Jákvæður agi á Íslandi

Fréttabréf september 2023

Gleðilegt nýtt skólaár!

Kæru félagsmenn


Þá er nýtt skólaár hafið af krafti í skólum landsins og gaman að sjá að víða er hugur í fólki að efla Jákvæðan aga og nýta þá möguleika sem starfshættir stefnunnar gefa í skólastarfinu.

Skólum í hópnum fjölgar stöðugt og nú telst okkur til að það séu hátt í 50 skólar á landinu sem nýta sér Jákvæðan aga.

Það er líka hugur í okkur í stjórn félagsins að efla starfsemina þannig að við getum sem best stutt við bakið á skólum og einstaklingum við innleiðingu og notkun stefnunnar.


Aðalfundur félagsins Jákvæður agi á Íslandi var haldinn þann 1. júní sl. og þar var kjörin ný stjórn. Á fyrsta fundi stjórnarinnar skipti hún svo með sér verkum og er stjórnin þannig skipuð: Ágúst Jakobsson formaður, Aníta Jónsdóttir gjaldkeri, Sólrún Óskarsdóttir ritari, Ástrós Rún Sigurðardóttir, Helga Jónsdóttir, Júlía Birgisdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir meðstjórnendur.


Þetta fréttabréf gefur yfirlit yfir helstu verkefni framundan hjá félaginu. Nú er að koma út þýðing á handbók fyrir grunnskólastigið og er hægt að panta hana á heimasíðu félagsins. Jafnframt hefur verið prentað nýtt upplag af leikskólahandbókinni sem einnig er hægt að panta á heimasíðunni. Næsta þýðingarverkefni sem við höfum á dagskrá er að gefa út verkfæraspjöld fyrir skólastarfsfólk og ef vel gengur munum við dreifa þeim til félagsmanna okkar þegar líður á veturinn. Við stefnum einnig að nokkrum endurbótum á heimasíðunni okkar sem felast m.a. í að auka töluvert efni sem hægt er að nálgast á lokaða svæði hennar, bæði hvar varðar stutt fræðslumyndbönd og prentað efni til nota fyrir félagsmenn. Liður í þessu er að auglýsa eftir efni meðal félagsmanna sem gæti nýst í hugmyndabanka á heimasíðunni. Auk útgáfumála munum við standa fyrir mánaðarlegum fræðslu- og umræðufundum sem við vonum að verði vel sóttir. Allar hugmyndir um hvernig félagið geti sem best stutt við ykkur eru síðan afar vel þegnar.


Með bestu kveðjum og von um gott og árangursríkt skólaár!

Stjórnin

Námskeið framundan

Í október eru þrjú tveggja daga réttindanámskeið á döfinni. Á tveggja daga námskeiðunum er farið ítarlega í hugmyndafræði Jákvæðs aga og kenndar leiðir til að hagnýta fræðin í skólastarfinu. Að loknum námskeiðunum öðlast þátttakendur viðurkenningu til að nýta Jákvæðan aga í skólastarfi. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir t.d. nýtt starfsfólk í skólum þar sem unnið er með Jákvæðan aga að kynna sér um hvað málið snýst og öðlast innsýn í hugmyndir og leiðir stefnunnar. Námskeiðin eru haldin sem hér segir.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um námskeiðin og hlekki til skráninga.

Fræðslu- og umræðufundir vetrarins

Í vetur munu samtökin standa fyrir mánaðarlegum fræðslu- og umræðufundum á netinu. Fundirnir eru opnir félagsmönnum, starfsfólki skóla sem vinna með Jákvæðan aga og öðrum áhugasömum. Fundirnir verða að jafnaði 2. mánudag í mánuði kl. 15:00-16:00, nema að fyrsti fundurinn er þriðjudaginn 19. september. Fundirnir hefjast á stuttu innileggi um afmarkað viðfangsefni sem tengist Jákvæðum aga, en að því loknu gefst tækifæri til umræðna þar sem þátttakendur geta miðlað af reynslu sinni og fræðst hver af öðrum. Við vonumst að sjálfsögðu eftir góðri þátttöku og hvetjum ykkur til að setja eftirfarandi í dagbækur.


 • Þriðjudagur 19. sept kl. 15:00-16:00 - Innleiðing JA í grunnskólum

https://us06web.zoom.us/j/84542635622

 • Mánudagur 9. okt kl. 15:00-16:00 - Innleiðing JA í leikskólum

https://us06web.zoom.us/j/89665404306

 • Mánudagur 13. nóv kl. 15:00-16:00 – Störf í skólanum / Lausnastaðir / Lausnaleiðir

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/85990270855

 • Mánudagur 11. des kl. 15:00-16:00 - Heilinn í hendinni og griðastaðir / Trompið

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/85852693072

 • Mánudagur 8. jan kl. 15:00-16:00 – Taflan um misheppnuð markmið

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/83814709248

 • Mánudagur 12. feb kl. 15:00-16:00 – Lausnir og afleiðingar

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/82485479896

 • Mánudagur 11. mars kl. 15:00-16:00 – Bekkjarfundir/Barnafundir hvað ef illa gengur?

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/85113173840

 • Mánudagur 8. apr kl. 15:00-16:00 – Kennari hjálpar kennara

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/81224485946

 • Mánudagur 13. maí kl. 15:00-16:00 – Mat og áætlanagerð

Slóð: https://us06web.zoom.us/j/85340171757

Jákvæður agi - heimasíða

Við minnum á heimasíðuna okkar - www.jakvaeduragi.is - smellið á hlekkinn hér fyrir ofan til að opna síðuna.

Útgáfa bóka

Eitt meginhlutverk samtakanna okkar er að standa fyrir útgáfu efnis varðandi Jákvæðan aga. Á síðasta ári kom út handbók fyrir leikskólastigið, Jákvæður agi fyrir kennara ungra barna, en nú er að koma út handbók fyrir grunnskólastigið og ber hún nafnið Jákvæður agi í skólastarfinu. Báðar bækurnar eru þýddar úr ensku og hafa að geyma mikið af upplýsingum og gagnlegum æfingum fyrir hvort skólastig. Við mælum því eindregið með því að þeir sem eru að vinna með Jákvæðan aga í leik- og grunnskólum hafi aðgang að þessu efni.

Nánari upplýsingar um bækurnar má finna á heimasíðu samtakanna og þar er einnig hægt að panta eintök. Sjá hér: https://jakvaeduragi.is/utgefid-efni/

Innheimta félagsgjalda

Á aðalfundi í vor var ákveðið að félagsgjöld fyrir árið verði 6000 kr. Um nokkra hækkun er að ræða en það er vegna kröfu móðursamtakanna (Positive Discipline Association) um að félagsgjöld aðildarfélaga séu nokkurn veginn samræmd, enda fá félagsmenn aðildarfélaganna sjálfkrafa aðild að móðursamtökunum. Á næstu vikum mun félagsfólki berast greiðslubeiðnir í heimabanka. Félagsgjöldin eru nýtt til útgáfu- og fræðslustarfsemi, til rekstrar á heimasíðu félagsins o.fl. Auk þess er stefnt er að því að félagsmenn fái árlega sent efni sem nýtist þeim í starfi.

Vilt þú taka myndir fyrir okkur?

Okkur langar til að efla heimasíðuna okkar þannig að hún geti sem best virkað sem hugmyndabanki fyrir skólastarfsfólk og foreldra sem vilja kynna sér og nota Jákvæðan aga. Þar væri meðal annars gott að hafa safn mynda af lausnastöðum, einverustöðum (griðastöðum), starfalistum, veggspjöldum, bekkjarsáttmálum, hvatningarveggjum o.s.frv. Við biðjum því félagsmenn endilega um að senda okkur myndir af öllu slíku. Verið nú ekki feimin því að allar hugmyndir eru góðar og ef við leggjum í púkkið getum við búið ábyggilega búið til afar skemmtilega og gagnlega hugmyndabanka! Myndir sendist á jakvaeduragi@jakvaeduragi.is


Einnig langar okkur að komast í samband við kennara sem væru til í að útbúa með okkur myndbönd af barnafundum og bekkjarfundum. Áhugasamir eru beðnir um að senda okkur línu..

Verkfæri mánaðarins - samkomulag og eftirfylgni

Oft ákveða kennarar einhliða hvað nemendur eiga að gera eða ekki að gera, tilkynna það og vísa svo til þess sem samkomulags - jafnvel þó að nemendur hafi ekki átt neinn þátt í ákvörðuninni. Stundum þurfum við vissulega að nota tilskipanir, en þær kalla stundum á mótþróa. Oft getum við komist hjá því með því að gera samkomulag við nemendur með þeirra þátttöku, en þá reynir hins vegar á að við fylgjum því eftir - og það er reyndar mjög oft það sem við klikkum á. Eftirfarandi er "uppskrift" að því að ná samkomulagi og fylgja því eftir þannig að allir haldi virðingu og reisn. 1. Vingjarnleg umræða þar sem nemendur og kennari lýsa sínum skoðunum og hugsunum. Þetta getur farið fram á bekkjarfundi eða maður á mann.
 2. Hugstormun þar sem hugmyndum að lausnum er kastað fram og ein valin sem allir geta sætt sig við.
 3. Samkomulag um nákvæman tíma þar sem samkomulagið á að vera uppfyllt.
 4. Ef samkomulagið er ekki uppfyllt (sem gerist gjarnan) þarf að spyrja: "Hvernig var samkomulagið okkar?" Ef spurt er á vingjarnlegan hátt bregðast nemendur oftast jákvætt við og vilja standa við sinn hlut. Stundum þarf að staldra við, benda t.d. á klukkuna og brosa og bíða eftir að samkomulagið sé uppfyllt. Ef samkomulagið gengur ekki upp getur þurft að endurskoða það og fara aftur í gegnum ferlið, byrja þá gjarnan á umræðum um af hverju það gekk ekki.Best er að ræða við nemendur einslega þegar málin snúa að einstaklingum. Að taka tíma til umræðna í einrúmi sýnir að okkur er ekki sama. Notum opnar spurningar til að kanna skilning og afstöðu nemenda þegar við leitum að leið til samkomulags. Síðan er hægt að nota spurningar eins og "Værirðu til í að heyra mínar hugmyndir?" eða "Viltu heyra hvað ég veit að hefur gefist vel fyrir aðra sem voru í þessum vanda?"


Minnumst þess að ef við viljum ná fram samvinnu, gagnkvæmri virðingu, áreiðanleika og ábyrgð hjá nemendum þurfum við að leggja okkar af mörkum. Það er síðan gríðarlega mikilvægt að við séum vakandi fyrir að fylgja eftir því samkomulagi sem gert er.


Nokkrar ábendingar:


 1. Ef þú segir það - meinaðu það. Og ef þú meinar það - fylgdu því eftir! (Opnar spurningar eru oft frábær leið til eftirfylgni).
 2. Lykillinn er að sýna góðvild og festu samtímis.
 3. "Ég veit að það getur verið erfitt að upplifa afleiðingar af því sem maður velur. Ég virði þig of mikið til að bjarga þér".
 4. "Við höldum samkomulaginu okkar þar til við höfum tíma til að finna aðra lausn sem virkar betur".

Verkfærin - smáforrit

Við minnum snjallsímaeigendur á að í App store og Google play store er hægt að nálgast smáforrit sem hefur að geyma "verkfæraspjöld", annars vegar fyrir kennara og hins vegar fyrir foreldra. Gott er að finna forritið með því að leita að "positive discipline" eða "tool cards".