Flataskólafréttir

Skólaárið 2022-2023 - 3. október 2022

Kæra skólasamfélag!

Þá erum við komin vel inn í skólaárið og september liðinn hjá eins og hendi væri veifað. Eftir smá byrjunarerfiðleika í mötuneytismálum og árlegt streð við að fullmanna frístundina eru hlutirnir farnir að rúlla bærilega og við heilsum október glöð í bragði.

Rétt er að minna á að í október verður langt helgarfrí hjá nemendum en dagana 26.-30. október mun meirihluti starfsfólks skólans bregða sér í námsferð til London. Í ferðinni munum við fá fræðslu um leiðsagnarnám, skoða skóla þar sem sú hugmyndafræði er höfð í hávegum og fá að sjá dæmi um hvernig hún er hagnýtt í skólastarfinu. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem við leggjum á innleiðingu leiðsagnarnáms í Flataskóla þessi misserin. Við gerð skóladagatals vetrarins færðum við til skipulagsdag sem vera átti í september til að skapa svigrúm fyrir ferðina, en einnig breytum við fyrirkomulagi samtalsdagsins 26. okt til að ná tíma til ferðarinnar (sjá hér aftar í fréttabréfinu). Við vonum að sjálfsögðu að þetta hálfgerða haustfrí geti nýst fjölskyldum vel til samveru.

Að öðru leyti verður október með hefðbundnu sniði og við dundum okkur við að læra og þroskast í sameiningu. Dagana 5.-12. október er forvarnarvika í Garðabæ og þá munum við m.a. skoða skólareglurnar okkar með tilliti til Barnasáttmálans, fræðast um hugarfar vaxtar, vinna með sjálfsstjórn og virkni heilans, hugleiðslu o.fl.


Bestu kveðjur úr skólanum!

Ágúst skólastjóri

Helstu viðburðir framundan

 • 4. okt kl. 8:30 - Haustkynning fyrir foreldra 4. bekkjar
 • 6. okt kl. 20:00 - Haustkynning fyrir foreldra 5. bekkjar
 • 11. okt. kl. 17:00 - Haustkynning fyrir foreldra 1. bekkjar
 • 26. október - Samtalsdagur - Frístund og leikskóladeild opin
 • 27. október - Skipulagsdagur - Leikskóladeild lokuð - frístund opin
 • 28. október - Skipulagsdagur - Lokað í leikskóladeild og frístund

Starfsáætlun og árganganámskrár


Á heimasíðu Flataskóla má nálgast starfsáætlun skólans fyrir skólaárið og eins er þar að finna árganganámskrár hvers árgangs fyrir sig. Þetta eru plögg sem við hvetjum forráðamenn til að kynna sér enda er þar að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um skólastarfið og nám nemenda.


Árganganámskrárnar eru yfirlit yfir nám og kennslu hvers skólaárs í viðkomandi árgangi. Þar koma fram upplýsingar um markmið yfirstandandi skólaárs og að hvaða hæfni er stefnt.

Árganganámskrár Flataskóla eru settar upp í samræmi við hæfniviðmið aðalnámskrár grunnskóla. Kennarar völdu hæfniviðmið sem þeir ætla að vinna með úr aðalnámskránni og skilgreindu viðfangsefni sem ýta undir þá hæfni sem stefnt er að og síðan völdu þeir þær leiðir sem farnar verða til að þjálfa/stuðla að og/eða ná hæfninni.

Árganganámskrárnar má nálgast með því að smella hér.


Í starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Þar eru birtar upplýsingar um starfslið skólans, stjórnkerfi, mögulegan stuðning fyrir nemendur af ýmsu tagi og almennar hagnýtar upplýsingar um skólahald hvers skólaárs.

Starfsáætlun skólaársins 2022-2023 má nálgast með því að smella hér.

Kór Flataskóla

Við minnum á kór Flataskóla en þar er pláss fyrir fleiri nemendur. Æfingar eru einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 14:15-15:15 og kórstjóri er Sólveig Unnur Ragnarsdóttir.

Forráðamenn geta skráð börn sín með því að senda tölvupóst á Sólveigu á vocalist@vocalist.is með upplýsingum um nafn barns og bekk.

Ný stjórn Foreldrafélags Flataskóla

Aðalfundur Foreldrafélags Flataskóla var haldinn þann 29. september sl. Á fundinum var kjörin ný stjórn fyrir félagið og má sjá skipan hennar hér fyrir neðan. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Hér má finna fundargerð aðalfundarins.


Aðalmenn í stjórn Foreldrafélags Flataskóla 2022-2023:

 • Fríða Bogadóttir
 • Guðrún Yrsa Richter
 • H. Hanna Friðriksdóttir
 • Harpa Þorsteinsdóttir
 • Lydía Þrastardóttir
 • Sólveig Auður Bergmann
 • Unnur Tómasdóttir


Varamenn í stjórn:

 • Erla Þuríður Pétursdóttir
 • Katrín Björgvinsdóttir
 • Margrét Rán Kjærnested
 • Ómar Gunnar ÓmarssonUpplýsingar um bekkjafulltrúa má nálgast hér: http://flataskoli.is/foreldrar/foreldrafelag/bekkjarfulltruar/

Vegna upplýsinga í mentor - mikilvægt!

Forráðamenn hafa stundum samband við okkur vegna þess að ekki tekst að hafa samband við alla aðra foreldra í árgangi í gegnum fjölskylduvefinn í mentor. Þetta stafar af persónuverndarmálum því að forráðamenn þurfa að yfirfara stillingar sínar í kerfinu m.t.t. þess hvort aðrir forráðamenn geti sent þeim póst í gegnum kerfið.

Því er afar mikilvægt að forráðamenn yfirfari stillingar sínar í kerfinu og hægt er að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:

Ef þú ert skráð/ur inn í gegnum vefinn smellir þú á nafnið þitt í hægra horninu og velur Stillingar en ef þú ert skráð/ur inn með appinu smellir þú á punktana þrjá í hægra horninu. Aðstandendur geta hvenær sem er farið yfir stillingarnar og gert breytingar. Undir flipanum Persónuvernd getur þú stillt hvaða upplýsingar þú vilt að séu sýnilegar öðrum aðstandendum á tengiliðalistanum. Það er gert með því að smella á reitina með tölunni 0 og þá breytist dálkurinn, verður fjólublár og sýnir töluna 1. Þegar breytingarnar hafa verið vistaðar verða upplýsingarnar sýnilegar öðrum.

Ath! Ef nafn aðstandanda er ekki haft sýnilegt á bekkjarlistanum er EKKI hægt að senda viðkomandi póst í gegnum tengiliðalistann í Minn Mentor t.d. ef foreldrar senda út afmælisboð.

Netföng aðstandenda eru aldrei sýnileg öðrum, aðeins möguleikinn senda póst er til staðar.

Mentor - handbók fyrir aðstandendur

Allir forráðamenn ættu að hafa aðgang að mentor en þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi ástundun og nám nemenda. Rétt er að benda á að nálgast má handbók fyrir aðstandendur í mentorkerfinu á heimasíðu mentor.is undir "aðstoð" eða með því að smella hér..

Samtalsdagur í október

Miðvikudagurinn 26. október er samtalsdagur á skóladagatalinu okkar. Við höfum breytt snið á samtalsdeginum að þessu sinni á þann hátt að ekki er endilega ætlunin að allir nemendur og forráðamenn mæti til viðtals við umsjónarkennara. Þess í stað verður boðið upp á viðtöl og eins munu kennarar boða þá til samtals sem metið er að gott sé að eiga fund með á þeim tímapunkti. Skráningar í samtölin verða auglýstar upp úr miðjum október.

Þroski heilans og hvað ber að varast

Hér fyrir neðan má nálgast afar áhugaverðan fyrirlestur frá Láru G. Sigurðardóttur, lækni og doktor í lýðheilsufræðum, um þroska heilans og hvaða áhrif ýmsir þættir hafa á hann, s.s. streita, ónógur svefn, áföll, koffín, nikótín o.fl. Við hvetjum forráðamenn til að gefa sér tíma til að hlusta á erindið.
Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsufræðum

Búa sig!

Við tökum eftir að það eru ekki alltaf allir nemendur klæddir eftir veðri. Eins og við vitum er íslenskt veðurfar dálítið óútreiknanlegt og því nauðsynlegt að nemendur hafi alltaf nauðsynlegan hlífðarfatnað. Allir nemendur skólans fara daglega út í frímínútur, íþróttir eru kenndar úti framan af haustinu og við viljum að sjálfsögðu auk þess geta farið í stuttar vettvangsferðir óháð veðri. Semsagt - verum alltaf búin eftir veðri!
Matartíminn - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 20. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað og þá taka þær gildi um næstu mánaðamót. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Íslenska æskulýðsrannsóknin

Síðastliðið vor var Íslenska æskulýðsrannsóknin lögð fyrir nemendur í 4. og 6. bekk í Flataskóla. Um er að ræða rannsókn sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið og markmiðið er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks. Könnunin er lögð fyrir í 4., 6., 8. og 10. bekkjum í skólum landsins. Niðurstöður könnunarinnar fyrir Flataskóla í heild sinni má nálgast á heimasíðu skólans en það er ánægjulegt að segja frá því að þær voru afar jákvæðar. Hér fyrir neðan má sjá svokallaðar lykiltölur fyrir árgangana og við hvetjum áhugasama til að rýna í heildarniðurstöðurnar.
Big picture
Big picture

Ferðamáti til skóla

Í framangreindri rannsókn var reyndar eitt atriði sem vekur athygli en það er munur á ferðamáta nemenda í Flataskóla miðað við jafnaldra annars staðar á landinu. Myndin hér fyrir neðan talar sínu máli.. Getur verið að fleiri nemendur gætu gengið eða hjólað í skólann?
Big picture
Big picture

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.