Skólastarfið í maímánuði

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Útivistartími og samvera

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Nú þegar sólin hefur hækkað á lofti og sumarið farið að gægjast í gegnum skýin er ekki úr vegi að rifja upp útivistartíma barna og unglinga en þeir breyttust núna 1. maí.


Útivistartími yfir sumartímann (1. maí til 1. september)

 • Börn 12 ára og yngri mega lengst vera úti til klukkan 22:00.
 • Börn 13 til 16 ára mega vera lengst úti til klukkan 24:00.


Aldursmörk miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. Sem þýðir að 1. janúar þess árs sem börn verða 13 eða 16 ára lengist útivistartími.


Samvera forsjáraðila og barns

Samvera forsjáraðila og barns, þar sem truflandi áreitum úr umhverfinu er haldið í lágmarki, eru börnum mjög mikilvæg. Notaleg samvera ýtir undir sterkari tengsl og jákvæð samskipti milli forsjáraðila og barna. Með henni miðla forsjáaðilar því til barna sinna að þau séu elskuð og virt.


Foreldrar hafa auðvitað ekki tækifæri til að veita börnum óskipta athygli öllum stundum, enda þurfa þau líka að læra að vera sjálfum sér næg og þróa sjálfstæðan leik í samræmi við aldur og þroska. En það er öllum börnum mikilvægt að fá reglulegar samverustundir með foreldri sem eru helgaðar þeim eingöngu, helst daglega ef um ung börn er að ræða. Á slíkum stundum er upplagt að æfa jákvæð samskipti og virka hlustun.


Sem dæmi um það sem hægt er að gera í samverustundum með yngri börnum má nefna að:

 • Lesa fyrir barnið eða láta það lesa fyrir sig
 • Tala við barnið, leyfa því að stýra samræðunum og stilla sig um að gefa ráð
 • Slaka á með barninu, kannski bara að setjast niður á bekk í almenningsgarði eða við fjöruna
 • Spila við barnið eða fara í leiki, allt frá því að spila Lúdó og Ólsen Ólsen til þess að fara í fótbolta í garðinum
 • Elda eða baka með barninu
 • Hjálpa barninu við að læra heima
 • Hjálpa barninu að undirbúa afmælisveislu
 • Hjálpa barninu við að útbúa afmælisgjöf handa hinu foreldrinu
 • Haldast í hendur eða halda utan um barnið á meðan verið er að horfa saman á eitthvað spennandi eða skemmtilegt.
 • Fara út að leika með barninu.


Þegar börnin eldast, breytast samverustundirnar en þær halda áfram að vera mikilvægar.

Sem dæmi um samverustundir foreldra og eldri barna má nefna:

 • Taka virkan þátt í tómstundanámi og gefa sér tíma til að hlusta á unglinginn tala um glímu sína við tómstundanámið.
 • Taka virkan þátt í íþróttaiðkun unglingsins. Gefa kost á sér í foreldraráð og stjórnir og vera virkur þátttakandi en ekki aðeins áhorfandi þó það sé líka mikilvægt.
 • Njóta útiveru og náttúrunnar saman. Sem dæmi má nefna gönguferðir, hjólatúrar og útilegur. Kennið börnunum að njóta náttúrunnar og uppgötva hvað þar er að finna. Rannsakið saman og skoðið. Til er fjöldinn allur af skemmtilegum handbókum bæði um náttúrufar, gróður, fugla, steina og gönguleiðir sem fá má lánaðar á bókasafninu eða kaupa. Það gefur göngutúrnum allt aðra merkingu að þekkja umhverfi sitt.
 • Notið hugmyndaflugið og þekkingu ykkar á barninu til að skipuleggja samverustundir fjölskyldunnar.


Njótum að vera saman og hafa gaman.

Úrslit í Skólahreysti

Þann 28. apríl kepptu saman í undanriðli Stóru-Vogaskóli, Vogaskóli, Háaleitisskóli Ásbrú, Grunnskólinn í Hveragerði, Öldutúnsskóli, Hraunvallaskóli, Lækjarskóli, Heiðarskóli, Langholtsskóli, Sunnulækjarskóli, Hagaskóli og Laugalandsskóli. Hraunvallaskóli var hlutskarpastur, Heiðarskóli, ríkjandi meistari, varð í öðru sæti og Hagaskóli í þriðja sæti.

Úrslitin fara fram 21. maí og ætlar Hraunvallaskóli að fjölmenna á staðinn og hvetja sitt lið til sigurs.
Það eru þau Aron Haraldsson, Natalía Dóra S. Rúnarsdóttir, Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir, Magnús Ingi Halldórsson sem skipa lið Hraunvallaskóla í ár. Til vara eru Bartosz Magnús Darnowski og Karítas Kristín Traustadóttir.


VEL GERT HRAUNVALLASKÓLI!

Íþróttamót 9. bekkja í Hafnarfirði

Hið árlega íþróttamót 9. bekkja í Hafnarfirði fór fram á Ásvöllum 4. maí. Við gerðum okkur lítið fyrir og unnum mótið. Það var keppt í hlaupi, körfubolta, fótbolta, bandý og sundi. Við bárum sigur úr býtum í hlaupi, körfubolta og vorum með besta heildarárangur sem færði okkur bikarinn í ár. Hér til hliðar er mynd af þessum frábæru krökkum.


Innilega til hamingju 9. bekkur og Hraunvallaskóli.

Hæfileikakeppni miðdeildar

Hæfileikakeppni miðdeildar var haldin 4. maí. Keppnin var glæsileg að vanda og tóku 15 keppendur þátt í 9 fjölbreyttum og skemmtilegum atriðum.


Sigurvegari keppninnar var Sara Karabin í 6. bekk með söngatriði. Í öðru sæti var Heimir Andri Heimisson í 5. bekk, sem spilaði á píanó og í þriðja sæti lentu Orri Jóhannsson og Tristan Máni Sigurjónsson en þeir spiluðu á klarinett og píanó. Verðlaun fyrir frumlegasta atriðið fengu dansstelpurnar í The Girls, en það voru þær Gabriela Linda Zingara, Magdalena Eik Andrésdóttir, Ólöf Natalie Gonzales og Rebekkah Chelsea Paul úr 6. bekk.


Kynnar voru þau Hulda og Mikael í 7.bekk og stóðu þau sig rosalega vel í sínu verkefni. Dómarar í ár voru þær Diljá í Mosanum, Sara deildarstjóri tómstundamiðstöðvarinnar og Vilborg danskennari.


Í dómarahléinu komu þau Kári og Áróra í 10. bekk og sungu fyrir hópinn, en þau voru sigurvegarar söngkeppni Mosans sem var haldin fyrr í vetur. Í salnum voru um 200 áhorfendur, nemendur í miðdeild, sem stóðu sig svo vel og klöppuðu og hvöttu keppendur til dáða.


Hraunvallaskóli á svo sannarlega hæfileikaríka nemendur og hlökkum við til að sjá þau öll blómstra í framtíðinni.

Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk

Litla upplestrarkeppnin er haldin hátíðleg í 4. bekkjum víða um land á hverju ári. Undirbúningur hefst alltaf á degi íslenskrar tungu 16. nóvember Ákveðið lesefni er gefið út á hverju ári sem nemendur nýta til að æfa upplestur og framkomu í ræðupúlti. Hver skóli setur sinn svip á verkefnið og mótar sína lokahátíð sem haldin er að vori.


Foreldrum nemenda er boðið á lokahátíðina ásamt nemendum 3. bekkja sem fá tækifæri til að fylgjast með og undirbúa sig fyrir þátttöku í verkefninu á næsta ári. Helstu markmið keppninnar eru að ná betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er sérstök áhersla á virðingu og vandvirkni, allir nemendur eru með í liðinu, allir koma fram á lokahátíðinni og allir fá viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.


Frá upphafi hefur verið mikil ánægja með verkefnið og þeir sem að því koma hafa verið sammála um að það styðji, efli og bæti árangur í lestri og auki sjálfstraust nemenda. Í ár var keppnin haldin föstudaginn 6. maí á sal skólans. 4. bekkingar stóðu sig með mikilli prýði og var hátíðin öll hin glæsilegasta. Greinilegt var að kennararnir höfðu æft nemendur vel og eiga þeir mikið hrós skilið. Þess má geta að 3. bekkur stóð sig sérstaklega vel sem áhorfendur.


Forsjáraðilum var síðan boðið upp á kaffi á heimasvæði 4. bekkjar eftir hátíðina. Þar gafst tækifæri á að ræða vel heppnaða keppni og eiga góða stund saman.

Námsmatsdagar 18.-20. maí

Námsmatsdagar unglingadeildar verða dagana 18.–20. maí. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og vinna í undirbúning til kl. 10:35 og svo hefst próf kl. 10:55 og stendur til kl. 13:00. Eftir hádegismat fara nemendur heim.


Námsmat verður í eftirtöldum greinum á eftirtöldum dögum:


Miðvikudagurinn 18. maí

8. bekkur Íslenska

9. bekkur Enska

10. bekkur Stærðfræði


Fimmtudagurinn 19. maí

8. bekkur Enska

9. bekkur Stærðfræði

10. bekkur Íslenska


Föstudagurinn 20. maí

8. bekkur Stærðfræði

9. bekkur Íslenska

10. bekkur Enska

Vorferð 10. bekkja 23. maí

Nemendur 10. bekkjar fara í útskriftarferð á Suðurland 23.-24. maí. Hópurinn mun gista á Minni borgum í Grímsnesi og munu m.a. fara í flúðasiglingu og skemmtigarðinn. Þetta verður án efa skemmtileg ferð með ánægjulegri samveru. Í svona ferðum styrkjast vináttusambönd og eru þessar ferðir eitthvað sem nemendur muna eftir alla ævi.

Skipulagsdagur 25. maí

Miðvikudagurinn 25. maí er sameiginlegur skipulagsdagur grunn- og leikskóla. Þá gefst kennurum tækifæri til skipulagningar á skólastarfinu ásamt endurmenntun. Nemendur eru í fríi þennan dag í skólanum en Hraunsel er opið fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk. Skráning er í Hraunsel fyrir þá sem eru með daglega vistun þar og verður opnað fyrir skráningar í gegnum „Völu“ mánudaginn 9. maí. Þeir nemendur sem ekki eru með daglega vistun í Hraunseli geta sent tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is og óskað eftir vistun á þessum degi. Sá vistunartími er frá kl. 08:00-13:20. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti fimmtudagskvöldið 19. maí.

Grúskið 27. maí til 3. júní

Síðastliðin ár hefur skapast sú hefð í Hraunvallaskóla að loknum vorprófum að nemendur einhenda sér í áhugasvið- og þemaverkefni í lok maí. Útfærslan er örlítið mismundandi eftir deildum en það sem er sameiginlegt með Grúski á öllum stigum er að nemendur vinna að verkefnum sem þeir tengja við áhugamál sín og/eða námsefni sem þeir hafa unnið að í vetur sem vakið hafa sérstakan áhuga þeirra. Áhersla er á hlutbundna vinnu og samþættingu námsgreina og þá aðallega við íslensku og náttúru- og samfélagsgreinar. Verkefnin eru metin samkvæmt hæfniviðmiðum í skólanámskrá og einkunn birt á vitnisburðaskjali nemenda. Að Grúski loknu er blásið til sýningar og foreldrum boðið á opið hús á samtalsdegi í júní á uppskeruhátíð Grúsksins. Þá iðar Hraunvallaskóli af lífi og gleði þegar nemendur, forsjáraðilar og starfsmenn koma saman og líta augum allan þann afrakstur sem orðið hefur til þá 6 daga sem Grúskið sendur yfir.

Eins og áður sagði þá eru viðfangsefnin mismunandi eftir árgöngum, hér eru þau listuð upp eftir árgöngum:


Yngri deild

1. bekkur vinnur þema um húsdýrin
2. bekkur vinnur verkefni um Hafnarfjörð
3. bekkur vinnur með íslenska þjóðhætti
4. bekkur vinnur með hafið


Miðdeild

5. bekkur vinnur verkefni um Landnám Íslands

6. bekkur setur upp ferðaskrifstofur og selur ferðir til Norðurlandanna

7. bekkur ætlar í bakpokaferðalag um Evrópu


Unglingadeild

Grúskið að þessu sinni verður tileinkað nýsköpun undir slagorðinu "framtíðin okkar, ekkert vandamál" . Nemendum er ætlað að vinna einstaklings- eða hópaverkefni að lausnum á vandamálum sem þau taka eftir í umhverfi sínu. Nemendur útlista í texta vandamálið og þá lausn sem þau sjá fyrir sér og smíða prótótýpu af lausninni. Að lokum vinna þau stutt myndband þar sem vandamálið og lausnin eru kynnt.

Búið að opna fyrir skráningu í Hraunsel veturinn 2022-2023

Frístundaheimilin í Hafnarfirði eru í boði fyrir börn í 1.-4. bekk og starfa við alla grunnskóla sveitarfélagsins. Hlutverk þeirra er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur með m.a. hópastarfi, smiðjum, útiveru og vali. Markmið frístundaheimilanna er að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.


Umsókn gildir eitt skólaár í senn (ágúst-júní) og þær umsóknir sem berast fyrir 15. júní eru í forgangi. Umsóknir sem berast eftir þann tíma geta farið á biðlista og eru ekki afgreiddar fyrr en í ágúst. Við skráningu er mikilvægt að tryggja að allar upplýsingar séu réttar og sérþarfir skráðar. Þegar barn fær vistun á frístundaheimili þá berst boð um vistun á það netfang sem fylgdi skráningu barns. Boð þarf að staðfesta með svari innan þriggja daga.


Nánari upplýsingar - https://www.hafnarfjordur.is/ibuar/skolar-og-born/fristundaheimili/

Skráningarform - https://fristund.vala.is/umsokn/#/

Skráning í sumarfrístund

Skráning í sumarfrístund opnar mánudaginn 9. maí. Bæklingur verður sendur út á mánudaginn í gegnum Mentor á alla forjáraðila í skólanum. Sumarfrístund fyrir nemendur sem eru að klára 1.-3. bekk verður opin 13. júní - 1. júlí og aftur 3.-19. ágúst. Fyrir nemendur sem eru að klára 4. bekk verður Tómstund í Hvaleyrarskóla en upplýsingarnar um hana koma seinna í maí.

Hraunvallaskóli er heilsueflandi grunnskóli

Við viljum vekja athygli á því að Hraunvallaskóli er heilsueflandi grunnskóli. Eitt helsta markmið heilsueflandi grunnskóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda, starfsfólks og samfélagsins. Í heilsueflandi grunnskóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins: nemendur, mataræði/tannheilsu, heimili, geðrækt, nærsamfélag, hreyfingu/öryggi, lífsstíl og starfsfólk.

Okkur langar að vekja athygli á eftirfarandi dögum í maí sem tengjast heilsueflandi grunnskóla:


Þetta eru eftirtaldir viðburðir:


4.-24. maí HJÓLAÐ Í VINNUNA

Skólar eru hvattir til að taka þátt í vinnustaðakeppni ÍSÍ og einnig hafa margir skólar nýtt þetta tækifæri til að hvetja nemendur til að nota virkan ferðamáta.

www.hjoladivinnuna.is


23.-29. maí HREYFIVIKA UMFÍ
Árlegur viðburður í Evrópu sem m.a. mörg sveitarfélög taka þátt í hvetjum við ykkur til þess að gera eitthvað skemmtilegt varðandi hreyfingu þessa vikuna.


31. maí DAGUR ÁN TÓBAKS

Alþjóðlegur dagur.

Hinsegin félagsmiðstöð

Ertu hinsegin, í hinsegin pælingum, áhugasamur, áhugasöm, áhugasamt um hinsegin málefni og langar að koma í félagsmiðstöð þar sem öll eru velkomin?


Hinsegin félagsmiðstöðin fer frábærlega vel af stað. Mjög góð mæting sem af er og hér undir er hægt að sjá hvenær næstu hittingar eru.
Big picture

Hinsegin félagsmiðstöð 10-12 ára staðsett í Reykjavík


Hinsegin félagsmiðstöð fyrir 10-12 ára hefur hafið störf og mun starfa fram að sumarfríi. Um er að ræða tilraunaverkefni sem vonandi er komið til að vera!


Hinsegin 10-12 er fyrir öll börn sem tengja við hinseginleikann í einhverju formi og hafa áhuga á að kynnast öðrum börnum sem eru á sama stað í lífinu.


Hinsegin 10-12 verður með aðsetur í húsnæði Samtakanna 78 á Suðurgötu 3 í 101 Reykjavík og er húsnæðið aðgengilegt öllum.


Nánari upplýsingar veitir Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar í síma 6908904 eða í gegnum tölvupóstinn hrefna@rvkfri.is.

Big picture

Tómstundamiðstöð skólans

Hér er dagskrá Hraunsels og Mosans fyrir MAÍ. Endilega hvetjið nemendur til að taka þátt, þetta er svo skemmtilegt.