Delta, Kappa, Gamma á Íslandi

Fréttabréf forseta í júní 2018

Big picture

Vorþing

Mig langar að byrja þetta fréttabréf með því að þakka Zeta-konum fyrir fræðandi og skemmtilegt vorþing á Egilsstöðum. Erindin þar voru hvert öðru áhugaverðara og skipulagið mjög gott. Það er ljóst að mikil gróska er í menningu og skapandi greinum í fræðslustarfi á Austurlandi og ákaflega gaman að fá tækifæri til að verða vitni að áhuga og fagmennsku kvennanna sem fluttu erindi á þinginu. Móttakan í Safnahúsinu var skemmtileg og safnið áhugavert og síðastur en ekki sístur var svo kvöldverðurinn. Þó að mörgum finnist langt til Egilsstaða var það vel þessi virði að leggja á sig þetta ferðalag til að geta átt svona skemmtilegan dag í endurnærandi félagskap. Forseti er því miður frekar lélegur ljósmyndari en lætur eina mynd fylgja með af áhugasömum konum á þinginu.

Stjórnarskipti í deildum

Nú eru að verða stjórnarskipti í öllum deildum nema Nýdeildinni. Ég vil minna ykkur á að uppfæra upplýsingar um stjórnirnar á deildasíðunum og senda upplýsingarnar bæði á vefstjóra, eyglob@gmail.com og formann félaga- og útbreiðslunefndar sigga@olfus.is svo við höfum þetta rétt í félagatalinu okkar.

Framkvæmdaráðsfundur í september

Þó að sumarið sé rétt að hefjast og konur kannski ekki almennt farnar að huga að starfinu næsta vetur höfum við dagsett næsta fund framkvæmdaráðs DKG á Íslandi. Sá fundur verður í Reykjavík laugardaginn 8.september 2018. Við biðjum nýkjörna formenn deilda að taka þann dag frá. Það er mikilvægt að hittast einu sinni og nýta það tækifæri til að fræðast um samtökin og styrkja sjálfan sig og deildina sína um leið. Þá höfum við einnig fengið ábendingu um að gott væri að hafa stutt námskeið eða fræðslustund fyrir vefstjóra deildanna og ef áhugi er fyrir því munum við setja það á í tengslum við framkvæmdaráðsfundinn. Ég bið ykkur endilega að láta mig vita hvort þið hafið áhuga á slíkri kynningu.

Austin í Texas

Það styttist nú í alþjóðaþingið í Austin í Texas. Að minnsta kosti sjö konur frá Íslandi verða þar. Fyrir þinginu liggja margar breytingatillögur á samþykktum félagsins og snúa þær flestar að orðalagsbreytingum. Margar breytinganna miða að því að í stað þess að beinlínis sé skylt að gera ákveðna hluti verður það heimilt. Í fyrsta fréttabréfi haustsins mun ég gera grein fyrir því sem fram fer á þinginu og upplifun minni af því. Þar sem ég hef ekki áður farið á alþjóðaþing er ég spennt og hlakka mikið til að taka þátt. Á þinginu munum við einnig kynna Evrópuráðstefnuna 2019 og hvetja konur til að koma til Íslands og taka þátt í henni með okkur.

Evrópuráðstefnan 2019

Verið er að ganga frá samningum við Hótel Natura, en það eru alþjóðasamtökin sem gera það, við erum aðeins ráðgefandi í því máli. Þema ráðstefnunnar verður einnig valið af alþjóðasamtökunum og við bíðum þess að fá það uppgefið svo við getum farið að skipuleggja dagskrána af fullum krafti. Dagsetningar eru klárar, almenn dagskrá hefst 25.júlí og lýkur þann 27.júlí, þannig að þetta verða aðeins þrír dagar. Þið munuð fá fréttir af undirbúningnum í flestum fréttabréfum komandi hausts og þá má einnig búast við að við leitum til ykkar um eitt og annað þessu viðkomandi. Ég vænti þess að konur á Íslandi noti þetta tækifæri til að taka þátt í Evrópuráðstefnu án þess að þurfa að leggja út mikinn ferðakostnað. Vonandi sjáumst við sem flestar þarna.

Þekkingarforðinn

Enn og aftur hvet ég ykkur til að senda okkur ábendingar um efni sem fara má undir hnappinn ,,Þekkingarforðinn" á heimasíðunni okkar. Enn sem komið er eru aðeins tvær ábendingar þar. Ég veit að þegar við leggjum saman eigum við fullt af efni sem mætti fara þangað inn. Hér fyrir neðan er hlekkur á heimasíðuna svo þið getið skoðað hvað er þarna núna og kannski sjá þá margar ykkar að þið eigið í fórum ykkar eitt og annað sem bæta má við.

Hugleiðing

Sumarið er loksins komið og lóan farin að syngja á túnum í önnum sínum við ungauppeldið. Þessi söngur gleður mig alltaf og fær mig til að hugsa um það sem Páll Ólafsson lætur hana segja við okkur í ljóðinu sínu ,,Lóan er komin að kveða burt snjóinn". Ég er búin að lesa þetta fallega ljóð aftur og aftur núna í maí og finna sífellt meiri boðskap í því. Segja má að lóan gefi okkur góð ráð út í lífið með orðunum ,,hún hefur sagt mér að vaka og vinna og vonglaður taka nú sumrinu mót. Þessa setningu má lesa sem hvatningu til að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem lífið býður, horfa bjartsýnn fram á veginn og nota þau verkfæri sem maður hefur til að gera það besta sem maður getur úr því sem mætir manni.

Með þessu óska ég ykkur gleðilegs sumars og hlakka til að vera í sambandi við ykkur þegar fer að líða að hausti.

Framkvæmdaráðsfundur

Saturday, Sep. 8th, 9:30am-3:30pm

Reykjavík

Nýir formenn eru beðnir að taka daginn frá og finna staðgengla ef þeir geta ekki mætt.

Delta, Kappa Gamma á Íslandi