Víðóma

Haust 2022

Jólakveðja frá stjórnendum

Kæru foreldrar og forsjáraðilar,


Starfsfólk Víðistaðaskóla óskar ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og gleðilegs nýs árs. Þökkum gott samstarf á árinu sem er að líða. Kennsla hefst aftur á nýju ári 3. jan skv. Stundaskrá.


Kær kveðja

Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri og starfsfólk Víðistaðaskóla

Jólaskemmtanir á öllum stigum

Við lukum þessari skólaönn með stofujólum og skemmtun á hverju stigi. Það er virkilega notalegt að enda önnina og fara inn í jólafríið með notalegri samveru. Kennarar og nemendur eru búnir að gera stofurnar huggulegar þar sem snætt er sparinesti og lesin saga, átt samræður eða annað sem hentar hverjum hóp fyrir sig. Yngri nemendur dansa í kringum jólatré og hitta þar jólasveina. Elstu börnin dansa líka en kannski ekki mikið í kringum tréð. Unglingadeildin er með smá sýningu og ball á eftir þar sem þau kveðja önnina í hoppandi gleði.

Jólabingó Nemendafélags Víðistaðaskóla

Hið árlega Jólabingó Nemendafélags Víðistaðaskóla var haldið þann 14. desember. Mæting á bingóið var mjög góð enda var salurinn alveg stútfullur. Þetta árið ákvað nemendafélagið að styrkja SKB - Styrktarfélag Krabbameinssjúkra Barna og söfnuðust rúmar 300.000 kr.


Hápunktur kvöldsins var hins vegar sá að rafmagnslaust var í bænum í dágóða stund um kvöldið. Þetta stöðvaði ekki einn eða neinn. Fólk reif bara upp símann og áfram gakk. Frábært kvöld með frábæru fólki.

Big picture
Big picture

Nemendafélag Víðistaðaskóla 2022-2023

Eftirfarandi nemendur mynda Nemendafélag Víðistaðaskóla 2022-2023


10.bekkur:

Björg Eva Friðriksdóttir, 10.SEG, formaður

Andri Ólafsson, 10.KGU, varaformaður

Ingi Árnason, 10.SEG, gjaldkeri

Bergur Þorgils Vilhjálmsson 10.SHS

Bryndís Pálmadóttir, 10.KGU

Steingerður Aldís Valsdóttir, 10.SHS


9.bekkur

Almar Andri Arnarsson, 9.SS

Hekla Mist Einarsdóttir 9.SS

Hrafnhildur Björk Einarsdóttir, 9.HH

Ísabella Berg Einarsdóttir, 9.HH

Jóhannes Árni Lund 9.ÞÞ

Lilja Rún Hrafnsdóttir 9.VP

Thelma Karen Pálmadóttir 9.ÞÞ

Ægir Ýmisson 9.VP


8.bekkur

Hekla Dís Egilsdóttir, 8.BMV

Högni Dignus Maríuson, 8.AMF

Ingvar Steingrímsson 8.SH

Kári Pálmason 8.AMF

Steinunn Erla Sigmarsdóttir, 8.BMV

Tómas Heiðar Helgason 8.SH

Big picture

Undirbúningur fyrir söngleik hafinn

Sviðslist hefur ávallt verið stór hluti skólagöngu nemenda í Víðistaðaskóla enda er það fag sem allir nemendur taka þátt í í 10.bekk. Allir nemendur fá mikilvæg hlutverk í sýningunni og leggja sitt af mörkum. Sumir leika á sviði, aðrir eru í markaðssetningu og síðan þarf alltaf öfluga aðila til sjá um ljós og hljóð.


Hann Níels Thibaud Girerd hefur verið ráðinn í starf leikstjóra skólaárið 2022-2023. Við erum mjög heppin að fá slíkan reynslubolta í starfið.


Söngleikurinn sem verður sýndur í ár er Singin' in the Rain. Söngleikurinn var fyrst sýndur árið 1983 en hann er byggður á samnefndri kvikmynd frá árinu 1953.


Nemendur hafa fengið hlutverk í söngleiknum og undirbúningur er í fullum gangi.


Söngleikurinn verður frumsýndur um miðjan febrúar.

Skáld í Skólum

Á hverju ári hefur Höfundamiðstöð RSÍ boðið grunnskólum upp á bókmenntadagskrá undir nafninu Skáld í skólum. Það felur í sér að rithöfundar heimsækja grunnskólana og fjalla um hinar ýmsu bókmenntir. Tilgangurinn og vonin með heimsóknum höfundana er sú að smita frá sér lestrar- og sköpunargleði. Í ár var enginn breyting á því og fengum við í Víðistaðaskóla til okkar nokkra rithöfunda. Rithöfundarnir frá Höfundamiðstöðinni í ár eru sex talsins og fengum við til okkar Yrsu Þöll, Benný Sif, Ævar Þór, Arndísi Þórarins, Aðalsteinn Emil og María Elísabet. Þeir kynntu hinar ýmsu bækur, og bókmenntir, ræddu um lestur og skrif. Þeir sögðu frá því hvernig þeir fá hugmyndir að sögupersónum, söguþræði og hinum ýmsu ævintýrum sem rata í bækur þeirra.


Á yngsta stig komu þær Yrsa Þöll Gylfadóttir og Benný Sif Ísleifsdóttir. Það sem einkennir þeirra barnabækur eru hversdagurinn. Þær sögðu frá því hversu mikið þeim þykir hið daglega líf og það sem við gerum á degi hverjum vera spennandi. Ástæðu þess sögðu þær vera þá að við getum öll tengt við sögupersónu sem er að upplifa eitthvað í sínu hversdagslega lífi. Þær hafa báðar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins. Benný Sif gaf út barnabækurnar Jólasveinarannsóknin og svo Álfarannsóknin. Yrsa hefur gefið út bókaflokkinn Bekkurinn minn.


Miðdeildin fékk til sín Ævar Þór Benediktsson og Arndísi Þórarinsdóttir. Ævar er vel þekktur meðal nemanda skólans og víðar. En hann hefur gefið út hinar ýmsu bækur en þekktastar eru líklega Þínar eigin … bækur og Skólaslit. Ævar hefur haft talsverð áhrif á lestrarátök í landinu en það hefur verið eitt af hans ástríðum að stuðla að lestri. Arndís hefur m.a skrifað þríleikinn um Nærbuxnaverksmiðjuna og Bál tímans: Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár. Þau hafa bæði fengið bókamenntaverðlaun fyrir bækur sínar.


Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson og María Elísabet Bragadóttir heimsóttu unglingastigið og lýstu því frelsi sem fylgir heimi bókmennta. Aðalsteinn hefur sent frá sér smásagnasöfnin 500 dagar af regni og Svefngarðinn, sem hlutu báðar lof gagnrýnenda og lesenda. María Elísabet hefur sent frá sér tvær bækur, bókina Herbergi í öðrum heimi og Sápufuglinn. Þau hafa bæði verið með skapandi námskeið fyrir ungmenni og lagt sitt af mörkum í skapaheim orða og lesturs.


Við erum öll þakklát fyrir að fá til okkar svo áhugaverða og skemmtilega rithöfunda sem gefa okkur færi á að gægjast í hugarheim þeirra. Það voru þó nokkrir nemendur sem ætluðu að leyfa skáldagyðju sinni að blómstra og hver veit nema við eigum framtíðarrithöfund í okkar nemendum.

Upplestur frá Bjarna Fritz

Bjarni Fritz hefur nú heldur betur slegið í gegn fyrir skrif sín um Orra óstöðvandi og vinkonu hans Sölku. Hann hefur undanfarin ár komið til okkar og lesið fyrir nemendur í 2. -7. bekk um þau ævintýri sem vinirnir lenda í. Í ár kom hann og las úr nýjustu bókunum en sagði okkur jafnframt að bókin um Orra væri sú síðasta í þeim bókaflokki. Hann sagði okkur frá því hvernig hann fengi hugmyndir að skrifum sínum og sagði okkur sögur úr bókinni sem eru sannar. Nemendur voru virkilega spenntir, hlustuðu af athygli og vildu öll að lesturinn myndi halda áfram fram eftir degi.

Slökkviliðið í heimsókn

Á hverju ári fer slökkviliðið í heimsókn í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu til að kynna starf sitt, fræða nemendur um hættur á heimilinu og viðbrögð okkar við hættum. 3. bekkur fékk til sín slökkviliðið sem ræddi við nemendur og voru allir mjög áhugasamir um störf þeirra. Að fræðslu lokinni fengu nemendur að fara út með slökkviliðsmönnum og kennurum til að skoða sjúkrabílinn og allt sem honum fylgir. Einnig fengum við að skoða slökkviliðsbílinn og góða fræðslu um þann búnað sem þar er að finna. Nemendur fengu svo allir góðar gjafir frá slökkviliðinu en þar var að finna bókina Brennivargur, endurskinsmerki og fleira.


Erindi um móttöku flóttafólks

Kristrún Sigurjónsdóttir kennslufulltrúi fjölmenningar kom til okkar á skipulagsdeginum 14. nóvember og var með erindi um móttöku flóttafólks/nemenda. Líkt og aðrir skólar á Höfuðborgarsvæðinu hefur Víðistaðaskóli verið að taka á móti börnum á flótta frá ýmsum löndum þ.á.m. Afganistan, Sýrlandi og Úkraínu. Það er margt sem þarf að huga að við að veita þessum börnum þjónustu og því var gott að fá þetta erindi.


Allir krakkar sem koma til okkar frá öðrum löndum fá íslenskukennslu í Veröld og kennararnir í Veröld hjálpa þeim einnig að aðlagast skólanum. Veröld hefur verið stækkuð umtalsvert á þessu skólaári.

Ungmennaþing

Rúmlega 110 fulltrúar barna og ungmenna í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar komu saman á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar 16. nóvember. Víðistaðaskóli var með tuttugu fulltrúa á þinginu.


Ungmennaþingið er tækifæri fyrir börn til að koma skoðunum sínum á framfæri um samfélagið okkar þ.á.m. nám, íþróttir og tómstundir.

Val á miðstigi

Í haust var tekin sú ákvörðun á miðstigi að bjóða upp á valtíma eina kennslustund á viku. Nemendur velja á þriggja vikna fresti það val sem þeir hafa áhuga á. Boðið er upp á kringum í 12 mismunandi kosti. Þar er t.d. hægt að velja hugleiðsluferðalag, karíókí, dans, vinabönd, teikna eftir fyrirmynd, spil og krossgátur, sudoku og orðasúpur, teiknimyndablaðagerð og spagettí-sykurpúða áskorun.

Skólabúðir á Reykjum

Í október fóru nemendur í 7. bekk á Reyki í Hrútafirði. UMFÍ hefur tekið við rekstri Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði. Nemendur komu heim sælir og glaðir enda búnir að eignast nýja vini, styrkja félagatengsl sem voru fyrir og njóta sín í öðru skólaumhverfi. Nemendur vinna ýmis fjölbreytt verkefni á Reykjum bæði innan og utandyra. Nemendur fengu diskósund og hrekkjuvökuball sem vakti mikla kátínu.


Krakkarnir tóku einnig þátt í ýmsum keppnum og þar má nefna að Ólafur Leó tók fyrsta sætið í tískusýningunni og Iku annað sætið. Einnig tók Laufey Ósk fyrsta sætið í Stinger-keppninni. Krakkarnir fengu mikið hrós frá starfsfólki fyrir að standa sig vel í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk.

Setning upplestrarkeppninnar hjá 4. og 7. bekk

Setning upplestrarkeppninar var haldin 16. nóvember á degi íslenskrar tungu, þar sem nemendur úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar fluttu tónlistaratriði. Setningin markar það upphaf þar sem nemendur í 4. og 7. hefja undirbúning fyrir upplestrarhátíðina sjálfa. Það krefst mikillar þjálfunar enda vilja allir standa sig mjög vel.

Lýðræðisþing

18. nóvember var haldið Lýðræðisþing á öllum stigum. Lýðræðisþingið er árlegur viðburður í Víðistaðaskóla þar sem öllum nemendum er skipt í hópa og þeir fá tækifæri til að áhrif á skólastarfið.


Við upphaf skólaárs er kosinn einn lýðræðisfulltrúi úr hverjum bekk. Þessir fulltrúar funda síðan saman ásamt skólastjóra um hvaða málefni eigi að vera áhersluatriði á lýðræðisþinginu. Lýðræðisfulltrúar hittast síðan síðar og fara yfir niðurstöður þingsins með skólastjóra.

Menntabúðir UT

Í október voru haldnar menntabúðir í samvinnu við Engidalsskóla. Menntabúðir eru á jafningagrundvelli þar sem kennarar koma saman og miðla af eigin reynslu til samkennara sinna.

Erlendir gestir í heimsókn

Þann 12. október komu góðir gestir í heimsókn frá ýmsum löndum í Evrópusambandinu. Kennarar og skólastjórnendur af fjölbreyttu þjóðerni heimsóttu skólann til þess að fræðast um íslenskt skólakerfi.


Þetta var mjög flottur hópur sem var duglegur að spyrja og góðar umræður áttu sér stað í heimsókninni.

Big picture

Alzheimerstykkin

Undanfarin ár hafa nemendur í textílmennt hjá Kristínu Garðars unnið ýmis flott verkefni í þágu samfélagsins. Til dæmis má nefna að í sjúkrabílum er oft að finna bangsa sem nemendur hafa gert hér í skólanum sem notaðir eru til að róa börn.


Nemendur hafa einnig undanfarin ár búið til svokölluð Alzheimersstykki. Stykkin eru þannig gerð að það sé þægilegt að renna fingrum sínum í gegnum þau. Frábæra fólkið í Elligleði, Stefán Helgi Stefánsson og Sesselja Magnúsdóttir, taka síðan við stykkjunum og fara með þau á elliheimilin.

Aðventustund í Fríkirkjunni

Á hverju ári býður Fríkirkjan upp á heimsókn í aðventustund sem yngsta stigið hefur jafnan þegið. Þá fara nemendur í kirkjuna þar sem rætt er stuttlega um jólin og hvers vegna þau eru haldin. Það eru einnig sungin jólalög undir gítarspili og huggulegheitum. Að lokum er boðið upp á smákökur og heitt kakó í safnaðarheimilinu. Þetta er alltaf mjög notaleg stund og er hluti af trúarbragðafræðslu skólans. Ef einhverjir hafa verið því mótfallnir að nemandi fer í kirkjuna er ávallt fundin lausn á því.


Helgileikurinn

Nemendur í 4. og 5. bekk hafa séð um Helgileikinn sem sýndur er á vegum skólans í Víðistaðakirkju. Það er mikil æfing á bak við svona sýningu og getur reynt á nemendur að koma fram. Það er hefð að 4. bekkur sjái um að syngja í kórnum og hefur tónmenntakennari ávallt tekið þátt í að þjálfa kórinn. Að þessu sinni féll það í skaut Þórhildar tónmenntakennara sem var að gera þetta í fyrsta skipti. 5. bekkur hefur séð um að leika í Helgileiknum og stóðu þau sig einkar vel. Það hefur verið smá hvíld á sýningum þar sem fjöldatakmarkanir vegna Covid var í gangi en nú erum við loks komin aftur á skrið í hefðbundið skólastarf og engar skorður. Nemendur stóðu sig virkilega vel og buðu öllum nemendum skólans á sýninguna, sem og foreldrum þeirra nemenda sem tóku þátt í sýningunni. Þetta eru tvær sýningar sem eru sýndar og er skólanum skipt niður á þessar sýningar. Nemendum hefur ávallt þótt gaman að taka þátt í þessu verkefni enda er það góð reynsla að taka þátt í svona leiksýningum. Áhorfendur stóðu sig einnig með prýði og fylgdust vel með vinum sínum á yngsta- og miðstigi fylgja þessu verkefni til enda.

Hellisgerði og Brikk

Undanfarin ár hafa ýmsir bekkir á unglingastigi farið í smá menningargöngu í desember og endað á kaffihúsi. Gaman er að rölta og skoða Hellisgerði og fallegu jólaskreytingarnar sem eru að finna þar. Oft á tíðum enda þessar göngur á Brikk þar sem bakaríið hefur verið að taka á móti skólahópum og boðið upp á kakó og snúð á tilboðsverði. Ekki var stoppað lengi í Hellisgerði í ár þar sem frostið í desember er búið að vera mikið.


Fyrir neðan eru myndir af 9.HH í menningarferð.

Skólinn jólaskreyttur

Sú hefð hefur myndast í gegnum árin að hver og bekkur skreytir sína kennslustofu og hurð. Þetta ár var ákveðið að hafa smá keppni milli bekkja á hverju stigi þar sem bekkirnir kepptust um að gera flottustu hurðina á sinni kennslustofu. 9.ÞÞ sigraði keppnina í ár á unglingastigi, 6.bekkur sigraði á miðstiginu og 4.bekkur sigraði á yngsta stigi.


Þessar stórglæsilegu hurðir má sjá hér fyrir neðan.

Ritstjórn Víðóma:

Birkir Már Viðarsson

Birna Dís Bjarnadóttir

Guðrún Björg Halldórsdóttir