Menntastefnufréttir

- febrúar 2021

Big picture

Draumar ganga eftir þrátt fyrir heimsfaraldur

Út er komin 3. skýrslan um innleiðingu á menntastefnunni Látum draumana rætast sem tók gildi fyrir röskum tveimur árum.
Í skýrslunni er fjallað um helstu áfangasigra sem náðust á því herrans ári 2020. Þótt vissulega hafi mikið mætt á öllu starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar á árinu var engu að síður mörgum þróunar- og nýsköpunarverkefnum hrint úr vör sem vert er að vekja athygli á. Verkefnin bera vott um nýsköpun, teymisvinnu og þrautseigju allra þeirra sem staðið hafa í framlínu menntunar í heimsfaraldrinum.

1. skýrslan um innleiðinguna.

2. skýrslan um innleiðinguna

Fjöreggið

Þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs er fjöreggið í fagstarfinu og gerir öllum starfsstöðum kleift að framfylgja sínum áherslum í innleiðingu menntastefnunnar.

Í starfsáætlunum sérhvers starfsstaðar SFS kemur fram með hvaða hætti fagstarfið byggir á menntastefnunni. Stefnan hefur einnig verið lögð til grundvallar í nokkrum stærri verkefnum eins og Draumaskólanum Fellaskóla þar sem unnið er að innleiðingu nýrra starfs- og kennsluhátta með áherslu á leiðsagnarnám, eflingu máls og læsis, tónlist og skapandi skólastarf. Þá leggur Víkurskóli, nýr unglingaskóli í norðanverðum Grafarvogi, ríka áherslu á nýsköpun í anda menntastefnunnar og hún verður einnig höfð að leiðarljósi í uppbyggingu nýrra menntastofnana í Vogabyggð og Skerjafirði.

Draumum fylgt eftir með fjármagni

Rík áhersla er lögð á að fagfólkið á vettvangi útfæri menntastefnuna miðað við aðstæður á hverjum stað.


Reykjavíkurborg veitir nauðsynlegan stuðning í formi almennra aðgerða sem eiga að fylgja eftir helstu stefnumiðum. Þær má skoða í skýrslunni en fela m.a. í sér:Nokkrar lykiltölur um ávinning af almennum aðgerðum


 • +6.500 þátttakendur í starfsþróun
 • 130 börn á sumarnámskeiði í íslensku
 • 25 börn í Birtu-stoðdeild fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd
 • 31.072 heimsóknir inn á vefinn menntastefna.is á árinu 2020
 • 450 verkfæri sett inn í verkfærakistu menntastefnunnar
 • 360 ný myndbönd búin til og sett á Vimeo
 • 46.000 áhorf á Vimeo myndbönd
 • 170 verkefni í A-hluta þróunarsjóðs fengu styrk
 • 25 umsóknir og 10 styrkt verkefni úr B-hluta þróunarsjóðsins
 • 8 styrktarverkefni í B-hluta unnin í samvinnu við fræðasamfélagið
 • 125,5 m.kr í styrki fyrir 33 alþjóðleg samstarfsverkefni
 • 118 námsleyfi til leikskólastarfsfólks
 • 34 námsleyfi til starfsfólks í frístundastarfi
 • 32% fjölgun í grunnnám á MVS HÍ - alls 980 umsóknir á árinu 2020


Stofnaður hefur verið framtíðarhópur sem hefur fengið það hlutverk að leggja mat á hvernig til hefur tekist að innleiða menntastefnuna síðastliðin ár og leggja fram aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára.

Menntastefnumót í maí

Rafrænt Menntastefnumót verður haldið 10. maí fyrir allt starfsfólk í skóla- og frístundastarfinu. Það verður uppskeruhátíð fyrir það víðtæka þróunar- og nýsköpunarstarf sem unnið hefur verið síðastliðin tvö ár. Auk þess verður boðið upp á fræðslu og fyrirlestra sem tengjast áherslum stefnunnar. Starfsstaðir eru hvattir til að senda inn tillögur að kynningum.


Meðal fyrirlesara á Menntastefnumótinu verður finnski menntunarfræðingurinn Pasi Sahlberg sem lagði töluvert á vogarskálarnar þegar verið var að móta menntastefnuna.


Á stefnumótinu verða einnig afhent hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið fagstarf í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar.

Allir geta tilnefnt til verðlaunanna - sjá frétt og tilnefningarblað.

Komdu og skoðaðu í verkfærakistuna

Stöðugt vex framlag starfsfólks í verkfærakistu menntastefnunnar en þar má deila hugmyndum og verkefnum sem hafa reynst vel í fagstarfinu. Um 450 verkfæri eru komin í kistuna sem styðjast má við til að framfylgja meginþáttum stefnunnar; félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Dæmi um verkfæri sem borist hafa í kistuna frá starfsfólki á liðnum mánuðum:


Stafræn vegferð og miðlun

Starfssemi á vegum Mixtúru í Safamýri 5 er liður í því að bæta stuðning við fagstarfið í skólum og frístundamiðstöðvum. Þar er m.a. aðstaða fyrir skapandi tækni í snillismiðjum, Búnaðarbanki og fjölnota salur. Á síðustu misserum hefur Mixtúra einnig haft umsjón með upptökum og gerð fjölmargra myndbanda. Þá býður aðstaðan upp á að flytja fræðslu, ráðstefnur og viðburði yfir á net. Dæmi um það eru:Vefurinn Nám í Reykjavíkurborg stutt af neti fór í loftið á vormánuðum. Á honum eru kennslumyndbönd, leiðbeiningar, handbækur og margt fleira.

Fjölbreytt starfsþróun í tengslum við tæknilausnir og nám á neti er í boði á vegum Mixtúru vorið 2021, sjá starfsþróunarsíðu menntastefnuvefsins.

Nýmið í Mixtúru 2021

Samstarf við Menntavísindasvið HÍ skilar árangri

Senn eru tvö ár síðan skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Menntavísindasvið HÍ gerðu með sér samning um gagnvirkt samstarf. Annars vegar er lögð áhersla á aukna fræðslu og ráðgjöf frá kennurum og sérfræðingum á Menntavísindasviði til starfsfólks SFS og hins vegar að gera fagstarf í skólum og frístundastarfi borgarinnar sýnilegra í öllu fræðastarfiinu, s.s. í kennslu og rannsóknum. Það hefur sýnt sig að þetta samstarf, sem byggir á menntastefnunni, hefur styrkt mjög tengsl við háskólasamfélagið og lyft undir starfsþróun á sviðinu.


Samstarfssamningurinn miðar ekki síst að því að fjölga fagmenntuðu starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með áherslu á öflugt kynningarstarf. Eins og kom fram hér að ofan hefur það samstarf skilað sér í mikilli fjölgun í allt grunnnám hjá Menntavísindasviði.


Einnig hefur verið leitast við að byggja upp markvissa símenntun með námskeiðahaldi, leiðsögn, ráðgjöf og rannsóknum, svo og að bjóða starfsfólki, sem lokið hefur stúdentsprófi og/eða grunn- eða framhaldsnámi í háskóla, upp á einingabært nám.

Sjá skýrslu um samstarf MVS og SFS

Fjölmörg námskeið í boði

Tækifærum til starfsþróunar hefur fjölgað jafnt og þétt. Lögð hefur verið áhersla á að bjóða upp á lengra og einingabært nám á Menntavísindasviði en mikilvægt er að hafa í huga að fara má margar leiðir að sama marki.


Margvísleg styttri námskeið eru í boði og einnig er hægt að skrá sig í lærdómssamfélög og tengiliðahópa, á sérsniðin og sértæk námskeið, s.s. á vegum Mixtúru og Miðju máls og læsis.
Kynntu þér möguleika þína á starfsþróun og mundu að svo lengi lærir sem lifir.

Nýttu þér kynningarefni um menntastefnuna

Í tengslum við innleiðingu menntastefnunnar hefur verið útbúið kynningarefni; bæklingar, veggspjöld og póstkort á íslensku, ensku og pólsku að ógleymdum vef menntastefnunnar.


Kynningar- og myndefni er aðgengilegt á vefnum, m.a. smámyndir sem hægt er að hafa með undirskrift í tölvupósti og myndskreyta með skýrslur, glærur og annað efni.


Starfsfólk er hvatt til að nýta þetta myndefni og taka þátt í að kynna helstu áherslur menntastefnunnar.

Gátlistar og fimm myndbönd

Starfsfólk SFS getur nýtt sér gátlista til að meta að með hvaða hætti unnið er að fimm grundvallarþáttum menntastefnunnar. Hægt er að nálgast gátlistana á rafrænu formi með því að setja inn notandanafn og lykilorð sem starfsstaðir hafa fengið úthlutað.

Fimm myndbönd hafa verið gerð um hvernig nýta má gátlistana.

Skapandi, styðjandi, vaxandi

Á menntastefnuvefnum er hægt að kynna sér þau nýsköpunar- og þróunarverkefni sem fengið hafa styrki og skilað afrakstri sem samnýta má í námi og leik um alla borg. Meðal þeirra er verkefnið Siðfræðikennsla í frístundastarfi sem unnið var í samstarfi frístundaheimilisins Undralands, Tjarnarinnar og Háskóla Íslands.


Skapandi námssamfélag í Breiðholti er annað verkefni með margvíslegu kennsluefni, s.s. vínyl-uppskriftarbók og bæklingnum Hvað er mýsli? og Sýslað með mýsli.

Samstarfsverkefnið Austur-Vestur sem unnið er af kennurum í Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla, Selásskóla og Háskóla Íslands hefur líka skilað sér í kennsluefni og leiðbeiningum um sköpunarsmiðjur sem hægt er að kynna sér á vef verkefnisins.

Sjálfsefling í leikskólum

Samstarfsverkefni fjögurra leikskóla; Engjaborgar, Funaborgar, Hólaborgar og Sunnufoldar, um innleiðingu menntastefnunnar hefur skilað sér í myndböndum um sjálfseflingu barna og starfsfólks. Þau henta einnig foreldrum. Í myndböndunum er farið yfir nokkur grundvallaratriði í samskiptum við yngri börn, vera virkur í leik, fara niður í hæð barna, að heilsa og kveðja og brosa.

Myndböndin eru á íslensku, ensku og pólsku og aðgengileg í verkfærakistu menntastefnunnar.

Uppspretta - náma um menningartengda fræðslu

https://fb.watch/3IG1VxOxGX/
Big picture

Skrekkur brestur á!

Loksins er komið að því! Hæfileikakeppnin Skrekkur 2020, sem fresta þurfti þrisvar sinnum á liðnu ári vegna samkomutakmarkana, hrekkur nú í gang. Átján skólar taka þátt að þessu sinni og keppa til úrslita í Borgarleikhúsinu 1. 2. og 3. mars. Keppnin verður án áhorfenda, en fer fram kl. 20.00 í beinu streymi á www.ungruv.is. Úrslitakvöldið verður svo í beinni sjónvarpssendingu á RÚV á sama tíma þann 15. mars.

Félagsmiðstöðvarnar eru nú að undirbúa Skrekks-partý þar sem unglingarnir geta notið sviðslista skólafélaga sinna öll kvöldin í stigvaxandi spennu. #skrekkur

LÁN - listrænt ákall til náttúrunnar

Fimmtán skólar taka þátt í þróunarverkefninu Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) sem ætlað er skapa samtal á milli náttúrufræði og listgreina. Lögð er áhersla á að fræðast um náttúruna á skapandi hátt með aðferðum list- og verkgreina.

Markmið LÁN samstarfsverkefnisins er m.a. að:

 • List- og verkgreinakennarar öðlist nýja sýn á málefni náttúrufræði á sama tíma og náttúrufræðikennarar kynnist vinnuaðferðum lista og hönnunar.

 • Kennarar byggi á fyrri reynslu og leiti leiða við að auka áhuga ungs fólks á náttúrufræðum og málefnum sjálfbærni.

 • Mæta kröfum menntastefnu Reykjavíkur um fjölbreytta kennsluhætti.

 • Stuðla að samtali milli kennara sem vilja innleiða sjálfbærni og þverfaglegra kennsluhætti.

 • Styrkja tengslanet milli skóla.


Verkefnið er viðbragð við heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna vegna hamfarahlýnunar og leið fyrir skólasamfélagið til að nálgast vandann á nýjan hátt.


Skólarnir sem taka þátt í LÁN eru Fellaskóli, Foldaskóli, Hagaskóli, Háaleitisskóli, Húsaskóli, Klettaskóli, Landakotsskóli, Laugalækjaskóli, Laugarnesskóli, Melaskóli, Seljaskóli, Sæborg, Vesturbæjarskóli, Vogaskóli og Ægisborg

Áhugasamir geta tengst Facebook-síðunni: Hvað getum við gert - Listrænt ákall til náttúrunnar

VIKA SEX

Kynheilbrigði í VikuSex

VikaSex hefur fest sig í sessi enda byggir kynfræðsla í 6. viku ársins alfarið á hugmyndum unglingannna sjálfra um fræðslu og umræður. Í fyrra var þema vikunnar samskipti og tilfinningar og á þessu ári kynlíf. Unglingar í skólum og félagsmiðstöðvum borgarinnar tóku virkan þátt í umræðum og ræddu m.a. muninn á klámi og kynlífi, fóru á trúnó, saumuðu út kynfæri og bökuðu frumlegar kynfærakökur.

Kynheilbrigði fellur undir alla lykilþætti menntastefnunnar og útfærir sérhver starfsstaður verkefnið á þann hátt sem best hentar hverju sinni. Fjölbreytt fræðsluefni um kynheilbrigði er að finna undir VIkuSex á vef menntastefnunnar.

Stelpur skrifuðu, kvikmynduðu og klipptu

Níu stuttmyndir urðu til á námskeiðinu Stelpur filma! sem haldið var í Norræna húsinu á haustdögum og lauk með uppskeruhátíð í Bíó Paradís. Sjötíu stelpur úr 8. og 9. bekk í níu grunnskólum tóku þátt í námskeiðinu ásamt kennurum, einum úr hverjum skóla.


Mikill metnaður er lagður í þetta verkefni sem haldið hefur verið þrisvar sinnum og hefur að markmiði að rétta við kynjahallann í íslenskri kvikmyndagerð. Það er unnið í samstarfi Mixtúru og Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar RIFF og styrkt af Barnamenningarsjóði.

Barnasáttmála fléttað inn í fagstarfið

Árið 2018 hófst formleg innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starfsemi skóla- og frístundasviðs. Verkefnastjóri hefur sinnt fræðslu og ráðgjöf til leikskóla, grunnskóla og í frístundastarfi og kynnt hvernig hægt er að nýta sáttmálann í fagstarfinu.


Á námskeiðum og fræðslufundum er farið yfir hugmyndafræði og helstu greinar sáttmálans og þær tengdar markvisst við menntastefnu borgarinnar. Háteigsskóli, frístundaheimilið Halastjarnan og félagsmiðstöðin 105 hófu innleiðingarferli á liðnu ári, einnig Borgarskóli og frístundaheimilið Hvergiland, Engjaskóli, frístundaheimilið Brosbær og félagsmiðstöðin Vígyn í Grafarvogi. Þá hefur Víkurskóli fengið kynningu og stefnir að innleiðingu Barnasáttmálans á þessu ári.

Meira um Barnasáttmálann.

Lærdómssamfélag sérkennslustjóra

Sérkennslustjórar í öllum leikskólum borgarinnar eru að byggja upp lærdómssamfélag með stuðningi Fjólu Þorvaldsdóttur, verkefnastjóra sérkennslu, og Þóru Sæunnar Úlfsdóttur, verkefnastjóra hjá Miðju máls og læsis.
Yfirlit yfir starfsemi hópsins er á vef menntastefnunnar auk þess sem gefin hefur verið út handbók sérkennslustjóra með öllum helstu upplýsingum.

Big picture