Skólastarfið í maí og júní

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Saman í sumar

Nú fer skólaárinu senn að ljúka og ævintýri sumarsins að taka við. Hverfið okkar er farið að iða af lífi og börnin dugleg að leika sér úti. Það er mikilvægt slá ekki slöku við í náminu þó sólin hækki á lofti og veður fari hlýnandi. Það er mikilvægt að foreldrar séu áfram hvetjandi og styðjandi við börn sín þessa síðustu skóladaga þannig að allir geti gengið inn í sumarið með þá vissu að þeir hafi gert sitt besta í vetur.


Að sama skapi er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um forvarnarhlutverk sitt því það eru ýmsar hættur sem geta fylgt ævintýrum sumarsins þegar börn og unglingar hafa aukinn frítíma. Huga þarf að verndandi þáttum í lífi barna og unglinga líkt og samveru foreldra og barna, útivistartíma og svefni.


Tökum skýra afstöðu gegn neyslu áfengis, vímuefna, tóbaks, nikótínpúða, rafretta og koffíndrykkja. Virðum aldurstakmök á samfélagsmiðlum og tölvuleikjum og pössum upp á að börn séu ekki í heimi sem þau hafa ekki aldur né þroska til.


Leggjum okkur fram við að leyfa börnum okkar að taka þátt í ævintýrum sumarsins með okkur og höfum verndandi þættina að leiðarljósi. Þá getum við í sameiningu tekist á við stórar áskoranir með góðum árangri.

Foreldrakönnun skólapúlsins

,,Viðmót kennara og starfsfólks er gott. Allir eru tilbúnir að hlusta og reyna að leysa úr vandamálum sem upp koma.“


Í febrúar og mars var lögð fyrir foreldrakönnun Skólapúlsins en könnunin er lögð fyrir annað hvert skólaár. Svarhlutfall í ár var 60,8% en foreldrar 120 nemenda voru í úrtaki. Könnunin skiptist í 5 þætti sem eru: Nám og kennsla, velferð nemenda, aðstaða og þjónusta, foreldrasamstarf og heimastuðningur. Skólinn kemur misjafnlega út hvað þessa þætti varðar. Margt er vel gert og svo er annað sem þarf að bæta. Helstu niðurstöður eftir þessum fimm flokkum eru eftirfarandi:


Nám og kennsla:

Foreldar telja að betur megi vinna með nám og kennslu í skólanum en skólinn er marktækt undir landsmeðaltali í þremur þáttum af fjórum. Ánægja með stjórnun skólans minnkar og foreldrar meta þyngd námsefnis ekki hæfilega. Hér kemur fram að foreldrar drengja í unglingadeild eru meira ósáttir en foreldra stúlkna.


Velferð nemenda

Foreldrar telja vel hlúð að velferð nemenda og eru ánægðir hvernig skólinn mætir þörfum nemenda. Þeir eru ánægðir með úrvinnslu skólans á eineltismálum og meta líðan nemenda almennt góða. Skólinn er yfir landsmeðaltali í sex þáttum af tíu en einn þáttur er marktækt undir landsmeðaltali en foreldrar eru ekki ánægðir með eineltisáætlun skólans en hún er núna í uppfærslu eftir ábendingar.


Aðstaða og þjónusta

Ánægja foreldra með aðstöðu og þjónustu er á pari við landsmeðaltal. Ánægja með mataráskrift eykst en notkun minnkar á sama tíma og eru það nemendur á miðstigi sem nota þjónustuna minnst sem er athyglisvert.


Foreldrasamstarf

Þessi þáttur kemur almennt vel út en skólinn er yfir landsmeðaltali í sex þáttum af átta. Foreldrar upplifa meira frumkvæði frá kennurum að foreldrasamtarfi, telja áhrif sín meiri og að tillögur og ábendingar þeirra séu teknar til greina. Þeir eru líka vel upplýstir um stefnu skólans og námskrá.


Heimastuðningur

Hér kemur fram að virkni foreldra í námi barna sinna er mikil og vilji nemenda til að leita eftir þátttöku foreldra sinna í náminu er einnig mikill. Tími sem foreldra nota til að aðstoða við heimanám er meiri en almennt gerist og væntingar foreldra um iðnám hefur aukist mikið.


Ljóst er að samkvæmt þessum niðurstöðum þarf að rýna valda þætti betur og fara í umbótastarf. Við munum leita til ykkar með það. Niðurstöður munu birtast í starfsáætlun skólans að venju.

Mögulegt verkfall

Í næstu viku er mögulegt verkfall framundan hjá skóla- og frístundaliðum. Þetta nær yfir eftirtalda daga:

Mánudagurinn 22. maí - fram til kl. 12:00

Þriðjudagurinn 23. maí - fram til kl. 12:00

Miðvikudagurinn 24. maí - allur dagurinn


Ef að verkfalli verður þá er enginn skóli á þessum tímum. Nemendur mæta kl. 12:00 á mánudeginum og þriðjudeginum en eru heima allan daginn á miðvikudeginum.


Aftur á móti er útskriftarferð hjá 10. bekk mánudaginn 22. maí yfir á þriðjudaginn 23. maí og verður hún farin hvort sem það verður verkfall eður ei.


Vinsamlegast fylgist vel með fréttum.

Hinsegin vika

Vikan 2.-5. maí var hinsegin vika í skólanum í fyrsta skipti. Við fræddum nemendur um hinsegin málefni á mismunandi máta.

Eftirfarandi verkefni voru meðal annars í árgöngunum:

1.-4. bekkur – farið yfir mismunandi fjölskyldugerðir, einkastaði og mörk

5.-7. bekkur – kynning á hinsegin félagsmiðstöð HF

8.-10. bekkur – kynning á hinsegin félagsmiðstöð HF og Sjúk ást


Fræðsla frá samtökunum 78 verður fyrir miðdeild í vikunni 22.-26. maí. Þar fáum við gest frá samtökunum sem fer yfir málefnið með nemendum.


Fyrir hvað stendur fáninn, brot úr sögu samkynhneigðra og af hverju hinsegin dagar?


Hér eru linkar sem eru mjög fræðandi og áhugaverðir að skoða:

https://reykjavik.is/hinseginfraedsla-fyrir-yngsta-stig

https://hinsegindagar.is/fraedsla-og-frodleikur/

Hæfileikakeppni miðdeildar

Föstudaginn 5. maí var hæfileikakeppni miðdeildar. Árgangarnir voru með undankeppni og fóru þrjú atriði áfram í lokakeppnina sem kepptu síðan á þessum föstudegi. Þessi árlegi viðburður er alltaf skemmtilegur og það er ótrúlega gaman að sjá hversu hæfileikaríkir krakkarnir eru.


Vinningshafar keppninnar þetta árið voru:

1. sæti - Sara Karabin (söngur) úr 7. bekk

2. sæti - Sigríður Lára Þorsteinsdóttir (söngur) úr 7. bekk

3. sæti - Guðrún Telma Steindórsdóttir og Sara María M. Menczynski með söngatriði úr 6. bekk

Frumlegasta atriðið var nútímadans frá Hrafnhildi Helgu Björnsdóttur í 5. bekk

Skipulagsdagur 19. maí

Föstudagurinn 19. maí er skipulagsdagur hér í skólanum. Þá er nemendur í fríi og kennarar og starfsfólk fær tækifæri til þess að vinna í námsmati.


Hraunsel opnar kl. 08:00 og er skráning fyrir þennan dag. Búið er að loka fyrir skráningu en ef einhver hefur gleymt sér þá má hinn sami senda á sarap@hraunvallaskoli.is sem fyrst.

Útskriftarferð 10. bekkinga

Útskriftarferð 10. bekkinga í Hraunvallaskóla þetta vorið verður dagana 22.–23. maí næstkomandi. Mögulegt verkfall mun ekki hafa áhrif á ferðina, hún verður farin.


Eins og tíðkast hefur þá verður farið í flúðasiglingu í Hvítá sem lagt verður upp í frá Drumboddstöðum. Nemendur, kennara og starfsmenn hafa verið ánægðir með þessa afþreyingu og margar góðar minningar skapast af samveru sem þessari. Aðrar afþreyingar í ferðinni verða meðal annars lazertag, söguslóðir á Þingvöllum og keila.


Gist verður í félagsheimilinu Félagslundi í Gaulverjabæ en þar er góð aðstaða fyrir stóra hópa með öllu því nauðsynlegasta sem þarf að vera til staðar fyrir ferðalanga.


Fróðleiksmoli: Gaulverjabær er kirkjustaður í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) í Flóa og er nefndur í Landnámabók. Þar segir að Loftur Ormsson hafi komið af Gaulum og numið land á þeim slóðum „bjó í Gaulverjabæ, Oddný móðir hans, dóttir Þorbjarnar gaulverska“ (Íslenzk fornrit I:368). Nafnið hefur oft verið stytt í og hreppurinn þá nefndur Bæjarhreppur. Varla er vafi á því að hann sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim.


Nemendur fá að sjálfsögðu grillveislu þar sem boðið verður upp á hamborgara, pylsur, franskar og allar þær sósur og grænmeti sem þarf til að gera góða máltíð 😊.

Nemendur sjá svo sjálfir um skemmtiatriði á kvöldvöku á mánudagskvöldinu, sniðugt að taka með sér t.d. spil.


Lagt verður af stað frá skólanum mánudagsmorguninn 22. maí kl. 8:30 og er áætluð heimkoma þriðjudaginn 23. maí um kl. 14:30.


Nánari upplýsingar hafa verið sendar í tölvupósti til forsjáraðila og enn frekari upplýsingar eiga eftir að berast, fylgist vel með pósthólfinu ykkar 😉.

Samtalsdagur og opið hús 5. júní

Opið hús og samtalsdagur verður mánudaginn 5. júní. Opið hús er frá kl. 09:00-11:00 þar sem nemendur og forsjáraðilar mæta til þess meðal annars að skoða afrakstur Grúsksins.


Nemendur í 1.-5. bekk mæta á sýninguna með foreldrum/forsjáraðilum sínum. Þar munu nemendur sýna foreldrum/forsjáraðilum sínum það verkefni sem þeir hafa unnið að í Grúskinu undanfarna daga.


Verkefni eftir árgöngum eru þessi:

1. bekkur - sýning um líkamann

2. bekkur - sýning um Hafnarfjörð

3. bekkur - sýning um íslenska þjóðhætti

4. bekkur - sýning um hafið

5. bekkur - sýning um Ísland


Nemendur í 6.-10. bekk eru á staðnum allan sýningartímann og taka á móti gestum sem fara um og skoða afrakstur undanfarna daga.


Verkefni eftir árgöngum eru þessi:

6. bekkur - sýning um Norðurlöndin

7. bekkur - sýning um Evrópu

8.-10. bekkur - sýna áhugasviðsverkefni á sínum heimasvæðum


Við hvetjum alla foreldra/forsjáraðila til þess að mæta og sjá hvað okkar frábæru nemendur hafa afrekað undanfarna daga.


Samtalsdagur eftir hádegi

Frá kl. 12:00-15:00 er valkvæður samtalsdagur þar sem foreldrum/forsjáraðilum er gefin kostur á að bóka sig í samtal við kennara. Opnað verður fyrir bókanir í samtöl á Mentor þriðjudaginn 30. maí og skráningu lokað á hádegi föstudaginn 2. júní.


Hraunsel

Hraunsel verður opið frá kl. 08:00-17:00 og er mikilvægt að skrá nemendur í gegnum Völu. Skráning er nú þegar opin og verður opin til 31. maí.

Íþróttadagur 6. júní

Þriðjudagurinn 6. júní er íþróttadagur sem er jafnframt skertur skóladagur. Þar fara allir nemendur út að gera mismunandi hluti. Skóla lýkur um kl. 11:00 þennan dag en nánara skipulag verður sent út síðar.


Hraunsel opnar um leið og skóla lýkur hjá 1.-4. bekk. Skrá þarf sérstaklega vistun á þessum degi og er skráning nú þegar opin og lokar 31. maí.

Útskrift 10. bekkjar 6. júní

Þriðjudaginn 6. júní verða skólaslit 10. bekkja. Við ætlum eins og undanfarin ár að útskrifa einn bekk í einu þannig að allir fái að njóta sín með sínum bekk.
Útskriftin verður í þessari röð:

kl. 16:00 10. ÓS

kl. 17:00 10. JTS

kl. 18:00 10. KJ


Við hvetjum foreldra/forsjáraðila til þess að mæta með nemendum og að sjálfsögðu mega systkini og jafnvel ömmur og afar koma líka. Þetta er stór dagur í lífi barnsins og hlökkum við mikið til að eiga þessa stund saman.

Skólaslit 1.-9 bekkja 7. júní

Skólaslitin í 1.-9. bekk verða miðvikudaginn 7. júní. Nemendur mæta á sal skólans þar sem skólanum er slitið. Eftir það fara nemendur með sínum umsjónarkennara á sitt heimasvæði og taka við vitnisburði. Við skulum alltaf hugsa vitnisburðinn út frá einstaklingnum og varast að bera hann saman við einhvern annan.


Skólaslitin verða sem hér segir:

kl. 09:00 1.-3. bekkur

kl. 09:30 4.-6. bekkur

kl. 10:00 7.-9. bekkur

kl. 10:00 Fjölgreinadeildin


Hraunsel opnar kl. 09:30 þennan dag og verður opið til kl. 17:00. Mikilvægt er að skrá nemendur í gegnum Völu. Skráning er nú þegar opin og lokar 31. maí.

Sumarfrístund fyrir 6 ára (útskriftarhópar leikskólanna)

Dagana 9. - 21. ágúst er boðið upp á fjölbreytta og uppbyggilega sumarfrístund í öllum frístundaheimilum í Hafnarfirði fyrir börn í útskriftarhóp leikskólanna, 6 ára börn fædd árið 2017. Námskeiðin eru líkt og hefðbundin sumarnámskeið en mikil áhersla er lögð á útiveru, hreyfingu, hollustu og er sérstaklega lagt upp með að fara í fjölbreytta leiki. Börnin fá tækifæri til að kynnast sínu frístundaheimili og nærumhverfi skólans með það að leiðarljósi að auka öryggi þeirra og vellíðan við upphaf skólagöngu. Opið er fyrir skráningu frá og með 3. maí.
Við minnum á að gera skal ráð fyrir að börn fái a.m.k. 4 vikna sumarleyfi áður en þau eru skráð í sumarfrístund.

Sumarfrístund 7-9 ára

Sumarnámskeið eru starfrækt í frístundaheimilum Hafnarfjarðar. Sumarfrístund inniheldur fjölbreytta dagskrá sem samanstendur af skapandi verkefnum, leikjum, hreyfingu, spennandi ferðum, sundferðum og sameiginlegum viðburðum. Dagskrá getur verið breytileg eftir því hvaða frístundaheimili er valið. Námskeiðin, sem ætluð eru 7-9 ára (2016-2014) hefjast 12. júní og standa flest yfir til 30. júní. Miðlæg námskeið eru í boði frá 3. júlí. Opið er fyrir skráningu frá og með 3. maí.


Sumarfrístund verður í boði á eftirfarandi stöðum:

Hraunvallaskóli 12.-30. júní – velja Hraunsel í Hraunvallaskóla

Skarðshlíðarskóli 3.-23. júlí – velja Skarðsel í Skarðshlíðarskóla

Ásvallalaug 9.-21. ágúst – velja Tröllaheimar í Áslandsskóla


Skráning og framboð - https://sumar.vala.is/#/login

Tómstund 2023 - búið að opna fyrir skráningu

Skráning í sumar-tómstund 2023 hefst á mánudagsmorgun, 15. maí.
Tómstund er sumarnámskeið fyrir nemendur í 4.-7. bekk (fædd 2010-2013). Tómstund fer fram á tveimur stöðum í sumar, Hvaleyrarskóla og Víðistaðaskóla. Helstu markmið tómstundar er að virkja börn í sumarfríi, gefa þeim tækifæri á að hitta önnur börn á svipuðu reki og kynnast áhugaverðum viðfangsefnum. Námskeiðsvikurnar eru fjórar talsins og verður mismunandi og spennandi þema í hverri viku.
Allar helstu upplýsingar varðandi skráningu, dagskrá, þema og margt fleira má finna inn í Tómstund-bæklingur sem er hér undir.

English version:
Registration for Tómstund 2023 begins on Monday morning, May 15th.
Tómstund is a summer course for students in grades 4-7 (born 2010-2013). Tómstund takes place in two places this summer, Hvaleyrarskóli and Víðistaðaskóli. The main goal of Tómstund is to engage children during the summer holidays, give them the opportunity to meet other children on a similar journey and learn about interesting subjects. There are four course weeks and each week will have a different and exciting theme.
All the main information regarding registration, program, theme and much more can be found in the attached Tómstund-brochure.
Big picture
Big picture

Foreldrarölt

Á undanförnum árum hafa foreldrar og forráðamenn í samstarfi við foreldrafélög skólanna, félagsmiðstöðvarnar og lögregluna farið í skipulagt foreldrarölt á kvöldin um helgar. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.


Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist þú öðrum foreldrum og hverfinu, styrkir tengslanet og auðveldar samskipti foreldra/forsjáraðila, hefur þú áhrif á góðan hverfisbrag og það félagslega umhverfi sem börnin okkar og unglingar búa í.


Besta forvörn ósækilegrar hópamyndunar unglinga er sýnileiki fullorðinna og með virku foreldrarölti minnka líkur á hópamyndunum, notkun vímuefna, eineltis og ofbelis. Allir þessir hlutir ógna öryggi hverfisins okkar, sem hefur bein eða óbein áhrif á þitt barn.


Foreldraröltið er frábært tækifæri til að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga, búa til tengslanet þeirra á milli og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga að loknum lögbundnum útivistartíma. Röltið er einnig gott verkfæri til að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.


Foreldrarölt fer alla jafna fram á föstudagskvöldum en stundum kemur það fyrir að það sé á miðvikudagskvöldum.


Hér er bæklingur um mikilvægi foreldrarölts sem við hvetjum ykkur til þess að lesa vel.
Big picture

Tómstundamiðstöð skólans

Hér er dagskrá Hraunsels og Mosans fyrir MAÍ. Endilega hvetjið nemendur til að taka þátt, þetta er svo skemmtilegt.