Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

Hvað er að frétta?

Hér kemur fjórða fréttabréf ársins 2021. Grænu skrefin eru á fullu að undirbúa 10 ára afmæli í haust, og það verður spennandi að fá að greina betur frá því þegar nær dregur.

Nýskráningar voru aðeins tvær. Langholtsskóli og Frístundaheimilið Skýjaborgir bættust við í hópi þátttakenda og bjóðum við þau velkomin.


Nokkuð hefur verið um viðurkenningar í maímánuði og enn fleiri starfsstaðir hafa lokið skrefum en vilja bíða þar til eftir sumarfrí til þess að fá viðurkenningu.

Þeir sem hafa fengið viðurkenningu í apríl og maí mánuði eru:


 • Skrifstofa Skóla- og frístundasviðs (2. skref).
 • Hitt húsið (2. skref).
 • Vesturbæjarlaug (2. skref).
 • Hverfisstöðin Fiskislóð fékk viðurkenningu fyrir skref 2 og svo skelltu þau sér í að klára skref 3 og fengu viðurkenningu fyrir það stuttu síðar.
 • Félagsstarfið Árskógum (1. skref)
 • Borgarbókasafn Gerðubergi fékk viðurkenningu fyrir 4. skrefið.
Big picture

Kolefnisspor matarins

Í skrefi 3 er talað um að bjóða upp á Vegan möguleika á viðburðum eða fundum. Það á við ef/þegar boðið er upp á einhverjar veitingar. Það er ekki tilgreint sérstaklega hversu stór hluti veitinga eigi að vera vegan, eingöngu að það sé vegan möguleiki til staðar.

Þetta er ekki bara hugsað með þarfir grænkera í huga. Hér er verið að huga að kolefnisspori matarins.

Hægt er að minnka kolefnisspor matarins til muna séu vörur úr plönturíkinu valdar umfram kjötvörur eða mjólkurvörur. Sú aðgerð að bjóða upp á vegan möguleika hjálpar okkur að kynnast nýjum möguleikum og það verður kannski til þess að í næstu matarpöntun verði fleiri skammtar úr plönturíkinu en dýraríkinu. Við pöntum samlokur og af vana eru þær með skinku eða pepperoni, osti og smjöri. Mörgum líkar þó alveg ágætlega við grænkeravörur jafnvel þó að þeir aðhyllist ekki þá stefnu sjálfir, og samlokur með hummus og grænmeti klárast jafn vel og hinar hefðbundnu. Ávextir eru líka vegan og því sjálfsagt að bjóða upp á ávexti á fundum.

Markmiðið er bara að skoða kolefnisspor vörunnar. Innlent hefur minna kolefnisspor en innflutt og lífrænt ræktað er betra en ólífrænt.


Með þessari einföldu aðgerð í Grænu skrefunum, að bjóða upp á vegan möguleika, er okkur auðveldað að minnka kolefnisspor matarins án þess að þurfa að reikna það út sérstaklega.

Big picture

Er þetta lífrænt?

Mega svona bakkar fara með matarafgöngunum sem í þeim eru í brúnu tunnuna fyrir lífrænan úrgang? Þeir eru annað hvort úr pappa eða sykurreyrskvoðu svo að það hlýtur þá að vera í lagi, eða hvað?


Svarið er: EINGÖNGU ef þeir eru merktir COMPOSTABLE. Nú eru ekki allir bakkar með merkingu á þeim sjálfum en það er merking á ytri umbúðunum og ef þær eru ekki til staðar þarf að hafa samband við birgja til þess að fá úr þessu skorið.

Íslenska Gámafélagið - sem þjónustar flestalla vinnustaði borgarinnar - vill ekki fá þessa bakka í lífræna ruslið nema þeir séu örugglega jarðgeranlegir, og því merktir Compostable.


En svo er annað mál hvort að við verðum ekki að reyna að draga úr notkun slíkra einnota bakka, hvort sem þeir jarðgerast eður ei. Þeir taka gífurlega mikið pláss í tunnunni, jafnvel slíkt að suma daga er ekkert pláss fyrir hinn eiginlega lífræna úrgang. Þeir taka líka lengri tíma að jarðgerast en matarúrgangurinn sjálfur og þess vegna verðum við að líta svo á að leyfið frá Íslenska Gámafélaginu til að henda þessu í brúnu tunnuna eigi við um lítið magn í einu, en þetta mikla magn sem kemur frá starfsstöðum borgarinnar tefur mögulega jarðgerðarferlið.


Lausnin: Byrjum aftur að nota venjulega diska og bolla og glös. Þessi tími einnota umbúða er liðinn.

FRÆÐSLA Í BOÐI

Fræðslufundur um flokkun og úrgangsmál.

Flestir starfsstaðir borgarinnar njóta sorpþjónustu hjá Íslenska Gámafélaginu. Elín Ásgeirsdóttir hjá Íslenska Gámafélaginu var með fræðslu fyrir Grænu skrefin um flokkun og frágang úrgangs í febrúar sl. Fundurinn var tekinn upp og hægt er að finna upptökuna í Workplace hópi Grænna skrefa.

Kynningarglærur um Grænu skrefin til eigin afnota.

Ef þú vilt kynna Grænu skrefin betur fyrir starfsfólk og samstarfsfélaga þá er glærupakki á heimasíðu Grænna skrefa sem allir geta notað að vild. Sjá hér: https://graenskref.reykjavik.is/forsida/glaerur/

Fundur fyrir tengiliði Grænna skrefa

Allir þátttökustaðir í Grænu skrefunum geta sent einn eða fleiri tengiliði á fundinn, eða tengiliður / starfsmaður sem vinnur að Grænu skrefunum getur sjálfur skráð sig á fundinn. Fundurinn er ætlaður þátttakendum í Grænu skrefunum sem hafa komið innleiðingunni af stað og vilja spyrja spurninga eða spjalla við aðra í sömu sporum. Á fundinum segjum við reynslusögur, spyrjum spurninga og fáum svör og ráðleggingar.

Hvar: Fjarfundur á Webex. Tengill verður sendur á þá sem skrá sig hjá Grænum skrefum.

Hvenær: Miðvikudaginn 9. júní kl. 10:00 - 11:00

Hvernig fræðslu vilt þú fá á þinn vinnustað?

Viltu fræðslu á þinn vinnustað um Grænu skrefin eða eitthvað því tengt?

 • Almenna kynningu á Grænu skrefunum (styttri eða lengri)?
 • Fræðslu um vistvæn innkaup?
 • Fræðslu um grænt bókhald?
 • Fræðslu um flokkun og úrgangsmál?
 • Eða eitthvað annað umhverfistengt sem þér dettur í hug?


Hugsaðu málið og sendu okkur línu á graenskref@reykjavik.is til að spyrja um fræðslumál.