Fréttabréf Naustaskóla

5. tbl 14 árgangur maí

Kæra skólasamfélag

Nú styttist í sumarfrí eftir vetur sem hefur verið okkur snúinn á köflum þar sem Covidveiran hefur haft mikil áhrif á allt okkar starf og skipulag. Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir á skólastarfinu hefur okkur þó tekist að halda uppi metnaðarfullu starfi. Mér er efst í huga þakklæti til starfsfólks skólans sem með atorku og útsjónarsemi kom því í verk að hægt var að taka upp árshátíð skólans og senda til foreldra. Nemendur hafa einnig sýnt fádæma sveigjanleika og verið fljótir að aðlagast breytingum. En verst hefur ástandið bitnað á 10. bekk skólans sem hafði hlakkað til ýmissa skemmtilegra uppákoma og að fá að halda böll á útskriftarárinu sínu. Við fögnum vorinu og þökkum foreldrum fyrir gott samstarf á þessum vetri og vonum að samfélagið verði veirulaust í haust þegar skólastarf hefst að nýju.

Big picture

Á döfinni maí 2021

1. maí - Verkalýðsdagur

12. maí - Nemendadagur

13. maí - Uppstigningardagur

23. maí - Hvítasunnudagur

24. maí - Annar í hvítasunnu

27. maí - Unicef hlaupið

1. júní - Smiðjuskil 2. - 3. bekkur

3. - 4. júní - Vorþemadagar

Útivistartími breyting í maí

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00. 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma.

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu.

Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.

Unicef hlaupið 2021

Fimmtudaginn 27. maí munu nemendur Naustaskóla hlaupa til góðs og safna áheitum fyrir Unicef líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Við biðjum ykkur að taka vel á móti nemendum í leit að áheitum. Gefin hafa verið út myndbönd í tengslum við daginn sem fjalla um lofstlagsbreytingar og áhrif þeirra á réttindi barna og hvetjum við nemendur og foreldra til að kynna sér það.

Slóðin er: https://www.youtube.com/watch?v=E1xkXZs0cAQ

Heimasíða Unicef: https://unicef.is/

Ganga vel frá hjólum og hlaupahjólum

Nú er aldeilis vor í lofti og margir nemendur koma á hjóli í skólann sem er mjög jákvætt. Við hvetjum alla til að hafa lása á hjólunum og ganga vel frá þeim fyrir utan skólann þegar þau mæta. Einnig höfum við verið aðeins vör við það að einhverjir séu ekki með hjálma og það á rafmagnshlaupahjólum. Við vonum að allir taki umræðuna heima um mikilvægi þess að nota hjálma bæði á hjólum og hlaupahjólum.

Árshátíð

Við vonum að allir hafi fengið frá okkur tengill af atriðinu hjá barninu sínu og horft saman á sýninguna. Nemendur og kennarar stóðu sig frábærlega í upptökum en vonum við svo sannarlega að á næsta ári verði glæsileg árshátíðarsýning hér í skólanum með fullt af áhorfendum.

Skólaslit 8. júní

Enn er óljóst hvernig skólaslit verða framkvæmd í lok skólaársins. Við munum láta ykkur vita um leið og ákveðið hefur verið með skólaslitin.