
Fréttamolar úr MS
9. mars 2022
Dagsetningar framundan
10. mars - Nefndakvöld í MS kl. 18.00
17. mars - Árshátíð SMS
- Umsjónarfundir í hádeginu hjá 2. námsári til að undirbúa valdag
- Kennsla fellur niður frá kl. 13
18. mars - Matsdagur
21. mars - Valdagur 2. árs nema (kennt skv. stundaskrá)
Spennandi tímar framundan!
Nú er skólastarfið komið á fullan skrið á vorönn og nóg um að vera. Í gær fór fram stjórnlagaþing SMS í matsalnum og tókst vel til, á morgun verður nefndakvöld í skólanum og svo líður óðum að stóra deginum, árshátíð SMS!
Ekki er laust við að sjá megi smá vott af vori í veðrinu núna, snjórinn er að hverfa og sól hækkar óðum á lofti. Er það von okkar að með bjartari morgnum og greiðfærari götum muni nemendur eiga auðveldara með að fara á fætur og mæta tímanlega í kennslustundir! Ef það er eitthvað sem við höfum þurft að læra síðstu ár þá er það að vera þakklát fyrir litlu hlutina í lífinu, njótum þess að vera saman og sjá til sólar með vor í hjarta!
Nefndakvöld - nefndakynningar vegna kosninga SMS
Annað kvöld (10. mars) verður boðið upp á nefndakynningar vegna tilvonandi kosninga SMS.
Hvetjum alla nemendur sem hafa áhuga á að bjóða sig fram að koma og kynna sér möguleikana. Sérstaklega viljum við hvetja nýnema til að koma og taka þátt!
Brautskráning vetrarannar 5. mars
Síðasta laugardag fór fram brautskráning vetrarannar. Að þessu sinni brautskráði skólinn 11 nemendur. Að venju var athöfnin hátíðleg og létt, ánægjulegt að geta að nýju tekið á móti aðstandendum og boðið upp á grímulausa samkomu!
Stjórnlagaþing Skólafélags MS (SMS)
Þriðjudaginn 8. mars fór fram Stjórnlagaþing SMS. Þar áttu sæti almennir nemendur auk kjörinna fulltrúa SMS sem fóru í gegnum lög og reglur nemendafélagsins í samstarfi við Kríu félagsmálastjóra og Valla sem við fengum sem sérstakan ráðgjafa til að styðja okkur í þessu mikilvæga verkefni.
Fundurinn fór vel fram, tekist var á um málefnin af virðingu og rökfestu og er það mat okkar að lög SMS hafi tekið miklum framförum á þessum fundi. Það er ótrúlega mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að láta rödd sína heyrast og starfa lýðræðislega að bættu félagslífi fyrir alla.
Kærar þakkir til ykkar allra sem tókuð þátt!
Ert þú tímaþjófur?
Nokkuð hefur borið á því nú við upphaf vorannar að stundvísi sé ábótavant.
Við hér í MS leggjum mikla áherslu á ábyrgð og virðingu og viljum því beina þeim tilmælum til lesenda að huga betur að tímastjórnun.
Seinkomur hafa mikla röskun í för með sér í kennslustundum, kennarinn þarf að útskýra aftur jafnvel breyta hópum og það er ósanngjarnt gagnvart þeim eru mættir á réttum tíma.
Berum ábyrgð á okkur sjálfum og sýnum félögum okkar virðingu, mætum stundvíslega!
Árshátíðin 17. mars
Miðasalan er hafin og er selt sér í matinn og á ballið.
Þeir sem keyptu miða á 85 ballið geta notað þann miða á árshátíðardansleikinn en þurfa að kaupa miða í matinn. Gestamiðar á 85 ballið halda gildi sínu á árshátíðardansleikinn.
Ónýttir 85 miðar verða endurgreiddir þegar árshátíð hefur farið fram.