Fréttabréf Grenivíkurskóla

7. tbl. 2. árg. - september 2021

Kæra skólasamfélag

Þá höldum við galvösk inn í nýtt skólaár eftir heitasta sumar í manna minnum. Vonandi leikur lánið áfram við okkur og við eigum í vændum gott haust og mildan vetur!


Framundan er spennandi vetur þar sem við ætlum að þróa okkur áfram með ýmsar breytingar í skipulagi skólastarfsins. Það er von okkar að þessar breytingar takist vel til og leiði til þess að gott skólastarf verði enn betra fyrir jafnt nemendur sem starfsfólk skólans.


Við óskum hér eftir sem hingað til eftir góðu samstarfi við heimili nemenda, enda er það lykillinn að velferð, vellíðan og árangri nemenda skólans. Óhjákvæmilegt er þó að stundum komi eitthvað upp á í dagsins önn og viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að hafa samband við skólann ef upp koma atvik eða ef spurningar vakna varðandi skólastarfið.


Megi gleði, þrautseigja, sköpunarkraftur og góð samvinna einkenna skólastarfið í vetur!


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Breytingar á matarmálum

Breytingar verða á þjónustu mötuneytis skólans á þessu skólaári, nú verður nemendum boðið upp á morgunmat í skólanum og þá verður matur á borðum í hádeginu alla daga skólavikunnar. Nemendur þurfa því ekki lengur að koma með nesti að heiman á föstudögum.


Þessar breytingar voru ræddar á fundi fræðslu- og æskulýðsnefndar í vor og hafa síðan verið útfærðar nánar. Sveitarstjórn staðfesti þær svo á fundi sínum nú í haust með eftirfarandi bókun:


"Á haustönn verður boðið upp á mat á föstudögum, var áður nestisdagur. Einnig verður boðið upp á léttan morgunverð sem ekki hefur verið áður. Sveitarstjórn staðfestir breytinguna, gjald skv. gjaldskrá ársins hækkar til samræmis við aukinn fjölda máltíða og verður á haustönn kr. 7.860,- á mánuði."


Mötuneytisgjaldið hækkar því einungis sem nemur fjölgun máltíða úr 4 í 5 á viku, eða um 25%. Ekki er gerð hækkun vegna morgunmatar.


Það er von okkar að þessi breyting mælist vel fyrir.

Útivistartími og umferðaröryggi

Þann 1. september breytast reglur um útivistartíma barna og unglinga. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20:00, en 13-16 ára börn mega vera úti til kl. 22:00. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn standi saman um að virða útivistarreglurnar.


Þá er tilvalið, nú þegar skóli er hafinn á nýjan leik, að fara vel yfir ýmis atriði er varða umferðaröryggi, t.d. á leið í og úr skóla. Við munum fara yfir þessi mál með nemendum hér í skólanum, en hvetjum ykkur einnig til þess að ræða þessi mál heima við. Ýmsar upplýsingar og góð ráð varðandi umferðaröryggi er að finna á þessari síðu.

Heilsueflandi skóli - sjálfsrækt í september

Dagatal Velvirk að þessu sinni snýr að sjálfsrækt. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Útivistardagur - myndir

Fyrstu tveir skóladagarnir í haust voru útivistardagar. Veðrið var með besta móti - hlýtt og gott - þótt sólin hafi aðeins falið sig á bak við skýin. Annan daginn var farið upp að Finnastaðatjörn og ýmislegt brasað og hinn daginn var farið á "ströndina", en þangað mætti Bjarni Arason með báta, bálköst og snobrød og fleira skemmtilegt sem mæltist afar vel fyrir.


Hér má sjá myndir frá útivistardögunum.

Á döfinni í september

  • 2. september: 5.-6. bekkur fer í sjóferð á Húna II.
  • 8. september: Dagur læsis.
  • 9. september: List fyrir alla - Lalli og töframaðurinn.
  • 15. september: Ólympíuhlaup ÍSÍ.
  • 16. september: Dagur íslenskrar náttúru.
  • 16. september: Danskennsla hefst.
  • 21. september: Íþróttadagur fyrir 5.-7. bekk í Valsárskóla.

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla