Fréttabréf Grenivíkurskóla

5. tbl. 3. árg. - maí 2022

Kæra skólasamfélag

Þá er síðasti kennslumánuður þessa skólaárs runninn upp og sól og sumar handan við hornið, þótt raunar sé alhvít jörð og snjókoma akkúrat þegar þetta er ritað!


Við héldum glæsilega Vorskemmtun í byrjun apríl sem tókst með miklum ágætum. Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna á sýningarnar sem og fyrir veitta aðstoð við undirbúning og frágang í tengslum við þær.


Það er gaman að segja frá því að skólinn fékk á dögunum afar veglegan styrk frá Gjögri hf., sem gerði okkur kleift að kaupa iPada fyrir nemendur á miðstigi. Tækin eru í uppsetningu sem sakir standa en verða komin að fullu í gagnið í upphafi næsta skólaárs. Með þessari viðbót er skólinn orðinn býsna vel tækjum búinn og nú er það verkefni okkar að hagnýta þau með fjölbreyttum og skapandi hætti, nemendum til hagsbóta. Við þökkum Gjögri hf. kærlega fyrir þennan höfðinglega styrk!


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í apríl að þessu sinni, en fresta þurfti keppninni í ljósi aðstæðna í vetur. Í Grenivíkurskóla fór fram heimakeppni þann 20. apríl og stóðu nemendur sig með stakri prýði. Dómnefnd átti erfitt val fyrir höndum en það voru þeir Hilmar Mikael Þorsteinsson og Sigurður Arnfjörð Bjarnason sem voru valdir til þess að vera fulltrúar skólans á lokahátíðinni.


Lokahátíðin fór svo fram í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík þann 27. apríl, en þangað mættu lesarar frá Grenivíkurskóla, Þelamerkurskóla, Hrafnagilsskóla, Grunnskóla Fjallabyggðar, Dalvíkurskóla og Árskógarskóla. Keppendur stóðu sig allir frábærlega og svo fór að Sigurður Arnfjörð stóð uppi sem sigurvegari. Við óskum honum, og keppendum öllum, til hamingju með frábæran árangur.

Tónlistar- og upptökuhergið klárt

Á 40 ára afmæli skólans síðastliðið haust fékk skólinn glæsilega afmælisgjöf frá Sænesi ehf., styrk sem nýttur var til að standsetja glæsilegt tónlistar- og upptökuherbergi í Grýtu á neðri hæð skólans. Herbergið er nú tilbúið og komið í gagnið og óhætt að segja að það gjörbreyti jafnt aðstöðu til tónlistarkennslu sem og bjóði upp á fjölbreytta möguleika til náms og sköpunar í tengslum við t.d. tónlist, myndbands- og hlaðvarpsgerð. Það er von okkar að herbergið nýtist vel á komandi árum og auki áhuga og efli sköpunargáfu nemenda.

Brunaæfing

Miðvikudaginn 20. apríl sl. var haldin brunaæfing í Grenivíkurskóla. Brunabjallan fór af stað, nemendur rýmdu skólann og slökkvilið Grýtubakkahrepps mætti á svæðið, svo úr varð góð æfing fyrir alla viðkomandi.


Landinn fylgdist með útkalli slökkviliðsins og störfum þeirra á vettvangi og tók til að mynda nokkra nemendur tali. Innslag um herlegheitin birtist svo í þættinum þann 24. apríl, en sjá má innslagið hér.

Heilsueflandi skóli

Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina Mikilvægi maí. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefnum sem tileinkuð eru ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.


Afmælispakki maí fjallar um lífbreytileika og vistheimt og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.


Smellið hér til að opna afmælispakkann

Á döfinni í maí/júní

  • 26. maí: Uppstigningardagur - frí
  • 30. maí: Útivistardagur
  • 31. maí: Útivistardagur
  • 1. júní: Starfsdagur - frí hjá nemendum. Skólaslit kl. 17:00

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla