Fréttabréf forseta

mars/apríl 2020

Óvissutímar

Mig langar til að byrja á því að setja fram þá ósk að þetta fréttabréf hitti ykkur allar fyrir heilbrigðar og hressar. Við lifum ótrúlega tíma. Veiran sem nú herjar á heimsbyggðina veldur okkur öllum áhyggjum og allar áætlanir kollsteypast. Það er ekki auðvelt að skipuleggja félagsstarf á þessum tímum og vandasamt að taka ákvarðanir um það í náinni framtíð. Þetta fréttabréf ber þess merki að vera skrifað á þessum óvissutímum.

Starfið í deildunum

Þær kröfur sem gerðar eru af stjórnvöldum eru alltaf æðri en lög og reglur félagasamtaka. Varðandi fundi í deildum er því mikilvægt að fara að kröfum heilbrigðisyfirvalda í hvívetna. Margar deildir gætu væntanlega fundað, þar sem fundarsókn gæti verið undir 20 manns og hugsanlega hægt að sitja í 2ja metra fjarlægð frá næstu manneskju. En væntanlega verður aðsókn að fundum lítil þangað til aðstæður eru orðnar betri. Stjórnir deilda verða að taka ákvarðanir um hvað skynsamlegast er að gera, hugsanlega í samráði við félagskonur. Aðstæður eru ólíkar á mismunandi stöðum á landinu og einnig í deildunum þar sem fjöldi og aldurssamsetning er ólík og fundarstaðir mismunandi.

Við getum ekki reiknað með því að fundarhöld verði með eðlilegum hætti, en mikilvægt er að finna leiðir til að halda aðalfund og kjósa nýja stjórn fyrir lok júní. Og vonandi verðum við á betri stað í júní. Það má alltaf nota aðrar leiðir en hefðbundna fundi, ef svo ber undir, en mikilvægt er að samtal geti átt sér stað milli félagskvenna. Það er t.d. er hægt að kjósa stjórn og sinna öðrum aðalfundarstörfum í tölvupósti eða með vefbundnum aðferðum. Meirihluti félagskvenna þarf að samþykkja tillögur til að þær taki gildi og gott er að staðfesta ákvarðanir sem teknar eru á þennan hátt á næsta fundi og í fundargerð.

Vorráðstefnan færð til haustsins

Stjórn landssambandsins hélt fund um stöðuna varðandi vorráðstefnuna, sem kynnt hefur verið 9. maí. Miðað við að hámarki sé náð í fjölda smitaðra um miðjan apríl, teljum við að líkur séu á að staðan sé ekki nógu örugg í byrjun maí til að það sé réttlætanlegt að kalla stóran hóp saman. Við höfum því ákveðið að fresta ráðstefnunni fram á haustið.


Ný tímasetning er laugardagurinn 12. september í Borgarnesi. Hótel B59 hefur fært pantanir okkar og eigum við því frátekið húsnæði fyrir ráðstefnuna og eins hafa pantanir fyrir gistingu verið fluttar á nýju dagsetninguna. Þær sem geta EKKI komið á þessum tíma þurfa því að hafa samband við hótelið og afpanta herbergin. Tölvupóstfangið er reception@b59hotel.is eða hh@b59hotel.is

Framkvæmdaráðsfundur– aukafundur 8. maí felldur niður.

Ákveðið var að halda aukafund í framkvæmdaráði í tengslum við vorráðstefnuna okkar. Þar sem ráðstefnunni verður frestað til haustsins munum við halda hefðbundinn framkvæmdaráðsfund í tengslum við hana föstudaginn 11. september. Á fundinum munum við fara yfir störf framkvæmdaráðs samkvæmt venju ásamt því að fjalla um langtímaáætlanir, en það átti að vera umfjöllunarefni á aukafundinum. Þetta þýðir að nýir formenn mæta til fundarins. Þeir verða boðaðir til fundarins, þegar niðurstöður kosninga liggja fyrir í deildunum.

Inntaka, þegar ekki er hægt að halda fundi?

Ef deildir hafa verið að huga að inntöku nýrra félagskvenna, þá má skv. leiðbeiningum frá alþjóðasamtökunum, taka konur inn án þess að fara í gegnum inntökuathöfnina. Konur verða félagskonur með því að greiða þátttökugjaldið. Það er síðan hægt að halda inntökuathöfn síðar eða sleppa því.

Gátlistar fyrir formenn.

Óskað var eftir því á síðasta framkvæmdarráðsfundi að búnir væru til gátlistar fyrir formenn, þar sem viðfangsefnum væri skipt niður á tímabil. Nú hefur slíkur gátlisti verið útbúinn og settur á vefinn www.dkg.is undir liðnum: Deildarstarfið /Efni fyrir formenn.

Tveggja ára kjörtímabili formanns er skipt í fjóra hluta eða fjóra árshelminga. Svona listi getur aldrei verið algjörlega tæmandi, en vonandi kemur hann að gagni. Endilega skoðið hann og prófið að nota hann og látið vita ef þið hafið athugasemdir. Hérna er hlekkur beint á listann: https://www.dkg.is/static/files/skjol_landsamband/gatlisti_formanna_2020.pdf

Greiðsla félagsgjalda - upplýsingar frá gjaldkera landssambandsins

Nú þegar líða fer að vori er rétt að minna á félagsgjöld fyrir félagsárið 1. júlí 2020 til 30. júní 2021, en innheimtu þeirra á að vera lokið fyrir 30. júní næstkomandi. Nokkrar deildir hafa ákveðið að láta banka sjá um innheimtuna, það hefur reynst vel og eru gjaldkerar hér með hvattir til að skoða þann möguleika. Mjög mikilvægt er að gjaldkerar merki við þær konur sem hafa greitt, á heimasíðu samtakanna www.dkg.org, svo þeim berist ekki ítrekunarbréf frá skrifstofu alþjóðasamtakanna.

Í byrjun apríl sendir gjaldkeri landssambandsins póst á gjaldkera og formenn deilda með frekari upplýsingum og leiðbeiningum varðandi greiðslu félagsgjalda.

Viltu gefa kost á þér í nefndir hjá alþjóðasamtökunum?

Við íslensku konurnar höfum alltaf verið duglegar að gefa kost á okkur í erlendar nefndir og höfum haft margt fram að færa. Nú er komið að því að gefa kost á sér fyrir næsta tímabil og hvetjum við ykkur til að gera það. Frestur er til 1. maí.


Hlekkirnir eru vegna International Committees 2020-2022,

Editorial Board 2020-2024 og Arts & Humanities Jury 2020-2024. Þetta eru google eyðublöð.


Umsókn um 2020-2022 International Committee Appointment: https://forms.gle/3BzUNr4vnNkiUbAW7

Umsókn um 2020-2024 Arts & Humanities Jury Appointment: https://forms.gle/uUegMsjo9fANcWWE6

Umsókn um 2020-2024 Editorial Board Appointment: https://forms.gle/yGXVU2dLbgM3JuCt8


Það þarf ekki g-mail póstfang til að fylla út þessi eyðublöð. Þið fáið svörun í tölvupósti þegar þið sendið útfyllt eyðublöð út. Þessi eyðublöð eru líka á vefsíðu alþjóðasambandsins undir: Apply/Submit and then Applications.