Fréttabréf Síðuskóla

6. bréf - febrúar - skólaárið 2021-2022

Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!

Nú hækkar sólin stöðugt á lofti og hefur fyrsti mánuður ársins kvatt okkur. Við getum svo sannarlega notið útiverunnar þessa dagana í fallegu veðri og yndislegu umhverfi.

Þessi ágæta veira sem hefur verið yfir okkur síðustu árin hefur aðeins látið til sín taka í skólanum. Börnin eru að veikjast og einnig starfsfólkið. Við vonum að þetta fari nú að ganga yfir og síðustu tölur benda til þess að svo sé. Við munum að sjálfsögðu leysa forföll hjá starfsfólki eins og við mögulega getum og látum þá yngstu nemendurna sem eru í 1.-4. bekk ganga fyrir. Við verðum að taka stöðuna dag frá degi og kannski þarf að senda eldri börnin fyrr heim einhverja daga en þetta vitum við ekki fyrir fram og látum við vita ef til kemur.

Þið hafið verið mjög dugleg að láta okkur vita ef smit verða á heimilinu, bestu þakkir fyrir það. Við reynum svo eftir bestu getu að miðla upplýsingum til ykkar um stöðuna, eins mikið og við megum gera.Við höldum svo áfram að vinna saman þetta verkefni og við trúum því að þetta fari að fjara út þannig að skólastarf sem og annað í samfélaginu geti farið að færast í eðlilegt horf.

Þann 1. febrúar hófum við 100 miða leikinn sem er árlegur viðburður í skólastarfinu. Leikurinn stendur yfir í tvær vikur og er markmiðið með honum að hvetja nemendur til að fara eftir SMT skólareglunum. Starfsmenn gefa 10 nemendum á dag sérstaka hrósmiða sem eru settir á spjald með reitum merktum frá 1 til 100. Búið er að velja vinningsröð á spjaldinu og kemur svo í ljós í lok leiks hvaða nemendur eru í vinningsröðinni.

Á næstunni verður útivistardagur þar sem farið verður með nemendur skólans í Hlíðarfjall, við sendum upplýsingar heim þegar dagsetning liggur fyrir.

Við minnum svo á að klæða sig vel eftir veðri ekki síst þeir sem fara út í frímínútur. Það er kalt þessa dagana en vissulega í leiðinni afskaplega fallegt vetrarveður.


Bestu kveðjur úr skólanum,

Ólöf, Malli og Helga

Umhverfismálin eru okkur í Síðuskóla hugleikin. Hér er flott verkefni frá krökkunum í 2. bekk þar sem þau velta fyrir sér hvernig við getum gengið vel um jörðina.

Big picture

Á döfinni

2.-15. febrúar

100 miða leikur

8.-10. febrúar

Könnunin Ungt fólk í 8.-10. bekk

Þorgrímur Þorgrímsson heimsækir 10. bekk

9. febrúar

Kynfræðsla í 9. bekk

10. febrúar

Kynfræðsla í 8. bekk

11. febrúar

Slysavarnir í 4. bekk

16. febrúar

Fræðsla um netsamskipti í 6. bekk

17. febrúar

9. bekkur heimsækir VMA

28. febrúar

Fundur í skólaráði

4. bekkur - stöðvavinna í stærðfræði, nemendur vinna með klukku og mælingar

Sjóræningjaþema í 1. bekk

Krakkarnir í 1. bekk eru að vinna sjóræningjaþema í Byrjendalæsi. Unnið er með bókina Sjóræningjar skipta ekki um bleiur. Hér má sjá nokkrar myndir, það er virkilega skemmtilegt að fylgjast með hve krakkarnir eru áhugasamir í þessari vinnu.

5. bekkur lærir um landið okkar

Nemendur 5. bekkjar hafa undanfarnar vikur lært um landið okkar. Þau útbjuggu glærukynningar á einstaka landshlutum og kynntu hvert fyrir öðru. Krakkarnir stóðu sig vel í að kynna vinnu sína fyrir bekkjarfélögum. Hér má sjá sýnishorn af vinnu nemenda.
Big picture
Big picture