DJÚPAVOGSSKÓLI

SÍÐASTA FRÉTTABRÉFIÐ Í BILI

VORDAGAR, ÚTSKRIFT OG SKÓLASLIT

Kæru foreldrar, eins og oft áður þá var mikið að gerast á vordögum.

Veðrið var með okkur í liði og dagskráin var fjölbreytt. Myndir segja meira en mörg orð og hér

fyrir neðan má sá myndir og myndbönd frá þessum skemmtilegu dögum.


Á vordögum fengum við líka góða gesti í heimsókn, Björn Ingimarsson sveitarstjóri í Múlaþingi kom til okkar. Við fengum líka heimsókn frá erlendum háskóla. Hingað komu tveir prófessorar og 18 nemendur úr háskóla í Pennsylvania. Þau vildu kynna sér starfið í Cittaslow-skóla. Obba og Þórdís sögðu þeim allt um það áður en þau kíktu á smíðadaga hjá 1.bekk.

Sá sem fór fyrir hópnum var mjög ánægður og ætlar að koma aftur í heimsón í lok júní með næsta nemendahóp úr sama háskóla.


Skólasamfélagið kom svo saman þann 3.júní í Djúpavogskirkju. Þar sem nemendur voru formlega útskrifaðir upp úr hverjum bekk, þar var létt og skemmtileg stemming. Við sungum saman tvö lög og Þórdís spilaði undir.

Útskriftarnemendur í 10.bekk héldu frábæra ræðu og það var mikið hlegið. Eins og alltaf þá er það sérstök stund þegar nemendur klára sína skólagöngu með formlegri útskrift úr 10.bekk.

Aðrir nemendur tóku brosandi á móti einkunnar möppunum sínum og toppurinn var þegar Aðalsteinn og Hanna, sem byrja í 1.bekk á næsta skólaári, skottuðust prúðbúin inn kirkjugólfið og bættust í hópinn og fengu mikið klapp. Til hamingju með árangurinn kæru nemendur.


Nú hef ég verið skólastjóri í tvö skólaár, tvö Covid-ár. Mjög mikill tími hefur farið í að búa til skipulag í kring um heimsfaraldurinn. Skólasýnin er hins vegar skýr, stefna skólans er líka skýr og vonandi er nú komið að því að hægt sé að setja alla orku í að efla skólastafið. Ýmislegt hefur þó gerst hjá okkur á s.l. árum og margt er í þróun. Skólaþingið er eitt af því, það voru mjög margar hugmyndir og ábendingar sem komu út úr því.


Í Djúpavogsskóla er fjölbreyttur og lausnamiðaður starfsmannahópur. Saman hefur þessi hópur staðið vaktina í vetur. Við flóknar og krefjandi aðstæður og mikla undirmönnun hafa allir lagst á eitt með þeim árangri að sjaldan þurfti að fella niður skóla.

Ég er einstaklega stolt af þessum hóp og hlakka til að takast á við næsta skólaár með þeim.


Kæru foreldrar og forráðamenn.

Takk fyrir ykkar stuðning í vetur, takk fyrir að mæta á skólaþing og hjálpa okkur að finna góðar leiðir til að bæta starfið í Djúpavogsskóla. Ég trúi því að skólastarf þróist best þegar allir sem að því koma leggist á eitt.

Við höldum áfram að feta veginn saman.

Ég vona að þið eigið dásamlegt sumar og að við sjáumst hress í haust.

Bestu kveðjur,

Obba

Big picture

Á vordögum smíðaði Regína stól. Hún vildi koma og sýna skólastjóranum stólinn fína. Við stilltum honum upp saman á skólastjóra skrifstofunni og tókum mynd.

Regína sagði mér að hún hefði komið með krossviðsplötu með sér að heiman af því að hún vildi smíða stól úr henni. Hún fékk svo restina af efniviðnum í skólanum og hjálp frá samnemenda við að setja stólinn saman.

Vel gert hjá Regínu og augljóst að hún er mjög ánægð með verkið.

Big picture

ÁRGANGUR 2006 - HAMINGJUÓSKIR TIL YKKAR

Skólaslit og útskrift nemenda er dæmi um eitthvað sem hefur þróast hjá okkur síðustu tvö árin og það má segja að Covid hafi töluvert um það að segja. Skólaslitin í fyrra voru í raun fyrsti formlegi viðburðurinn á því skólaári, og hjá mér í starfi sem skólastjóri, þar sem allir gátu komið saman, án takmarkanna. Þá settist ég niður með útskiftarhópnum og bauð þeim að undirbúa þetta með mér og þau vildu hafa myndasýningu og smá fjör.


Það sama gerði ég í ár og hópurinn sem útskrifaðist núna vildi gera eitthvað svipað og í fyrra en bætti aðeins í hugmyndabankann.


Ég er sérstaklega ánægð með hvernig skólaslit og útskrift er að þróast. Undirbúningur er sameiginlegur með nemendum, kennurum og skólastjóra. Í byrjun maí fóru nemendur að huga að sinni ræðu og ég fór að undirbúa mína.

Ég gaf mér góðan tíma til að finna myndir af þeirra skólagöngu og ég fann að það var að byrja að myndast stemning. Kennarar gefa útskriftarhópnum svigrúm til að skrifa ræðu og leiðbeina þeim þegar þarf.

Ég setti svo myndirnar sem ég tók saman á USB lykil, keypti saltstangir (sem ég er greinilega svolítið þekkt fyrir :) og bauð í myndasýningu. Það var rosalega skemmtileg stund og dásamlegt að fylgjast með þeim rifja upp skólagönguna sína. Það er líka svo lærdómsríkt að sjá og heyra hvað við eigum mismunandi upplifun frá sama atvikinu eða viðburðinum.


Ég hitti svo útskriftarnemendur á æfingu í Djúpavogskirkju, við fórum yfir tæknimálin, ég las ræðuna mína fyrir þau og gaf þeim færi á að breyta og þau lásu sína ræðu fyrir mig. Þetta var mikilvæg stund, allir fóru sáttir inn í daginn og búið var að eyða kvíða fyrir einhverju óvæntu.

Næst fór hópurinn í morgunmat með umsjónarkennurunum sínum og í þetta sinn bauð Ásdís heim í egg, beikon og kruðirí. Þar átti hópurinn góða stund áður en það var farið heim að undirbúa sig fyrir stóru stundina. Einstaklega vel skipulagt og framkvæmt hjá Ásdísi og Hafrúnu og takk Ásdís fyrir heimboðið. Nemendur fengu USB lykilinn til eignar og myndirnar fengu að rúlla á stóru tjaldi við útskriftina.


Eins og ég sagði í minni ræðu, ef ég vakna á eyðieyju á morgun þá væri ég mjög þakklát að hafa árgang 2006 í Djúpavogsskóla með mér. Þeirra leiðtogahæfni í bland við hug- og verkvit, gleði og sköpun kæmi okkur öllum heim.


Haraldur og Björgvin boðuðu forföll í eigin útskrift en þeir tóku vordagana í Afríku. Þeir sendu okkur myndir sem við bættum í myndasýninguna :)


Hver árgangur á eitthvað sérstakt við sýna skólasögu.

Minn árgangur hefur t.d. verið rannsóknarefni vegna þess að hann sker sig úr að því leiti að margir fóru seint í háskólanám. Ein tilgátan er að kennarar voru í verkfalli þegar við kláruðum okkar grunnskólagöngu og aftur þegar sami hópur klárar menntaskóla. Ég man að það var mjög erfitt að halda sér á skólabrautinni við þessar aðstæður og það bjó til ákveðna spennu og kvíða að vera í þeirri stöðu að skólagangan var ekki hefðbundin.


Ég hef oft hugsað til árgangs 2006, þau eru sá árgangur sem hefur tekið tvö af þremur árum í unglingadeild í takmörkunum og sóttvarnarreglum. Við þannig aðstæður er ekki auðvelt að halda sér við efnið. Árgangur 2006 í Djúpavogsskóla stóð sig frábærlega og allir útskrifuðust með glæsibrag. Þessi hópur hefur sýnt okkur að þau geta allt sem þau vilja gera.


Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að undirbúa skólaslitin með ykkur, það er mjög lærdómsríkt fyrir miðaldra skólastjóra að fá svona tækifæri.

Bestu kveðjur til ykkar.

Obba

Big picture

Frá æfingu, útskrift og Afríku.

Big picture
Big picture
Big picture

VELKOMIN AÐALSTEINN OG HANNA

Það var dásamlegt að sjá hvað þau Aðalsteinn og Hanna voru spennt að bætast í hópinn. Þau leiddust inn kirkjugólfið og stilltu sér upp, Helga Björk tók á móti þeim en hún verður umsjónarkennarinn þeirra næsta vetur en Aðalsteinn og Hanna verða í samkennslu með 2.bekk.

Það voru fleiri en ég sem fengu smá ryk í augun :)

Við hlökkum til að taka á móti Aðalsteini og Hönnu í haust.

Big picture
Big picture

SKIPULAGSDAGAR OG SUMARFRÍ

Starfsfólk Djúpavogsskóla nýtti skipulagsdagana vel. Sumir fóru á námskeið, aðrir undirbjuggu næsta skólaár, það þarf að panta námsefni og ritföng og svo þarf að pakka öllu inn áður en að farið verður í framkvæmdir.


Á síðasta skipulagsdegi fyrir sumarfrí starfsmanna fórum við í skemmtilega ferð í Egilsstaði þar sem við fengum aðstöðu á skrifstofu Múlaþings. Þar var tekið vel á móti okkur, morgunmatur og leiðsögn um skrifstofurnar. Björn sveitarstjóri kíkti á okkur og Helga fræðslustjóri kom og kvaddi okkur en hún er að láta af störfum á næstu dögum. Við þökkum Helgu fyrir alla hjálpina og stuðninginn sem hún hefur sýnt okkur.

Næst tóku þær Íris Lind Sævarsdóttir og Elva Rún Klausen við okkur og leiddu okkur í gegnum skemmtilega leiki og fræðslu í jákvæðri sálfræði.

Dásamlegur dagur sem lauk með dagskrá sem starfsmannafélag Djúpavogsskóla skipulagði.


Obba og Þórdís verða næstu vikur að undirbúa næsta skólaár og við munum upplýsa ykkur um stöðuna áður en við förum í sumarfrí.

Big picture

Bestu kveðjur og óskir um gleðilegt sumar.

Takk fyrir gott samstarf í vetur.

Starfsfólk Djúpavogsskóla

FRAMKVÆMDIR Á HÚSNÆÐINU HAFNAR

Það stendur mikið til í sumar. Það á að klæða húsið allt að utan, skipta um alla glugga og hurðir, skipta um þakskeggið og rauða litnum verður skipt út fyrir grátt.

Þar að auki verður bætt við tveimur gluggum í stofum á mið- og unglingastigi (norðurhliðin, á móti Búlandstindinum).


Vonandi verður hægt að fara eitthvað í skólalóðina í sumar en eins og margir vita þá eru iðnaðarmenn umsetnir þessa dagana, en við vonum að það sem er á áætlun verið tilbúið áður en við hefjum skóla í haust.

Gísli Örn er ekki alveg laus úr skólanum, nokkrum dögum eftir að hann útskrifaðist með verðlaun fyrir frábæran námsárangur í dönsku þá var hann mættur með hamarinn á lofti.

Gísli á eftir að gera skólann flottan fyrir okkur :)

Big picture
Big picture