Delta Kappa Gamma á Íslandi

Fréttabréf forseta í október 2018

Big picture

Hugleiðingar að loknu kvennafríi

Þann 24.október síðasliðinn mótmæltu konur víða um land kynbundnum launamun. Við áttum okkar fulltrúa, Helgu Guðnýju Halldórsdóttur, í undirbúningsnefndinni sem skipuð var konum úr margskonar kvennasamtökum víðsvegar af landinu. Kvennafríið snýst meðal annars um að vekja samfélagið og þá ekki síst okkur sjálfar, til umhugsunar um mikilvægi jafnréttis á öllum sviðum og hefur þannig talsverðan snertiflöt við markmið DKG sem eru að efla konur á öllum sviðum. Sú sem þetta ritar tók að sér að vera fundarstjóri á mótmælafundinum á Ísafirði sem ekki væri í frásögur færandi nema vegna þess að tveimur dögum eftir fundinn kom til mín tíu ára stelpa sem var með mömmu sinni á fundinum og sagði ,,Vá, varst þú ekki að stjórna fundinum um að konur ættu að fá meiri laun". Þetta vakti mig til umhugsunar um hversu mikilvægt það er að við nýtum tækifæri okkar til að vera öflugar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir. Það gerum við með því að taka þátt í viðburðum og umræðum og láta okkur varða hvernig samfélagið þróast. Þannig skil ég líka markmið DKG, að efla samtakamátt kvenna og hvetja þær til þátttöku og virkni, og með því höfum við áhrif til að breyta samfélaginu.
Big picture

Ráðstefnan okkar næsta sumar

Undirbúningur fyrir ráðstefnuna 25.-27.júlí 2019 er nú í fullum gangi. Samkvæmt fyrirmælum frá alþjóðaskrifstofunni okkar kallast svæðaráðstefnur félagsins nú allar ,,Alþjóðlegar ráðstefnur" og okkar því ekki lengur Evrópuráðstefna.

Búið er að koma upp heimasíðu fyrir ráðstefnuna og hér að neðan er hlekkur á hana.

Margir undirbúningshópar eru að störfum og enn er þörf fyrir fleiri hendur og huga. Nú erum við með tvö verkefni sem er óráðstafað.

Annars vegar að halda utan um sölubása á ráðstefnunni. Sölubásarnir eru hugsaðir ef konur úr einhverjum deildum (hérlendis eða erlendis) vilja selja varning meðan á ráðstefnunni stendur. Oft er þetta þannig að andvirðið rennur til einhvers konar góðgerðarmála.

Einnig væri frábært að fá sjálfboðaliða til að vera tengiliðir við þær konur sem valdar verða til að vera með styttri vinnustofur og erindi ,,workshops" á ráðstefnunni.

Samfélagsstyrkir

Enn um ráðstefnuna. Það er kostnaðarsamt að halda svona ráðstefnu og fjármálahópurinn er að vinna að því að afla styrkja hjá fyrirtækjum og lögaðilum og viljum við beina þeim tilmælum til deilda að velta upp möguleikum á samfélagsstyrkjum eða öðrum styrkjum á sínu svæði. Litlar upphæðir skipta líka máli í þessu samhengi. Ef ykkur dettur eitthvað í hug biðjum við ykkur að hafa samband við Jensínu (gvjv@simnet.is) sem fer fyrir fjárhagshópnum, hún hefur yfirsýn yfir hvert er búið að leita eftir styrkjum.

Landssambandsþing 4.maí

Þrátt fyrir að mikið sé um að vera í tengslum við undirbúning alþjóðaráðstefnunnar mega önnur verkefni ekki gleymast. Við verðum með okkar landssambandsþing í Reykjavík þann 4.maí 2019 og biðjum við ykkur að taka þann dag frá á dagatalinu ykkar ef þið eigið þess einhvern kost. Þar sem við vitum að DKG konur eru oft mikið á ferðalögum fannst okkur tilvalið að birta hér líka yfirlit yfir landsambandsþing í hinum Evrópulöndunum ef svo skemmtilega vildi til að einhver okkar félagskvenna gæti verið þar sem gestur. Dagsetningarnar eru sem hér segir og ef einhver sér fyrir sér að geta verið er bara að senda póst á landssambandsforseta viðkomandi lands.

Eistland, 30.mars, Bretland, 6.apríl, Noregur, 5.-7. apríl, Finnland, 13.apríl, Svíþjóð 10.-12.maí, Holland, 25.maí og Þýskaland 1.júní.

Big picture

Myndir í félagatal

Á framkvæmdaráðsfundinum í haust ræddum við um framkvæmd þess að koma myndum í félagatalið og niðurstaðan varð að deildirnar myndu setja myndir í sitt félagatal á vefnum og félaganefndin svo sækja þær þangað til að setja í stóra félagatalið. Nú eru þrjár deildir, Alfa, Beta og Mý komnar með myndir inn og ég verð bara að segja að það er allt annað að skoða félagatalið þannig. Ég hvet aðrar deildir til að skoða þeirra síður og skella sér svo í þetta.