Hvalrekinn

Desember 2020

Big picture

Jólakveðja frá starfsfólki

Við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra og ánægjuríkra jóla. Megi gleði og gæfa umvefja ykkur um hátíðina og á nýju ári.

Með bestu jólakveðjum,
Stjórnendur og starfsfólk Hvaleyrarskóla.

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Skólastarf í grunnskólum Hafnarfjarðar frá 2. desember 2020

Ný sóttvarnartilmæli komu nú í byrjun desember og kveða á um óbreyttar sóttvarnir í landinu, a.m.k. í eina viku í viðbót. Eftir yfirferð skólastjórnenda varðandi skólastarfið var það sameiginleg niðurstaða að halda óbreyttu skipulagi í kennslu allra grunnskóla bæjarins fram að jólafríi nemenda. Það verður reynt að auka sveigjanlega og fjölbreytni í kennslu eins og kostur er. Desember er tími jólaundirbúnings sem er hluti af hefðbundnu grunnskólastarfi í desember og það verður áfram. Þessi ákvörðun byggir á því viðhafa festu og öryggi í öllum aðgerðum okkar út frá sóttvörnum og vera ekki stöðugt að gera breytingar.

Um áramót er stefnt að því að auka kennslu í 5.-10. bekkjum og það skipulag verður kynnt foreldrum í upphafi nýs árs. Það eru þó takmörk á því hve mikið er unnt að auka kennslumagn nema að létt verði á öllum á takmörkunum í skólastarfi, s.s. aflétta kennsluhólfum, fjölda fullorðinna sem má eiga samskipti daglega í skóla og grímuskyldu hjá elstu nemendunum. Aflétting og ný tilmæli eru forsenda þess að hægt sé að taka upp fulla íþrótta- og sundkennslu, valhópa og margvíslegar smiðjur sem eru skipulagðar þvert á bekki og árganga innan og milli skóla, auk þess að taka upp hefðbundið samstarf allra sem starfa í skóla sem þarf til að skólastarfið nái sem best markmiðum sínum.

Við vonumst til þess að aðventan og jólin verði fjölskyldum ykkar gleðileg og færi öllum hvíld og farsæld til að takast á við skólastarfið enn frekar á nýju ári.


Stjórnendur Hvaleyrarskóla og

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.

Rauður dagur - jólapeysur og jólamatur 9. desember

Nú fer yndislegur tími í hönd þar sem við í Hvaleyrarskóla leggjum upp með að hafa rólegheit og gaman saman. Miðvikudaginn 9. desember ætlum við að gera okkur glaðan dag og mæta sem flest í „ jólapeysum“ eða í einhverju rauðu eða grænu. Í hádeginu þennan dag verður hátíðarmatur hjá Skólamat. Í ár verður boðið upp á kalkúnabringur, hátíðarmeðlæti og sósu ásamt íssblómi í eftirrétt. Veganrétturinn verður Oumph Wellington ásamt hátíðarmeðlæti og sósu og ís í eftirrétt

Þeir sem ekki eru í áskrift en óska eftir að taka þátt í hátíðarmáltíðinni geta keypt sérstaka matarmiða í mötuneyti skólans frá 1.-7. desember milli kl.9-11. Miðinn kostar 800 kr. og aðeins er hægt að greiða með peningum.

Dagskráin í desember

 • 9. desember verður jólamatur hjá Skólamat og jólapeysudagur eða rauður dagur.
 • Til og með 17. desember er kennsla eins og verið hefur.
 • Litlu jólin 18. desember. Verða hjá öllum nemendum skólans frá kl. 9:00 - 11:00 í samveru hjá kennurum. Nemendur í yngstu deildar koma á sal og dansa og syngja í kringum jólatréð sem hér segir:
 • kl.9:05 nemendur í 1. bekk
 • kl. 9:40 nemendur í 2. bekk
 • kl.10:05 nemendur í 3. bekk
 • kl. 10:40 nemendur í 4. bekk
 • Þeir nemendur sem eru skráðir í Holtasel verða áfram í sínum hólfum með stuðningsfulltrúum og skóla- og frístundaliðum þar til starfsfólk Holtasels tekur við kl. 13:00.
 • Aðrir nemendur eiga huggulega stund í sínum bekk allan tímann.

Öðruvísi jóladagatal hjá nemendum í yngstu deild

Nemendur í 1.- 4. bekk taka þátt í Öðruvísi jóladagatali sem er á vegum SOS barnaþorpa. Þetta er í þriðja árið sem við tökum þátt en í fyrra safnaðist 116 þúsund krónur sem fóru í að styrkja gott málefni í Tulu Moye í Eþíópíu. Nú í ár er ætlunin að styrkja barnaþorpið í Tógó. Jóladagatalið gengur út á það að á hverjum degi sjá nemendur myndbönd frá ólíkum löndum í heiminum en ætlunin er að heimsækja Rússland, Bosníu-Hersegóvínu, Keníu, Lettland, Líberíu, Nepal, Kósóvó, Eþíópíu, Sýrland, Indland og Kólumbíu. Þegar búið er að horfa á myndböndin frá þessum löndum skapast oft góðar umræður um aðstæður barna á þessum ólíku stöðum. Nemendur vinna síðan heimilisverk sem þeir fá pening fyrir en peningunum verður svo skilað í þetta góða málefni.

Kennsla hefst að loknu jólafríi samkvæmt stundaskrá mánudaginn 4. janúar 2021.

Ferðalög erlendis um jól og áramót

Ef foreldrar hyggjast á ferðalög erlendis um jól og áramót er mikilvægt að vera meðvituð um þær
aðgerðir sem eru í gildi við landamærin á Íslandi þegar komið er heim á ný. Hér má finna leiðbeingar frá framkvæmdastjóra almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins.

Big picture

Kennsla á yngsta stig, 1. - 4. bekkur

 • Skóladagur er frá kl. 8:20 - 13:20 en þá tekur Holtasel við hjá þeim nemendum sem þar eiga viðveru, hver í sínu kennsluhólfi.
 • Nemendur koma inn um sinn inngang eins og verið hefur. Kennarar koma inn um sama inngang. Enginn kemur inn um aðalinngang skólans.
 • Kennt er í kennsluhólfum hver árgangur er eitt kennsluhólf og mega nemendur fara á milli stofa í kennsluhólfinu.
 • Frímínútur eru frá kl. 9:40 - 10:00.
 • Matur og frímínútur frá kl. 11:10 - 11:45. Mismunandi eftir árgöngum.
 • Íþróttir og sund er kennt samkvæmt stundaskrá og nú hefur Suðurbæjarlaug opnað fyrir skólasund þannig að allir hópar fara í sund.
 • Frístundabíllilnn bætist nú við með sitt skipulag frá því fyrr í haust.

Kennsla á miðstigi, 5. - 7. bekkur

 • Áfram er einn bekkur eitt kennsluhólf.

 • Kennt verður frá kl. 9:00 – 11:50 í sama skipulagi og verið hefur.
 • Frímínútur eru kl. 10:00 – 10:20 og fara nemendur út allir saman.
 • Matur er kl. 11:45 – 12:05 í matsal í hólfaskiptingu.
 • Nemendur koma inn um sinn inngang. Kennarar koma inn um sama inngang. Enginn kemur inn um aðalinngang skólans.
 • Nemendur mega ekki fara á milli kennsluhólfa.
 • Kennarar mega fara á milli bekkja ef ýtrustu sóttvörnum er fylgt.
 • Gert er ráð fyrir heimavinnu í 2 klukkustundir á dag. Vikuáætlun þar sem fram kemur það sem gert er í skólanum og á að gera heima er inni á Mentor og einnig eru verkefni á Ipadinum í Google Classroom. Þeir foreldrar sem vilja fá aðgang að Classroom barna sinna hafi samband við umsjónarkennara.

Kennsla á elsta stigi, 8. - 10. bekkur

 • Áfram einn bekkur er eitt kennsluhólf.
 • Kennt verður frá kl. 9:00 – 12:05 í sama skipulagi og verið hefur.
 • Hreyfing úti frá kl. 10:20 – 10:40.
 • Matur er kl. 12:05 – 12:25 í matsal í hólfaskiptingu.
 • Nemendur koma inn um sinn inngang. Kennarar koma inn um sama inngang. Enginn kemur inn um aðalinngang skólans.
 • Nemendur mega ekki fara á milli kennsluhólfa.
 • Kennarar mega fara á milli kennsluhólfa ef ýtrustu sóttvörnum er fylgt.
 • Gert er ráð fyrir heimavinnu í 3 klukkustundir á dag. Vikuáætlun þar sem fram kemur það sem gert er í skólanum og á að gera heima er inni á Mentor og einnig eru verkefni á Ipadinum í Google Classroom. Þeir foreldrar sem vilja fá aðgang að Classroom barna sinna hafi samband við umsjónarkennara.

Mikilvægi læsis og móðurmáls.

Hér er hægt að nálgast bæklinga á ýmsum tungumálum um mikilvægi móðurmálsins. Að hafa gott vald á móðurmálinu hjálpar börnum að læra íslensku, þar sem tungumál vinna saman, en er ekki síður mikilvægt til að þroska með einstaklingum öryggi og sterka sjálfsmynd.

https://www.ryerson.ca/mylanguage/brochures/


Hér er bæklingur frá Bókasafni Hafnarfjarðar um mikilvægi lesturs og að skapa notalegar lestrarstundir foreldra og barna. Þessi bæklingur er bæði á íslensku, ensku og pólsku.

https://www.hafnarfjordur.is/media/auglysingar/laesisbaeklingur-isl.pdf

https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-ens.pdf


https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-pol.pdf

Hvaleyrarskóli 30 ára

Skólasöngur Hvaleyrarskóla

Munum öll - að þakka fyrir það.

sem okkur er gefið, sama hvað,

Með jákvæðni og æðruleysi.

Það sem bætir lífið okkar er kurteisi.


- Viðlag -

Við í Hvaleyrarskóla stöndum hönd í hönd

Ekkert mun slíta okkar vinabönd.

saman skínum skært sem kertaljós

því skólinn minn er mitt leiðarljós


-BRÚ -

Við hjálpumst alltaf að

nefndu stund og stað,

þá kem ég með

og stend með þér.


Umhverfið - pössum við vel

Og pössum hvort annað, líka jafn vel.

Erum vafin vinatryggð.

Það sem bætir lífið okkar er ábyrgð


- VIÐLAG -


Bjóðum hjálp, ef eitthvað er að

og tökum vel eftir, hugsum um það

Í amstri dagsins er mörgu að sinna

Það sem bætir lífið okkar er, samvinna.


- VIÐLAG Í KEÐJU


lag : Guðrún Árný texti : Palli ( Páll S. Sigurðsson) og Guðrún Árný

Skáknetmót fyrir nemendur í Hafnafirði

Hafnarfjarðarbær vill bjóða öllum grunnskólabörnum á netskákmót alla laugardaga til 12. desember. Skákmótið hefst klukkan 11:00.

Við hvetjum ykkur til að benda börnum ykkar á að taka þátt.

Gjafabréf í Ísbúð Vesturbæjar verður fyrir þrjú efstu sætin næstkomandi laugardag.


Hér eru skrefin sem þarf að fara í gegnum til þess að taka þátt (mjög einfalt):


 1. Búa til aðgang á www.chess.com (frítt)
 2. Gerast meðlimur í hópnum “Hafnarfjörður-skólar”: https://www.chess.com/club/hafnarfjordur-skolar
 3. Skrá sig á mótin sem hægt er að gera allt að 60 mínútum áður en þau hefjast.
  Mótin verða einnig auglýst á forsíðu hópsins inná chess.com.

Alla laugardaga 11:00-12:00

https://www.chess.com/live#r=603127 (Tengill gildir fyrir mótið þann 17. nóvember, síðan verða tenglar uppfærðir inná á forsíðu Hafnarfjörður-skólar á chess.com vikulega.)


Við mælum með að þið notið borðtölvu/fartölvu, því Chess.com appið virkar ekki á mótum.

Mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðarbæjar

Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum

Foreldrafélag Hvaleyraskóla hefur ákveðið að styrkja bekkjatengla fyrsta til fimmta bekkjar um hámark 5.000 kr. á önn til þess að gera eitthvað skemmtilegt með bekkjunum. Fyrirkomulagið er þannig kvittanir fyrir útlögðum kostnaði auk samantektar á heildarkostnaði er send á póstfang foreldrafélagsins (foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is). Þar sem koma þarf fram nafn bekkjar og tilefni (hvað var gert með bekkjunum) og nafn, kennitala og bankaupplýsingar bekkjatengils. Gefum okkur um viku til að endurgreiða útlagðan kostnað.

Foreldrarölt

Foreldraröltið fer þannig fram að foreldrar mæta við Hvaleyrarskóla kl. 21:45 á föstudagskvöldi.


Rölt er um hverfi Hvaleyrarskóla og fylgst með hópamyndun barna og unglinga. Bekkjarfulltrúar sjá síðan um að senda línu um hvernig röltið gekk á netfangið foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is. Ef þörf er á, röltum við líka á laugardögum í samráði við forvarnarfulltrúa og lögreglu en það tilkynnist þá sérstaklega.


Hér má sjá skipulag foreldrarölts veturinn 2020-2021.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.

Skólasöngur Hvaleyrarskóla

aæflksa æfslajk