Fréttabréf Giljaskóla

Desember 2021

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Giljaskóla

Fyrri hluti skólaárs er að baki og því ágætt að taka stöðuna á helstu verkefnum okkar. Skólastarfið hefur gengið vel fyrir sig þó Covid hafi sett talsvert strik í reikninginn í október.

Desembermánuður hefur verið notalegur hjá okkur, en eins og gefur að skilja verið takmörkunum háður sökum covid. Litlu jólin voru haldin í kennslustofum og helgileikur 6. bekkjar var tekinn upp á myndband. Við söknum svalasöngsins sem var skemmtileg hefð hjá okkur, en hann hefur þurft að víkja í þessum takmörkunum. Á litlu jólunum gátum við samt sungið “saman”, en Ragga og Snorri Guðvarðar leiddu fjöldasöng úr hljóðveri og var streymt í allar kennslustofur.


Í Giljaskóla er stöðugt verið að þróa starfið til betri vegar. Hér verður farið yfir helstu verkefni sem eru áhersluatriði þetta skólaárið.

Teymiskennsla og námsaðlögun

Í skólanum vinnum við nú að þróun teymiskennslu. Skólinn er í ár í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar í þeirri vinnu. Þróunin tekur mið af nýrri menntastefnu og áherslum okkar í Giljaskóla. Markmið teymiskennslu er meðal annars að geta komið betur til móts við þarfir nemenda. Ef áhyggjur vakna af námi eða velferð barnanna ykkar þá hvetjum við ykkur til að vera í góðu sambandi við umsjónarkennara. Einnig má leita til aðila úr stoðteymi skólans, en það hefur það hlutverk að styðja kennara við að leita leiða til að mæta þörfum nemenda í námi og stuðla að vellíðan. Í stoðteymi skólans eru Sóley Kristín Sigurðardóttir skólahjúkrunarfræðingur, Lára Halldóra Eiríksdóttir náms- og starfsráðgjafi, Rannveig Sigurðardóttir verkefnastjóri námsaðlögunar og Bergmann Guðmundsson verkefnastjóri upplýsingatækni. Netföng þeirra má finna á heimasíðu Giljaskóla.

Iðutímar á unglingastigi

Breytingar voru gerðar á stundaskrá unglingastigs á þessu skólaári. Breytingarnar fólust í að skilgreina ákveðið marga tíma sem sem ekki voru merktir ákveðnu fagi. Þessir tímar fengu nafnið iðutímar. Markmið með iðutímum voru að:

  • auka svigrúm í stundatöflu til samstarfs þvert á árganga,

  • skapa tíma og stuðla að aukinni þverfaglegri vinnu,

  • gefa nemendum tækifæri á að velja hvað þeir vilja leggja áherslu á í námi sínu,

  • auka ábyrgð nemenda á eigin námi.

Könnun á því hvernig til hafi tekist með þessa breytingu á skipulagi stundaskrár sýnir almenna ánægju meðal nemenda og kennara. Nemendur telja sig hafa meira svigrúm til að klára það sem þarf að klára og þar af leiðandi minna heimanám. Kennarar eru almennt ánægðir með breytinguna og telja að nemendur séu að nýta tímana vel og skipulagið stuðli að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi.

Val á miðstigi

Á þessu skólaári var aukið við val nemenda á miðstigi. Umsjónarkennarar sjá að mestu um valgreinarnar auk þess sem skólinn er í samstarfi við aðila utan skóla svo sem Kiðagil, Tröllaborgir og Skákfélag Akureyrar. Þessi breyting mælist vel fyrir hjá bæði nemendum og kennurum þó Covid hafi sett strik í reikninginn á tímabili. Á vorönn munum við senda út könnun til nemenda og kennara til að meta hvernig til hefur tekist og hvernig við höldum áfram þessari vegferð.

Big picture

Stærðfræðikennsla á yngsta stigi - Neisti

Á síðasta ári hófst vinna við þróun stærðfræðikennslu á yngsta stigi sem hefur fengið heitið Neisti (en vinnuheiti þess var Zankov stærðfræði). Í vinnunni er lögð megináhersla á að efla hæfni nemenda í:

  • að geta spurt og svarað með stærðfræði,

  • að kunna að fara með tungumál og verkfæri stærðfræðinnar,

  • vinnubrögðum og beitingu stærðfræðinnar.

Gert er ráð fyrir að vinnubrögðin vaxi upp með nemendum og var því byrjað í 1. bekk á síðasta skólaári og í ár eru 1. og 2. bekkur að vinna eftir breyttu skipulagi. Kennarar njóta handleiðslu Miðstöðvar skólaþróunar í sinni starfsþróun. Kennarar í 1. og 2. bekk eru ánægðir með aðferðina og segja að með henni sé lögð meiri áhersla á að kenna og vinna með flóknari hugtök, samræðu og lausnaleit.


Að lokum vekjum við athygli á því að skólinn er með facebook síðu og hvetjum við ykkur til að líka við þá síðu. Þar birtast helstu fréttir úr skólastarfinu.


Með kærri jólakveðju,

Helga Rún Traustadóttir, deildarstjóri yngri deildar við Giljaskóla

Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Giljaskóla

Vala Björk Stefánsdóttir, deildarstjóri eldri deildar við Giljaskóla

Big picture