbyrðis, en vindur og öldugangur juku bara á fjörið.

10. ZJ - Árbókin mun geyma minningar

Daginn fyrir útskrift áttu krakkarnir notalega stund í heimastofunni sinni hjá Zulaiu umsjónarkennaranum sínum. Þau fengu árbækurnar sínar afhentar og skrifuðu hlýjar kveðjur hvert til annars en það hefur löngum verið hefð í Setbergsskóla. Það verður notalegt að fletta árbókinni þegar fram líða stundir og lesa kveðjurnar.

Hugarfar vaxtar eða gróskuhugarfar

Í kjölfarið á námsferð starfsfólks Setbergsskóla til Brighton í júní 2019 hefur verið unnið með hugarfar vaxtar í skólanum og var það efniviður þemadaganna í mars. Nemendur unnu verkefni út frá ýmsum forsendum en alls staðar var efnið skoðað með tilliti til þess hvort um hugarfar vaxtar eða fastmótað hugarfar væri að ræða.

9. LÖG - Ratleikur í miðborginni

Krakkarnir í 9. LÖG fóru á uppáhalds veitingastaðinn sinn, IKEA, og fengu sér ís. Á fimmtudeginum fór hópurinn með strætó í miðbæ Reykjavíkur í ratleik. Hópnum var skipt upp í fimm minni hópa og þurfti hver hópur að finna ákveðna staði, lesa fróðleiksmola um staðina og leysa þrautir. Liðinu sem vann tókst að skoða 18 staði og leysa þrautirnar á 46 mínútum! Staðir sem krakkarnir skoðuðu voru til að mynda Sólfarið, Hallgrímskirkja, Hegningarhúsið, Kolaportið og Hólavallakirkjugarður. Meðfylgjandi mynd er af sigurliðinu.

9. SK - Losnað úr prísundinni

Krakkarnir í 9. SK hafa átt skemmtilega vordaga og meðal annars haldið pylsu- og vöffluveislu. Þá var haldið í borgarferð með strætó þar sem þeir heimsóttu skemmtigarðinn Reykjavík Escape í Borgartúninu. Þeim var skipt í 3 hópa sem voru læstir inni í herbergjum sem hétu The Godfather, Taken og Prison Brake. Leikurinn gekk svo út á að leysa þrautir til að losna úr prísundinni. Allir skemmtu sér vel þó einhverjir hafi þurft aðstoð við að komast út. Frábær ferð!

8. AR - Fyrsta árlega kökuskreytingarkeppnin

Á vordögum var haldin fyrsta árlega kökuskreytingarkeppni 8. AR. Þar mættust stálin stinn og komu þar saman margir af færustu kökuskreytingarmeisturum bekkjarins í keppni sem hefur ratað í annála! Kökurnar voru frábærar og margar mismunandi útfærslur komu fram.

Ekki tókst að krýna sigurvegara þar sem um ákveðinn dómaraskandal var að ræða (kennari tekur á sig sökina). Allir skemmtu sér hins vegar frábærlega vel og var ákveðið að á næsta vetri verði haldin önnur og enn stærri keppni, það veit bara á gott.

7. AKJ - Gengið að Víðisstaðatúni.

Börnin í 7.AKJ fóru á vordögum gangandi að Víðisstaðatúni. Þar var spillaður fótbolti og farið í ýmsa leiki og þau nutu sín í góða veðrinu.

7. bekkur - Hjólað upp í Kaldársel

Krakkarnir í 7. árgangi fóru ásamt umsjónarkennurum sínum í hjólaferð að Kaldárseli. Þar tók Jóna Þórdís á móti þeim með fulla dagskrá. Sumir reyndu sig á fjallahjólum, léku sér að því að hjóla í hrauninu eða fóru í fjallgöngu. Það var farið í körfubolta, fótboltaspil og gönguferðir. Að lokum voru grillaðar pylsur áður en haldið var heim á leið.

7. bekkur - Ferð að Reykjum

Í lok febrúar fór 7. bekkur að Reykjum í Hrútafirði. Þar dvöldu nemendur í viku ásamt umsjónakennurum sínum. Börnin fengu líflega fræðslu um Grettissögu, smökkuðu hákarl, fóru í fjöruferð og leiki. Dvöl þeirra bar upp á öskudag og var kötturinn því að sjálfsögðu sleginn úr tunnunni. Tunnukóngur og drottning komu bæði úr Setbergsskóla, þau Stefanía og Emil.

7. HM - Listasýning í Hafnarborg

Hafnarborg - Efni: Viður

Fimmtudaginn 4. júní fór 7. HM á sýningu í Hafnarborg. Öll listaverkin voru gerð úr mismunandi viði. Þessi sýning var partur af Hönnunarmars. Á sýningunni voru verk eftir tíu listamenn. Það var eitt verk sem var mjög áhugavert af því að manni leið eins og maður væri í skógi, það voru trébútar á gólfinu. Upp við vegginn var grænn takki, þegar við ýttum á hann kom ilmolíugufa sem var búin til úr náttúrulegum efnum og trjám. Í öðru listaverki var listamaðurinn búinn að finna gömul húsgögn og breyta þeim í blokkir.


Jóna Sigríður Gunnarsdóttir og Þórunn Kjartansdóttir

7. HM vann með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Við í 7. HM í Setbergsskóla unnum Stop Motion verkefni um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við fengum leir til að vinna með og okkur var skipt í tveggja manna hópa. Hver hópur fékk að velja grein til að fjalla um í Barnasáttmálanum. Við byrjuðum á því að gera Storyboard, því næst byrjuðum við að leira persónurnar sem koma fram í stuttmyndinni. Eftir allan undirbúninginn byrjuðum við að taka upp. Þegar upptökum lauk klipptum við stuttmyndina í IMovie, settum hljóð og skrifuðum um hvað myndbandið fjallaði. Eftir það gerðum við aðra útgáfu á ensku. Hér að neðan má sjá þrjár af stuttmyndunum:

Jóna Sigríður Gunnarsdóttir og Þórunn Kjartansdóttir

Barnasáttmálinn um lamaða eða faltaða krakka ( Setbergsskóli 7 HM )
Barnasáttmáli SÞ, grein 28
Barnasáttmálinn

6. bekkur - Heimsókn í siglingaklúbb

Nemendur í 6. bekk fengu boð um að fara í heimsókn í siglingarklúbbinn Þyt þar sem þeim bauðst að fara á kajak og árabát. Nemendur fengu einnig fræðslu um hvernig sigla á Optimist, sem er lítill seglbátur. Nemendur höfðu gaman af. Margir hoppuðu í sjóinn eftir siglinguna og á Setbergsskóli metið í fjölda hoppa þetta árið en það eru 21 skipti. Klúbburinn bauð nemendum upp á kex og kakó í lok dags sem var vel þegið eftir svamlið í sjónum. Sumir höfðu á orði að þetta hefði verið skemmtilegasti skóladagurinn til þessa.

5. bekkur - Hjólaferð á golfvöllinn

Föstudaginn 22. maí fóru nemendur í 5. bekk í skemmtilega ferð. Hjólað var frá Setbergsskóla sem leið liggur á æfingasvæði Golfklúbbsins Keilis. Þar tók íþróttastjóri á móti börnunum, þau tóku hring á púttflötinni og slógu úr fötu á æfingasvæðinu.

Að því loknu var sest niður í góða veðrinu, borðað nesti og hjólað heim eftir ánægjulegan dag.

5. bekkur skráir hugleiðingar sínar á Covid tímabilinu.

Nemendur í 5. bekk héldu dagbækur á tímum Covid 19 þar sem þau unnu ýmis verkefni og skrifuðu um allt mögulegt. Eitt af því sem þau gerðu var að skrifa niður hugleiðingar sínar um Covid tímabilið. Hvor bekkur um sig safnaði efninu saman í bók sem má lesa hér að neðan:

4. bekkur - Skordýrin skoðuð nánar á fræðasetri

Í vorferð 4. bekkjar var haldið af stað með rútu suður á Reykjanes þar sem börnin skoðuðu Reykjanesvitann og fóru í fræðasetrið í Sandgerði. Þau fóru í fjöruna og tíndu skordýr sem þau gátu síðan skoðað í víðsjá í Fræðasetrinu. Þeim var lofað að skordýrin fengju frelsi sitt að nýju eftir skoðun.

3. bekkur - Vorferð tengd samfélagsfræðinni

Í vetur höfum við í 3. bekk verið að fræðast um hafið í samfélagsfræði og því fannst okkur tilvalið að fara í vorferð tengda því efni.

Við fórum í Þekkingasetrið í Sandgerði og Garðskagafjöru. Við fórum í rútu í afskaplega góðu veðri. Í fjörunni tíndum við allskonar lífverur og svo var farið með það sem við fundum í Þekkingasetrið til að skoða nánar.

Þetta var skemmtileg og fræðandi ferð.


1. bekkur - Vordagar

Í vor voru börnin í 1. bekk að læra um bæinn okkar Hafnarfjörð og í tilefni þess fórum við í vettvangsferð. Við skoðuðum Vitann, bæjarmerki Hafnarfjarðar. Við fórum á leynirólóinn, í Hellisgerði og á Hamarinn. Vorferðin okkar var í fjöruna á Álftanesi, þar sem börnin tíndu skeljar og steina. Unnur bauð okkur á pallinn til sín þar sem við grilluðum pylsur, hoppuðum á trampólíni og fengum ís. Gaman var að sjá hvað börnin í 1. bekk eru dugleg að ganga og auðvelt að fara með þau í ferðir.

Berg - Ferð í Húsdýragarðinn

Þann 4. maí fóru allir nemendur Bergs ásamt kennurum í Húsdýragarðinn. Fengum þar skemmtilega leiðsögn frá starfsmanni garðsins þar sem hún var með fræðslu um dýrin í garðinum. Eftir það löbbuðum við yfir í Laugardalinn og fórum í leiki og borðuðum nesti.

Þessi dagur heppnaðist mjög vel, gaman að fara öll saman og verður vonandi endurtekið að ári.

Golfmót Setbergsskóla

Árlegt Golfmót Unglingadeildar Setbergsskóla var haldið á Setbergsvelli 5. júní.

Það skráðu sig 25 nemendur til leiks og spilaður var höggleikur.

1. sæti Lára Dís Hjörleifsdóttir 8. MG sem fær að hafa bikarinn hjá sér í eitt ár

2. sæti Baldur Kári Helgason 9. SK

3. sæti Árni Dagur Oddsteinsson 10. ZJ


Ingvar Viktorsson stóð fyrir golfmótunum lengi vel og var spilað um Snælandsbikarinn sem er farandbikar.

Við sendum Högna Friðþjófssyni kærar þakkir fyrir að leyfa okkur að spila á Golfvellinum.

Það er ómetanlegt að hafa þennan völl í göngufæri og fá að koma með krakkana þarna á hverju vori og mæta skilningi og góðvild.

MYNDIR - nemendur fengu hugmyndir, hönnuðu og smíðuðu.

Jóhann smíðakennari hefur tekið myndir af verkefnum nemenda, en þær geta nýst sem hugmyndabanki fyrir næsta skólaár. Smellið á hlekkinn og njótið þess að skoða hugmyndaríka smíð barnanna.

Útivistarval

Útivistarvalið gekk einstaklega vel í vetur. Verkefnin voru fjölbreytt þar sem nemendur fengu að kynnast útivist og útivistarmöguleikun í nærumhverfi Hafnarfjarðar. Áhersla er lögð á að nemendur sýni dugnað og seiglu en nemendur fá jafnframt fræðslu um æskilegan klæðnað og næringu í útivist.

Helstu verkefnin voru styttri og lengri hjóla- og gönguferðir, kynning hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, skauta- og skíðaferð.

Það er mjög gaman að sjá hvað nemendur njóta þessa að stunda útivist og eru alltaf glaðir og stoltir þegar heim er komið.

Tónmennt - leiklist - dans

Skólaárið var vissulega viðburðaríkt. Tónmenntakennsla var með frábrugðnu sniði að þessu sinni þar sem ívaf leiklistar og dans var samþætt inn í kennslu. Þetta gerði það að verkum að til urðu ýmis verk nemenda sem komust þó ekki öll á svið sökum Covid - 19.

Ferlið var gífurlega skapandi og margir nemendur sem fundu styrkleika sína innan leikistar, dans eða tónlistar. Nemendur tóku vel í breytt skipulag tónmenntakennslu og tóku virkan þátt í að skapa. Nemendur fengu að spreyta sig á fjölbreyttum hljóðfærum líkt og á píanói, gítar, bassa, fiðlu og trommum svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur kynntust einnig fjölbreyttum dönsum frá Nýja Sjálandi, Afríku, Írlandi og Íslandi. Þrátt fyrir að Covid-19 hafi vissulega sett svip á skólaárið sýndu nemendur þrautseigju og dugnað og héldu listsköpun sinni vel við þrátt fyrir fjarveru tónmenntakennslu þess tíma.

Fréttir af bókasafninu

Á bókasafninu er alltaf líf og fjör og eru nemendur duglegir að heimsækja safnið. Sumir koma til að sækja sér bók á meðan aðrir koma til að slaka á, spila eða bara spjalla. Á Covid tímanum var safnið því miður lokað. Tíminn var nýttur í að lífga upp á safnið, nýjar bækur mættu á svæðið og eldri bækur fengu nýtt líf. Það var því góður dagur þegar safnið var opnað aftur og nemendur gátu aftur kíkt í heimsókn.

Vorhátíð skólans

Það var líf og fjör á vorhátíð skólans í dásamlegu veðri. Nemendur gátu; hoppað í hoppukastala, fengið andlitsmálun, spilað í rólegheitum svo eitthvað sé nefnt. Ilmur af grilluðum pylsum heillar alltaf, en dagurinn endaði á að Jón Jónsson kom og söng á sal við góðar undirtektir.