Spjaldtölvur í námi

- af fagfundi vegna innleiðingar á spjaldtölvum í skólanum.

Spjöldin.

Sameiginlegur fagfundur kennara var á dögunum helgaður því hvernig nemendur nýta spjöldin í námi sínu, með áherslu á yngsta og miðstig. Þetta var engan vegin tæmandi listi, heldur fengum við að heyra dæmi frá nokkrum kennurum á þessum stutta tíma sem við höfðum.


Staðan núna er sú að nemendur í 9. og 10. árgangi hafa iPad spjaldtölvur til afnota bæði í skólanum og heima. Vegna tafa sem urðu á umsýslukerfi spjaldanna tókum við á endanum þá ákvörðun að setja spjöldin fyrir 5. til 8. árgang upp eins og bekkjarsett og geyma í læstum skápum í umsjónarstofum, til afnota í tímum. Nemendur á yngsta stigi hafa bekkjarsett af spjöldum til afnota, sem kennari pantar þegar á að nota þau.

Big picture

Bekkjarsettin af spjöldum.

Nemendur í 3. árgangi hafa í vetur æft sig í umgengni um spjöldin, en það er grundvallaratriði að vel sé um þau gengið til að það gangi að vera með eitt bekkjarsett fyrir alla bekki á yngsta stigi. María og Ragnhildur sýndu okkur hvernig þeir styðjast við bjargir sem eru í öllum stofum á yngsta stigi.


Börnin hafa kynnst ýmsum smáforritum í þessu ferli sem þjálfa íslensku, lestur og reikning. Himingeimurinn var skoðaður á myrkum morgni þar sem spjaldið sýnir himininn eins og hann er í þeirri átt sem því er beint. Þá fóru þau í að setja saman tónlist, en þar prófa þau sig áfram með ,,kall” sem býr til takt eða tón, næsta ,,kall” sem kemur með eitthvað annað inn, og það passar við það fyrsta, og svo koll af kolli. Með þessu sjá þau hvernig mismunandi taktur og tónar mynda lag.


Í framhaldinu hafa börnin kynnst því að vinna að ritunarverkefnum í Google skólaumhverfinu, skrifuðu um jólasveinana og jólaleyfið. Þau hafa lært að stofna skjal á drifinu (e. Drive) í réttri möppu, og vinna bæði eitt og eitt með sitt skjal, en líka tvö í sama skjali, eins og þegar þau skrifuðu um himingeiminn, með sitt hvort spjaldið.

Gagnvirkar námssíður.

Ragnheiður sagði okkur frá því hvernig börnin í 2. bekk nota spjöldin í hringekjustarfi, þar sem einn hópurinn er alltaf með spjöldin. Þau eru orðin vel sjálfbjarga í að byrja vinnu og ganga frá. Þau hafa undanfarið notað QR kóða til að fara inn á þær gagnvirku námssíður sem þau velja að vinna með.

List- og verkgreinar, myndmennt.

Erika myndmenntakennari sýndi okkur hvernig hún hefur verið að stíga fyrstu skrefin í því að setja verkefnalýsingar nemenda inn á Google Classroom. Þá eru nemendur í einum árgangi að byrja að búa til rafrænar ferilmöppur þar sem þau lýsa ferli verka sinna. Þetta telur hún gefa nemendum möguleika á meiri dýpt í verkefnavinnu sinni með því að ígrunda verkferilinn frá upphafi til enda.

Forritun fyrir alla.

Forritun er oft nefnd tungumál sem ætti að kenna í skólum, en hún gefur nemendum tækifæri til að þjálfa m.a. rökhugsun, seiglu og að ,,hugsa út fyrir boxið” þegar þau prófa sig áfram. Lóa sýndi okkur hvaða forrit nemendur læra að vinna með í upplýsingatæknitímum, en jafnframt hvaða forrit henta vel fyrir nemendur til að vinna sjálfstætt með í öðrum tímum. Hún minnti á vélmennin okkar, Sphero Spark kúlurnar og Dash sem heillar alla með stóru auganu og masi.
Big picture

Hugarkort hjálpar nemendum að öðlast yfirsýn.

Á miðstigi hafa nemendur verið duglegir í að búa til hugarkort í starfi sínu, að setja niður aðalatriði og atriði þeim tengd. Ásta Margrét kynnti kostina við rafrænu hugarkortin. Þá geta börnin fært hluti til, bætt við og strokað út og sett inn myndir. Þau geta svo tekið vinnuna lengra og raðað atriðunum á hugtakakortinu upp í þá röð sem þeim þykir rökrétt til frekari vinnu.

Ritunarverkefni í þrepum.

Ellý og Selma sýndu okkur hvernig nemendur þeirra í 7. árgangi gerðu hugarkort um vikuna að Reykjum, röðuðu atriðunum á kortinu upp í þá röð sem þeim þótti rökrétt, tóku mynd af því og skiluðu inn í Google Classroom.


Hugarkortið nýta börnin í næsta verkefni sem inngang að ritunarverkefni í Google skjöl (e. Docs). Hugarkortið sem þau höfðu raðað upp er því nokkurs konar efnisyfirlit efst í skjalinu. Fyrirmælin í verkefninu eru að skrifa eina efnisgrein um hvert atriði. Síðar munu þau svo fá það verkefni að skrifa inngang og lokaorð.

Skil í töluðu máli - með mynd.

Ör stuttar myndakynningar er góð leið þegar á að segja frá einhverju einu. Þuríður og Hanna sýndu okkur hvernig þær nýta sama forritið Chatterpix bæði til frásagnar og upplesturs. Verkefnið sem börnin unnu með var að taka mynd af bókakápu bókar sem þau lásu, setja strik á myndina sem verður munnur sem hreyfist þegar talað er og láta ,,bókina" segja frá því um hvað hún fjallar, eða lesa upp úr bókinni.

Rafbækur sem vinnubækur, verkmöppur eða ferilmöppur.

Í rafbókum felast endalausir möguleikar umfram það að rita í þær sem stílabækur. Helga sýndi okkur hvernig nemendur í 6. árgangi safna vinnu sinni inn í rafbók sem verður eins konar verkefnamappa með texta, hljóðupptökum, myndskeiðum, myndum, hlekkjum o.s.frv.

Rafræn tímalína.

Á unglingastigi hafa nemendur verið að búa til rafrænar tímalínur í samfélagsfræði. Linda sýndi okkur hvernig þau skrifa staðreyndir og setja myndir inn á línuna og fá þannig yfirsýn yfir atburðina sem þau skoða bæði venjulega og í þrívídd.

Nám við hæfi hvers og eins.

Í námsveri og Bergi gefa spjöldin aukna möguleika á þjálfun við hæfi hvers og eins barns. Rafbækur, hljóðbækur, gagnvirkar námsíður, þjálfunarforrit og fleira nýtist vel.


Osmo námsleikir eru góðir til þjálfunar, en þeim fylgja aukahlutir þar sem nemendur handleika tölustafi, form, bókstafi o.fl sem leikjunum fylgja.

Í unglingadeildinni.

Við náðum ekki fleiri kynningum að þessu sinni, en við hefðum getað haldið lengi áfram. Í unglingadeild vinna nemendur m.a. rafrænar ritanir í íslensku. Herdís gefur þeim endurgjöf um það sem þarf að lagfæra, þau lagfæra og skila verkefinu inn aftur. Nemendur taka æ fleiri rafræn próf, nýta að skoða útskýringar með kennslumyndböndum í stærðfræði, vinna að rafrænum glósum í náttúrufræði hjá Margréti og deila hvert með öðru ásamt því að búa til gömlu minnisspjöldin rafrænt í Quizlet.


Unglingarnir hafa undanfarið unnið að stuttmyndum, bæði í dönsku og ensku, og koma ,,grænu veggirnir" sér þá vel ef möguleikinn á að skreppa út fyrir landsteinana til myndatöku er ekki fyrir hendi.