

Fréttabréf Borgaskóla
2. árg, 3. tbl.
Sumarkveðja frá starfsfólki Borgaskóla
Hér gefur að líta síðasta tölublað skólaársins 2021-2022. Við lítum stolt yfir farin veg og getum hampað svo mörgu í okkar góða skóla. Þar erum við allra stoltust af nemendum okkar og framförum þeirra í námi og samskiptum. Það var einnig sérstaklega ánægjulegt að sjá árangur nemenda í 1. bekk í lesfimiprófum sem lögð voru fyrir alla nemendur í maí. Rétt rúmlega 92% 1. bekkinga náði lesfimiviðmiðum Menntamálastofnunnar sem eru einstaklega góðar niðurstöður. Mikilvægt er að fylgja þessum góða árangri eftir með því að viðhalda lestrarhæfni nemenda og því hvetjum við til lestraræfinga í sumar. Skráningarblöð fyrir sumarlestur fylgdu vitnisburðarblöðum og verða veittar viðurkenningar fyrir þá sem kjósa að taka þátt í lestraræfingum í sumar.
Starfsfólk Borgaskóla sendir hlýjar kveðjur til nemenda og foreldra/forráðamanna með von um góðar stundir í sumar. Við hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju skólaári, þann 22. ágúst nk.
Gleðilegt framúrskarandi gott lestrarsumar!
Afrakstur leiklistar á skólaárinu
Það var líf og fjör í leiklist í vetur með Öldu leiklistarkennara og prófuðu nemendur hin ýmsu hlutverk. Nemendur í 1. bekk æfðu Geiturnar þrjár, nemendur í 2. bekk fengu leiklist í gegnum þemaverkefni um Landvættina og þjóðsöguna um Selakonuna, það var samvinnuverkefni með umsjónarkennurum. Nemendur í 3. bekk tóku sig til og æfðu Litla ljóta andarungann og Hans og Grétu. Nemendur í 4. bekk settu Karíus og Baktus á svið, það var samvinnuverkefni með umsjónarkennurum. Sjá nánari umfjöllun um Karíus og Baktus í frétt hér að neðan. Nemendur í 5. bekk settu upp Konung ljónanna sem var samvinnuverkefni kennara í upplýsingatækni, tónmennt og leiklist með aðkomu myndmenntakennara. Leikverkið var tekið upp með green screen tækni og gátu allir nemendur fengið að sjá afraksturinn. Nemendur í 6. bekk voru á hefðbundnum leiklistar- og spunaæfingum og nemendur í 7. bekk setti senur á svið úr Dýrunum í Hálsaskógi.
Karíus og baktus
4. bekkur setti upp leiksýninguna Karíus og Baktus á vordögum. Nemendur unnu sviðsmyndina sjálfir úr pappa og öðru tilfallandi efni og stóðu sig öll með prýði. Verkefnið var samþætting leiklistar og íslensku, Langur aðdragandi var að frumsýningunni þar sem heimsfaraldur setti strik i reikninginn og hún dróst á langinn. Afraksturinn var glæsileg leiksýning sem sýnd var fyrir 1. og 2. bekk, einnig var sýningin tekin upp og sýnd á sal á vorhátíð skólans þann 24. maí. Hér má sjá nokkrar myndir frá ferlinu.
Vorhátíð
Vorhátíð foreldrafélags Borgaskóla, frístundaheimilisins Hvergilands og Borgaskóla var haldin 24. maí sl. Nemendur í 1. og 2. bekk sungu lög undir stjórn Svans Bjarka tónmenntakennara, nemendur í 7. bekk sáu um andlitsmálningu og foreldrafélagið var með fjáröflun. Sirkus Íslands kom og skemmti vorhátíðargestum ásamt því að upptaka frá leiksýningu 4. bekkjar var sýnd á sal skólans en nemendur settu upp leikritið Karíus og Baktus. Á skólalóðinni voru kassabílar, stultur, boltakast, körfubolti, snú snú, pókó, skotbolti og svo mætti lengi telja. Vorhátíðin var mjög vel heppnuð, foreldrar og nemendur fjölmenntu og áttu góða samverustund með starfsfólki Borgaskóla og Hvergilands. Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum.
Vettvangsferðir 7. bekkjar
Á vorönn var lögð áhersla á vettvangsferðir og uppbrot í skólastarfinu hjá 7. bekk. Fyrst má nefna ferð á Ljósmyndasafn Reykjavíkur en þar sáum við sýninguna Myndir ársins 2021. Myndunum er skipt í nokkra flokka, t.d. fréttamyndir, daglegt líf og umhverfi. Við fengum leiðsögn um safnið og nemendur áttu svo að spreyta sig á að gefa myndunum heiti eftir því hvað þeim fannst best eiga við.
Okkur var einnig boðið á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Sævar Helgi Bragason var kynnir og tónleikarnar báru heitið Pláneturnar okkar. Þar heyrðum við tónverk tengd plánetunum Mars, Júpíter og Úranus og tilkomumikið myndefni var spilað á risaskjá á meðan.
Í maí skelltum við okkur í sjóferð og í bíó. Sjóferðin lukkaðist mjög vel og komu flestir vel blautir til baka. Við sáum ýmsa fugla og fengum kynningu á lífríki við sjó og fjöru. Í Bíó Paradís sáum við myndina Wadjda frá Sádí-Arabíu. Myndin er fyrsta kvikmyndin sem er tekin upp að öllu leyti í Saudí-Arabíu og er leikstýrð af konu frá sama landi. Hún varpar ljósi á hlutskipti kvenna í Mið-Austurlöndum og var heimsfrumsýnd í Bíó Paradís árið 2012 í samvinnu við UN Women. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun um allan heim, þar á meðal BAFTA-verðlaunin 2014. Nemendum fannst efnið fróðlegt og áttuðu sig á, hversu ólíkt hlutskipti börn geta haft eftir því í hvaða landi þau fæðast. Hér eru fleiri myndir frá vettvangsferðum 7. bekkinga.
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Í vetur fengu nemendur í 6. og 7. bekk valgreinar einu sinni í viku. Það var margt í boði og nemendur voru 5 vikur í hverri valgrein. Ein valgreinin var nýsköpun fyrir Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Nemendur kynntu sér nýsköpun frá ólíkum hliðum og unnu hugmyndavinnu. Síðan völdu nemendur hugmyndir til að senda í keppnina. Að þessu sinni komst Erna Þórey Jónsdóttir í 7. bekk Borgaskóla áfram í vinnustofu sem var haldin í Háskóla Reykjavíkur. Hún hlaut Fjármálabikar NKG og Arion banka, með hugmynd sína Styrktarkort.
Hér má sjá fleiri hugmyndir nokkurra nemenda.
Nemendaverðlaun
Nemendaverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur voru afhent í 20. sinn við hátíðlega athöfn í Rimaskóla þann 23. maí sl. Fjölbreyttur hópur nemenda víðs vegar úr borginni hlaut verðlaun fyrir að hafa skarað fram úr í námi, félagsfærni, virkni í félagsstarfi eða sýnt frábæra frammistöðu á tilteknu sviði skólastarfs. Fulltrúi Borgaskóla að þessu sinni var Viktoría Rós Róbertsdóttir, nemandi í 7. bekk. Hún hefur tileinkað sér vaxandi hugarfar og þrautseigju í náminu. Hún leggur sig fram við öll verkefni sem lögð eru fyrir hvort sem er í hópavinnu eða einstaklingslega. Hún er jákvæður leiðtogi í félagslegum samskiptum við skólafélaga og góð fyrirmynd. Hún er óhrædd við að takast á við ný og ögrandi verkefni.
Heimsókn 1. bekkjar á bókasafnið í Úlfarsárdal
Á vordögum fór 1. bekkur í heimsókn á nýtt bókasafn í Úlfarsárdal. Við fengum frábærar móttökur og fengu börnin leiðsögn um safnið ásamt því að starfsmaður safnsins las fyrir þau þrjár stuttar sögur. Ferðin heppnaðist mjög vel og gaman að sjá áhuga barnanna á bókum. Á bókasafninu er risa stórt rúm þar sem gestir geta lagst upp í og lesið. Því miður var rúmið lokað þegar við komum en um að gera að kíkja í heimsókn á bókasafnið í sumar og taka sundföt með því þar er einnig að finna nýjustu sundlaug Reykjavíkur. Hér má sjá fleiri myndir frá heimsókninni.
Útivistardagur
Síðasta kennsludag skólaársins nutu nemendur og starfsfólk útivistar saman. Allir gengu fylktu liði frá skólanum í Gufunesbæ. Þar var margt skemmtilegt í boði fyrir nemendur. Margir kunnu vel að meta ærslabelginn þar sem gaman er að hoppa eða keyra kassabíla, spreyta sig í strandblaki og margt fleira. Elstu nemendurnir sýndu síðan mikla leikni í klifurturninum. Allir gæddu sér á samlokum, safa og ávöxtum áður en leiðin lá aftur í skólann á þessum vel heppnaða útivistardegi. Hér má finna myndir frá þessum skemmtilega degi.
Sköpunargleði í Hönnun og smíði
Veturinn í smíðastofunni var óhefðbundinn þar sem lagfæra þurfti stofuna eftir bruna. Þrátt fyrir það náðu nemendur að búa til fallega smíðagripi eins og sjá má hér.
Velheppnaður íþróttadagur
Eftirvænting og gleði einkenndi stemninguna á vel heppnuðum íþróttadegi 27. maí. Bæði nemendur og starfsfólk tóku þátt í ýmsum leikjum og keppnisgreinum sem fram fóru á skólalóðinni. Eins og sjá má á myndunum var margt skemmtilegt í boði og gaman að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og duglegir að taka þátt. Fjörið endaði með pylsuveislu og allir gátu notið veðurblíðunnar og borðað úti. Hér er að finna myndir frá deginum.