Fréttabréf Kópavogsskóla

Ágúst 2018

Ágætu foreldrar

Undirbúningur fyrir skólaárið 2018-2019 er í fullum gangi og nóg að gera hjá kennurum við skipulag kennslu og starfsþróun. Formlegur undirbúningur hófst miðvikudaginn 15. ágúst og námskrárvinna hefur verið fyrirferðarmest það sem af er. Fjölmargir kennarar sóttu símenntunarnámskeið dagana 9. - 14. ágúst en sá hluti kennarastarfsins fer fram eftir lok eða fyrir byrjun skólaársins.


Töluverðar breytingar eru að verða á starfsmannahópnum. Nokkrir kennarar hættu vegna aldurs sl. vor og nokkrir eru í launalausu leyfi á skólaárinu vegna náms eða persónulegra ástæðnu. Einnig hefur fjölgun nemenda og breytingar í mötuneytismálum í för með sér fjölgun starfsmanna. Alls eru 12 nýir kennarar að hefja störf í Kópavogsskóla þetta árið og aðrir nýir starfsmenn í hin ýmsu störf eru 8. Nýir starfsmenn eru því óvenju stórt hlutfall af starfamannahópi sem telur um 70 manns þetta árið.


Gríðarmiklar framkvæmdir hafa verið í skólahúsnæðinu í sumar en það sér sem betur fer fyrir endann á þeim. Þeim verða gerð nánari skil hér fyrir neðan auk upplýsinga um skráningu í frístund (fyrir nemendur í 1.-4. bekk) og skráningu í hádegismat sem nú verður eldaður að fullu í nýju eldhúsi skólans.


Með kveðju og von um áframhaldandi gott samstarf.


Skólastjóri

Upplýsingar um frístund

Skráning í frístund fer alltaf fram í íbúagátt Kópavogsbæjar. Skráningu þarf að vera lokið fyrir 20. hvers mánaðar og tekur skráning þá gildi um næstu mánaðamót á eftir. Umsóknarfrestur í upphafi skólaárs er þó alltaf lengri og í ágúst þarf skráningu að vera lokið fyrir sunnudaginn 26. ágúst.

Vel hefur gengið að fá starfsfólk í frístundina og vonir um að hún verði fullmönnuð strax í upphafi skólaársins. Nýr forstöðumaður er Ásthildur Guðmundsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur en hún hóf störf 13. ágúst sl. Skipulag vetrarstarfsins er í fullum gangi og verður kynnt foreldrum í upphafi skólaársins.


Minni á að frístundin er lokuð á skólasetningardaginn (þ.e. 23. ágúst) því þá er verið að ganga frá eftir sumardölina og gera allt tilbúið fyrir þau 100 börn (væntanlega) sem þar verða í vetur.

Mötuneyti og mataráskrift

Strax og skólastarfi lauk í júní hófust framkvæmdir við breytingar og stækkun á eldhúsi skólans. Það er gríðarlega umfangsmikið verk og að mörgu að hyggja. Nú, nokkrum dögum fyrir skólasetningu, eru iðnaðarmenn á fullu við að koma öllum tækjum og tólum fyrir og því verki á að vera að fullu lokið föstudaginn 24. ágúst (nema eitthvað óvænt komi upp, svo varnagli sé nú sleginn:-)). Áætlanir gera því ráð fyrir að eldun og framreiðsla matar hefjist mánudaginn 27. ágúst og markmiðið er auðvitað að allir nemendur verði í mataráskrift. Mánaðargjaldið er kr. 9217- og áskrift fer fram í gegnum íbúagátt Kópavogsbæjar.


Matreiðslumaður er Sveinn Oddur Sigurðsson og honum til aðstoðar er Hanna Sledziewska og eftir sem áður verða skólaliðar til aðstoðar í matartímum.


Matseðlar verða birtir á síðu Kópavogsskóla.


Fyrsti kennsludagur er föstudagurinn 24. ágúst og við biðjum foreldra um að senda börn sín með nesti þann dag

Framkvæmdir í skólanum sumarið 2018

Gríðarmiklar framkvæmdir voru í skólanum í sumar og í raun voru fimm stór verk í gangi.


Mötuneytiseldhús. Framkvæmdir í mötuneytiseldhúsi hófust strax eftir skólaslit og allt sem var þar inni var fjarlægt. Hlutar af steinveggjum voru sagaðir í burtu og eldhúsið stækkað töluvert. Svokallaðri fitugildru var komið fyrir utan við húsið en henni er ætlað að sía fitu og annað slíkt sem gjarnan fer í frárennslisrör. Því þurfti að brjóta upp gólf og einnig að stækka hurðargöt áður en uppbygging hófst. Allt rafmagn var endurnýjað enda gera ný tæki kröfu um sterkari tengingar en fyrir voru. Nú er verið að raða nýjum tækjum inn í rýmið og gera allt tilbúið fyrir eldun og framreiðslu á mat.


Kennslueldhús. Kominn var tími á endurnýjun í kennslueldhúsi skólans og strax og skóla lauk í vor var allt rifið úr rýminu og það endurgert alveg frá grunni. Nú er búið að leggja nýjan gólfdúk, mála og setja inn nýjar innréttingar og tæki svo breyting á kennsluaðstöðu hefur gjörbreyst. Eftir er að skipta út gufugleypum en það bíður væntanlega fram í vetrarleyfi í lok október.


Kennslustofur. Lekavandamál eru því miður enn til staðar í stofum við suðurhlið skólans. Alls voru það 10 kennslurými sem þurfti að lagfæra og taka upp gólfdúk að hluta til að þurrka upp raka. Því verki er lokið en það liggur fyrir að nauðsynlegt er að skipta út gluggum til að komast endanlega fyrir vandann. Það verk bíður næsta árs enda enginn tími til þess núna.


Salerni. Í unglingaálmu voru salerni komin til ára sinn og allt orðið heldur ,,þreytt" þar. Öll tæki hafa verið endurnýjuð og ný skilrúm sett upp. Nýju skilrúmin ná frá gólfi og upp í loft sem er til mikilla bóta. Salerni á efri barnagangi (þ.e. hjá nemendum 1.-4. bekkjar) voru einnig löguð. Þar þurfti að taka upp gólfflísar því sprunga hafði myndast á skilum gömlu byggingarinna og viðbótarinnar sem var tekin í notkun 1996. Þar undir var óþveri sem var hreinsaður og flísaðr lagðar og fúgað upp á nýtt. Þarna hafði verið leiðindalykt sem nú er horfin.


Smíðastofa. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar í smíðastofunni og þeim er nú lokið. Magnús Alfonsson sem er nýráðinn smíðakennari sá að mestu um þær sjálfur og ánægjulegt að sjá hvernig tókst til.


Aðrar framkvæmdir. Vegna nemendafjölgunar undanfarin ár eru rými til kennslu öll fullnýtt og nauðsynlegt reyndist að útbúa kennslurými í þeirri aðstöðu sem hjúkrunarfræðingur hefur haft undanfarin ár. Hjúkrunarfræðingur fær í staðinn minna rými við hlið þess gamla en ekki er víst að það náist að ljúka við lægfæringar á báðum rýmunum fyrir skólabyrjun. Það munar þá ekki nema 1-2 dögum. Í íþróttahúsinu voru einnig miklar framkvæmdir. Þar var verið að skipta um rimla og endurnýjun á hita- og loftræstikerfum.


Skólastjóri hefur verið í miklum samskiptum við starfsmenn eignadeildar Kópavogsbæjar vegna framkvæmdanna og má til með að hrósa þeim fyrir jákvæðni og vilja til að ýta öllum þessum verkum áfram og leysa þau mál sem upp hafa komið.