Skólastarfið í nóvember

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Þátttaka okkar allra skiptir máli

Skólinn okkar er lifandi samfélag barnanna og fólksins sem þar starfar. Í skólanum verja börnin okkar stórum hluta dagsins við leik og nám. Ekkert skiptir meira máli en að börnunum í skólanum líði vel. Þar getum við foreldrar lagt mikið að mörkum. Þess vegna þarf að hlúa að samstarfi heimilis og skóla.

Ávinningurinn af samstarfi heimilis og skóla er mikill. Það hefur reynslan staðfest. En það verður ekki til af sjálfu sér. Á dögunum héldum við í foreldrafélaginu í samstarfi við skólann fjölmennan fund með bekkjartenglum þar sem starf vetrarins var skipulagt. Framundan eru fjölmargir viðburðir í öllum bekkjum, einnig foreldrarölt, fyrirlestrar á vegum foreldrafélagsins og jólakaffihús í umsjá 10. bekkjar sem verður 1. desember nk. Það er mikilvægt að foreldrar/forsjáraðilar taki þátt því hér er dýrmætur vettvangur til að kynnast skólanum, starfsfólki skólans og öðrum foreldrum/forsjáraðilum og eiga saman uppbyggilegar gæðastundir með börnunum í skólanum okkar.


Sameinumst með þátttöku okkar og stuðlum að góðum bekkjaranda og skólabrag.

Stefán Már Gunnlaugsson
Formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla

Samvinna foreldra skiptir máli

Hraunvallaskóli og stjórn foreldrafélags Hraunvallaskóla þakka fyrir góðan og fjölmennan fund með foreldrum/forsjáraðilum, miðvikudaginn 26. okt.


Vanda Sigurgeirsdóttir frá KVAN talaði um mikilvægi þess að vera ekki að skamma og refsa, heldur finna lausnir saman sem hjálpa öllum og þannig styðja við betri menningu og stoppa neikvæða hegðun. Lars Jóhann Imsland skólastjóri og Guðbjörg Inga Guðmundsdóttir deildarstjóri greindu frá eineltisáætlun skólans, farveg mála og mikilvægi þess að tilkynna einelti. Eiríkur K Þorvarðsson, deildarstjóri hjá mennta- og lýðheilsusviði, fjallaði um að við eigum að hlusta á börnin okkar, vera á varðbergi fyrir því sem er að gerast í snjalltækjum barna okkar og að samfélagið allt taki ábyrgð og skoði hvar við getum gert betur.


Fram kom á fundinum að Hraunvallaskóli og Foreldrafélag Hraunvallaskóla munu fylgja málum eftir með frekari fundum og fræðslu í vetur þar sem vonast er eftir góðri og öflugri þátttöku foreldra, því samtalið þurfum við að eiga áfram. Við hvetjum til samveru og samtals með börnum. Einnig að taka virkan þátt í foreldrasamstarfinu, mæta á viðburði, foreldraröltið, tala saman og kynnast öðrum foreldrum því þannig stuðlum við að góðum bekkjarandi og hjálpumst að við að móta góðan skóla þar sem börnunum okkar líður vel.


Ákveðið var að fá KVAN með okkur í bæta samskipti innan bekkja og árgangs þar sem unnið er með þætti sem styrkja bæði einstaklinga innan hópsins og hópinn í heild sinni. Við vinnum þá m.a. með virðingu, samkennd, umburðarlyndi og traust. Við förum yfir hlutverk innan hópa, algeng vandamál í samskiptum og mikilvægi jákvæðrar hegðunar. Teymið vinnur í samstarfi við skóla og foreldra þar sem við teljum nauðsynlegt að allir vinni saman sem ein heild til þess að efla og styrkja hópinn.


Við erum heppin hér í skólanum að eiga öfluga foreldra sem hafa stigið upp og er mikið af góðu starfi nú þegar farið af stað. Bekkjarkvöld hafa verið eða verða á næstu dögum hjá 1., 2., 3., 7., 8. og 9. bekk. Bekkjartenglar hafa verið að hittast og látið sig svo sannarlega málin varða.


Á foreldrafundi hjá 7. bekk var ákveðið einróma að hafa nóvember símalausan á skólatíma. Kennarar tóku mjög vel í þessa áskorun og byrjar hún núna 1. nóv.

Foreldrar ræddu við börnin um áskorunina og ákveðið var að ef nemandi tekur upp síma á skólatíma þá verður farið með hann til ritara og foreldrar þurfa að sækja símann þangað. Ef nemandi neitar að afhenda síma þá fer nemandi ásamt síma til Hjördísar deildarstjóra. Nemendur eiga ekki að vera með síma í skólanum og því ekki í tímum, á göngum eða úti í frímínútum. Ef vel tekst til ætla foreldrar að gefa nemendum veglega umbun í lok átaks.


Eins og þið sjáið þá erum við öll að leggja okkur fram við að gera góðan skóla betri. Innilegar þakkir til ykkar kæru foreldrar/forsjáraðilar að láta ykkur málin varða og koma að fullum krafti í þessa vegferð með okkur.

Förum varlega

Við minnum á að nú fer í hönd dimmasti tími ársins. Tökum höndum saman og ökum varlega í kringum skólann. Gætum að börnunum okkar og skreytum börnin okkar og okkur sjálf með endurskinsmerkjum svo allir séu sýnilegir í umferðinni. Gott er að huga að aðstæðum með tilliti til veðurs og hálku, áður en lagt er af stað á hjóli/hlaupahjóli í skólann. Þá er líka áríðandi að læsa hjólum/hlaupahjólum við skólann.


Nauðsynlegt er að foreldrar/forsjáraðilar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann, hvetji þau til að nota gangbrautir/undirgöng og bendi þeim á slysagildrur sem ber að varast. Þegar börn eru keyrð í skóla er mjög mikilvægt að þau fari út úr bílnum þar sem þau eru örugg. Við stofnum lífi okkar barna og annarra í hættu með því að sleppa þeim út við gangstéttarbrún. Það er líka mikilvægt að muna að barn sem er að hefja skólagöngu er ekki orðið nógu hávaxið til að sitja eingöngu með bílbelti og því er nauðsynlegt að nota bílpúða eða bílpúða með baki.


Hér eru 10 örugg ráð til foreldra frá Umferðarstofu:


  1. Æfum leiðina í og úr skóla með barninu
  2. Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
  3. Leggjum tímanlega af stað, flýtum okkur ekki
  4. Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir
  5. Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
  6. Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
  7. Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
  8. Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
  9. Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
  10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu. Höfum í huga að við erum fyrirmyndir barnsins.


Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Barnið lærir meira af því sem við gerum en því sem við segjum. Munum því að ganga aldrei á móti rauðu ljósi og nota alltaf viðeigandi öryggisbúnað, t.d. öryggisbelti, hjólreiðahjálma og endurskinsmerki.

Bleikasti árgangurinn 2022

Október ár hvert er tileinkaður konum sem greinst hafa með krabbamein. Á Bleika deginum svokallaða sem var 14. okt. eru landsmenn hvattir til að sýna lit, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning og samstöðu. Skólinn okkar var vel bleikur og fallegur þennan dag. Skapast hefur sú hefð að velja bleikasta árganginn ár hvert og stóð 2. bekkur upp sem sigurvegari þetta árið.

Við í Hraunvallaskóla sýnum stuðning í verki.

Göngum í skólann 2022

Hin árlega keppni "Göngum í skólann" var haldin nú í september. Nemendur (kennarar) skráðu niður á hverjum degi þegar þeir gengu í skólann. Þeir sem ganga lengst vinna í svokallaða "Gullstígvél" sem gengur árlega á milli vinningshafa. Í ár var það 6. bekkur sem bar sigur úr bítum og fengu afhent "Gullstígvélið". Innilega til hamingju 6. bekkur.

Gulldrekaveisla

Í október fór fram okkar árlega "Gulldrekalottó" eins og þið eflaust vitið. Nemendur lögðu sig fram við að fara eftir SMT reglum skólans á opnum svæðum eins og á göngum, í matsal og í frímínútum. 100 gulldrekar voru gefnir annarsvegar í 1.-4. bekk og hinsvegar í 5.-10. bekk. Þegar nemendur fengu gulldreka þá drógu þeir númer og settu miða á það númer á þar til gert veggspjald sem hékk á ganginum. Áður en leikar hófust var búið að draga út eina "röð" hjá hvorum hópi fyrir sig. Í dag var "Gulldrekaveisla" þar sem nemendur sem voru með þau númer sem voru í röðunum sem dregnar voru út hittust í ísveislu. Það var virkilega gaman að sjá nemendur í 1.-10. bekk koma saman, borða ís og kynnast aðeins.

Vinavikan 07.-11. nóv. "VINÁTTA OG JÁKVÆÐ SAMSKIPTI"

Þema vinavikunnar í ár er "Vinátta og jákvæð samskipti". Við munum skipuleggja allt nám út frá þemanu og leggjum höfuð áherslu á verkefni sem miða að "Vináttu og jákvæðum samskiptum".


Ákveðið hefur verið að gera nokkra sameiginlega hluti heilt yfir skólann og langar okkur að bjóða ykkur foreldrum/forsjáraðilum að taka þátt í þeim með okkur.


Kærleiksknús utan um Hraunvallaskóla

Á baráttudegi gegn einelti sem er þriðjudaginn 8. nóv. ætlum við að fara öll út á sama tíma, nemendur og starfsfólk og gera tilraun til að gefa skólanum okkar "Kærleiksknús" með því að búa til samfellda keðju hringinn í kringum skólann. Með þessari táknrænu athöfn viljum við sýna skólanum okkar og samfélaginu öllu væntumþykju og hlýju. Um leið minnum við á mikilvægi vináttu og jákvæðra samskipta. Við förum út kl. 09:00, allir mæta á fyrirfram ákveðna staði (sjá mynd hér undir) og kl. 09:15 tökumst við í hendur og myndum hring í kringum skólann. Við viljum bjóða foreldrum/forsjáraðilum/ömmum/öfum/frænkum/frændum og öllum þeim sem búa á Völlunum að koma og sýna samstöðu með okkur og taka þátt í "Kærleiksknúsinu".


Baráttudagurinn er grænn dagur og hvetjum við alla (nemendur, starfsfólk, forelda, ömmur, afa) til þess að mæta í grænu þennan dag.


Kynning á eineltishringnum

Kennarar ætla að horfa með nemendum sínum á myndbandið ,,saman gegn einelti“: Saman gegn einelti on Vimeo og ræða eftir það við nemendur um hvernig við í sameiningu getum unnið gegn einelti. Eineltishringnum verður varpað upp, hvert ,,hlutverk“ í hringnum útskýrt og hvaða áhrif það hefur á heildina.


Undirskrift vináttusáttmála

Umsjónarkennarar ætla að fara vel yfir vináttusáttmálann með sínum nemendum, útskýra hugtök og gera nemendum ljóst hvaða skuldbinding felst í því að skrifa undir hann. Mikilvægt er að allir nemendur hafi tekið þátt í umræðum og fengið góða umfjöllun um vináttusáttmálann áður en skrifað er undir. Vináttusáttmálinn verður staðsettur á vegg rétt hjá ritaranum og verður ritarinn tilbúinn með penna. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila að koma við einhvern tímann í vikunni og skrifa undir sáttmálann okkar allra - stöndum saman.

Big picture

221 - Rave ball fyrir unglingadeild

Ásinn, Mosinn, Setrið og Skarðið halda ball saman fyrir unglingadeild í Hraunvallaskóla miðvikudaginn 9. nóvember kl. 19:30-22:00. Daniil, Clubdub, Háski og DJR4GG11 spila á ballinu og miðinn kostar 3.000 kr. Miðasalan er í Mosanum og á skrifstofu skólans á opnunartíma. Síðasti séns að kaupa miða er kl. 17:00 þriðjudaginn 8. nóvember.
Big picture

Skertur dagur hjá 1.-7. bekk 11. nóv.

Föstudagurinn 11. nóv. er skertur dagur hjá 1.-7. bekk og eru nemendur búnir á skólanum á eftirtöldum tímum:

1.-4. bekkur klárar kl. 11:10

5.-7. bekkur klárar kl. 11:25

Hraunsel opnar um leið og skóla lýkur fyrir þá nemendur í 1.-4. bekk sem eiga pláss þar. Skrá þarf fyrir þennan dag og er skráning nú þegar opinn í gegnum Völu. Skráningu lýkur á miðnætti þann 8. nóv.


Hefðbundin skóladagur er hjá unglingadeild.

Laugarvatn hjá 9. bekk

Mánudaginn 14. nóv. fer 9. bekkur á Laugarvatn og verður alla vikuna. Það er mikil tilhlökkun í hópnum enda fullt af skemmtilegum hlutum að gera þar. Nemendur kynnast hver öðrum betur og kennarar og starfsfólk kynnast nýjum hliðum á nemendum. Þetta er ferð sem enginn vill missa af.

Skipulagsdagur mánudaginn 14. nóv.

Mánudagurinn 14. nóvember er skipulagsdagur hér í Hraunvallaskóla. Þá gefst kennurum tækifæri til skipulagningar á skólastarfinu ásamt endurmenntun. Nemendur eru í fríi í skólanum þennan dag en Hraunsel er opið fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk. Skráning er í Hraunsel fyrir þá sem eru með daglega vistun þar og er búið að opna fyrir skráningar í gegnum „Völu“. Þeir nemendur sem ekki eru með daglega vistun í Hraunseli geta sent tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is og óskað eftir vistun á þessum degi. Sá vistunartími er frá kl. 08:00-13:20. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti 8. nóv.

Dagur íslenskrar tungu 16. nóv.

Miðvikudagurinn 16. nóv. er "Dagur íslenskrar tungu". Það er hefð fyrir því að setja Stóru og litlu upplestrarkeppnina á þeim degi. Nemendur í 4. bekk taka þátt í litlu upplestrarkeppninni og nemendur í 7. bekk taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Nemendur hafa síðan fram á vor til að æfa sig og verður foreldrum nemenda í þessum árgöngum boðið að koma og horfa á keppnirnar þegar þar að kemur.

Samverur

Við erum svo glöð með að geta boðið ykkur foreldrum/forsjáraðilum á samverur núna eftir langt hlé. Nemendur eru líka glaðir með að fá að stíga á svið og sína ykkur hæfileikana á stóra sviðinu í allskonar formi.
Í nóvember eru samverur eins og hér segir:

15. nóv. hjá 4. bekk

17. nóv. hjá 2. bekk

25. nóv. hjá 6. bekk


Nánari tímasetningar koma frá kennurum þegar nær dregur.

Foreldrarölt

Á undanförnum árum hafa foreldrar og forráðamenn í samstarfi við foreldrafélög skólanna, félagsmiðstöðvarnar og lögregluna farið í skipulagt foreldrarölt á kvöldin um helgar. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivist barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.


Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist þú öðrum foreldrum og hverfinu, styrkir tengslanet og auðveldar samskipti foreldra/forsjáraðila, hefur þú áhrif á góðan hverfisbrag og það félagslega umhverfi sem börnin okkar og unglingar búa í.


Besta forvörn ósækilegrar hópamyndunar unglinga er sýnileiki fullorðinna og með virku foreldrarölti minnka líkur á hópamyndunum, notkun vímuefna, eineltis og ofbelis. Allir þessir hlutir ógna öryggi hverfisins okkar, sem hefur bein eða óbein áhrif á þitt barn.


Foreldraröltið er frábært tækifæri til að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga, búa til tengslanet þeirra á milli og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga að loknum lögbundnum útivistartíma. Röltið er einnig gott verkfæri til að efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.


Foreldrarölt fer alla jafna fram á föstudagskvöldum en stundum kemur það fyrir að það sé á miðvikudagskvöldum.


Hér er bæklingur um mikilvægi foreldrarölts sem við hvetjum ykkur til þess að lesa vel.
Big picture

Tómstundamiðstöð skólans

Hér er dagskrá Hraunsels og Mosans fyrir NÓVEMBER. Endilega hvetjið nemendur til að taka þátt, þetta er svo skemmtilegt.