Jóla Þytur

Fréttabréf Þelamerkurskóla desember 2017

Þytur í nýjum búningi

Heil og sæl foreldrar og forráðamenn nemenda Þelamerkurskóla,

Þytur, fréttabréf Þelamerkurskóla er kominn í nýjan búning og eftir áramót fær heimasíða skólans andlistupplyftingu.


Það er ótrúlegt til þess að vita að haustönnin sé á enda og að jólaleyfið sé handan við hornið.


Uppbrotsdagarnir á fimmtudag og föstudag í þessari viku hafa gengið vel. Jólaljósagangan og laufabrauðsgerðin heppnuðust vel og opnu stofurnar í dag gengu vonum framar. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og gátu haft bæði gagn og gaman af smiðjunum.


Myndin hérna til hliðar var einmitt tekin í einni opnu stofunni í morgun þar sem hægt var að fá neglurnar sínar lakkaðar og hárið greitt.

Fleiri uppbrotsdagarnir eftir helgina

Eftir helgina eru svo eftir þrír óvenjulegir skóladagar; smiðjudagur, skautadagur og svo litlu jólin. Í frétt á heimsíðu skólans er yfirlit yfir skipulag þessara daga. Fréttin er hérna fyrir neðan.


Ef foreldrar hafa tök á því að koma í skólann eru þeir hjartanlega velkomnir á litlu jólin okkar. Þeir geta komið t.d. í kirkjuferðina. Í kirkjunni syngur kórinn jólalög og 7. bekkingar lesa upp jólaguðspjallið. Þegar komið er heim í skóla er hægt að hlusta á marimbasveit skólans eða koma á jólaballið á litlu jólunum.

Góð sala á jólamarkaðnum

Við viljum þakka öllum sem komu á jólamarkaðinn okkar sem var í upphafi desember. Allt á markaðnum seldist upp og ágóðinn af honum varð 162 000 kr. sem rennur allur til Styrktasjóðs krabbameinssjúkra barna.

Skólastarf á nýrri önn

Skólastarfið á nýju ári hefst með viðtalsdegi 3. janúar. Í dag var opnað fyrir bókanir í viðtöl og eru foreldar hvattir til að velja sér viðtalstíma fyrir jól. Upplýsingar eru í tölvupósti frá umsjónarkennurum.


Kennt verður samkvæmt stundaskrá frá og með fimmtudeginum 4. janúar.

Jólakveðja

Um leið og við óskum ykkur gleðilegra jóla viljum við þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Við hlökkum til að starfa áfram með ykkur í nýju ári.


Með bestu jólakveðjum í skólanum,

Ingileif og Unnar