Hvalrekinn

19. október 2020

Big picture

Það líður að vetrarfríi ....

Ágætu foreldrar,


Enn erum við á þessum skrítnu tímum en við skulum vera jákvæð því ef við pössum upp á okkar persónulegu sóttvarnir þá vinnum við bug á þessari veiru.

Með þessum Hvalreka ætlum við aðeins að minna á rafrænu samtölin sem eru á morgun þriðjudag (einhver þeirra hafa farið fram) og síðan er vetrarfrí á fimmtudag og föstudag. Vonum svo sannarlega að allir eigi eftir að eiga góðar stundir með sínum börnum.


Áfram eru í gildir hertar reglur varðandi aðgengi utanaðkomandi að skólanum og þar eru foreldrar með taldir. Allur óviðkomandi aðgangur er óheimill. Ef þú þarft að hafa samband við skólann eða kennara þá vinsamlega hafðu samband við skrifstofu skólans símleiðis (565 0200) eða komdu að aðalinngangi skólans.


Við tæklum komandi tíma saman, við gerðum það í vor með glæsibrag og við komum til með að gera það áfram.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Hvernig tek ég þátt í rafnrænum samtalsdegi í Hvaleyrarskóla?

Hér má sjá leiðbeiningar hvernig tekið er þátt í rafrænum samtalsdegi í gegnum gegnum forritið Google Meet.


Viljum minna á að til að viðtöl foreldra, nemenda og kennara verði markvissari er mikilvægt að foreldrar og nemendur séu vel undirbúnir. Viljum við því biðja foreldra og nemendur um að:

  • Vera búnin að lesa allar umsagnir sem kennarar gefa í hverju fagi fyrir sig.
  • Skoða námslega stöðu eða hæfnikortin. Á hvaða vegferð er barnið / nemandinn í hverju fagi.

Með þessu teljum við að samtalið skili meiri árangri fyrir barnið. Nú geta foreldrar og nemendur skoðað stöðumatið í Mentor-appinu, sjá leiðbeiningaglærur hér.

Vetrarfrí 22. og 23. október

Vetrarfrí verður í grunnskólum Hafnarfjarðar, fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. október. Við vonum að nemendur og fjölskyldur þeirra hafi það gott í fríinu.

Hafnarfjarðarbær hefur tekið saman heilt stafróf af hugmyndum til að skapa þér og þínum fjölbreytt verkefni heimavið eða í næsta nágrenni.


Hér má finna fleiri hugmyndir að útivist.


There will be a Winter break on Thursd the 22nd and Frida the 23rd of October. We hope all our students and their families will enjoy their winter break.

Íþrótta- og sundkennsla

Út frá tilmælum sóttvarnlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra verður engin sund- og íþróttakennsla í grunnskólum Hafnarfjarðar frá og með 5. október og fram til 2. nóvember. Á þessum tíma verður útikennsla á og við skólalóðina.

Því er mikilvægt að nemendur komi klæddir eftir veðri þá daga sem þeir fara í íþróttir og sund.

Skáknetmót fyrir nemendur í Hafnafirði

Hafnarfjarðarbær vill bjóða öllum grunnskólabörnum á netskákmót alla laugardaga klukkan 11:00. Við hvetjum ykkur til að benda börnum ykkar á að taka þátt á skákmótunum.

Hér eru skrefin sem þarf að fara í gegnum til þess að taka þátt (mjög einfalt):


  1. Búa til aðgang á www.chess.com (frítt)
  2. Gerast meðlimur í hópnum “Hafnarfjörður-skólar”: https://www.chess.com/club/hafnarfjordur-skolar
  3. Skrá sig á mótin sem hægt er að gera allt að 60 mínútum áður en þau hefjast.
    Mótin verða einnig auglýst á forsíðu hópsins inná chess.com.


Alla laugardaga 11:00-12:00

https://www.chess.com/live#r=529359 (Tengill gildir fyrir mótið þann 17.október, síðan verða tenglar uppfærðir inná á forsíðu Hafnarfjörður-skólar á chess.com vikulega.)


Við mælum með að þið notið borðtölvu/fartölvu, því Chess.com appið virkar ekki á mótum.

Mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðarbæjar

Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum

Foreldrafélag Hvaleyraskóla hefur ákveðið að styrkja bekkjatengla fyrsta til fimmta bekkjar um hámark 5.000 kr. á önn til þess að gera eitthvað skemmtilegt með bekkjunum. Fyrirkomulagið er þannig kvittanir fyrir útlögðum kostnaði auk samantektar á heildarkostnaði er send á póstfang foreldrafélagsins (foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is). Þar sem koma þarf fram nafn bekkjar og tilefni (hvað var gert með bekkjunum) og nafn, kennitala og bankaupplýsingar bekkjatengils. Gefum okkur um viku til að endurgreiða útlagðan kostnað.

Foreldrarölt

Foreldraröltið fer þannig fram að foreldrar mæta við Hvaleyrarskóla kl. 21:45 á föstudagskvöldi.


Rölt er um hverfi Hvaleyrarskóla og fylgst með hópamyndun barna og unglinga. Bekkjarfulltrúar sjá síðan um að senda línu um hvernig röltið gekk á netfangið foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is. Ef þörf er á, röltum við líka á laugardögum í samráði við forvarnarfulltrúa og lögreglu en það tilkynnist þá sérstaklega.


Hér má sjá skipulag foreldrarölts veturinn 2020-2021.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.