Hvalrekinn

Október 2020

Big picture

Þá hausta tekur

Ágætu foreldrar,


Þessir skrítnu tímar sem við lifum á, ætla bara ekki að taka enda. Því miður hafa smit í þjóðfélaginu verið að aukast undanfarna daga en sem betur fer eru þau ekki mikil meðal barna og ungmenna.

Því höfum við hert reglur varðandi aðgengi utanaðkomandi að skólanum og þar eru foreldrar með taldir. Allur óviðkomandi aðgangur er óheimill. Ef þú þarft að hafa samband við skólann eða kennara þá vinsamlega hafðu samband við skrifstofu skólans símleiðis (565 0200) eða komdu að aðalinngangi skólans.


Starfið er komið vel á veg þetta skólaárið og mikið búið að vera í gagni undanfarið. Í síðustu viku vorum við með Ólympíuhlaup ÍSÍ þar sem allir nemendur skólans tóku þátt og hlupu 2,5, 5,0 eða 10 km. Það voru margir nemendur sem luku við 10 km hlaup.


Góð mæting í skóla er veigamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Að missa ítrekað úr kennslustundum, t.d. í lestri á yngra stigi eða stærðfræði á eldri stigum, getur haft áhrif á námsárangur og líðan barns þegar fram í sækir.

Varðandi lesturinn þá trúum við því að allir séu duglegir að lesa. Það er eins með lesturinn og annað sem við tökum okkur fyrir hendur að eftir því sem við æfum okkur meira þá gengur okkur betur.


Við tæklum komandi tíma saman, við gerðum það í vor með glæsibrag og við komum til með að gera það áfram.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Skipulagsdagur 8. október

Fimmtudaginn 8. október er skipulagsdagur í Hvaleyrarskóla. Þann dag fellur öll kennsla niður. Frístundaheimilið Holtasel er opið allan daginn.

There will be no school for students on Thursday the 8th of October as it is an inservice day for teachers and staff. Holtasel is open for children who are registered.

Námsviðtöl með breyttu sniði

Eins og kemur fram í skóladagatalinu fyrir þetta skólaár þá eru námsviðtöl ráðgerð þriðjudaginn 20. október.


Til að viðtöl foreldra, nemenda og kennara verði markvissari er mikilvægt að foreldrar og nemendur séu vel undirbúnir. Viljum við því biðja foreldra og nemendur um að:

  • Vera búnin að lesa allar umsagnir sem kennarar gefa í hverju fagi fyrir sig.
  • Skoða námslega stöðu eða hæfnikortin. Á hvaða vegferð er barnið / nemandinn í hverju fagi.

Með þessu teljum við að samtalið skili meiri árangri fyrir barnið. Nú geta foreldrar og nemendur skoðað stöðumatið í Mentor-appinu, sjá leiðbeiningaglærur hér.


Í ljósi aðstæðna og sóttvarnarregla þá teljum við ekki forsvaranlegt að stefna foreldrum í skólann þann 20. október. Þess vegna koma námsviðtölin til með að eiga sér stað undir öðrum kringumstæðum.

  • Einhver viðtölin fara fram með símtali við umsjónar- eða greinakennara. Til að létta á þessum degi munu einhver viðtalanna fara fram dagana á undan.
  • Þá erum við að horfa til þess að nýta Google Meet sem nemendur hafa verið að nota til samskipta í kennslu og er appið uppsett á Ipödum nemenda í 6. - 10. bekk.
  • Einnig höfum við hugsað okkur að styðjast við fjarfundarbúnað og þá erum við að horfa til Zoom.

Ef þið hafið einhverjar óskir fram að færa eða athugasemdir, þá er ykkur velkomið að koma þeim á framfæri við okkur á skrifstofunni og við munum sjá hvort hægt sé að bæta úr eða koma þeim áleiðis til umsjónarkennara barnanna.

Vetrarfrí

Vetrarfrí verður í grunnskólum Hafnarfjarðar, fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. október. Við vonum að nemendur og fjölskyldur þeirra hafi það gott í fríinu.

Dagskrá verður á söfnun bæjarins Byggðasafninu, Bókasafnin Hafnarfjarðar og Hafnarborg. Það er svo um að gera að skella sér í sundlaugar bæjarins en frítt er í þær fyrir börn. Nánari dagskrá verður send út þegar nær dregur.


There will be a Winter break on Thursd the 22nd and Frida the 23rd of October. We hope all our students and their families will enjoy their winter break.

Forvarnardagurinn 7. október 2020

Miðvikudaginn 7. október 2020 verður Forvarnardagurinn haldinn í 15 sinn í grunnskólum landsins og í tíunda sinn í framhaldsskólum.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.


Nemendur í 9. bekk í Hvaleyrarskóla taka þátt í hinum árlega Forvarnardegi eins og nemendur í 9. bekk skólans hafa gert allt frá upphafi. Dagurinn verður formlega settur á sal en að því loknu vinna nemendur í hópum en umræðuefnin í ár eru; samvera, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, leyfum heilanum að þroskast. Að hópavinnu lokinni kynna nemendur niðurstöður sínar fyrir samnemendum sínum og kennurum. Niðurstöðum hópanna er síðan skilað inn á sameiginlegt svæði verkefnisins en þar er upplýsingum safnað frá öllum skólum landsins. Í lokinn verður nýtt myndband sýnt sem var unnið af velunnurum verkefnisins en þið getið skoðað myndbandið og fróleik um verkefnið á www.forvarnardagur.is

Olympíuhlaup ÍSÍ

Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram þann 21. september hjá nemendum í yngstu- og miðdeild. Hlaupið fór síðan aftur fram þann 23. september en þá hlupu nemendur í elstu deild. Allir nemendur og starfsmenn skólans tóku þátt. Nemendur gátu valið að hlaupa/ganga 2,5 km, 5 km eða 10 km. Nemendur í yngstu deild fóru allir 2,5 km en einhverjir fóru 5 km. Á miðstigi fóru nokkrir nemendur 10 km sem er glæsilegt. Alls hlupu nemendur og kennarar skólans tæplega 1200 km.

Nemendur stóðu sig afskaplega vel og voru sjálfum sér og skólanum til mikils sóma.

Skólanetskákmót Íslands

Í vetur verða mánaðarleg netskákmót á chess.com fyrir skákkrakka á grunnskólaaldri.

Skólanetskákmót Íslands hefur göngu sína á ný í október. Mótaröðin átti góðu gengi að fagna í fyrravetur og tóku alls á annað hundrað skólakrakkar þátt, hvarvetna af landinu. Mótaröðin er opin grunnskólakrökkum af öllu landinu og eru krakkar af landsbyggðinni sérstaklega hvattir til þátttöku.

Fyrsta mótið fer fram sunnudaginn 4. október og hefst kl. 17:00.

· Tengill á mótið: https://www.chess.com/live#t=1597949

DAGSETNINGAR MÓTANNA Í VETUR:

· Sunnudaginn 4.október kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 1.nóvember kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 6.desember kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 3.janúar kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 7.febrúar kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 7.mars kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 4.apríl kl. 17:00 – 18:30

· Sunnudaginn 2.mai kl. 17:00 – 18:30

Nánar á skak.is.

Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Ný stjórn foreldrafélagsins

Aðalfundur foreldrafélagsins var haldinn rafrænn miðvikudaginn 30. september. Þar var ný stjórn kostin og hana skipa; Guðrún Björg Gunnarsdóttir, formaður. Aðrir í stjórn eru; Íris Erlingsdóttir, Guðvarður Ólafsson, Arnar Thor Ásgreimsson, Inga Sigrún Kristinsdóttir, Guðni Páll Sigurðarson og Dagný rós Stefánsdóttir.

Hér má sjá glærur frá aðalfundinum.

Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum

Foreldrafélag Hvaleyraskóla hefur ákveðið að styrkja bekkjatengla fyrsta til fimmta bekkjar um hámark 5.000 kr. á önn til þess að gera eitthvað skemmtilegt með bekkjunum. Fyrirkomulagið er þannig kvittanir fyrir útlögðum kostnaði auk samantektar á heildarkostnaði er send á póstfang foreldrafélagsins (foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is). Þar sem koma þarf fram nafn bekkjar og tilefni (hvað var gert með bekkjunum) og nafn, kennitala og bankaupplýsingar bekkjatengils. Gefum okkur um viku til að endurgreiða útlagðan kostnað.

Foreldrarölt

Foreldraröltið fer þannig fram að foreldrar mæta við Hvaleyrarskóla kl. 21:45 á föstudagskvöldi.


Rölt er um hverfi Hvaleyrarskóla og fylgst með hópamyndun barna og unglinga. Bekkjarfulltrúar sjá síðan um að senda línu um hvernig röltið gekk á netfangið foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is. Ef þörf er á, röltum við líka á laugardögum í samráði við forvarnarfulltrúa og lögreglu en það tilkynnist þá sérstaklega.


Hér má sjá skipulag foreldrarölts veturinn 2020-2021.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.