Hvalrekinn

3. apríl 2020

Big picture

Páskakveðja

Ágætu foreldrar,


Þá eru einhverjar sérstökustu þrjár vikur í skólastarfi sem ég hef upplifað að baki. Skólastarfið hefur gengið alveg ótrúlega vel þökk sé okkar frábæru kennurum, starfsfólki, yndislegum nemendum og ykkur foreldrum. Það hafa allir lagst á eitt um að láta skólastarfið ganga eins og best verður á kosið í þeim aðstæðum sem við lifum. Eitt stórt takk til ykkar allra.


Það grunnmarkmið sem haft er að leiðarljósi við skipulag leik- og grunnskólastarfs í Hafnarfirði í samkomubanni með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru, er að viðhalda

virkni og hæfni nemenda, færa nemendum daglega rútínu sem ýtir undir aukna virkni og stuðla að því að byggja upp jákvæðar og uppbyggilegar lífsaðstæður í kringum nemendur meðan á óvissutíma stendur og það á sem öruggastan hátt út frá sóttvarnarsjónarmiðum. Námið er börnum og ungmennum mikilvægt og sú virkni og aðhald sem því fylgir.

Starfsfólk sem sinnir starfi með börnum hefur ætíð sýnt áræðni, samhug og fagmennsku og þá ekki síst núna síðustu daga og vikur.


Njótið nú páskafrísins sem best. Við hefjum skólastarfið í sömu mynd og verið hefur undanfarnar þrjár vikur. Sjáumst hress og kát þriðjudaginn 14. apríl.

Hafið það sem best og gleðilega páska.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri.

Páskakveðja Hvaleyrarskóli 2020

Heimaskóli Hvaleyrarskóla

Undanfarna daga hefur Þórunn kennsluráðgjafi UT og Sveinn tæknistjóri unnið að vef innan skólans. Vefurinn getur nýst kennurum, nemendum og foreldrum sem brunnur upplýsingar og til aðstoðar námi nemenda. Þessi vefur er og verður í áframhaldandi þróun þar sem nýtt efni verður sett reglulega inn.

Að læra íslensku heima

Nú er mikilvægt að nýta tímann fyrir alla og læra íslenskuna betur heima. Að læra íslensku í heimanámi, hér má finna góðar ráðleggirnar fyrir nemendur:

Undirspil við íslensk dægurlög

Guðrún Árný tónmenntakennari hjá okkur eru búin að taka upp mikið af undirspili við íslensk dægurlög. Undanfarna daga hefur hún sett dægurlöginn inn á youtube. Það er fátt sem gleður hjartað meira en fallegur söngur. Já, já við getum öll sungið við þennan fagra undirleik Guðrúnar Árnýjar. Hvetjum ykkur til að taka lagið og textarnir koma líka á skjáinn.


https://www.youtube.com/playlist?list=PL1JGavIrs8DZL6WAkpzNLE9VhpPyqEeIQ

Hvernig æskilegt er að ræða við börn um COVID-19

Núna gengur yfir tímabil sem vekur áhyggjur hjá flestum, ekki satt? Okkur er umhugað um

það hvernig foreldrar geta alið upp hamingjusöm og örugg börn þegar þeir sjálfir eru kvíðnir.

Eins og ástandið er í dag þarftu ekki að vera sérstaklega áhyggjufullur einstaklingur til að

finna fyrir kvíða. Hér eru nokkur ráð sem við teljum að geti komið að notum við núverandi

aðstæður.

Hér má finna leiðbeiningar til foreldra og forráðamanna barna.

Bréf til foreldra og starfsfólks skóla frá sóttvarnalækni og landlækni

Sóttvarnalæknir og landlæknir sendu starfsfólki skóla og foreldrum leik- og grunnskólabarna bréf síðast liðinn þriðjudag. Þar sem þau árétta mikilvægi þess að nemendur í leik- og grunnskólum haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi. Bréfin má sjá hér:

Tími til að lesa - vertu með í landsliðinu

SETJUM HEIMSMET Í LESTRI ~ VERTU MEÐ Í LANDSLIÐINU

Í tilefni af því að nú erum við mörg heima, og vantar eitthvað gefandi til að nýta tímann í, ætlum við að sameinast í einu liði, landsliðinu í lestri, og setja heimsmet í lesnum mínútum á einum mánuði.


Allir sem lesa geta verið með. Þú þarft bara að skrá mínúturnar sem þú lest á þessari síðu og hún reiknar út hvað allir eru búnir að lesa samtals.


Ef það er eitthvað sem er nóg af í ástandinu þá er það tími. Það er hægt að nýta hann vel og minna vel, og ein albesta nýtingin er að lesa. Fyrir utan hvað það er skemmtilegt þá gerir lestur kraftaverk í lesandanum. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir og eykur skilning á lesmáli og veitir þannig aðgang og skilning á heiminum öllum.


Þetta er frekar einfalt: Því meira sem við lesum því betra.


Svo nú er bara að reima á sig lesskóna og grípa næstu bók. Viðbúin – tilbúin – lesa!


Tími til að lesa er verkefni á vegum Menntamálastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Rafbækur í rólegheitum

Átta fríar rafbækur frá Þorgrími Þráinssyni á Emma.is


Nú er tími sem aldrei fyrr til að lesa. Frá og með 2. apríl fær þjóðin að gjöf átta rafbækur eftir Þorgrím Þráinsson sem þeim er frjálst að sækja og lesa eins og þá listir. Bækurnar átta höfða til breiðs hóps lesenda allt frá 1. til 10. bekkjar og jafnvel til þeirra eldri sem vilja rifja upp góðar lestrarstundir.


Á bak við bókagjöfina standa Þorgrímur Þráinsson og aðstandandi rafbókaveitunnar emma.is sem vilja með þessu hvetja krakka og unglinga til aukins yndislesturs. Þá er kjörið að nýta rafbækurnar í takt við lestrarverkefnið "Tími til að lesa" sem stjórnarráðið hleypti af stokkunum í vikunni á timitiladlesa.is. Lestur á rafrænu formi er góður og gildur og opnar jafnmargar dyr og lestur með hefðbundinnar bókar.


Rafbækurnar voru fyrst gerðar aðgengilegar fyrir grunnskólanema 2012-2013 þegar starfsmenn Emmu unnu að því að færa eldri bækur Þorgríms Þráinssonar á stafrænt form og gera úr þeim rafbækur. Nú hefur stafrænu ryki verið dustað af þeim, þær yfirfarnar og uppfærðar eftir nýjustu stöðlum þannig að hægt er að lesa þær á öllum lestækjum og tölvum svo sem iPad, iPod touch, Kindle, snjallsímum með Android eða Windows, PC tölvum eða Mac. Bækurnar sem Þorgrímur og Emma.is gefa eru:


  • Með fiðring í tánum (frá 1998),
  • Bak við bláu augun (1992),
  • Lalli ljósastaur (1992),
  • Spor í myrkri (1993),
  • Sex augnablik (1995),
  • Svalasta 7an (2003),
  • Undir 4 augu (2004)
  • Litla rauða músins (2008).


Það er von Þorgríms og aðstandenda Emmu að þessi veglega bókagjöf hvetji alla til þess að lesa meira og nýta sér snjalltæki til lestursins. Bækurnar er hægt að sækja á emma.is frítt.


Almenningur, foreldrar og síðast en ekki síst krakkar eru hvattir til þess að nýta sér þetta einstaka tækifæri -- og hlaða bókunum niður og lesa þær aftur og aftur.

Hvað getum við gert til að líða vel?

Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það, því það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir þó að þessar hörmungar steðji að okkur.


Núvitund er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar sem er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.

Á youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir börn. En við fullorðna fólkið verðum líka og hugsa um okkur og hér má finna hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna. Það er mikilvægt að við hugum að okkar heilsu því við verðum að vera stuðningur fyrir aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.


Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.


Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn - ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.

Nám í skugga Covid -19

Við viljum minna foreldra á að tilkynna veikindi og leyfi eins og venjulega í Mentor. Alltaf skal velja skráningu fyrir heilan dag. Ef um langtímaveikindi eða leyfi er að ræða biðjum við foreldra um að tilkynna það sérstaklega til skólans með tölvupósti á umsjónarkennara og stjórnendur.


Foreldrar og nemendur verða að fylgjast vel með vikuáætlun inni á Mentor en þar munu kennarar koma skilaboðum til nemenda um það nám sem fram fer næstu vikurnar. Nemendur í 5. – 10. bekk nota Ipadinn og þurfa í sumum tilfellum að nota Google Classroom til að vinna verkefni og skila til kennara, ásamt því að kennari setur þar inn skilaboð til nemenda. Þetta á við í þeim árgöngum sem eru vanir að vinna í því umhverfi og eru skilaboð um það á Mentor.


Þá hvetjum við foreldra til að láta börnin sín nýta tímann vel við það nám sem sett er á Mentor og einnig minnum við á að allir nemendur frá 1. – 10. bekk eiga að lesa minnst 15 – 20 mínútur á dag.


Hér má nálgast tillögu að skipulagi á skóladegi fyrir eldri nemendur.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Myndir eftir nemendur í 9. bekk

Big picture

Á döfinni

  • Allt óráðið í ljósi aðstæðna ;-)

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.