

Foreldrabréf Hraunvallaskóla
Skólaárið 2023-2024
Nóvember
Baráttudagur gegn einelti
Miðvikudagurinn 8. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti. Afleiðingar eineltis geta verið mjög alvarlegar og því ber að taka öllu tali um einelti alvarlega. Því er mikilvægt að gera greinamun á samskiptavanda og einelti. Þegar aðilar eiga í samskiptavanda þarf að fylgjast vel með og meta hvort það þurfi að aðstoða við að taka á málum en þegar aðilar leggja annan í einelti á að grípa inn í strax og stoppa. Þolandi eineltis getur ekki stoppað eineltið einn og sér heldur verða aðrir að koma inn í og stoppa einelti.
Það er alltaf mikilvægt að allir séu læsir á umhverfið og vera tilbúnir að vinna gegn einelti en einnig má ekki gleyma að byggja upp samfélag þar sem ríkir umburðarlyndi. Samfélag þar sem allir fá að vera þeir sjálfir á meðan þeir hvorki meiða sjálfan sig eða aðra. Samfélag þar sem það þykir m.a. eðlilegt að láta vita ef einhver er að gera eitthvað á annars hlut. "Snichers" er orð sem er talsvert notað um aðila sem kjafta frá og þykir mjög neikvætt - það vil enginn vera "snich". Aftur á móti eru það gerendur sem halda þessu á lofti því þeir vilja halda völdum og að enginn segi frá því sem þeir eru að gera. Ræðum við börnin okkar um mikilvægi þess að segja frá og standa þannig með þolendum eineltis.
Samskipta- og eineltisteymið
Skertur dagur og skipulagsdagur
Föstudaginn 10. nóv. er skertur dagur hjá okkur þar sem nemendur eru búnir í skólanum um kl. 11:00. Hraunsel verður opið fyrir þá sem eru með pláss þar til kl. 17:00.
Mánudaginn 13. nóv. er skipulagsdagur og eru nemendur í fríi en Hraunsel er opið fyrir þá sem þar eru skráðir til kl. 17:00. Búið er að opna fyrir skráningu en síðasti skráningardagur var 5. nóvember.
Vinavikan 6.-10. nóv.
Lýðræði og jákvæð samskipti eru yfirheiti okkar í vinavikunni.
Í unglingadeild verður lögð áhersla á samveru forsjáraðila og barna, eineltisforvarnir og jákvæð samskipti.
Í miðdeild verður lögð áhersla á nemendalýðræði þar sem meðal annars verður haldið nemendaþing um jákvæð samskipti og þrautseigju í árgöngum.
Í yngri deild verður unnið með vináttuþema, haldin vináttusamvera og eineltishringurinn verður kynntur á bekkjarfundum sem fyrsta skref í áframhaldandi vinnu með ábyrg samskipti milli nemenda.
Að venju munum við undirrita Vináttusáttmálann okkar. Í ár ætlum við að mála dreka á vegg en sá dreki heldur síðan á 10 blöðrum. Hver árgangur fær blöðru og skrifar sína undirskrift á hana. Foreldrar eru velkomnir að skrifa undir líka hafi þeir áhuga.
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er fimmtudaginn 16. nóv. Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Dagur íslenskrar tungu er einn fánadaga Íslands.
Á þessum degi er hefð fyrir því að setja litlu og stóru upplestrarkeppnirnar og verður enginn undantekning í ár. Stóra upplestrarkeppnin er fyrir nemendur í 7. bekk og litla upplestrarkeppnin er fyrir nemendur í 4. bekk. Nemendur ásamt umsjónarkennurum og deildarstjóra koma saman við setningu beggja keppna.
Bekkjarmyndatökur
Á hverju skólaári eru bekkjarmyndatökur í 1., 4., 7. og 10. bekk. Þetta skólaárið verða þær fimmtudaginn 16. nóv. og föstudaginn 17. nóv. Nánari útfærsla verður send út þegar nær dregur á þá sem þurfa.
Dagur mannréttinda barna
Mánudagurinn 20. nóv. er "Dagur mannréttinda barna". Þann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadagur barna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.
Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.
Morgunfundur 22. nóv.
Miðvikudaginn 22. nóv. kl. 08:10-8:40 ætlum við að hafa morgunfund fyrir foreldra/forsjáraðila þar sem við ætlum að kynna fyrir ykkur samskipta- og eineltisteymi teymi (SET teymið) skólans. Samskipta- og eineltisáætlun skólans hefur verið uppfærð og finnst okkur kjörið að kynna hana fyrir ykkur öllum. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og kynna ykkur þetta mikilvæga málefni.
VIÐBURÐIR
Viðburðarskóladagatal
Á hverju skólaári setjum við upp viðburðarskóladagatal um helstu viðburði sem eiga sér stað hér í skólanum. Hér er það og mælum við með því að þið forsjáraðilar hafi það á góðum stað því þannig getið þið séð tímanlega hvað er framundan.
Hinsegin málefni
Í síðustu viku var fræðsluerindi frá Samtökunum 78 hér í fyrirlestrarsalnum. Erindið var afar fróðlegt en þar sem vikan hefur verið okkur erfið þá var mætingin ekki góð. Við erum svo heppin að eiga hér innanhúss hana Bryndísi Jónsdóttur sem hefur verið að vinna hjá Heimili og skóla en hún ræddi við Tótlu Sæmundsdóttur, fræðslustýru hjá Samtökunum 78, í hlaðvarpsþætti um hinsegin málefni fyrir nokkru síðan.
Hér er þátturinn sem er afar fróðlegur og hvetjum við ykkur til þess að hlusta á hann:
Syndum saman
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1.- 30. nóvember. Syndum saman er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Sund er fyrir alla óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sund er tilvalið þjálfunaraðferð þar sem sund styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. Sund er frábær hreyfing bæði til þess að hlúa að heilsunni og sem skemmtileg tómstundaiðja.
Við í Hraunvallaskóla höfum skráð okkur til leiks. Sundkennarar skrá niður metra sem nemendur synda í tímanum. Það verður fróðlegt að vita hversu langt nemendur í Hraunvallaskóla ná að synda í nóvember og hvort við náum að synda hringinn í kringum landið sem eru 1.323 km 😊.
Áfram Hraunvallaskóli!
SAMSTARF HEIMILIS OG SKÓLA
Bekkjartenglastarfið fer vel af stað
Röskun á skólastarfi vegna óveðurs
Við hvetjum ykkur foreldrar/forsjáraðilar góðir til þess að lesa yfir hvað gerist við óveður. Hér er linkur á heimasíðu skólans sem gott er að lesa og vita af ef óveður skyldi skella á:
Foreldrarölt
Nú er foreldraröltið farið af stað að fullu og við þurfum á ykkur að halda. Við erum öll saman í liði og það er á okkar allra ábyrgð að passa að börnum og unglingum í hverfinu líði vel og séu öruggir. Það þarf þorp til þess að ala upp barn. Hér er foreldraröltsbæklingurinn og á öftustu síðunni eru dagsetningar hvers árgangs. Þið sem hafið áhuga á því að taka þátt í foreldrarölti megið senda tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is. Þið sem hafið nú þegar skráð ykkur, kærar þakkir fyrir.
FRÍSTUNDASTARFIÐ
Hraunsel
Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt frístunda- og tómstundastarf án aðgreiningar fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Markmið starfsins er að efla sjálfstraust og félagsfærni. Starfsemi frístundaheimila hefur áhrif á félagsþroska barna og er vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra gagnkvæma virðingu, traust og umburðarlyndi í gegnum leik og starf. Umhverfi frístundaheimila einkennist af öryggi og fagmennsku. Aðstæður eiga að einkennast af jákvæðum samskiptum og lýðræðislegum starfsháttum. Í frístundaheimilinu er hlustað, rætt saman og ekki síst er pláss fyrir allar tilfinningar.
Hér er dagskrá Hraunsels fyrir ágúst og september.
Mosinn - miðdeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 17:00-19:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
Mosinn - unglingadeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 19:30-22:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
https://www.facebook.com/felagsmidstodinmosinn
Instagram - Mosinn
HHH félagsmiðstöð
Í vetur verður áfram hinsegin hittingur í Hafnarfirði. Allt er farið af stað og við hvetjum þau sem vilja að kíkja í hitting. Það er líka hægt að "follow" bæði á Facebook og Instagram, sjá hér undir:
https://www.facebook.com/hinseginhittingurihfj
Instagram - hinseginhittingurihfj