Fréttamolar úr MS

5. nóvember 2021

Síðustu kennsludagar haustannar 2021

Síðasta kennsluvika:

Vikan 8. til 12. nóvember er síðasta kennsluvika haustannar.


Matsdagar:

Mánudaginn 15. og þriðjudaginn 16. nóvember eru matsdagar og munu einhverjir nemendur þreyta sjúkrapróf eða munnleg próf í einstaka greinum þessa daga. Yfirlit yfir dagskrá matsdaga verður birt á heimasíðu skólans.


Einkunnir:

Námsmat verður með hefbundnu sniði, skráðar verða einkunnir í heilum tölustöfum og nemandi þarf að ná að lágmarki 5.0 til að ljúka áfanga. Einkunnir birtast á Námsnetinu jafn óðum en formleg einkunnabirting í Innu verður miðvikudaginn 17. nóvember kl. 20.


Námsmatssýning:

Nemendur geta gert athugasemdir við námsmat í einstökum greinum með tölvupósti til viðkomandi kennara, mikilvægt að rökstyðja mál sitt vel. Kennarar verða svo með viðtalstíma í skólanum fimmtudaginn 25. nóvember milli klukkan 11.30 og 12.00. Birt verður yfirlit yfir stofur kennara þegar nær dregur.


Brautskráning:

Fer fram í MS laugardaginn 27. nóvember kl 10:45. Útskriftarefni eru 13 að þessu sinni og nægt rými fyrir aðstandendur.


Vetrarönn 2021 - 2022:

Ný önn hefst mánudaginn 22. nóvember á umsjónarfundum í skólanum. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. nóvember.

Kennslukönnun

Að þessu sinni fer kennslukönnun fram inni á Innu.


Við minnum ykkur á að fara inn á Innu og taka þátt í kennslukönnuninni sem er opin út föstudaginn12. nóvember. Þetta er mikilvægur liður í sjálfsmati MS og notað til þess að bæta skólastarfið. Hér fyrir neðan er að finna nánari leiðbeingar varðandi kennslukönnunina.

Big picture

Gætum að persónubundnum sóttvörnum

Covid smitum hefur fjölgað til muna síðustu daga. Ný reglugerð er væntaleg og hvetjum við nemendur og starfsfólk til að gæta að persónubundnum smitvörnum. Munum að spritta hendur, sótthreinsa vinnusvæði og nota grímur þar sem ekki er hægt að halda viðeigandi fjarlægð. Grímuskylda verður aftur tekin upp á mánudaginn (8. nóv.).

Umsjón nýnema

Vikulegir umsjónarfundir fyrir nýnema fara fram í hádeginu á fimmtudögum frá kl. 12:30-13:00. Vikulega eru tekin fyrir ný málefni sem tengjast skólanum auk þess sem hópurinn vinnur ýmis samvinnuverkefni þess á milli. "Rúllan" eins og hún er kölluð meðal starfsmanna hefur farið fram þrisvar sinnum og er það mat þeirra sem sinna verkefninu að það fari vel af stað. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir dagskrá rúllunnar.

Leggjum löglega! Vöndum okkur og tryggjum aðgang neyðarbíla að Vogaskóla

Big picture

Félagslíf á fullri ferð

Mikið hefur verið um að vera í félagslífinu undanfarið. Góðgerðarvika var haldin til styrktar "Einstökum börnum" í lok október. Forval er í gang fyrir Morfís og í dag var lögð fyrir forkönnun fyrir "Gettu betur". Alls tóku 144 nemendur þátt og ljóst að í skólanum eru afar frambærilegir einstaklingar sem gaman verður að vinna með næstu vikurnar!
Big picture

Nýnemaball í september og ´85 ball í nóvember

Nemendur stóðu sig gríðarlega vel á fyrsta balli vetrarins og nú líður óðum að einum helsta hápunkti félagslífsins, 85 vikunni víðfrægu.

Beiðni um skemmtanaleyfi hefur verið lögð inn á borð sýslumanns og stefnt á að '85 ballið. verður haldið í Víkinni (íþróttahúsi Víkings) í fyrstu kennsluviku vetrarannar þann 25. nóv. og verður stanslaus dagskrá í boði alla þá viku. Skipulagið heldur sér þrátt fyrir vaxandi óvissu í covidmálum en vissulega setja fréttir dagsins ákveðinn fyrirvara varðandi dagskrána.

Miðhópur og formaður skemmtinefndar

Hetjupotturinn

Alls skráðu 171 hetjur sig til leiks í edrúpottinum á nýnemadansleiknum. Það gerðu þau með því að blása í áfengismæli og sýna þannig fram á allsgáða gleði í verki. Glæsilegir vinningar voru í boði. Áhrifavaldurinn og MS-ingurinn Edda Falak kom í heimsókn og dró vinningshafa úr rafrænum potti við góðar undirtektir nemenda. Þetta var spennuþrungin athöfn og vel við hæfi að hafa þetta á forvarnadaginn sjálfan, þann 6. október. Sjö stúlkur og einn strákur voru dregin úr pottinum og óskum við þeim innilega til hamingju, meðal vinninga voru boðsmiðar á '85 ballið, vegleg gjafakort í boði foreldraráðsins, sundmiðar og margt, margt fleira. Þeir sem voru í hetjupottinum fá svo tækifæri til þess að bjóða gesti á 85 ballið!

Vel mönnuð foreldravakt á nýnemadansleik

Nýnemadansleikurinn fór fram í gulri veðurviðvörun. Á þriðja tug foreldra úr MS mættu og stóðu vaktina. Foreldravaktin aðstoðar nemendur í vanda, deilir út teppum til þeirra sem er kalt í röðinni og tínir upp rusl sem myndast í kringum staðinn. Síðast en ekk síst fælir hópur gulklæddra forráðamanna óviðkomandi umferð frá staðnum. Stjórnendur skólans þakka stjórn foreldraráðsins fyrir gott skipulag og öllum sem stóðu vaktina. Næsta ballvakt verður fimmtudaginn 25. nóvember á 85 ballinu og þar verður þörf á sama fjölda aðstandenda!
Big picture

Aðalfundur foreldraráðs MS

Forledraráð skólans hélt aðalfund sinn í skólanum í byrjun október. Eftir venjuleg aðalfundarstörf kynnti Kría félagsmálastjóri MS starf sitt með nemendum og markmið þess. Rektor og konrektor mættu einnig á fundinn og var rætt um hvernig hægt væri að hjálpa nemendum að byggja upp fleiri þætti félagslífsins svo það næði til enn breiðari hóps nemenda.
Big picture

Útskriftarráð 2003 árgangs

Útskriftarráð nemenda í MS sem eru fæddir 2003 og útskrifast frá skólanum næsta vor hittast reglulega. Ráðið hefur skipað í ferðanefnd, fjáröflunnar hópa, ritstjóra Tirnu og verkefnisstjóra um fardag nemenda. Ráðið mun hittast reglulega í vetur. Mikil stemming hefur myndast í útskriftarhópnum og er gaman að sjá þann áhuga sem árgangurinn sýnir.

Framkvæmdastjóri útskriftarráðsins er Guðrún Vernharðsdóttir.