Ágrip - Málstofa 1. febrúar

Nomad (Nordisk matematikk didaktikk)

Kynning á Norrænum rannsóknum sem Íslendingar hafa tekið þátt í og fjalla um notkun á náms- og kennslugögnum í stærðfræði.

Norrænt samstarf um rannsóknir á námsgögnum

Guðný H. Gunnarsdóttir lektor


Námsefni og námsgögn af ýmsum toga gegna mikilvægu hlutverki í námi og kennslu og með tilkomu netsins hefur úrval af námsögnum aukist og framsetning efnis er með ýmsu móti. Töluverð umræða hefur farið fram um þá námsmöguleika sem felast í ýmis konar námsgögnum. Augu rannsakenda hafa einnig beinst að námsgögnunum sjálfum, sögu þeirra. notkun, framsetningu og áhrifum á nám og árangur nemenda sem og á kennslu kennara.


Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir starfi rannsóknarnets sem á árunum 2011-2014 naut styrks frá NordForsk til að efla rannsóknir og samstarf rannsakenda á þessu sviði á Norðurlöndunum og Í Eystrasaltslöndum. Einnig verður greint frá efni sérrits tímaritsins NOMAD (Nordic Studies in Mathematics Education) sem út kom í nóvember 2015 en í heftinu eru 11 greinar sem svo til allar eiga rætur að rekja til þess samstarfs sem rannsóknarnetið stuðlaði að.Rætur breytinga og þróunar kennslubóka í stærðfræði

Kristín Bjarnadóttir prófessor emerita


Í fyrirlestrinum er rætt um að breytingar og þróun kennslubóka í stærðfræði eiga sér rætur og fyrirmyndir en lagast jafnframt að aðstæðum í samfélaginu. Í fyrstu verður vikið að nærtæku dæmi af tímamótabók Guðmundar Arnlaugssonar, Tölur og mengi, sem útgefin var 1966. Rætur hennar má rekja til hugmynda sem öðluðust fylgi um miðja tuttugustu öld, bæði austan hafs og vestan um breytta framsetningu á stærðfræði, en verk Guðmundar hafði einnig áhrif á síðari kennslubækur í stærðfræði.

Á sama hátt en þó allt öðru vísi urðu til kennslubækur í reikningi í norður evrópsku jaðarlöndunum Eistlandi, Noregi og Íslandi, óháðar hver annarri en sprottnar af sömu rótum, menntastefnu lúterskra mótmælenda, upplýsingarstefnu og uppeldisstefnum Comenius, Pestalozzis og Spencers, sem allir lögðu áherslu á merkingarbært nám. Markmið menntastefnu í þessum löndum fléttuðust saman við vaxandi þjóðernisstefnu í þá veru að öðlast vald yfir eigin auðlindum og fá að nota eigið tungumál og byggja þannig upp trú þjóðanna á eigin getu.Samanburður þriggja kennslubóka fyrir 8. bekk

Rannveig Halldórsdóttir kennari


Borin eru saman helstu einkenni þriggja kennslubóka í stærðfræði fyrir 8. bekk sem voru í notkun á 25 ára tímabili. Uppbygging kennslubókanna, inntak, viðhorf til stærðfræði og hæfnikröfur voru borin saman í ljósi aðalnámskrár. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera athugun á innleiðingu aðalnámskrár eins og hún birtist í kennslubókum með tilliti til nýrra efnisþátta, hæfniskrafna og viðhorfa til stærðfræði. Niðurstöður sýna töluverðan mun sé litið til framangreindra þátta. Markmið sem sett eru fram í aðalnámskrá koma skýrt fram í nýjasta kennslubókarflokknum Átta-tíu en kennslubókarflokkurinn Almenn stærðfræði sem var útbreiddastur í notkun vék frá aðalnámskránni í veigamiklum atriðum og miklu meir en kennslubækurnar Talnaspegill og Hornalína sem voru aðeins í notkun um skamma hríð.Hvernig nota kennarar kennsluleiðbeiningar í stærðfræði?

Guðbjörg Pálsdóttir dósent


Námsefni er eitt af megintækjum kennara í starfi. Flestu námsefni sem gefið er út fyrir grunnskóla fylgja kennsluleiðbeiningar sem ætlað er að gefa innsýn í hvaða hugmyndir höfundar hafa um notkun nemendaverkefna og skipulagningu kennslu. Í rannsókninni voru kennsluleiðbeiningar í stærðfræði (1. – 6. bekk) skoðaðar og hvernig kennarar nota þær. Í viðtölum við 10 kennara frá Íslandi og Svíðþjóð var aflað upplýsinga um hvernig þeir nýta leiðbeiningarnar, hvers þeir leita og hvað þeir telja mikilvægt að finna þar. Bæði kennsluleiðbeiningarnar og viðtölin voru greind út frá fimm viðmiðum um hvort þeir þættir sem taldir eru styðja við starfsþróun koma fram. Niðurstöður sýna að kennarar sem nota menntandi kennaraleiðbeiningar séu líklegri til að nota fjölbreyttari kennsluhættir en þeir sem nota hefðbundnar kennsluleiðbeiningar.