Fréttabréf Naustaskóla

7. tbl 10. árg. 19.september 2018

Kæra skólasamfélag

Nú höfum við hafið tíunda starfsárið okkar í Naustaskóla. Við rennum bjartsýn inn í nýtt skólaár, með metfjölda nemenda í sögu skólans, og hlökkum til að takast á við þær áskoranir sem skólastarfið felur í sér. Við óskum eftir góðu samstarfi við heimili, enda er það lykillinn að velferð og vellíðan nemenda skólans. Í stóru skólasamfélagi er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp á í dagsins önn og mælumst við til að foreldrar og forráðamenn hafi beint samband við skólann ef spurningar vakna varðandi skólastarfið. Áfram verður unnið með Jákvæðan aga, sem er agastefnan okkar í Naustaskóla, og stefnt er að því að bjóða upp á foreldranámskeið í vetur. Í Naustaskóla er ekki lögð áhersla á heimanám, nema foreldrar óski sérstaklega eftir heimanámi. Hinsvegar leggjum við mikla áherslu á að allir nemendur lesi heima á hverjum degi, til þessa að efla læsi og lestrarfærni. Um það verkefni þurfum við öll að standa saman, skóli, foreldrar og nemendur, enda er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að börnin verði fljúgandi læs í breiðri merkingu þess orðs. Þarna er það eins og með svo margt annað, að æfingin skapar meistarann, og því mikilvægast af öllu að gefa lestrariðkun góðan tíma og mikla athygli, og að við fullorðna fólkið séum góðar fyrirmyndir í þeim efnum. Með von um gott samstarf og árangursríkt skólastarf. Bryndís Björnsdóttir. skólastjóri.

Umferð við Naustaskóla !

Sem fyrr minnum við á sleppistæðin sem eru við Kjarnagötu og Lækjartún og hvetjum til þess að þau séu nýtt ef börnum er ekið í skólann. Eitthvað hefur borið á að bílum sé lagt á hringtorgið við aðalinngang skólans. Við það skapast mikil hætta og þurfa bílarnir þá að bakka oft tilbaka. Hjálpumst öll að að láta þetta ganga á morgnanna og förum eftir reglum :)

Gjöf frá foreldraráði

Skólanum barst höfðingleg gjöf frá foreldraráðinu. Það kom styrkur til dóta og tækjakaupa fyrir frístund. Við þökkum þeim kærlega fyrir það.

Naustaskóli

Hólmatún 2 | 600 Akureyri

Sími: 460 4100 Frístund: 460 4111

Netfang: naustaskoli@akureyri.is

Big picture

Brunaæfing 24.september

Á mánudagsmorgun í næstu viku 24. september kl. 9:00 verður brunaæfing – það munu allir vera látnir vita af þessari æfingu. Nemendur eiga að taka með sér skó inn á svæðin. Markmið þesarar æfingar er að æfa verklag og skipulag til þess að allir viti sín hlutverk og hvert á að fara. Við söfnum nemendum út á fótboltavöll og tökum nafnakall.

Hnetubann

Hnetubann!! Nú er svo komið að vegna ofnæmis meðal nemenda í húsinu sjáum við okkur knúin til að lýsa yfir „hnetubanni“ í Naustaskóla. Við biðjum nemendur og foreldra um að aðstoða okkur með því að halda öllu heima sem inniheldur hnetur…!!!!

Lúsin!

Lúsin Við höfum ekki farið varhluta af heimsókn lúsarinnar þetta haustið og því mikilvægt að foreldrar séu stöðugt á verði og láti skólann vita ef vart verður við kvikindið. Hægt er að finna prýðilegt fræðsluefni um lúsaleit á vefnum http://www.farvellus.dk en þar má finna myndbönd með leiðbeiningum o.fl

Mentor

Hagnýtar upplýsingar varðandi mentor.is

Til að komast í Mentor (www.mentor.is) þarf að hafa aðgangsorð og lykilorð. Á Mentor má finna upplýsingar um nám nemenda, bekkjarlista, ástundun, verkefnabækur, dagbækur o.fl. Inni á svæði foreldra er líka hægt að tilkynna veikindi (allt að tveimur dögum í einum) þannig að ekki þurfi að hringja að morgni til í skólann heldur fáið þið staðfestingu senda á netfangið ykkur þegar ritari hefur móttekið beiðnina. Með þessu er t.d. hægt að skrá á miðvikudagskvöldi veikindi vegna fimmtudags.

Þeir sem ekki hafa aðgang að Mentor, eða eru búnir að gleyma aðgangsorðinu, geta leyst málið með því að fara inn á síðuna: www.mentor.is Þar er hægt að skrá sig inn í kerfið með notendanafni sem er kennitala án bandstriks. Sé viðkomandi ekki með lykilorð er smellt á "Gleymt lykilorð". Þá fer af stað ferli sem viðkomandi er leiddur í gegnum og fær þá sent lykilorð í tölvupósti. Ef allt kemur fyrir ekki er hægt að hafa samband við ritara skólans og fá sent lykilorð.

Nemendur eiga ekki undir neinum kringumstæðum að fara inn á vefinn með aðgangsorði foreldra sinna því þar birtast aðrar upplýsingar en á þeirra eigin spjaldi og þau eiga t.d. ekki að hafa aðgang að veikindaskráningu.

Nemendur eiga hins vegar sinn eigin aðgang sem þau geta notað til að skoða meðal annars heimavinnu. Á foreldraspjaldi fyrir neðan mynd af barninu er hnappur þar sem hægt er að breyta lykilorði eða búa til nýtt lykilorð fyrir barnið. Endilega aðstoðið börn ykkar við að fara inná Mentor ef þau kunna það ekki nú þegar. Nemendur geta breytt lykilorðinu sínu eins og foreldrar þegar skráð er inn í fyrsta sinn í kerfið.

Á eftirfarandi slóð má finna afar góðar leiðbeiningar (kennslumyndbönd) fyrir foreldra: http://mentor.is/Spurningar/Fyrir-nemendur-og-a%C3%B0standendur/Kennslumyndbond

Persónuverndarlög

Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77 23. maí 2018 Í nýjum lögum um persónuvernd eru gerðar miklar kröfur á fyrirtæki og opinberar stofnanir um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Þessa dagana er markvisst unnið að því að meta öryggismál, innleiða verkferla og bæta vinnubrögð við meðferð og geymslu gagna. Margt á eftir að skýra betur en hér er getið nokkurra atriða sem gott er að foreldrar viti til að byrja með. Allar viðkvæmar persónuupplýsingar sem unnið er með í skólanum verða geymdar í læstum skjalaskáp sem geymdur er í læstu rými í stjórnunarálmu skólans. Skólastjóri (ásamt helstu samstarfsmönnum) stýrir aðgangi að þessu rými. Skráningar í rafræn upplýsingakerfi, t.d. Mentor, verða takmarkaðar hvað varðar efni sem hingað til hefur verið skráð í Dagbók. Þar hafa verið færslur um ýmiss konar vanda, svo sem hegðun og vinnubrögð. Núna verður sett inn dagsetning á símtali, pósti, fundi o.s.frv. og einungis nefnt hvernig mál var um að ræða. Ef þörf er að eiga nánari lýsingu verður hún prentuð á blað sem sett verður í einstaklingsmöppu nemanda en ekki geymd í rafrænu formi (verður t.d. eytt strax úr tölvunni sem notuð var til að skrá blaðið sem prentað var). Reikna má með að skráningum fækki en símtölum fjölgi þegar dregið verður úr rafrænum samskiptum. Í erfiðum málum, þar sem t.d. getur verið ágreiningur milli foreldra og starfsmanna, mun verða kallað til fundar svo fljótt sem auðið er. Upplýsingar frá fundum um nemenda, t.d. teymisfundum verða geymdar í persónumöppu viðkomandi nemanda og geymt í skjalaskáp. Hið sama gildir um greiningar, upplýsingar til sérfræðinga (starfsmanna fræðslusviðs, sálfræðinga, talmeinafræðinga) o.fl. Upplýsingar um námsmat eru geymdar í Mentor og stundum í persónumöppu. Upplýsingar um heilsu, ofnæmi og slíkt verða geymdar hjá skólahjúkrunarfræðingi og stundum í persónumöppu. Upplýsingar um ofnæmi af ýmsu tagi eru ennfremur hjá starfsmönnum sem á þurfa að halda en foreldrar skrifa undir yfirlýsingu um að upplýsa megi starfsmenn um heilsufar barna ef svo ber undir. Það á einnig við um lyfjagjöf á skólatíma. Allir foreldrar verða að gæta þagmælsku varðandi upplýsingar sem þeir sjá eða heyra og tengjast öðrum börnum en þeirra eigin. Þetta á ekki síst við þegar foreldrar koma í heimsókn í skólann. Óskað er eftir að foreldrar láti vita af öllum heimsóknum í skólann, komi við á skrifstofu og/eða ræði við kennara/stjórnanda um ferðir sínar. Við reiknum með að í foreldraviðtölum í haust verði eyðublöð til undirritunar þagnar- og trúnaðarskyldu. Útbúið hefur verið eyðublað sem allir sem koma í skólann þurfa að undirrita. Er þá átt við foreldra, sérfræðinga, fyrirlesara, iðnaðarmenn og fleiri sem einhverra hluta vegna eiga erindi í skólann. Á eyðublaðinu er ítrekuð trúnaðarskylda varðandi öll einstaklingsmál sem viðkomandi kunna að fá vitneskju um eða verða vitni að fyrir tilviljun.. Leyfilegt er að birta myndir úr skólastarfinu á heimasíðu en flestir foreldrar hafa ritað undir samþykki þess efnis. Miðað er við að ekki séu birtar myndir af einstaklingum þar sem þeir eru nafngreindir. Myndir af einstaklingum mega vera í rafrænni nemendaskrá (Mentor). Á haustdögum verða reglur um meðferð upplýsinga og fleira tengt þessu máli settar á heimasíðu skólans.