Fréttabréf Borgaskóla

2. tbl

Jóla- og nýárskveðjur

Hér gefur að líta 2. tbl fréttabréfs Borgaskóla. Fyrsta tölublað kom út í október og má það finna hér. Markmiðið með fréttabréfinu er að veita foreldrum og nærsamfélaginu innsýn um daglegt starf í skólanum, þvert á árganga.


Starfsfólk Borgaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla með bestu óskum um gæfuríkt 2021.

Helgileikurinn Bjartasta stjarnan

Skólastarfi á neyðarstigi fylgja ýmsar áskoranir. Í skólanum okkar er nemendum skipt í 10 hólf og því ýmislegt sem þarf að takast á við í daglegu starfi. Ein af þessum áskorunum voru æfingar fyrir helgileikinn Bjartasta stjarnan sem saminn er af danska höfundinum Benedicte Riis. Þar sem ekki var hægt að halda leiksýningu, né láta nemendur æfa á milli hólfa var ákveðið að taka upp helgileikinn og nota til þess grænskjás tækni (e. green screen). Svanur Bjarki tónlistarkennari og Þuríður deildarstjóri sáu um verkefnið og afraksturinn var glæsilegur. Frumsýning á heilgileiknum fór því fram í hverju hólfi fyrir sig miðvikudaginn 16. desember, þar sem nemendur horfðu á myndband í stað leiksýningar. Hér að neðan má sjá tvær myndir frá upptökum.
Big picture
Big picture

Námssamfélag stærðifræðikennara

Borgaskóli tekur þátt í námskeiðinu Námssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga sem haldið er á vegum HÍ. Viðfangsefni námskeiðsins er hugtakaskilningur í stærðfræði. Fjallað er um mismunandi þætti innan tungumáls stærðfræðinnar eins og óformleg orð, formleg orð og tákn. Vakin er athygli á að þegar unnið er markvisst með hugtakaskilning nemenda í stærðfræði ná þeir betri skilningi á viðfangsefninu. Þeir geta jafnframt átt samskipti um stærðfræði og geta notað tungumál stærðfræðinnar við ólíkar aðstæður. Kennarar á yngsta stigi og miðstigi eru þátttakendur í verkefninu.
Big picture

2. bekkur í Þjóðleikhúsið

Þær hafa ekki verið margar vettvangsferðirnar sem nemendur hafa komist í það sem af er skólaári. Það var því kærkomið boð þegar Þjóðleikhúsið bauð á leiksýningu. Mánudaginn 14. desember fór 2. bekkur að sjá Leitin að jólunum. Það voru þeir Raunar og Reyndar sem leiddu nemendur í gegnum Þjóðleikhúsið í leit að jólunum.

Vináttuverkefni Pálínu í fjölmiðlum

Pálína er sérkennari í skólanum og einnig móðir nemanda í 7. bekk. Hún setti á laggirnar vináttuverkefni í október sem vakti mikla athygli. Það er meðal annars fjallað um það hér. Með verkefninu vildi Pálína hvetja aðra til að gefa af sér til þeirra sem eru í einangrun vegna Covid19.
Big picture

Nýsköpun - myndir

Í skólastarfi á neyðarstigi hafa kennarar og nemendur nýtt tíma sinn vel og margar hugmyndir hafa orðið að veruleika. Tíminn hefur m.a. verið nýttur til nýsköpunar og má þar helst nefna samþættingu upplýsingatækni og hönnunar og smíði. Unnur upplýsingatæknikennari og Signý smíðakennari útbjuggu svokallaðar snillismiðjur með áherslu á nýsköpun. Borgaskóli hefur haft afnot af geislaskera og þrívíddarprentara. Nemendur hafa notið góðs af og flakkað á milli upplýsingatæknivers og smíðastofu til að hanna og sjá afurðir sínar verða að veruleika. Sköpunargleðin hefur verið mikil og töfrum líkast fyrir nemendur að sjá verk sín lifna við. Hér hafa fjölmörg listaverk orðið til:


* Nemendur í 1. bekk gerðu jólaskraut sem hengt var á jólatréð í skólanum. Ákveðið var að skera út tvö eins fyrir hvern nemanda og að annað jólatréð færi heim með nemendum. Verkefnið heppnaðist vel og það var gaman að fylgjast með nemendum skoða jólatréð og finna sitt skraut og annarra á jólatrénu.

* Nemendur í 2. bekk teiknuðu sjálfsmynd sem var skorin út í geislaskera.

* Nemendur í 3. bekk teiknuðu flest dýr fyrir smellismíði.

* Nemendur í 4. bekk teiknuðu frjálst verkefni til að skera út.

* Nemendur í 5., 6. og 7. bekk teiknuðu í teikniforritinu Inkscape í tölvustofunni. Þegar því var lokið var farið niður í smíðastofu þar sem nemendur sóttu teikninguna sína og fylgdust með geislaskeranum skera út.


Tækin sem hafa verið notuð eru annars vegar Glowforge geislaskeri og SnapMaker sem er þrívíddarprentari auk þess að vera líka útskurðar- og geislaskeri. En sjón er sögu ríkari og hér má sjá brotabrot af þeim listaverkum sem urðu til í þessari samvinnu í upplýsingatækni og smíði.