Flataskólafréttir

Skólaárið 2022-2023 - 3. apríl 2023

Kæra skólasamfélag!

Það hefur mikið mætt á starfsfólki og nemendum í Flataskóla undanfarnar vikur og mánuði vegna framkvæmda og viðgerða á skólanum. Við höfum hins vegar náð að halda skólastarfi gangandi með samhentu átaki og lausnamiðaðri nálgun. Verkfræðistofan Mannvit hefur nú tjáð okkur að framkvæmdum á þeim svæðum sem við höfum beðið eftir til að geta notað á þessu skólaári verði lokið eftir páska að sinni og aðrar framkvæmdir muni hefjast aftur þegar skóla lýkur í sumar.

Þetta þýðir að skólastarf getur farið fram í húsinu án þess að framkvæmdir séu í gangi á göngum skólans sem mun skipta okkur miklu máli. Áfram verður unnið að því að hreinsa skemmt efni m.a. úr smíðastofu skólans og matsal, en það verður gert þannig að umgangur iðnaðarfólks og framkvæmdaraðila verður ekki um skólann.

Þegar nemendur snúa aftur eftir páskaleyfi verður búið að ljúka þrifum á skólanum og við fáum afhentar fjórar kennslustofur til viðbótar. Það verður áfram þröngt um okkur og án efa verður þörf á áframhaldandi lausnamiðaðri nálgun í skólastarfinu – en þetta mun létta mjög á okkur öllum, starfsfólki og nemendum.

Í sumar fara fram umfangsmiklar framkvæmdir, svo sem á þaki skólans og aðrar framkvæmdir sem eru hávaðasamar og viðamiklar. Við sendum út nánari upplýsingar um þær á seinni stigum, en útboð vegna þessara framkvæmda mun hefjast fljótlega. Fyrirsjáanlegt er að suðurálma skólans verður ekki tilbúin til notkunar næsta vetur. Það sleppur hins vegar til vegna þess að nemendum í skólanum mun fækka nokkuð milli ára því við útskrifum rúmlega 70 nemendur úr 7. bekk en fáum inn rúmlega 30 nemendur í 1. bekk. Að auki hefur svo verið ákveðið að leikskóladeild skólans verði flutt annað frá og með haustinu.


Mig langar að þakka og hrósa bæði okkar frábæra starfsfólki og nemendum fyrir þeirra vinnu og framlag síðustu vikur. Við í Flataskóla óskum ykkar gleðilegs páskaleyfis og sjáumst hress eftir páska!


Kærar kveðjur úr skólanum,

Ágúst skólastjóri

Big picture
Big picture

Leikskóladeildin flytur "heim"

Þann 17. apríl flytur leikskóladeild Flataskóla aftur "heim" og verður þá staðsett í nýju lausu kennslustofunum sem komnar eru vestan við skólann. Hins vegar hefur verið ákveðið að leikskóladeildin verði lögð niður frá og með haustinu. Fjögurra ára nemendurnir okkar hafa nú þegar fengið pláss á öðrum leikskólum en fimm ára nemendurnir okkar verða hjá okkur fram á haustið þegar flest þeirra hefja nám í 1. bekk Flataskóla.

Helstu viðburðir á næstunni

 • 1.-10. apríl - Páskaleyfi grunnskóla
 • 11. apríl - Kennsla hefst skv. stundaskrá að loknu páskaleyfi
 • 19. apríl - Flatóvisjón
 • 20. apríl - Sumardagurinn fyrsti - Frí
 • 1. maí - Verkalýðsdagurinn - Frí
 • 4. maí - Árshátíð 7. bekkjar
 • 12. maí - Schoolovision
 • 16. maí - 3. bekkur í sveitaferð
 • 18. maí - Upptigningardagur - Frí
 • 19. maí - Skipulagsdagur
 • 29. maí - Annar í hvítasunnu - Frí
 • 7. júní - Skólaslit

Upplestrarkeppni 7. bekkjar

Hin árlega upplestrarkeppni 7. bekkjar var haldin í Flataskóla þann 28. mars. Þar voru valdir fulltrúar skólans sem keppa til úrslita í Stóru upplestrarkeppni grunnskólanna í Garðabæ sem fram fer þann 27. apríl nk. Aðdragandi keppninnar var að venju nokkur en nemendur í 7. bekk verja töluverðum tíma í að æfa sig í upplestri og velja síðan nokkra fulltrúa úr árganginum sem keppa með sér í upplestri og framsögn. Í þetta skiptið voru það 15 nemendur sem tóku þátt í lokakeppni skólans og stóðu þeir sig allir frábærlega. Það var því úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina en að lokum voru valdir tveir nemendur úr hópnum og einn til vara sem fulltrúar Flataskóla. Í ár eru það því Tristan Valur Brynjarsson og Þórður Aron Einarsson sem verða okkar fulltrúar, til vara verður Viktoría Jónsdóttir. Innilega til hamingju með árangurinn!

Grease

Nemendur á miðstigi Flataskóla sýndu söngleikinn Grease á dögunum við mikinn fögnuð áhorfenda. Það voru nemendur í leiklistarfjölvali á miðstigi sem höfðu æft söngleikinn í fjölvalstímum á haustönninni undir stjórn þriggja kennara skólans. Áætlað var að sýna verkið í byrjun ársins en vegna húsnæðisþrenginga skólans þurfti að fresta sýningum um nokkurn tíma. Í marsmánuði fengum við síðan inni í Tónlistarskólanum fyrir nokkrar æfingar og verkið var loks sett á svið í sal Tónlistarskólans fyrir aðra nemendur Flataskóla og forráðamenn þann 10. mars. Óhætt er að segja að vel tókst til, nemendur skiluðu hlutverkum sínum með miklum sóma og sungu og léku af mikilli list.

Skíðaferðir

Skíðaferðirnar okkar í marsmánuði tókust samkvæmt áætlun og var mikil gleði hjá nemendum með að komast loksins í skíðaferð. Þó að það væri kalt í fjallinu kvartaði enginn yfir því heldur nutu nemendur og starfsmenn augnabliksins og renndu sér af miklum móð. Nemendur 6. bekkjar gistu svo í fjallinu að venju og áttu skemmtilegan sólarhring í samveru og útiveru.

Foreldrakönnun Skólapúlsins

Í febrúarmánuði fékk hluti foreldra skólans senda spurningakönnun frá Skólapúlsinum. Um er að ræða úrtak sem Skólapúlsinn tekur úr aðstandendalista skólans en könnun þessi er lögð fyrir annað hvert ár. Niðurstöður liggja nú fyrir og má nálgast þær á heimasíðu skólans eða með því að smella hér.

Flestir þættir könnunarinnar koma vel út, sérstaklega hvað varðar líðan og velferð nemenda, þ.e. líðan í skólanum, samskipti starfsfólks við nemendur, stöðu eineltismála o.s.frv. Hins vegar taka viðhorf foreldra til aðstöðu í skólanum hressilega dýfu og þarf það ekki að koma á óvart miðað við stöðuna í húsnæðismálunum hjá okkur þegar könnunin var lögð fyrir. Lesa má út úr niðurstöðunum að koma þurfi betur til móts við stúlkur á miðstigi skólans hvað varðar nám og kennslu, vinnufrið í kennslustundum o.fl. og er það punktur sem við þurfum að skoða sérstaklega.

Skóladagatal næsta skólaárs

Skóladagatal næsta skólaárs liggur nú fyrir og má sjá það hér fyrir neðan (hægt að smella á myndina til að fá fulla stærð). Skólasetning verður 23. ágúst, vetrarleyfi dagana 19.-23. febrúar og skólaslit 7. júní.

Opinn fundur skólaráðs 29. mars 2023

Einu sinni á ári heldur skólaráð skólans opinn fund þar sem farið er yfir það sem er efst á baugi í skólastarfinu og foreldrum gefst færi á að koma með fyrirspurnir og athugasemdir um starfið. Í ár var fundurinn í fjarfundarformi og helsta umfjöllunarefnið var að sjálfsögðu staðan í húsnæðismálum skólans. Á fundinn mættu þau Alma Ívarsdóttir og Arnar Már Ágústsson frá verkfræðistofunni Mannvit og fóru þau yfir stöðuna varðandi framkvæmdir við skólann. Ágúst skólastjóri kynnti niðurröðun í húsið næstu vikurnar og einnig voru kynntar stuttlega niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins. Hér fyrir neðan má nálgast upptöku frá fundinum.
Opinn fundur skólaráðs 29 mars 2023

Opið fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Er framúrskarandi kennari, verkefni og/eða menntaumbætur í þínu sveitarfélagi? Því ekki að tilnefna þau til íslensku menntaverðlaunanna?

Íslensku menntaverðlaunin 2023 verða afhent að Bessastöðum í nóvember næstkomandi og nú hefur verið opnað fyrir tilnefningar.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Verðlaunin eru í fimm flokkum:

 1. Framúrskarandi skóla- eða menntaumbætur
 2. Framúrskarandi kennari
 3. Framúrskarandi þróunarverkefni
 4. Framúrskarandi iðn- og verkmenntun
 5. Hvatningarverðlaun til einstaklings, hóps eða samtaka

Tilnefningar skulu hafa borist fyrir 1. júní n.k.

Sjá nánar: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Mentor - handbók fyrir aðstandendur

Allir forráðamenn ættu að hafa aðgang að mentor en þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi ástundun og nám nemenda. Rétt er að benda á að nálgast má handbók fyrir aðstandendur í mentorkerfinu á heimasíðu mentor.is undir "aðstoð" eða með því að smella hér..
Matartíminn - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 20. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað og þá taka þær gildi um næstu mánaðamót. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-16:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.