Fréttabréf Naustaskóla

7. tbl 11. árg. 2.september 2019

Kæra skólasamfélag

Nú höldum við af stað inn í enn eitt nýtt skólaár sem að þessu sinni verður helgað 10.ára afmæli Naustaskóla. Við munum halda veglega afmælishátíð í nóvember og vera með ýmsar uppákomur í skólastarfinu tengdar afmælinu. Við óskum eftir góðu samstarfi við heimili, enda er það lykillinn að velferð og vellíðan nemenda skólans. Í stóru skólasamfélagi er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp á í dagsins önn og mælumst við til að foreldrar og forráðamenn hafi beint samband við skólann ef spurningar vakna varðandi skólastarfið. Áfram verður unnið með Jákvæðan aga, sem er agastefnan okkar í Naustaskóla og verður boðið upp á foreldranámskeið í vetur. Einnig ætlum við að hafa átak í stundvísi nemenda en um það verkefni þurfum við öll að standa saman, skóli, foreldrar og nemendur, enda er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að börnin tileinki sér góðar venjur eins og stundvísi sem er svo nauðsynleg dyggð í samfélagi nútímans.

Megi gleði, kraftur og góð ástundun einkenna skólastarfið í vetur.

Bryndís Björnsdóttir skólastjóri.

Mentor upplýsingar

Sælir foreldrar, hér fyrir neðan er pdf skjal með alls kyns upplýsingum um mentor og mentor appið. Fyrir þá foreldra sem eiga börn sem eru að byrja skólagönguna þá er nauðsynlegt að kíkja á þetta skjal.

Óskilamunir

Eins og öll síðustu ár þá höfum við látið Rauða krossinn fá óskilamuni tvisvar sinnum á hverju skólaári. Það er því miður alveg ótrúlega mikið magn af fötum sem safnast hér saman í hverri viku. Við ætlum að biðja ykkur foreldra í samstarfi með börnunum ykkar að ræða mikilvægi þess að taka með sér fötin heim eftir hvern skóladag. Að sjálfsögðu má geyma inniskó í skólanum en allt annað á að fara heim eftir skóladaginn.

Göngum í skólann

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt samtarfsaðilum ræsir verkefnið Göngum í skólann í þrettánda sinn miðvikudaginn 4. september næstkomandi.

Á síðasta ári tóku milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og fyrsta árið voru þátttökuskólar 26 en alls 73 skólar skráðu sig til leiks árið 2018.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Átaksverkefnið er orðið að árlegum viðburði í mörgum skólum og býður upp á lærdómsríka og skemmtilega leið fyrir nemendur til að fræðast um umferðarreglur, öryggi og umhverfismál. .

Á döfinni í september

3.sept - útivistardagur

13.sept - skipulagsdagur (enginn skóli)

16.sept - Dagur íslenskrar náttúru

19.sept - samræmd próf ísl. 7.b

20.sept - samræmd próf stæ. 7.b

26.sept - samræmd próf ísl. 4.b

27.sept - samræmd próf stæ. 4.b

Mötuneyti, mjólk og ávextir

Nú ættu að hafa borist fyrstu rukkanir skólaársins fyrir Frístund og mötuneyti en við biðjum foreldra að athuga að þar eru rukkaðir inn nokkuð fleiri dagar en venjulega þar sem um ræðir bæði ágúst og septembermánuði. Við bíðum hins vegar til 1. október með að rukka inn gjald fyrir ávaxtaáskrift og mjólkuráskrift fyrir haustönninna.

Hnetubann!

Hnetubann!! Nú er svo komið að vegna ofnæmis meðal nemenda í húsinu sjáum við okkur knúin til að lýsa yfir „hnetubanni“ í Naustaskóla. Við biðjum nemendur og foreldra um að aðstoða okkur með því að halda öllu heima sem inniheldur hnetur…!!!!

Lúsin!

Við höfum ekki farið varhluta af heimsókn lúsarinnar þetta haustið og því mikilvægt að foreldrar séu stöðugt á verði og láti skólann vita ef vart verður við kvikindið. Hægt er að finna prýðilegt fræðsluefni um lúsaleit á vefnum http://www.farvellus.dk en þar má finna myndbönd með leiðbeiningum o.fl.

Umferð við Naustaskóla !

Sem fyrr minnum við á sleppistæðin sem eru við Kjarnagötu og Lækjartún og hvetjum til þess að þau séu nýtt ef börnum er ekið í skólann. Eitthvað hefur borið á að bílum sé lagt á hringtorgið við aðalinngang skólans. Við það skapast mikil hætta og þurfa bílarnir þá að bakka oft tilbaka. Hjálpumst öll að að láta þetta ganga á morgnana og förum eftir reglum :)

Hjóla og hlaupahjólareglur

Reglur um hjól og hlaupahjól í Naustaskóla.

  1. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra/forráðamanna sem skulu meta færni og getu nemandans sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  2. Algjört skilyrði er að nota viðeigandi öryggisbúnað.
  3. Ekki má nota reiðhjól og hlaupahjól í frímínútum eða meðan á skólastarfi og Frístundargæslu stendur. Við brot á þessari reglu má skólinn kyrrsetja hjól og skal foreldri eða forráðamaður þá sækja hjólið.
  4. Þegar komið er á hjóli eða hlaupahjóli í skólann á að geyma þau læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur. Það má ekki geyma hjól eða hlaupahjól inni í skólanum. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum. Þjófnað eða skemmdarverk getur viðkomandi kært til lögreglu.
Big picture
Big picture