Fréttabréf forseta

Nóvember 2021

Frá forseta og landssambandsstjórn DKG

Nú er deildastarfið komið í fullan gang og vonandi öllum deildum tekist að hittast og njóta samvistanna hver við aðra eftir að hafa þurft að nýta tæknina eða aðrar leiðir til að halda uppi starfi deildanna undanfarin misseri. Væntanlega eru deildir samtakanna einnig farnar að undirbúa jólafundi sína sem við allar hlökkum til í þeirri vissu að við komum alltaf ríkari af fundum DKG og þakklátar fyrir þann gefandi félagsskap sem samtökin okkar veita.

Nefndir samtakanna eru fullskipaðar fyrir næstu tvö starfsárin og verður sagt frá því helsta í starfi tveggja nefnda hér í þessu bréfi.

Félaga—og útbreiðslunefnd

Nefndin er nú fullskipuð en í henni eru nú Ingibjörg Einarsdóttir í Gammadeild, Sólborg Alda Pétursdóttir í Kappadeild og Sigríður Guttormsdóttir í Epsilondeild. Í framkvæmdaáætlun DKG fyrir 2021 – 2023 er markmið um að vinna að stofnun nýrrar deildar á Suð-Austurlandi til að loka hringnum í kringum landið. Félaga- og útbreiðslunefndin hefur þegar kannað jarðveginn fyrir stofnun deildar á þessu svæði og komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki grundvöllur að svo stöddu fyrir stofnun deildar á þessu landssvæði vegna fámennis og langra vegalengda á milli þéttbýlissvæða. Samkvæmt framkvæmdaáætlun samtakanna var markmið um að hvetja deildir til að bjóða nýjum konum inngöngu þannig að tala virkra félaga í hverri deild haldist milli 20 – 30. Hin nýskipaða félaga- og útbreiðslunefnd setti sér markmið um að hver deild fjölgi um a.m.k. tvo félaga og hefur sent formönnum deilda erindi þess efnis. Hin nýja Ný-deild á Norðurlandi vestra gengur á undan með góðu fordæmi og tók inn fjóra nýja félaga á síðasta fundi sínum. Vel gert, Ný-deild!

Samskipta- og útgáfunefnd

Í nýskipaðri samskipta- og útgáfunefnd eru Birna Sigurjónsdóttir og Iðunn Antonsdóttir í Lambdadeild og Kristín B. Jóhannsdóttir í Iota-deildinni. Senn líður að því að formenn deilda þurfa að senda nefndinni fréttir af deildastarfinu á haustönninni fyrir fréttabréfið okkar. Landssambandsstjórnin hvetur deildirnar til að bregðast skjótt við kallinu um pistla, frásagnir og myndir af deildastarfinu sem er kjarninn í starfi samtakanna og við getum svo mikið lært hver af annarri til að gera starfið áhugavert og innihaldsríkt.

DKG Europe Education Series

Eins og áður hefur komið fram stóð til að halda ráðstefnu með félögum DKG í Evrópu í Finnlandi sl. sumar en vegna Covid-19 varð að fresta þeirri ráðstefnu. Í staðinn var ákveðið að efna til DKG-Europe Education Series þar sem haldin yrðu mánaðarleg erindi á Zoom sem DKG félögum í Evrópu væri boðið að sækja. Þann 21. október sl. riðu sænsku félagskonurnar á vaðið með erindi Jeanette Ragner sem er safnkennari í sænska listasafninu í Stokkhólmi um Söru Danius, bækurnar og kjólana hennar. Erindið var afar fróðlegt og áhugavert, sérstaklega þegar Jeanette sagði frá því hvernig hönnun kjólanna tók mið af ýmsum stefnum og straumum í listaheiminum og tengdi við ákveðin listaverk þekktra listamanna. Næsta erindi verður haldið 20. nóvember nk. og verður í boði félagskvenna í Hollandi og verður þar fjallað um sköpun í skólastarfi. Eru félagskonur hvattar til að fylgjast með fundarboði á Zoom um það erindi. Desember erindið verður í umsjón DKG-systra okkar í Þýskalandi og verður ekki síður áhugavert að fylgjast með hvað þær hafa upp á að bjóða.

Þekkingarforðinn

Í framkvæmdaáætlun landssambandsstjórnar er einnig markmið um að allar deildir leggi til a.m.k. tvö erindi inn á Þekkingarforðann á vef sambandsins þar sem félagskonur skrá sig á lista með umfjöllunarefni eða fyrirlestra sem þær eru tilbúnar til að vera með á fundum eða öðrum viðburðum á vegum samtakanna. Þetta er ein leið til þess að félagskonur geti miðlað þekkingu sinni og reynslu til annarra deilda því innan okkar samtaka er óviðjafnanleg reynsla og þekking sem mikilvægt er að deila með öðrum.





Lærum og leiðum - faglegar og framsæknar