Fréttabréf Naustaskóla

8. tbl. 14. árg 1. október 2022

Kæra skólasamfélag!

Tíminn æðir áfram og október að hefjast! Eins gott að halda vel á spilum og nýta tímann því fyrr en varir eru komin jól. Eins og jafnan setja frídagar sinn svip á október en þar er um að ræða fasta liði eins og hið hefðbundna haustfrí sem er 21. og 24. október. Nú ættu allir foreldrar að hafa fengið sendar kynningarglærur, með vikupósti hvers árgangs. Þar eru að finna upplýsingar um kennslufyrirkomulag og kennsluáætlanir ásamt mörgum hagnýtum upplýsingum er varða skólagöngu og nám barnanna ykkar. Mælist ég til að þið kynnið ykkur þessar upplýsingar vel og bendi á að einnig er nauðsynlegt að lesa hin vikulegu fréttabréf sem ykkur berst frá kennurum barnanna ykkar þar sem vikulegt skipulag hvers bekkjar er kynnt.

Með bestu kveðjum úr skólanum og von um gott og öflugt samstarf heimila og skóla á þessu hausti.

Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri

Réttindaskóli

Nú stefnir Naustaskóli að því að verða Réttindaskóli. Þegar skóli gerist Réttindaskóli ákveður hann að skuldbinda sig til að gera réttindi barna að veruleika eftir bestu getu. Til að barnasáttmálinn hafi þýðingu fyrir börn þarf að setja hann í samhengi við daglegt líf barna og þar leikum við öll stórt hlutverk!

Rannsóknir sýna að að börn sem þekkja réttindi sín eru:

● umburðarlyndari

● virða betur fjölbreytileika

● líklegri til að taka afstöðu gegn einelti og öðru ranglæti

● standa betur vörð um eigin réttindi og réttindi annarra

● betur undirbúin til þess að leita aðstoðar ef þau verða fyrir ofbeldi eða misnotkun af einhverju tagi eða ef að einhverju öðru leyti er brotið á réttindum þeirra

ÞAÐ ER TIL MIKILS AÐ VINNA!

Big picture

Fréttir frá íþróttakennurum um útikennslu

Fyrir utan nemendur sem eru í fyrsta bekk hafa íþróttatímar farið fram úti fyrir alla bekki. Nú er komið að því að tímarnir færast inn í íþróttasal fyrir alla nemendur.

Veðrið var svo sannarlega með okkur í liði og þessa daga og var rosa stuð úti á skólalóð. Smá brot af því sem nemendur gerðu úti er m.a. golfkynning, göngutúrar, hlaup, boðhlaup, snúsnú, þyrla, sipp, ratleikur, náttúrubingó í Naustaborgum, Þú-Ha-Hú hópeflisleikur, kastað skutlum, leikir eins og tröllin í pottinum, stórfiskaleikir, eltingaleikir, frisbýgolf, körfubolti, fótbolti, feluleikur, kýló, skæri-blað-steinn, bandý og pógó. Nýjung hjá unglingadeildinni eru árgangamót sem haldin eru einu sinni í mánuði í íþróttatímanum þeirra og mun einn nemandi í hverjum árgang standa uppi sem sigurvegari. Fyrsta mótið var fótboltamót sem haldið var úti.

Kveðjur Daníela, Sigmundur og Þórey

Big picture

Olympiuhlaupið

Olympíuhlaupið gekk mjög vel og voru nemendur til fyrirmyndar. Gaman var að sjá hvað þau voru dugleg og jákvæð. Vel var tekið á því það voru 322 nemendur sem voru að hlaupa af 374 nemendum og var mikil gleði og ánægja sem einkenndi þetta hlaup.



Samtals hlupu nemendur 1129 hringi eða 1355 km. Að meðaltali hljóp því hver nemandi 4,2km.

Big picture

DAM - leikni til lífs


Geðrækt og forvarnir hafa orðið sífellt veigameiri þáttur í skólastarfi og sýna kannanir sem hafa verið gerðar að það er brýnt að markviss kennsla og þjálfun fari fram í skólum landsins á þessum sviðum. Menntamálastofnun, Embætti landlæknis ofl. aðilar hafa unnið að þýðingu á námsefninu DAM- Leikni til lífs: Félags- og tilfinningafærni fyrir ungt fólk á grunni díalektískrar atferlismeðferðar en DAM er íslenskt heiti á námsefninu DBT Skills Training for Emotional Problem Solving for Adolescents - sem er bandarískt að uppruna. Það er okkur mikil ánægja að geta sagt frá því að Naustaskóli er einn af þremur skólum á landinu sem hefur verið valinn til að prufu kenna námsefnið í 8.bekk og að kennarar sem kenna fá handleiðslu og þjálfun til að kenna námsefnið. Þær sem koma að þessu í vetur eru Ása, Katý, Ingunn og Þuríður.

Brunaæfing

Í byrjun september vorum við með brunaæfingu sem gekk mjög vel, en við höfum brunaæfingu þrisvar á ári til þess að nemendur og starfsfólk viti hvernig best er að rýma húsnæði skólans. Þetta var samstylltur hópur sem tók æfinguna alvarlega og allir lögðu sitt að mörkum svo allt gengi sem best fyrir sig húrra fyrir okkur

Endurskinsmerki!

Nú þegar það er farið að dimma er mjög mikilvægt að börn og fullorðnir noti endurskinsmerki eða endurskinsvesti þegar við erum í umferðinni. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu.


Við biðjum ykkur um að aka varlega í kringum skólann. Gangbrautaverðir, nemendur í 10. bekk aðstoða yngri nemendur yfir gangbraut við skólann á morgnanna.

Big picture

Næst á dagskrá

5. október Dagur kennara

5. október fótboltamót 8. - 10. bekk

10. - 14. október 7. bekkur á Reykjum.

14. október Bleikur dagur

21. október haustfrí - frístund opin fyrir skráð börn

24. október haustfrí - frístund opin fyrir skráð börn

Matseðill í október

Big picture