Fréttabréf Naustaskóla

2. tbl 15.árg febrúar 2022

Kæra skólasamfélag

Oft hefur covid veiran haft áhrif á skólastarfið í Naustaskóla - þó aldrei eins mikið og þessar vikurnar. Veiran herjar bæði á nemendur og starfsfólk. Við reynum eftir fremsta megni að halda upp kröftugu skólastarfi en höfum því miður þurft að senda eldri nemendur heim vegna veikinda kennara. Við þökkum ykkur stuðningin, sveigjanleikan og hlý orð í okkar garð.

Þrátt fyrir þessar erfiðu vikur þá horfum við fram á veginn og erum að hefja undirbúning á árshátíð skólans í lok mars. Við skólafólk erum seig og höfum alltaf að leiðarljósi hagsmuni nemenda okkar og því horfum við bjartsýn á næstu vikur.

Undanfarnar vikur hafa tekið til starfa nýir starfsmenn bæði vegna fæðingarorlofa og veikindaleyfis. Í íþróttakennslu hafa þær Daníela og Eydís leyst Róbert af vegna fæðingarorlofs. Þórdís Eva mun leysa Andra Snæ af á unglingadeild vegna fæðingarorlofs. Fjóla kemur í stað Kolbrúnar í 6. - 7. bekk sem stoðkennari. Í 1. bekk mun Sigríður Hulda leysa Öldu af og svo að lokum þá er nýr starfsmaður í eldhúsinu sem heitir Jeremy þar sem Sigurgeir er í fæðingarorlofi. Við bjóðum þessu fólki velkomið til starfa hér í Naustaskóla.


Kær kveðja

Bryndís skólastjóri

Á döfinni febrúar 2022

31. janúar - 4. febrúar - Tannverndarvika

6. febrúar - Dagur leikskólans

9. febrúar - Starfsdagur

10.- 11. febrúar - Viðtalsdagar

14. febrúar - Útivistardagur (gæti breyst

20. febrúar - Konudagur

28. febrúar - Bolludagur

1. mars - Sprengjudagur

Covid 19

Við minnum á að fylgjast vel með heilsufari nemenda og hafa samband við heilsugæsluna ef nemendur sýna einkenni og óska þá eftir sýnatöku ef þið teljið þörf á. Ef nemendur eru með einkenni eða veik er mikilvægt að halda þeim heima. Það er gert til að takmarka smit og eða önnur veikindi meðal nemenda og starfsfólks í skólanum.

Eins og staðan er núna þá er smit hjá nemendum flestum árgöngum. Margir af þeim nemendum sem eru smitaðir hafa ekki verið í skólanum frá því í síðustu viku.


Mikilvægt að láta okkur í skólann vita um veikindi barna þar sem við þurfum ávallt að hafa góða yfirsýn og fylgjast með mætingu nemenda í skólann.


Með því að smella hér má svo sjá nýjar reglur sem tóku gildi 26. janúar.

Tannverndarvika 31. janúar - 4. febrúar

Tannlækningar barna – tölfræði – gagnvirk birting

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku dagana 31. janúar - 4. febrúar 2022 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni.

Í tilefni af tannverndarviku er nýtt mælaborð tannheilsu gert aðgengilegt á vef embættis landlæknis. Mælaborðið er gagnvirkt en þar eru birtar tölulegar upplýsingar, sem varða tannheilsu íslenskra barna. Mælaborðið byggir á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands og ná þau aftur til ársins 2005. Stefnt er að árlegri uppfærslu mælaborðs tannheilsu.

Í áætlun embættis landlæknis um gæðaþróun Opnast í nýjum glugga er gert ráð fyrir að fylgst sé með gæðum og árangri heilbrigðisþjónustunnar, þar með talið tannheilbrigðisþjónustu, með tilteknum landsgæðavísum. Fyrrnefnt mælaborð er liður í áætlun landlæknis um gæðaþróun en það sýnir fyllingar í tönnum sjúkratryggðra barna/ungmenna, sem eru í virku eftirliti hjá heimilistannlæknum.

Gögnin, sem skoða má fyrir hvert heilbrigðisumdæmi fyrir sig og í samanburði við landið í heild, gefa góðar vísbendingar um batnandi tannheilsu barna/ungmenna og betra aðgengi að tannlæknaþjónustu.

Í tannverndarviku er foreldrum og forráðamönnum bent á að kostnaður vegna almennra tannlækninga barna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða tímabili. Forsenda gjaldfrjálsra tannlækninga er að börn hafi heimilistannlækni og bera foreldrar ábyrgð á tímapöntun hjá heimilistannlækni og skráningu í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands. Foreldrum/forráðamönnum er enn fremur bent á að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar börn eru tveggja ára. Heimilistannlæknar geta gengið frá skráningunni í gáttinni þegar mætt er í bókaðan tíma.

Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga barna yngri en 18 ára.

Í Tannverndarviku eru stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is.

Þá eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru í tannverndarviku og afnema á sama tíma afsláttarkjör af sælgæti og súrum drykkjum.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir
holmfridur.gudmundsdottir@landlaeknir.is

Námsframvinda nemenda

Við viljum minna foreldra og forráðamenn á að hægt er að fylgjast vel með námsframvindu nemenda inni á Mentor. Með því að smella á „Námsmat“ má sjá hvernig nemendum gengur að ná markmiðum í hinum ýmsu námsgreinum hér í skólanum.

Foreldraviðtöl 10. - 11. febrúar

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Naustaskóla.

Nemenda – og foreldrarviðtöl verða fimmtudaginn 10. febrúar og föstudaginn 11. febrúar

Foreldra mæta með börnum sínum í viðtal í skólanum. Þennan dag fer ekki fram kennsla og nemendur mæta ekki í skólann en Frístund er opin fyrir þau börn sem þar eru skráð.

Viðtölin taka mið af líðan nemenda og námi þeirra. Fyrir viðtölin fá foreldrar og nemendur spurningalista sem er hér í viðhengi, nemendur svara þessum spurningum og senda umsjónarkennara útfylltum fyrir 8. febrúar. Með þessu fyrirkomulagi erum við að leggja áherslu á að nemendur séu virkir í viðtalinu – að viðtalið sé nemendastýrt.

Markmið með nemendastýrðum samtölum er að:

● nemendur séu virkir þátttakendur í að meta eigin líðan, náms- og félagslega stöðu og ræða hana

● auka ábyrgð nemenda í eigin námi.

● nemendur eru virkjaðir að ræða um námið sitt.

● auka þátttöku nemenda í ákvarðanatöku um skipulag náms.

Bóka foreldraviðtöl

Foreldrar bóka sjálfir viðtalstíma hjá umsjónarkennara í gegnum www.mentor.is – að þessu sinni er viðtalstíminn 20 mínútur.

Til að skrá sig í viðtal er farið inn á fjölskylduvef Mentor og smellt á flís sem birtist, eftir innskráningu, efst í vinstra horninu á forsíðu Mentor. Hér eru hlekkir á leiðbeiningar um Mentor fyrir foreldra.

https://www.youtube.com/watch?v=oBQvcTvz92Q&list=PLX-N504onYI_I0Jk4lm46UphLktxtfHv3&index=13

Opnað verður fyrir bókanir í dag mánudaginn 31.janúar . Ef nemendur og foreldrar lenda í vandræðum með aðgang að Mentor eru þeir beðnir að snúa sér til ritara eða deildarstjóra.

Með kveðju og von um gott samstarf.

Stjórnendur Naustaskóla,

Bryndís, Alla og Heimir.

Lífshlaupið 2022

Skráning er í fullum gangi fyrir Lífshlaupið 2022.

Keppnin stendur yfir frá 2. - 22. fyrir vinnustaði og frá 2. - 15. febrúar fyrir grunn- og framhaldsskóla.

Í fyrra voru yfir 22.000 virkir þátttakendur í Lífshlaupinu og við stefnum að sjálfsögðu á bætingu í ár!

Á meðan að Lífshlaupið stendur eru allir hvattir til að deila myndum af þátttöku sinni í gegnum heimasíðuna og einnig á Facebook eða Instagram með myllumerkinu #lifshlaupid. Allir myndasmiðir fara í lukkupott í myndaleik Lífshlaupsins og eiga möguleika á að vera dregnir út og vinna flotta vinninga

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands - ÍSÍ