Fréttabréf Egilsstaðaskóla

Skólahald á tímum samkomubanns...........30. apríl

Hefðbundið skólastarf á mánudaginn

Mánudaginn 4.maí mun skólastarf falla aftur í hefðbundnar skorður að mestu leyti eftir takmarkmarkanir vegna C19 faraldursins. Þó eru nokkur atriði sem ég vil ítreka og eru breyting frá hefðbundnu fyrirkomulagi.

Áfram eiga allir nemendur sem finna fyrir flensutengdum einkennum að vera frá skóla og ekki að koma í skóla nema einkennalausir.

Skólinn verður ekki opnaður fyrir nemendur fyrr en 8:40 á morgnana þ.e. 10 mínútum áður en kennsla hefst. Þetta er breyting fyrir nemendur á mið- og elsta stigi. Ég bið foreldra að senda nemendur ekki of snemma af stað í skólann þar sem engin gæsla er úti fyrir skólatíma.

Áfram er skólinn lokaður fyrir gestum þar með töldum foreldrum. Starfsmenn Skólaskrifstofu, skólahjúkrunarfræðingar og aðrir sérfræðingar sem vinna með nemendum og starfsmönnum munu geta starfað innan skólans.

Skrifstofa skólans er enn lokuð fyrir heimsóknum og er óskað eftir að foreldrar nýti síma og tölvupóst til þess að hafa samband við ritara.

Með kveðju og hamingjuóskum með morgundaginn 1.maí!


Ruth

Styrkur úr Sprotasjóði

Fyrir stuttu barst skólum í verðandi nýju sveitarfélagi styrkur að upphæða 4.500.000 kr fyrir verkefnið Heimsmarkmiða Bootcamp smiðjur úr Sprotasjóði.

Heimsmarkmiða „BOOTCAMP“ leiðir nemendur á unglingastigi í gegnum ferli skapandi hugsunar og lausnaleitar í hugmyndavinnu tengdri heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Börnin í 1. bekk hlakka til að gera ýmislegt þegar þetta verður búið allt saman

Big picture

Spurning dagsins

Í þessu fréttabréfi ákváðum við að spyrja nemendur og starfsfólk aðeins út í breytt skólastarf.


Starfsfólkið fékk spurninguna: Hvað er þér efst í huga varðandi reynslu okkar í skólanum á Covid tímum?


Nemendur fengu aftur á móti spurninguna: Hvers saknar þú mest í samkomubanninu og hvað hlakkar þú mest til að gera þegar samkomubanninu er lokið?

Hvað er þér efst í huga varðandi reynslu okkar í skólanum á Covid tímum?

Sveigjanleiki er það fyrsta sem kemur upp í hugann og það hjá öllum aldurshópum. Það er áhugavert að sjá hvað börnin eru róleg og tilbúin að ganga í allt. Svo eru þau einstaklega dugleg. Þetta hefur verið gott tækifæri til að kynnast þeim á öðrum forsendum.

Umsjónarkennarar og íþróttakennari í 2. bekk


Samvinnan er mér efst í huga. Það voru allir samtaka í þessu erfiða og skrítna verkefni. Nemendur og starfsfólk eiga hrós skilið.

Friðjón Magnússon, þroskaþjálfi


Hvað allt starfsfólk skólans, nemendur, foreldrar og allt samfélagið er tilbúið til að vinna og standa saman, sýna jákvæðni, sveigjanleika og þolinmæði í krefjandi aðstæðum. Þetta ferli hefur verið mjög lærdómsríkt og sýnir hvað við eigum mikið af góðu fólki allsstaðar.

Lovísa Hreinsdóttir, umsjónarkennari 6. bekk


Það hefur komið okkur á óvart hve margir nemendur hafa spjarað sig í fjarnáminu. Hvað nemendur og kennarar hafa mikla aðlögunahæfni. Einnig hvað við vorum lánssöm að vera búin að tileinka okkur tæknina eins og teams. Eins að allir hafa tekið þessu ástandi af æðruleysi.

Hrefna og Þórunn umsjónarkennarar í 10. bekk

Hvers saknar þú mest í samkomubanninu og hvað hlakkar þú mest til að gera þegar samkomubanninu er lokið?

Piltur í 1.bekk segist sakna þess mest að fara á fótboltaæfingar. Í skólanum saknar hann íþróttatímanna. Hann hlakkar mest til þess að hitta bestu vini sína en þeir eru báðir í annarri stofu í skólanum. Honum finnst það pirrandi!


Drengur í 2.bekk segist sakna íþrótta, sunds, verkgreina og vals í skólanum en hlakki mest til þess að hitta vini sína úr hinni stofunni þegar samkomubanni lýkur.


Stúlka í 3.bekk saknar þess mest að hafa ekki tvennar frímínútur í skólanum og að geta ekki leikið við vini sína í hinni stofunni. Hún hlakkar mikið til þess að vera í skólanum á hverjum degi og að hitta alla!


Ég sakna mest að geta ekki farið í sund og hlakka mest til að leika við vini mína.

Stúlka í 4. bekk


Ég hugsa um það á hverjum degi hvað ég sakna þess að hitta ekki besta vin minn. Ég hlakka til að geta hitt hann og farið í sund.

Drengur í 5. bekk


Er með flestum vinkonum mínum en ekki alveg öllum. Ég sakna að geta ekki verið með öllum. Ég hlakka mest til að geta verið með öllum vinum mínum og æfa fótbolta. Ég vona að TM mótið verði haldið í sumar. Það verður líka gaman að mega hitta afa og ömmu.

Stúlka í 6. bekk


Ég hlakka mest til að hitta vini mína á hverjum degi.

Stúlka í 7. bekk


Ég hlakka mest til að hitta vini mína og fara í skólann.

Drengur í 8. bekk


Ég hlakka mest til að fara út með strákunum.

Drengur í 9. bekk


Ég sakna mest að geta ekki hitt vini mína og geta ekki farið í skólann. Ég hlakka mest til að hitta ættingja og vini og losna við spangirnar. Það verður gott að byrja aftur í rútínunni.

Stúlka í 10. bekk