Delta Kappa Gamma

Félag kvenna í fræðslustörfum

Big picture

Fréttabréf forseta í febrúar 2019

Kæru félagskonur

Það sem af er þessu ári hefur verið talsvert um að vera í félaginu okkar og helgast það að miklu leyti af undirbúningi fyrir tvö stór verkefni. Annars vegar Landssambandsþingið sem verður haldið þann 4.maí í Reykjavík og hins vegar alþjóðaráðstefnuna 25.-27.júlí sem einnig verður haldin í Reykjavík. Það er að mörgu að hyggja fyrir svona viðburði og sem betur fer eru margir sem leggja hönd á plóg og gera má ráð fyrir að óskað verði eftir aðstoð frá fleirum þegar nær dregur.

Félagatal

Á síðasta fundi stjórnar Landssambandsins var meðal annars rætt um félagatalið okkar og hversu mikilvægt er að hafa ávalt nýjustu upplýsingar þar. Félagatalið er í raun orðið tvöfalt, það er stóra félagatalið sem er pdf skjal á aðalsíðunni okkar og svo eru flestar deildir líka með félagatal á deildarsíðunum. Þegar þessi tvö félagatöl eru síðan borin saman má víða sjá misræmi. Það er því mikilvægt að allar deildir fari yfir félagatal sitt og uppfæri upplýsingar. Netföng margra hafa breyst, ekki síst eftir að Reykjavíkurborg breytti endingu á sínum netföngum. Ég óska því eftir að allar deildir geri þetta hið fyrsta og sendi upplýsingar um breytingar á eftirtalda: formann félaga- og útbreiðslunefndar, sigga@olfus.is; vefstjóra, eyglob@gmail.com og mig jona.dkg@gmail.com. Ef ekki eru gerðar neinar breytingar bið ég ykkur að senda póst á sömu netföng um að félagatalið hafi verið yfirfarið og þar séu allar upplýsingar réttar. Svo minni ég enn og aftur á myndirnar. Það er bæði gagnlegra og skemmtilegra að skoða þær deildarsíður sem eru með myndum af félagskonum.

Landsambandsþing, 1000 krónur.

Næsta þing Landssambandsins verður haldið þann 4.maí í Kvennaskólanum í Reykjavík í umsjón Alfa- og Kappadeilda ásamt menntamálanefnd og stjórn. Dagskráin er í mótun og getur ennþá breyst en eins og staðan er í dag gerum við ráð fyrir hún verði í stórum dráttum eins og hér kemur fram.

Mæting og kaffihressing verður frá 9:30- 10:00

Setning verður kl. 10:00. Þá komi erindi frá fulltrúa alþjóðasamtakanna og að því loknu aðalfundur. Að þessu sinni verður talsvert um lagabreytingar þar sem lögum alþjóðasamtakanna var breytt mikið síðasta sumar og við verðum að uppfæra okkar lög til samræmis við þær breytingar. Laganefnd og lögsögumaður eru að vinna í lagabreytingatillögum og vonandi getum við birt þær fljótlega. Breytingatilögurnar verða birtar á heimasíðunni og sendar í tölvupósti til formanna deilda sem verða beðnir um að koma þeim til sinna félagskvenna. Nú á þessum aðalfundir verða einnig bornar fram skýrslur stjórnar og gjaldkera eins og lög gera ráð fyrir og svo verða kosningar til nýrrar stjórnar.

Uppstillingarnefnd hefur hafið störf og er að vinna úr tilnefningum sem henni hafa borist. Eftir hádegismat sem verður í boði samtakanna, verður svo dagskrá frá 13:00-15:00 sem menntamálanefnd er að skipuleggja. Að henni lokinni verða formleg þingslit og kaffiveitingar.


Svo hefur fulltrúi alþjóðasamtakanna óskað eftir því að fá að hitta alla gjaldkera deilda í beinu framhaldi af þinginu til að fara gegnum þær breytingar sem gerðar voru í sumar á verklagi við innheimtu gjalda og skil til alþjóðasamtakanna. Því er mikilvægt að allir gjaldkerar deilda mæti á þingið. Þar sem sérstaklega er farið fram á að gjaldkerar mæti mun Landssambandið greiða ferðakostnað þeirra. Við biðjum ykkur að huga tímanlega að því að panta flug svo hægt sé að fá ódýr fargjöld eða ferðast að öðru leyti með sem hagkvæmustum hætti.

Fyrirsögn þessa pistils endar á 1000 krónur, það skýrist af því að um þessar mundir stendur Landssambandið frekar vel fjárhagslega og á síðasta stjórnarfundi var rætt um hvernig væri best að láta félagskonur njóta þess. Niðurstaðan varð að hafa Landssambandsþingið vorið 2019 að mestu án endurgjalds og gera aðeins ráð fyrir 1000 króna skráningargjaldi fyrir hverja konu.

Big picture

Vinna við undirbúning alþjóðaráðstefnunnar

Undanfarnar vikur hefur verið talsvert að gera við undirbúning alþjóðaráðstefnunnar í sumar. Dagskrárnefnd er komin vel af stað með sína vinnu og þegar þetta er skrifað á aðeins eftir að hnýta nokkra lausa enda þar og viðburðanefndin er langt komin með sína dagskrá. Nokkuð bras var að koma skráningarsíðunni í gagnið en það hefur nú tekist og hægt var að skrá sig frá 17.janúar. Fjölmiðla- og kynningarnefndin hefur sett upp sérstaka síðu fyrir dagskrá ráðstefnunnar og þar er líka tengill á skráningarsíðuna. Hlekkur á síðuna er https://dkgerc2019.weebly.com

Ég hvet ykkur ágætu formenn deilda að opna þennan hlekk á næsta stjórnarfundi og skoða dagskrána með félagskonum. Það er nefnilega ekki nóg að vera með öflugan hóp í undirbúningsvinunni það þarf líka að fá konur til að mæta. Við erum ánægðar með dagskrána og vonum að hún veki áhuga kvenna á þátttöku. Þetta er líka einstakt tækifæri fyrir konur á Íslandi til að taka þátt í alþjóðastarfinu án þess að kosta mjög miklu til í tíma eða peningum.

Meira um alþjóðaráðstefnuna

Að halda svona ráðstefnu kostar talsverða fjármuni og við erum í samstarfi við alþjóðasamtökin um það. Í fjárhagsáætlun fyrir ráðstefnuna var gert ráð fyrir styrkjum upp á eina milljón króna. Fjárhagsnefnd ráðstefnunnar hefur unnið í að afla styrkja og hefur sent bréf til yfir 30 fyrirtækja með styrkbeiðnum. Þeim hefur ekki öllum verið svarað og eins og staðan er núna hafa safnast

350 000 krónur svo það er ljóst að betur má ef duga skal. Við leitum til ykkar í deildunum um að leggja höfuðin bleyti og skoða hvort vitið um einhverja möguleika á styrkjum í ykkar nærumhverfi. Ef ykkur dettur eitthvað í hug er best að hafa samband við Jensínu, formann fjárhagsnefndar, netfangið hennar er: gvjv@simnet.is. Jensína er með tilbúið bréf með styrkbeiðni sem hægt er að fá og eins er mikilvægt að hafa samráð svo ekki séu margir að senda á sama aðila. Ég vek líka athygli á að Iotadeild hefur ákveðið að styrkja ráðstefnuna með því að greiða fyrir einn fyrirlestur (30-50 000) og það er líka möguleiki ef fleiri deildir standa þannig fjárhagslega að þær vilji feta í þau fótspor.

Big picture

Að lokum

Ég fer nú að segja þetta gott í bili. Eins og þið sjáið er af ýmsu að taka í öflugu félagi eins og okkar. Það er nærandi fyrir sálina að vera hluti af þessum góða hópi sem hefur það að markmiði að rækta allt starf sem lýtur að menntamálum. Deildafundirnir eru kjarninn í starfinu og ég hvet ykkur til að sinna þeim vel, það er þar sem hjartað slær.