Fréttabréf forseta DKG

Maí 2020

Sumarið er tíminn......Ójá

Gleðilegt sumar kæru félagskonur. Vonandi hittir þetta fréttabréf ykkur fyrir heilar heilsu og hressar þrátt fyrir faraldur og þá einsemd, sem hann kann að hafa valdið ykkur. Sumarið ber með sér nýja tíma, þótt við þurfum áfram að vera á varðbergi. Ýmislegt er framundan hjá samtökunum og við berum þá von í brjósti að við getum tekið þátt í félagsstarfinu með hefðbundnum hætti næsta vetur. Liðið tímabil hefur verið lærdómsríkt og hafa margar deildir prófað nýjar aðferðir í félagsstarfinu, sem við getum byggt áfram á.

Ráðstefnan í haust

Eins og þið eflaust munið frestuðum við vorráðstefnunni, sem halda átti í maí. Ný dagsetning er 12. september næstkomandi og verður ráðstefnan haldin í Borgarnesi á hótel B59. Deltadeildin sér um ytri umgjörð ráðstefnunnar en menntamálanefnd hefur sett saman mjög áhugaverða dagskrá undir heitinu “ BREYTTIR TÍMAR fjölmiðlar-frumkvæði-valdefling“.


Nú er hægt að skrá sig á ráðstefnuna með því að greiða skráningargjaldið 6.000.- kr. inn á reikning samtakanna kt.491095-2379, reikn.nr.: 546-26-2379. Innifalið í ráðstefnugjaldi er kvöldverður að lokinni ráðstefnu.

Hótelið flutti allar bókanir til haustsins. Þær sem bókuðu hótel en komast ekki á ráðstefnuna þurfa því að hafa samband við hótelið og afbóka herbergi sín.


Nánari upplýsingar eru á vefsíðu okkar dkg.is m.a. er dagskráin á þessum hlekk svo og póstfang hótelsins: https://www.dkg.is/is/thing-og-namskeid/vorthing/vorthing-2020.

Framkvæmdaráðsfundur 11. september

Formenn deilda sitja í framkvæmdaráði ásamt stjórn landssambandsins, fyrrverandi forseta, gjaldkera og lögsögumanni og ber þeim að mæta á framkvæmdaráðsfund. Framkvæmdaráð heldur a.m.k. einn fund á ári, en forseti getur boðað til aukafunda. Landssambandið greiðir ferðakostnað framkvæmdaráðs á framkvæmdaráðsfundi. Geti formaður deildar ekki sótt framkvæmdaráðsfund er henni heimilt að senda staðgengil sem nýtur fullra réttinda.


Meðal hlutverka framkvæmdaráðs er að ákveða dagsetningu landssambandsþings og leggja mál fyrir þingið, fylgjast með fjármálum sambandsins og samþykkja fjárhagsáætlanir, velja gjaldkera o.fl. Nánari upplýsingar eru í lögum og reglugerð samtakanna sem finna má á lokuðu svæði á vefnum okkar dkg.is. Það þarf þó lykilorð til að komast inn í þessar upplýsingar. Ef þið kunnið ekki lykilorðið sendið mér þá póst á ieg@internet.is og ég sendi lykilorðið til ykkar.


Nú er fyrirhugað að halda framkvæmdaráðsfundinn í Borgarnesi í tengslum við ráðstefnuna í haust eða þann 11. september. Reikna má með að dagskrá hefjist síðdegis (um fjögur leytið) og að fundurinn standi fram á kvöld (þó ekki lengur en til 21.30)

Nýjar stjórnir í deildum

Nú líður að því að nýjar stjórnir verða kosnar í deildunum. Það er mikilvægt að senda upplýsingar um nýju stjórnirnar til forseta ieg@internet.is og vefstjóra eyglob@gmail.com og biðjum við formenn að gera það um leið og kosning liggur fyrir. Nýjar stjórnir taka við 1. júlí.


Mikilvægt er að formenn upplýsi nýkjörna formenn um tímasetningu framkvæmdaráðsfundar, sjá hér að ofan.

Félagsgjöld

Nú styttist í innheimtu félagsgjalda, en greiðslu skal vera lokið fyrir 30. júní. Gjaldkeri hverrar deildar sér um að innheimta árgjaldið og skal greiða hlut alþjóðasambandsins og landssambandins til gjaldkera landssambandsins fyrir 30. september. Formenn deilda bera ábyrgð á innheimtu árgjalds ásamt gjaldkera.

Alþjóðaþingi aflýst

Alþjóðaþinginu í Philadelphia, sem halda átti í byrjun júlí hefur verið aflýst. Þær félagskonur sem greitt hafa skráningargjald á þingið þurfa að fylla út eyðublað: 2020 International Convention Refund Request Form fyrir 5. júní og geta fengið gjaldið endurgreitt, látið það gilda upp í næsta þing, sem haldið verður 2022 eða gefið það í námssjóð alþjóðasamtaka DKG.

Þær sem bókuðu hótel gegnum alþjóðasamtökin munu fá staðfestingu á afbókun hótels í tölvupósti.

Heiðursfélagi 90 ára

Frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi okkar, átti 90 ára afmæli 15. apríl síðastliðinn. Af því tilefni ákvað stjórn landssambandsins að gefa 200 þúsund krónur í sérstakan styrktarsjóð á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Vigdís er sjálf formaður stjórnar sjóðsins og hefur áhrif á hvernig sjóðnum er ráðstafað.

Samtökin óska Vigdísi hjartanlega til hamingju með stórafmælið. Við erum óendanlega stoltar af heiðursfélaga okkar og öllu því sem hún hefur áorkað á langri ævi sinni. Megi hún lengi lifa!