Fréttabréf Grenivíkurskóla

10. tbl. 2. árg. - desember 2021

Kæra skólasamfélag

Tíminn flýgur að vanda og strax kominn desember! Framundan er jólaundirbúningur og ýmislegt um að vera í skólanum sem tengist jólahátíðinni svo sem laufabrauðsdagur, kyndlaganga og litlu jólin.


Viðburðaríkur nóvember er að baki. Við fengum að kynnast Covid-fjandanum í heldur meira návígi en áður, en þó fóru hlutir á eins góðan veg og hægt var að vonast eftir. Ég vil þakka bæði nemendum, foreldrum og starfsfólki fyrir góð viðbrögð og samstarf í tengslum við þessi mál - það skiptir lykilmáli.


Þá fengum við þónokkrar heimsóknir í mánuðinum, hver annarri skemmtilegri, en nánar má lesa um það hér að neðan.


Síðasti kennsludagur fyrir jólafrí er föstudagurinn 17. desember. Sama dag, kl. 16:00, eru svo litlu jólin en að þeim loknum halda nemendur í jólafrí. Skóli hefst aftur að loknu jólafríi þriðjudaginn 4. janúar.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Dagur gegn einelti og heimsókn frá Má Gunnarssyni

Fimmtudaginn 25. nóvember var Dagur gegn einelti í Grenivíkurskóla. Í tilefni dagsins var einelti og afleiðingar þess til umræðu á samveru dagsins, og þá höfðu nemendur einnig lagt mikinn metnað í að útbúa myndbönd sem tengdust málefninu. Það er mikilvægt að halda umræðu um þessi mál á lofti með reglubundnum hætti og það gerum við, enda vitunarvakning einn af lykilþáttum Olweusaráætlunarinnar sem skólinn fylgir.


Í lok dags kom svo Már Gunnarsson í heimsókn til okkar og ræddi við okkur um sitt lífshlaup, en Már er meðal annars tónlistarmaður og afreksmaður í íþróttum. Fyrirlesturinn var virkilega frábær, enda Már með eindæmum jákvæður og skemmtilegur sem lætur fötlun sína ekki stoppa sig í að ná markmiðum sínum.


Tengla á myndaalbúm frá deginum má sjá neðst í fréttabréfinu.

Gilitrutt - leiksýning

Nemendur í leiklistarvali á miðstigi settu á dögunum upp leiksýninguna Gilitrutt, en krakkarnir höfðu undirbúið og æft leikritið frá því snemma í haust undir dyggri leiðsögn Hólmfríðar Björnsdóttur. Sýningin var vel heppnuð og afar skemmtileg og ljóst að fjölmargir leikarar leynast í hópnum.


Leiklistarval á unglingastigi er svo komið á fullt skrið og verður spennandi að sjá afrakstur þeirrar vinnu.

Orgelsmiðja

16. nóvember síðastliðinn fengum við góða heimsókn í skólann. Þá kom hún Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti, til okkar með svokallaða orgelsmiðju. Í henni fengu nemendur á miðstigi að setja saman - og spila á - tréorgel. Verkefnið er ættað frá Hollandi og hefur farið nokkuð víða undanfarin ár, en hér má t.d. sjá skemmtilegt innslag úr Landanum frá því sl. vor. Virkilega skemmtilegt verkefni og sýndu nemendur mikinn áhuga við orgelsmíðina.

Heilsueflandi skóli

Svefn og skjátími barna og unglinga

Við viljum minna foreldra á mikilvægi þess að nemendur fái nægan svefn. Svefnþörf okkar er ólík, bæði eftir aldri og einnig einstaklingum, en þó er almennt talið að börn og ungmenni þurfi að jafnaði lengri svefn en þau sem eldri eru.


6-13 ára börn þurfa almennt 9-11 klst svefn á hverri nóttu og 14-17 ára börn þurfa almennt 8-10 klst svefn. Stundum verðum við í skólanum vör við að börn komi þreytt og illa sofin í skólann og það getur haft slæm áhrif á frammistöðu þeirra og líðan.Þá er vert að nefna að skjánotkun fyrir háttatíma getur haft áhrif á bæði lengd og gæði svefns. Ljósin frá tækjunum hafa áhrif á heilastarfsemina og valda því að erfiðara verður að sofna og einnig getur reynst erfiðara að ná fram djúpsvefni, sem er okkur afar mikilvægur.


Því er talið ráðlagt að hætta skjánotkun vel fyrir áætlaðan háttatíma, t.d. 1-2 klukkustundum fyrr. Þá er upplagt að prófa að hafa tækin ekki í svefnherbergjum yfir nóttina, þar sem oft eiga margir erfitt með að hunsa áreiti sem kemur frá slíkum tækjum.


Dagatal Velvirk

Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina "Hlýhugur í desember". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.


Afmælispakki desember fjallar um neyslu og hringrásarhagkerfi og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.


Smellið hér til að opna afmælispakkann.

Á döfinni í desember

 • 1. desember: Fullveldisdagurinn
 • 3. desember: Laufabrauðsdagur
 • 13. desember: Kyndlaganga (dagsetning gæti breyst - fer eftir veðri).
 • 17. desember: Litlu jólin í Grenivíkurskóla kl. 16:00. Jólafrí hefst.
 • 23. desember: Þorláksmessa
 • 24. desember: Aðfangadagur jóla
 • 25. desember: Jóladagur
 • 26. desember: Annar í jólum
 • 31. desember: Gamlársdagur
 • 1. janúar: Nýársdagur
 • 3. janúar: Starfsdagur (Frí hjá nemendum).
 • 4. janúar: Skóli hefst á ný að loknu jólafríi.

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla