Fréttabréf Brekkuskóla

Desember 2020

Ágætu foreldrar og forráðamenn

Haustið 2020 hefur svo sannarlega verið öðruvísi. Við höfum öll þurft að aðlagast breyttum veruleika, sýna þolinmæði og þrautseigju. Það er ekki hægt annað en að hrósa nemendum skólans fyrir að sýna einstaka hæfileika í að fylgja nýjum sóttvarnarreglum - aftur og aftur:-)

Við þökkum líka stuðninginn sem við finnum frá foreldrum sem hafa staðið þessa vakt með okkur og stutt við skólastarfið m.a. með því að undirbúa krakkana í hvert sinn sem skipulagið hefur tekið breytingum. Þetta er erfitt en kennir okkur að taka ekki öllum hlutum sem sjálfsögðum heldur að vera þakklát fyrir það sem við höfum.


Að þessu sinni verða Litlu-jólin með aðeins breyttu sniði. Hver árgangur verður með sín stofujól og yngstu börnin geta gengið í kringum jólatréð á sal. Við útfærum þetta að sjálfsögðu í samræmi við þær reglur sem gilda núna um skólastarfið.


Með von um ánægjulega aðventu!

Starfsfólk Brekkuskóla

Litlu - jól 18. desember 2020


Dagskrá:


1. bekkur mætir í stofur kl. 8:30 jóladagskrá til kl. 11 Frístund fyrir þau börn sem þar eru skráð.

2. bekkur mætir í stofur kl. 9:00 jóladagskrá til kl. 11 Frístund fyrir þau börn sem þar eru skráð.

3. bekkur mætir í stofur kl. 8:00 jóladagskrá til kl. 11:00

4. bekkur mætir í stofur kl. 9:00 jóladagskrá til kl. 11:00

5. - 7. bekkur mætir í stofur kl. 9:00 stofujól til kl. 10:30

8. - 10. bekkur mætir í stofur kl.10 stofujól til kl. 11:30


📍Frístund opnar kl. 8 fyrir nemendur í 1. og 2. bekk.

Boðið verður upp á mandarínur, piparkökur og kakó fyrir alla árganga.


Kennsla hefst á nýju ári mánudaginn 4. janúar 2021.

Bókatíðindi

Foreldrafélag Brekkuskóla hefur verið að styðja veglega við bókakaup síðustu árin og er þetta ár engin undantekning. Nýju bækurnar eru komnar í hús og eru aðgengilegar nemendum á bókasafninu okkar. Á myndinni til hliðar er aðeins brot af þeim bókum sem eru komnar.


Við erum að undirbúa bókakynningar þar sem eldri nemendur lesa upp úr nýjum bókum og kynna þær fyrir yngri nemendum. Þetta var gert í fyrsta sinn í fyrra og vakti mikla lukku hjá öllum sem fengu að njóta. Kynningarnar eru hluti af námi eldri barnanna í íslensku - þannig að þetta virkar vel fyrir alla:-)

Einelti - nei takk!

Í yfirlýsingu skólans um einelti segir: Brekkuskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Skólayfirvöld, starfsfólk, foreldrar og nemendur Brekkuskóla lýsa því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verður liðið í skólanum.


Hvernig förum við að því að hafa skólann öruggan fyrir alla? Það er ærið verkefni og varðar alla því að einelti er bæði félagslegt og sálfræðilegt vandamál. Ábyrgðin liggur víða. Ef hvert og eitt okkar axlar ábyrgð, lítur sér nær og réttir út hjálparhönd er hægt að lyfta grettistaki. Með fyrirbyggjandi aðgerðum og faglegri úrvinnslu þeirra mála sem upp koma er hægt að ná árangri. Skólinn verður stöðugt að vera á tánum hvað þessi mál varðar og þróa áfram sína starfshætti.

Eineltisáætlun skólans er til að fyrirbyggja einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og bregðast við grun um einelti á fullnægjandi hátt. Áætlunina má nálgast á heimasíðu skólans þar sem einnig er hægt að lesa um vísbendingar og viðbragðsferli í eineltismálum. https://www.brekkuskoli.is/is/skolinn/skolinn_skolanamskra/eineltisaaetlun

Á heimasíðunni er einnig hægt að tilkynna um einelti eða grun um einelti. Tilkynningin er undir Gagnlegt efni og hér er slóðin:

https://www.brekkuskoli.is/is/moya/formbuilder/index/index/einelti