Víðóma

Fréttabréf Víðistaðaskóla

Kveðja frá skólastjórn

Kæru foreldrar, forsjáraðilar, nemendur og starfsmenn


Skólastarfið í haust fór vel af stað og hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt. Það var sérstaklega gaman að geta boðið foreldrum að koma inn i skólann þó það væri í stuttan tíma. Samstarf heimila og skóla styður við skólastarfið og það er mikilvægt að kennarar og foreldrar séu í góðu sambandi varðandi skólagöngu barnanna. Öll viljum við það sama en það er að börnunum okkar líði vel í skólanum og að þau styrkist við námið.


Aðventan er skemmtilegur tími og við höfum lagt áherslu á að njóta hennar sem best við þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni í okkar samfélagi. Við í skólanum höfum gert okkar besta til að gleðja börnin og eiga notalegar stundir þessa desemberdaga. Við höfum haft það fyrir sið að skreyta skólann síðasta dag nóvembermánaðar og njótum jólaljósanna allan desember einnig er orðinn siður að skreyta hurðirnar á skólastofunum og er gaman að ganga um skólann og sjá hve mikið er lagt í skreytingarnar. Við erum búin að vera að syngja saman, föndra og vorum með lestrarsprett svokallaðan jólakúlulestur þar sem við mældum mínútur í lestri og skreytum skólann með jólakúlum. Á bókasafninu er aðventudagskrá þar sem við bjóðum nemendahópum upp á kynningar á nýjum bókum og stjórnendur lesa upp og segja nemendum sögur. Þetta er alltaf góð samvera þar sem nemendum er síðan boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur. Við biðjum ykkur kæru foreldra, forsjáraðila að vera dugleg að hvetja börnin ykkar til að lesa og ræða við þau um bækurnar því hvað er betra en að spjalla saman við kertaljós á aðventunni eða í jólaleyfinu.


Við óskum ykkur öllum góðra stunda á aðventunni

og gleðilegrar hátíðar með þökkum fyrir gott samstarf

á árinu sem er að líða.


Hrönn skólastjóri og Valgerður aðstoðarskólastjóri

Lýðræðisþing

Nemendalýðræði í Víðistaðaskóla


Í Víðistaðaskóla viljum við vinna á lýðræðislegan hátt og að nemendur læri um lýðræði með því að taka þátt í að móta, breyta og bæta skólastarfið eins og hægt er. Við viljum að allir í skólasamfélaginu eigi rödd og að raddir nemenda heyrist. Á haustin er kosið í lýðræðisnefnd á hverju skólastigi sem vinnur með skólastjórnendum. Forsenda lýðræðis er sú að við séum meðvituð um að við berum ábyrgð saman, við þurfum að vera virk, taka tillit til skoðana hvers annars og virða þær. Við teljum lýðræði vera mikilvægt í skólastarfinu og reynum því að kenna lýðræði með lýðræðislegum vinnubrögðum og temja okkur að nota þetta orðalag.


Hrönn skólastjóri og Valgerður aðstoðarskólastjóri hafa fundað með nemendum í lýðræðisnefnd. Þeir einstaklingar sem sitja í nefndinni buðu sig sjálfir fram og voru kosnir af samnemendum sínum. Þeir hafa því traust frá samnemendum til koma tillögum áfram og sinna þessu starfi vel.


Á fyrsta fundi var rætt nokkuð um lýðræði og hvort nemendur vildu breyta einhverju í skólanum. Verkefni þeirra eftir fyrsta fundinn var að halda fund með bekkjarfélögum til að miðla upplýsingum og fá hugmyndir frá þeim. Á næsta fundi var rætt um þessar tillögur sem komu fram og umræðuefni lýðræðisþingsins valið í samvinnu við nemendur og þeirra áhugasvið eftir aldursstigi.


Lýðræðisþing var haldið á öllum skólastigum 4. og 5. nóvember. Markmiðið með þinginu er að gefa nemendum tækifæri til að láta rödd sína heyrast, ræða saman og koma með tillögur.


Á yngsta stigi 1.-4. bekk var lýðræðisþing haldið í fyrsta skipti. Umræðuefnið hjá þeim tengdist líðan og samskiptum, skólareglum og hvernig þau vilja hafa skólalóðina.


Á miðstigi snérist umræðan um fjölbreyttan nemendahóp þar sem allir fá að njóta sín, hvaða fræðslu þau vilja fá, bætt samskipti, hvernig þau vilja hafa námið í skólanum og heimanám.


Á unglingastigi var rætt um svipað efni og á miðstigi en auk þess ræddu þau um loftlags- og umhverfismál, hugmyndir af verkefnum tengt því í vetur og hugmyndir að félagsstarfi í vetur.


Margar hugmyndir komu frá nemendum en lýðræðisnefndin á eftir að vinna úr niðurstöðum þingsins. Lýðræðisnefnin hittist og fer yfir allar tillögurnar sem komu fram og kynnir niðurstöðurnar. Það er nokkuð ljóst að ekki verður hægt að verða við öllum tillögum en það er ávallt lærdómsríkt að koma hugmyndum sínum í orð og fyrir starfsfólk skólans að heyra hverjar þær eru. Það er gaman að segja það að oft eru nemendur og starfsfólk sammála um margar hugmyndanna.

Fréttamolar frá bókasafni skólans

Það er óhætt að segja að nemendur skólans hafi verið duglegir og kunnað að meta það að koma á safnið á ný eftir að samkomutakmörkunum vegna COVID19 var aflétt í haust. Það er kannski ekki skrítið þar sem húsnæði safnsins er bæði rúmgott og bjart og vel búið bókum og spilum og hægt að láta fara vel um sig.


Allir nemendur skólans eru duglegir að sækja sér bækur og ávallt er reynt að aðstoða þá við val og athygli þeirra vakin jafnt á nýju sem og þematengdu efni eins og t.d. drauga- og hrollvekjusögum á Hrekkjavöku og bókum um vináttu í vinavikunni okkar svo eitthvað sé nefnt. Nokkrir lestrarklúbbar eru starfræktir á safninu fyrir yngstu lesendurna og eru klúbbarnir með Binnu B. Bjarna og Heyrðu Jónsa bókunum og Disney sögunum þeir allra vinsælustu um þessar mundir.


Þá voru nemendur í 4., 5. og 6. bekk svo heppnir að fá að hlýða á Þorgrím Þráinsson rithöfund lesa upp úr bók sinni Tunglið, tunglið taktu mig sem fjallar um stelpuna Máneyju sem býr í sveitinni hjá afa og ömmu. Einnig sagði hann nemendum frá tilurð bókarinnar og sýndi þeim myndir úr íslenskri sveit. Þann 28. október heimsótti Þorgrímur nemendur í 10.bekk og flutti fyrirlestur sem ber einfaldlega heitið "Verum ástfangin af lífinu!" Nemendur fylgdust grannt með þessum mjög áhugaverða fyrirlestri þar sem Þorgrímur ræddi við krakkanna m.a. um markmiðasetningu, lífsvenjur og hamingju.


Líkt og undanfarin ár þá bauð safnið nemendum upp á fasta viðburði. Bókasafnsdagurinn var haldinn hátíðlegur í september. Þemað í ár var Lestur er bestur - fyrir jörðina. Sjöundu bekkingar ræddu og kynntu sér viku bannaðra bóka í Bandaríkjunum og áttu ekki til orð til að lýsa undrun sinni yfir því sem hefur verið bannað eða reynt að banna í gegnum tíðina. Safnið tók að sjálfsögðu þátt í Bóka- og bíóhátíð Hafnarfjarðar og bauð sérstaklega 3. og 4. bekkingum á upplestur úr bókinni Paddington -bíósaga sem gerð var eftir kvikmynd um þennan sívinsæla bangsa. Þá komu nemendur í 1.-3. bekk á safnið til að halda upp á alþjóðlegan dag bangsans sem er 27. október og hlustuðu á hugljúfar bangsasögur og leystu bangsatengd verkefni.

- Halla Svavarsdóttir

Nýir starfsmenn teknir tali

Viðtöl við starfsmenn

Víðistaðaskóli er stór vinnustaður og þótt margir stoppi þar lengi við þá eru alltaf að bætast við nýir starfsmenn. Við ákváðum að leggja nokkrar spurningar fyrir þrjá nýja starfsmenn: Sigrúnu Sigurðardóttur, umsjónarkennara í 10.bekk, Ástu Sigríði Ólafsdóttur, hönnunar- og smíðakennara og Tómas Braga Starrason Lorriaux, skóla- og frístundaliða.

Sigrún


Af hverju fluttirðu hingað að norðan?

Mig langaði til að breyta til og ég vildi líka flytja þangað sem væri minni snjór. Svo vildi ég bara koma aftur á Höfuðborgarsvæðið.


Af hverju kennirðu á unglingastigi og ekki einhverju öðru? Ég held að ég sé ekki nógu þolinmóð fyrir yngri börn! Ég hef því alltaf kennt unglingum, þeir eru svo skemmtilegir.


Hvers vegna kennirðu íslensku og samfélagsfræði? Mér finnst þessi fög skemmtilegust og kann þau best. Þau eru fjölbreytt.


Hvað ertu búin að vera kennari lengi? Síðan 1997. Samt ætlaði ég aldrei að verða kennari!


Hvað er það skemmtilegasta við að kenna? Fjölbreytnin, það eru engir tveir dagar eins.


Ef þú gætir búið hvar sem er og það mætti ekki vera Ísland, hvar væri það? Sennilega á Spáni eða í Hollandi.


Hver er uppáhaldsbókin þín? Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness.

Ásta Sigríður

Hvað gerðirðu áður en þú fórst að vinna hér?

Ótalmargt! Ég hef unnið sjálfstætt sem húsgagna- og innanhússarkitekt en ég útskrifaðist 1993 frá háskóla í Bandaríkjunum. Ég hef líka unnið við hönnun hjá Ikea og hjá arkitektastofum. Ég lærði náttúrulækningar, að útbúa hollan mat og fór í jógakennaranám. Ég hef unnið við þetta allt.

Af hverju ertu kennari?

Frá því krakkarnir mínir hófu skólagöngu hef ég heillast af kennslu og í júní útskrifaðist ég frá Listaháskólanum með kennsluréttindi. Mér finnst ég vera ótrúlega heppin að hafa fengið vinnu í Víðó því hann er auðvitað besti skólinn.

Hvað er það áhugaverðasta við starfið?

Góður starfsandi, frábærir nemendur og fjölbreytileiki verkefnanna sem eru unnin í Hönnun og smíði.

Ef þú gætir unnið við hvað sem er, hvað myndirðu gera?

Ef ég gæti verið hvað sem er þá væri það að sjálfsögðu kennari því að kennsla er besta starfið og að kenna er list.

Hvaða áhugamál áttu?

Hönnun, listir og jóga. Best er að eiga samverustund eða ferðast með fjölskyldunni. Ég stunda jóga með sjálfri mér og mæti í líkamsrækt í Hress. Svo geng ég daglega með hundinn minn, hann Bassa. Ég á líka kisu og hún röltir stundum með okkur.

Hverjar eru uppáhaldsteiknimyndapersónurnar þínar?

Mjallhvít og svo hef líka alltaf lesið mikið af Andrésblöðum. Þegar ég var lítil voru þau á dönsku og þannig lærði ég tungumálið.

Tómas Bragi

Tómas Bragi:

Hvað ertu gamall og í hvaða skólum hefurðu verið? Ég er 19 ára og var í Vesturbæjarskóla, Víðó og Flensborg.

Hvað er það skemmtilegasta við að vera skóla- og frístundaliði? Að hjálpa krökkum, það er skemmtilegt að aðstoða þau við að ná markmiðum dagsins.

Hver eru áhugamál þín? Íþróttir, hvort sem það er handbolti, fótbolti eða körfubolti. Ég er línumaður hjá meistaraflokki ÍR og þar erum við reyndar tveir úr þessum skóla, Óli stærðfræðikennari og ég.

Hver er uppáhaldsbíómyndin þín og hvaða sjónvarpsefni heldurðu upp á um þessar mundir? Uppáhaldsmyndin mín er Cars og aðalsjónvarpsefnið núna eru spænsku þættirnir Money Heist, þeir eru svakalega góðir.

Ef þú gætir farið hvert sem er í sumarfrí, hvert myndirðu fara? Það eru svo margir staðir sem mig langar til að heimsækja! Ég myndi fara til einhvers Afríkulands og Jamaica, manni sýnist alltaf verið svo kósí stemning þar.

Hvaða framtíðarstarf sérðu fyrir þér? Erfitt að segja, það er ekkert sem heillar mig meira en annað í augnablikinu. Kannski eitthvað í veitingahúsa- eða skemmtistaðageiranum. Það væri t.d spennandi að hanna svoleiðis staði.


Myndir úr skólastarfinu

Hraunkot

Frístundaheimilið Hraunkot hefur farið vel af stað þennan veturinn en helsta breytingin frá síðasta vori er sú að Hraunból hefur fært sig yfir í Hraunið vegna fjölda þátttakenda úr 3. og 4. bekk. Húsnæðið er stærra og auðveldara að dreifa fjöldanum í fleiri rými sem minnkar áreiti og hávaða sem fylgir oft þessum fjölda.

Það sem er helst að frétta er að fulltrúar úr Hrauninu (3. og 4. bekk) tóku þátt í Bóka- og bíóhátíð barnanna 2021 og tóku upp stuttmynd út frá bókinni Nærbuxnaverksmiðjan. Mörg frístundaheimili í Hafnarfirði skiptu með sér köflum og úr varð skemmtileg túlkun bókarinnar. Hægt er að horfa á myndina í heild sinni hér.

1. og 2. bekkur hélt upp á sína fyrstu álfaveislu í síðustu viku (12. nóv) og fékk að koma með bangsa í frístund og horfðu á Pétur Pan. Álfakerfið sem við notum er hluti af SMT skólafærni en álfana geta þau unnið sér inn með góðri hegðun.

Það hefur verið mikið föndrað síðan skólinn byrjaði en hér eru nokkrar skemmtilegar myndir af afurðum.

Matsalurinn

Það er óhætt að segja að það er stundum mikill erill í matsalnum en þar í gegn fara um 500 nemendur á dag ásamt starfsfólki. Í gegnum tíðina hefur það verið þannig að nemendur hafa farið í röð og sótt sér mat þar sem þeim er skammtað á diskinn. Það hafði það í för með sér að matarsóun var meiri en þurfti að vera. Það er nú liðin tíð og skammtar hver nemandi sér sjálfur á disk. Þá skiptir hreinlæti gríðarlegu máli og þvo nemendur hendur áður en farið er niður í matsal, svo eru hendur sprittaðar bæði fyrir númeraval og sjálfsskömmtunina. Hver nemandi fær sitt númer þegar sótt er um mataráskrift og slær inn sitt númer áður en maturinn er sóttur. Við erum svo heppin að hafa yndislegt starfsfólk frá Skólamat sem er virkilega duglegt að liðsinna bæði nemendum og starfsfólki.


Starfsfólk okkar í matsalnum segir að umgengni sé almennt góð og að sjálfskömmun gangi vel. Maturinn virðist almennt falla nokkuð vel í maga nemenda og starfsfólks.

Það er gaman að segja frá því að Umhverfisráð skólans hefur nú fengið starfsfólk Skólamatar til liðs við sig og ætla þau nú að vikta þann mat sem við hendum og skoða þá sérstaklega matarsóun. Þetta verður gert nokkrum sinnum og ætlum við að reyna leggja okkar af mörkum til þess að draga úr matarsóun. Þessi tillaga kom frá nemendum sjálfum en þeir nemendur sem eru í Umhverfisráði hafa brennandi áhuga fyrir því að hugsa vel um náttúruna og þá ýmsu vá sem hún verður fyrir af mannavöldum.

Heimsókn frá foreldri

7. bekkur blái hópur fékk mjög skemmtilega heimsókn miðvikudaginn 17. nóvember. Eitt foreldri með tengsl við Hafrannsóknastofnun ( Hafró ) kom með sýni úr haustralli stofnunarinnar. Börnin fengu kynningu og síðast en ekki síst fengu þau að skoða og snerta sýnin. Þar mátti meðal annars sjá loðháf og íslenskan kóral.

Samsöngur á sal hjá yngsta stigi

Á hverju miðvikudegi er samsöngur í fyrsta tíma á yngsta stigi. Þá er sungið undir stjórn Andrésar tónmenntakennara. Undanfarið hefur yngsta stigið boðið einu árgangi á miðstigi í samsönginn.

Ólympíuhlaup ÍSÍ


Flestir hafa heyrt um Norræna skólahlaupið en það ber í dag heitið Ólympíuhlaup ÍSÍ en þetta hlaup hefur verið hluti af skólaíþróttum síðan 1984. Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla að betri heilsu og vellíðan. Árlega er hlaupið í Víðistaðaskóla og hefur ávallt verið góð þátttaka. Hlaupið er liður í Íþróttaviku Evrópu og er það formlega opnað í einum skóla ár hvert.
Nemendur Víðistaðaskóla hafa sjaldan hlaupið jafn mikið og þetta árið, flestir hlupu 2,5 km. Það voru hinsvegar ótrúlega margir sem hlupu talsvert lengra. Í ár hlupu alls 460 nemendur í Víðistaðaskóla samtals 1580 kílómetra. Það eru 105 kílómetrum meira en í fyrra, þó svo að það séu umtalsvert færri nemendur í skólanum nú í vetur en síðasta ár. Það er hinsvegar ekki lögð áhersla á lengdina heldur er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum og þökkum þeim kærlega fyrir góða þátttöku.

Ferð í Hörpu

Í september var yngsta stig svo lánsamt að vera boðið í Hörpuna að sjá Stjörnu-Sævar og undur veraldar. Með honum var Sinfoníuhljómsveit Íslands. Það er óhætt að segja að þessi ferð hafi verið virkilega skemmtileg og vel heppnuð í alla staði. Það þurfti aðeins að skipuleggja strætóferðir til að koma öllum á áfangastað. Annar bekkur var svo óheppinn þegar hann ætlaði að stíga upp í strætó að hann var þéttsetinn og vildi vagnstjórinn ekki hleypa þeim inn því að þau þyrftu að standa. Þá gerðust undur og stórmerki, allir farþegar í strætó stóðu upp fyrir nemendum og gáfu eftir sætin sín. Já, það eru svo sannarlega mikið til að fallegum sálum.


En aftur að sýningunni, hún var stórkostleg. Stjörnu-Sævar var með ýmsa muni til sýnis og þar á meðal loftstein sem honum hafði áskotnast. Tónlistin var tengd við ýmis atburði og myndir sem börnin þekktu. Þá lét hann einnig rúlla skemmtileg myndbönd sem vöktu mikla kátínu. Okkar börn voru algjörlega til fyrirmyndar. Kennarar fóru því heim með kærleika í hjarta, bros á vörum og gleði í sálinni - eins og nemendur sjálfir. Virkilega vel heppnuð ferð.

Nemendur á ferð og flugi

Leikhúsferð 10.bekkjar

Öllum skólum landsins var boðið á leiksýninguna Vloggið og 10.bekkir Víðistaðaskóla þáðu boðið og fóru á sýninguna þann 19.október ásamt Réttarholtsskóla og Hörðuvallaskóla. Höfundur leikritsins er Matthías Tryggvi Haraldsson, sem margir þekkja sem söngvarann í hljómsveitinni Hatari, og aðalleikarar eru Kjartan Darri Kristjánsson og Þórey Birgisdóttir.

Sviðslist er skyldufag í 10.bekk í Víðistaðaskóla og allir nemendur taka þátt í að setja upp söngleik skólans. Það er því sérstaklega gott fyrir nemendur að fara á sýningar eins og Vloggið og fá hugmyndir um hvað þeir vilja og vilja ekki gera í þeirra leiksýningu.

10.bekkur í Hafnarborg

10.bekkir Víðistaðaskóla hafa svo sannarlega verið á ferð og flugi í októbermánuði. Deginum eftir leikhúsferð árgangsins, þann 20.október, heimsóttu 10.bekkir Víðistaðaskóla Hafnarborg. Þar fengu þeir fræðslu um bæjarstórn Hafnarfjarðar og hlutverk bæjurfulltrúa. Eftir fræðsluna fengu nemendur að bregða sér í hlutverk bæjarfulltrúa. Þeim var skipt í hópa þar sem þeir gátu komið með hugmyndir um hvernig mætti betrumbæta samfélagið okkar í Hafnarfirði.

Val á unglingastigi

Körfuboltaval

Í Víðistaðaskóla er fjölbreytt úrval af valgreinum þar sem allir nemendur geta fundið eitthvað sem hentar þeim. Á hverju ári verða breytingar á valgreinum þar sem einungis þær valgreinar sem nemendur velja eru kenndar. Hér eru brot af valgreinunum sem eru kenndar á þessu skólaári.


Þegar hugað var að valgreinum á síðasta skólaári kom ekki annað til greina en að hafa val þar sem nemendur gætu stundað körfubolta. Eins og Svali Björgvinsson ítrekar reglulega, þá er körfubolti móðir allra íþrótta og því er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til þess að kynnast henni. Markmiðið með körfuboltavalinu var að fá nemendur til þess að hreyfa sig, læra leikinn, fræðast um hann og einfaldlega hafa gaman. Körfuboltavalið hefur gengið mjög vel þar sem af er haustönninni. Nemendur mæta alltaf tilbúnir til leiks bæði til þess að spila körfubolta og tala um hann. Um daginn var svo kappleikur á milli nemenda og kennara og skemmtu allir sér rosalega vel.

Kennari: Sigrún Ása Magnúsdóttir

Jógaval

Í jógavali er mikilvægt að öllum líði vel og fá að vera nákvæmlega eins og þeir eru. Við tölum mikið saman um allskonar málefni, förum í leiki, höfum gaman og hlæjum mikið. Við byrjum flesta tíma á öndunaræfingum, gerum síðan jógaæfingar og endum á hugleiðslu og góðri slökun. Nemendur hafa haft mjög gaman af þessu vali eins má sjá í umsögnum þeirra um valið:


"Ég sé mig i öðru ljósi. Það er gott að teygja. Þórdís er besti kennarinn."


"Við völdum yoga vegna þess að það hljómaði skemmtilega og við vildum líka hafa róandi tíma. Okkur líður líka mjög vel og erum alltaf mjög afslappaðar eftirá."


"Brúin er mjög góð og þægileg fyrir bakið því það teygir mikið í bakinu og brakast smá eða mikið."


Kennari: Þórdís Friðbergsdóttir

Franska

Parlez-vous francais?

Í valfaginu Franska er kennt er einu sinni í viku í eina kennslustund. Lögð er áhersla á að kynna Frakkland og franska menningu fyrir krökkunum auk þess sem farið er í grunnatriði í frönsku. Krakkarnir nota kennslubækurnar Carte Blanche en að auki er horft mikið á alls kyns myndskeið. Námið hefur gengið vel og eru nemendur áhugasamir um fagið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem franska er kennd við skólann en þetta er í fyrsta sinn sem kynjablöndun er óvenjugóð þar sem þrír strákar læra frönsku í vetur. Sigrún Erna: ,,Ég er auðvitað mjög ánægð með þetta og vonandi heldur þessi þróun áfram. Franska er líka yndislegt tungumál sem getur komið sér vel að kunna þegar maður fer að ferðast um heiminn,”

Kennari: Sigrún Erna Geirsdóttir

Vettvangsferðir

Vettvangsferðir er áfangi fyrir 10.bekkinga í Víðistaðaskóla sem snýr að því að kynna nemendum fyrir fyrirtækjum og stofnunum sem vinna fjölbreytt og áhugavert starf. Hugsunin bakvið áfangann er að hjálpa nemendum að fá skýrari mynd af því hvað þau vilja taka sér fyrir hendur að grunnskóla loknum. Frá skólasetningu höfum við heimsótt Flugakademíu Íslands og Alþingi. Síðasta vettfangsferð á Góu var frestað vegna aðstæðna í samfélaginu en verður tekin síðar. Starfsmenn Góu gerðu sér hins vegar ferð í skólann og færðu nemendum glaðning.

Kennari: Björgvin Valdimarsson

Veistu svarið?

Valfagið Veistu svarið? hefur haldið áfram göngu sinni í Víðistaðaskóla í vetur. Þátttakan var svo góð í ár að í fyrsta sinn var nemendahópnum tvískipt; nemendur í 8. bekk mynda annan hópinn og nemendur í 9. og 10. bekk hinn. Krakkarnir reyna sig í spurningakeppnum vikulega þar sem ekkert er gefið eftir. Valgreinin er einnig orðin það vinsæl að nemendur sem ekki eru skráðir í valið mæta oft í kennslustundir til að vera með. Eftir áramót keppa svo grunnskólar bæjarins í spurningakeppninni Veistu svarið? þar sem Víðistaðaskóli hefur staðið sig frábærlega síðustu ár en auk þess hefur keppnislið skólans skorað á kennara unglingadeildar í spurningakeppni undanfarin ár sem reynst hefur skemmtileg hefð.

Kennari: Kristmundur Guðmundsson

Undirbúningur fyrir söngleik Víðistaðaskóla hafinn

Leik- og söngprufur

Undirbúningur fyrir hinn sívinsæla söngleik Víðistaðaskóla er loks hafinn. Kristinn Óli Haraldsson Króli hefur verið ráðinn sem leikstjóri en fyrsti fundur árgangsins með leikstjóra var þann 9.nóvember. Á fyrsta fundi ræddi Kristinn við nemendur um hugmyndir að söngleikjum sem þau gætu sett upp. Eftir áhugaverðan fyrsta fund voru nemendur hvattir til að mæta leik- og söngprufur daginn eftir.


Það var frábær mæting í leik- og söngprufur þann 10.nóvember og nemendur skemmtu sér konunglega. Nú er búð að ákveða að setja upp Litlu hryllingsbúðina og bíðum við bara öll spennt eftir því að fá að sýna hana í mars á næsta ári.