Fréttabréf Borgaskóla

4. tbl

4. tbl fréttabréfs Borgaskóla er komið út

Hér gefur að líta 4. tbl fréttabréfs Borgaskóla og jafnframt það síðasta á skólaárinu 2020-2021. Starfsfólk Borgaskóla þakkar nemendum og foreldrum fyrir samstarfið á skólaárinu með ósk um framúrskarandi gott lestrarsumar.

Komdu í heimsókn

Skólaárið hefur verið óhefðbundið og heimsóknir foreldra verið mjög takmarkaðar í skólahúsnæðið. Unnur upplýsingatæknikennari fékk lánaða 360° myndavél og myndaði allan skólann. Nú er því hægt að fara í ferðlag um Borgaskóla með því að ýta hér.

Lesum í sumar

Allir nemendur í 1.-6. bekk fengu sumarlestraráskorun afhenta með vitnisburðarblaðinu sínu. Þeir nemendur sem skila blaðinu útfylltu til umsjónarkennara á fyrstu dögum skólaársins fá afhendan verðlaunapening.

Valgreinar í 6.-7. bekk á næsta skólaári

Undirbúningur fyrir næsta skólaár er þegar hafinn hjá starfsfólki Borgaskóla. Á komandi skólaári fara nemendur í 6.-7. bekk í valgreinar í 80 mínútur á viku, 5-6 vikur í senn í hverja valgrein. Í ágúst fá nemendur að velja sér valgreinar fyrir haustönn og á boðstólnum eru fjölbreytt val þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Geislaskerinn Glódís er mættur í hús - myndir frá Hönnun og smíði


Það er gaman að segja frá því að Borgarskóli hefur eignast geislaskera sem oft er kallaður leiserskeri. Hann fékk nafnið Glódís og var komið fyrir í smíðastofunni í litlu herbergi sem áður var málningarherbergi. Geislakerinn býður upp á ótal möguleika fyrir nemendur og mun auðvelda nemendum að efla þekkingu sína á stafrænni framleiðslutækni. Við höfðum eins skera að láni fyrir áramót og það reyndist vel.


Það skemmtilega við skerann er að nemendur geta unnið í honum allt frá 1. bekk. Þá teikna nemendur á blað og við setjum teikninguna í skerann sem skannar teikninguna og brennir og sker eftir henni eftir því sem nemandinn velur.


Eldri nemendur geta bæði teiknað beint á blað en einnig teiknað í tölvu og höfum við í vetur notað teikniforritið Inkscape fyrir nemendur.


Við höfum blandað saman handverki og stafrænni tækni og erum að prófa okkur áfram með góðum árangri. Nemendur hafa sýnt að þau eiga auðvelt með að tileinka sér tæknina og margar nýjar hugmyndir hafa fæðst.


Meðfylgjandi myndir eru frá nemendum vorannar. Þar má sjá verkefni þar sem geislaskerinn er nýttur en einnig hefðbundið handverk.


7. bekkur hannaði lampa og silfurkveikti málm

6. bekkur hannaði klukku og smíðaði úr einum málmi

5. bekkur smíðaði tímaritabox og hannaði leikfang

4. bekkur smíðaði bangsarúm og ýmis verkefni

3. bekkur smíðaði, þeytispjald og valdi svo milli þess að smíða box, ramma eða snaga

2. bekkur smíðaði fisk, sjálfsmynd, sverð, kúluspil

1. bekkur smíðaði meðal annars andlit, litastand og steinakarl

Námsfélagaverkefni í 3. bekk

Nemendur í 3. bekk unnu verkefni í lífsleikni/samfélagsfræði þar námsfélagar ræddu og skráðu niður hvað þeim þætti vera mikilvægast í fari góðs bekkjarfélaga og skólafélaga. Kennarar unnu svo úr niðurstöðunum og settu upp í súlurit og bjuggu til verkefnahefti sem byggir á þessum niðurstöðum. Þau unnu svo 2 – 3 saman að úrlausn þessara verkefna. Þau þurftu að vinna með tölur og álykta um niðurstöður á grundvelli súluritsins. Einnig að rökræða um ýmis atriði sem komu fram t.d. af hverju á ekki að gera grín að fólki og af hverju er mikilvægt að hlusta með athygli. Þessi vinna tók nokkrar kennslustundir til að gefa þeim tækifæri til að ná að ígrunda viðfangsefnið og verða betri námsfélagi. Þessi vinna tókst vonum framar og mikil og góð umræða var á milli nemenda. Það sem flestir í 3. bekk völdu sem kosti góðra bekkjarfélaga var að eiga góð samskipti, sýna virðingu og sanngirni og að hjálpa öðrum.
Big picture

Samþætting námsgreina í 6. bekk

Nemendur í 6. bekk unnu verkefni um Snorrasögu þar sem lögð var áhersla á samþættingu samfélagsfræði og upplýsingatækni. Unnin voru verkefni á fjölbreyttan hátt þar sem persónusköpun og söguþræði var gert hátt undir höfði. Afraksturinn má sjá hér að neðan:

Útikennsla í lífsleikni hjá 4. bekk

Nemendur í 4. bekk fóru í útikennslu í lífsleikni þar sem verkefnið var að búa til listaverk úr náttúrulegum efnivið. Nemendur unnu með námsfélaga og verkefnið var að safna ákveðnu magni af náttúrulegu efni og útbúa listaverk. Verkið mátti hafa 1 – 2 rusl sem þau fundu úti. Nemendur fluttu einna mínútu frásögn af verkefninu þar sem átti að segja frá túlkun sinni og þróun á hugmyndinni á bakvið verkið. Nemendur sögðu frá verkinu með námsfélaga fyrir aðra nemendur. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel þau unnu saman og áttu auðvelt með að tjá sig. Því miður stóðu verkin ekki lengi og nemendur skiluðu efniviðnum í náttúruna aftur, en ruslið fór að sjálfsögðu á réttan stað.

Verkefni um hafið í 2. bekk

Í vor unnu nemendur í 2. bekk skemmtilegt verkefni um hafið. Þeir fræddumst m.a. um hafið, sjávarútveginn og fiska í kringum Ísland. Nemendur bjuggu til sinn eigin fisk úr maskínupappír ásamt því að skrifa lýsingu á honum og kynna fyrir bekkjarfélaga.

Tónlistarsköpun í 7. bekk

Í tónmennt unnu nemendur í 7. bekk í hópum, við að skapa tónlist í smáforritinu GarageBand í Ipad. Þau fengu greinagóða verkefnalýsingu þar sem hvert skref var rakið til þess að semja tónlistina. Þegar hóparnir höfðu lokið við tónverkið gerði hver nemandi jafningjamat og sjálfsmat. Nemendur skemmtu sér mjög vel við þetta verkefni og voru flestir mjög áhugasamir. Hér má hlusta á afraksturinn.

Vordagar í list- og verkgreinum

Á lokadögum Borgaskóla var uppbrot í list- og verkgreinum. 1. bekkur fór í gönguferð á leikvöll við Víkurskóla og á Bókasafnið í Spönginni. 4. og 5. bekkur fór í fjöruferð við Geldinganes. 6. bekkur var með boðhlaup og stöðvar með limbó, snú snú, körfubolta, badminton og Kubb. Árný skólastjóri bauð 7. bekk uppá ís og svo gátu nemendur leikið í sömu stöðvum og 6. bekkur. Meðfylgjandi eru myndir.

3. bekkur heimsótti hesthús

Nemendur í 3. bekk fóru saman í heimsókn í hesthús í eigu Ragnhildar Aspar kennara og fjölskyldu hennar. Allir fengu að prófa að kemba, moka stíurnar og sópa gólfin og auðvitað fara á hestbak og smá reiðtúr. Þeir sem treystu sér ekki að fara í reiðtúr prófuðu að setjast í hnakkinn stutta stund. Nemendur fengu líka að leika sér í á stutt frá, það var verið að vaða, sulla og henda steinum. Að lokum voru borðaðar samlokur í hádegismat áður en haldið var í strætó aftur í skólann. Ótrúlega skemmtileg og fræðandi ferð þar sem nemendur voru mjög forvitnir um hestana og spurðu mikið.