Skólasafn Kelduskóla

Nýjar bækur - nóvember 2015

HÉR ER YFIRLIT YFIR NOKKRAR AF ÞEIM NÝJU BÓKUM SEM HAFA BÆST VIÐ SÖFNIN Í KORPU OG VÍK Í NÓVEMBER.

Big image

Atvinnumaðurinn Gylfi Sigurðsson

Gylfi Þór Sigurðsson er einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Lykilmaður í íslenska landsliðinu og mikil fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn á öllum aldri. Í bókinni kynnast lesendur Gylfa betur, bæði sem knattspyrnumanni og persónu. Farið er yfir feril hans með félagsliðum og landsliðinu, allt frá fyrstu skrefunum með FH yfir í glæstan feril með íslenska landsliðinu og Swansea.

Big image

Leyniturninn á Skuggaskeri

Það er allt að fara í háaloft á Skuggaskeri: þangað stefnir bálreið kona í leit að dóttur sinni, bátar týnast í þykkri þoku og eitthvað skuggalegt er í bígerð. Á meðan situr fólkið í Fagradal og hefur áhyggjur af krökkunum sínum því það virðist ekki vera hægt að sigla út í skerið lengur.


Leyniturninn á Skuggaskeri er þriðja bókin um börnin sem struku úr Fagradal og dularfulla skerið sem þau gerðu að heimili sínu. Sú fyrsta, Strokubörnin á Skuggaskeri, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.


Sigrún Eldjárn hefur um árabil verið einn af virtustu og vinsælustu barnabókahöfundum landsins. Hún hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi; Dimmalimm, íslensku myndskreytiverðlaunin; Bókaverðlaun starfsfólks bókaverslana; Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur og Íslensku bjartsýnisverðlaunin.

Big image

Mamma klikk

„Kæri lesandi,

Heldurðu að þú eigir klikkaða mömmu? Bíddu þangað til þú lest um mína! Einu sinni var hún skemmtileg og frábær og fjörug en upp á síðkastið hefur hún snarversnað. Það finnst það öllum!!! Ég gæti gefið þér fullt af dæmum svo þú trúir mér en það er betra að geyma þau bara inni í bókinni. En engar áhyggjur. Ég er með áætlun: Breytum mömmu! Hún getur ekki klikkað. Og ef þú átt klikkaða mömmu geturðu lært hvernig á að laga hana eins og ég. Opnaðu bara bókina og sjáðu hvernig mér gengur!

Kveðja, Stella 12 ára (aaaaalveg að verða 13)“


Gunnar Helgason skipaði sér í hóp vinsælustu barnabókahöfunda landsins með Fótboltasögunni miklu. Hér sendir hann frá sér drepfyndna sögu um háalvarlegt vandamál sem öll fjölskyldan mun njóta þess að lesa, ekki síst klikkaðar mömmur.

Big image

Karnivalía

Er þetta plata? Já! Er þetta bók? Já! Er þetta platbók? NEI!

Hér er komin sprellfjörug og létt kolsýrð myndskreytt barnaplata – eða ættum við kannski að segja söngskreytt ljóðabók fyrir börn? Eða myndasögubók með fylgitónlist fyrir fullorðna? Við vitum í raun ekkert hvað á að kalla þennan undarlega grip, en getum lofað góðri skemmtun og miklu stuði fyrir alla fjölskylduna.

Höfundar: Bragi Valdimar Skúlason og Memfísmafían.