Fréttabréf Kópavogsskóla
ágúst 2022
Upphaf nýs skólaárs
Nú er unnið að lokaundirbúningi fyrir kennslubyrjun 2022-2023. Starfsmenn aðrir en kennarar komu til starfa 3. ágúst, kennarar mættu til undirbúnings kennslu mánudaginn 15. ágúst og skólasetning og fyrsti dagur nemenda verður þriðjudagurinn 23. ágúst. Skólasetning verður í sal skólans og tímasetningar sem hér segir:
- 2.-3. bekkur kl. 8:30
- 4.-6. bekkur kl. 9:00
- 7.-10. bekkur kl. 10:00
Nemendur 1. bekkjar verða boðaðir ásamt foreldrum sínum í viðtal hjá umsjónarkennara 23. ágúst og sama á við um nemendur námsvers.
Að lokinni skólasetningu fara nemendur með umsjónarkennurum í kennslustofur þar sem farið verður yfir helstu upplýsingar. Kennsla hefst síðan samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 24. ágúst kl. 8:00.
Nýir nemendur ásamt foreldrum sínum fá boð um að hitta umsjónarkennara fimmtudaginn 18. ágúst kl. 15. Þar fá þeir kynningu á skólastarfinu og skólahúsinu og geta spurt um það sem upp í hugann kemur. Umsjónarkennarar hafa samband símleiðis við foreldra þeirra í upphafi vikunnar.
Frístund opnar miðvikudaginn 24. ágúst fyrir börn sem eru skráð.
Skólakynningar verða í september og auglýstar fljótlega eftir að skólastarf hefst.
Hádegismatur
Áskrift þeirra nemenda sem voru skráðir í hádegismat þegar skóla lauk í vor
færist sjálfkrafa yfir á nýtt skólaár. Aðeins þarf því að skrá þá nemendur sem eru nýir í mataráskrift eða að afskrá þá nemendur sem ætla að hætta í mataráskríft. Nánari upplýsingar um mataráskrift og verð eru
hér Frístund
Frístund er fyrir nemendur í 1.-4. bekk. Sækja þarf um frístund í upphafi skólaárs því umsóknir færast ekki á milli ára. Sótt er um á
þjónustuvef Kópavogsbæjar og gjaldskrá er
hér.
Frístund er lokuð á skólasetningardag en opnar 24. ágúst.
Framkvæmdir
Gríðarlega umfangsmiklar framkvæmdir hafa verið í skólahúsnæðinu frá því fyrir páska þegar loka þurfti kennslustofum eftir að mygla uppgötvaðist í útvegg. Búið var að brjóta og fjarlægja það sem þurfti við lok skólaársins og endurbætur hafa staðið yfir í allt sumar. Alls voru 10 kennslustofur endurgerðar frá grunni og að auki þrjár minni stofur. Það sér fyrir endann á framkvæmdunum og þó stefnan sé að öllu verði lokið fyrir skólasetningardag er líklegt að að kennslustofur á neðri gangi sem snýr að Digranesvegi verði ekki tilbúnar fyrr en um mánaðamót. Það hefur samt ekki áhrif á skólabyrjunina því við finnum aðrar lausnir í fáeina daga ef þarf.
Það sem gert hefur verið í húsnæðinu er eftirfarandi:
- búið að skipta um alla glugga á gangi unglingastigs. Það var verk sem átti að framkvæma sumarið 2021 en það gafst ekki tími til þess.
- allar stofur á suðurhlið voru unnar þannig að allur múr og einangrun var fjarlægð af útvegg innanverðum, veggurinn slípaður og úðaður áður en hann var einangraður aftur og múraður upp á nýtt. Það er komin ný ofnalögn, ný neysluvatnslögn, allt rafmagn endurnýjað, stofurnar heilmálaðar og nýr dúkur á öll gólf. Búið að fara yfir og lagfæra loftaplötur og ljós svo allar stofurnar eru eins og nýjar.
- til stóð að endurnýja gólfdúka á göngum en ekki gefst tími til þess og það verður því gert sumarið 2023.
- Í smíðaatofu verður skipt um glugga á austurhlið en það er verk sem ekki náðist að fara í sumarið 2021.
Tvö ný leiktæki koma á lóð skólans en nánar um það hér fyrir neðan.
Á myndinni hér fyrir neðan sést staðan 16. ágúst en gert er ráð fyrir að allar kennslustofur á efri gangi verði tilbúnar 22. ágúst. Stofur á neðri gangi verða væntanlega tilbúnar 26. ágúst en það kemur ekki að sök því við finnum aðra lausn í nokkra daga.
Skólalóð
Kópavogsskóli fékk sérstaka úthlutun (10 milljónir) fyrir nýjum leiktækjum og þau voru pöntuð sl. vor. Um er að ræða hringekju þar sem mörg börn geta setið saman og einnig kemur nýr kastali í stað þess sem nú er en hann er gamall og slitinn. Gert er ráð fyrir að hvoru tveggja verði komið upp fyrir skólasetningardag og vonandi gengur það eftir. Kastalinn verður settur þar sem gamli kastalinn er en hringekjan verður sett hjá nýju leiktækjunum við suðurhlið skólans (sem snýr að Digranesvegi). Foreldrafélag skólans styrkir verkefnið með fjárframlagi og báðum aðilum eru færðar þakkir fyrir.
Þróunarverkefni á skólaárinu
Kópavogsskóli leggur áherslu á þróa skólastarfið og sækir reglulega um styrki úr Sprotasjóði og Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Síðastliðið vor fékk skólinn jákvætt svar við styrkumsóknum úr báðum sjóðunum til að vinna að tveimur verkefnum skólaárið 2022-2023.
Úr Sprotasjóði fékkst styrkur að upphæð kr. 1.500.000- vegna verkefnisins Á leið til framtíðar en markmið verkefnisins er að ,,aðstoða nemendur með ólíkan menningar- og tungumálabakgrunn að byggja upp og þróa sínar eigin rafrænu námsbækur í íslensku. Til þess nýta nemendurnir möguleika skjápenna og ýmisa smáforrita (appa) í spjaldtölvu (iPad). Með þessari nálgun geta nemendur haft meiri áhrif á eigið nám og aukið hæfni sína í verkefnum sem þeir hafa valið sjálfir eða með hjálp kennara." Verkefnið er sniðið að nemendum námsvers skólans og að nemendum af erlendum uppruna.
Verkefnið Að fanga fagmennskuna er styrkt af Endurmenntunarsjóði um kr. 220.000- Markmið verkefnisins er að aðstoða kennara við að þróa og breyta kennsluháttum og aðlaga kennsluáætlanir að þörfum nemenda með miklar sérþarfir hvort sem er vegna námserfiðleika eða erfiðleika vegna annars móðurmáls en íslensku. Þar er horft til rafrænnar tækni og aukinnar samþættingar námsgreina.
Í báðum þessum verkefnum er samstarf við sérfræðinga á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Yfirlit yfir þróunarverkefni undanfarinna ára er a finna á heimasíðu skólans.
Góður grunnur
Skólaárið 2020-2021 fór í gang tilraunaverkefni í Kópavogsskóla og Álfhólsskóla þar sem markmiðið var að leggja mat á stöðu hvers nemanda í 1. bekk strax í upphafi skólaársins og bregðast við sérþörfum þeirra. Að verkefninu, sem fékk í Kópavogsskóla nafnið Góður grunnur, komu ásamt kennurum skólasálfræðingur, deildarstjóri og sérkennari/iðjuþjálfi sem fylgdust með börnunum í kennslustundum. Í þeim tilvikum sem ástæða þótti til að fylgjast nánar með nemendum var það gert í samstarfi við foreldra. Verkefnið er nú á þriðja ári og komið til að vera. Aðrir skólar í Kópavogi stefna á að taka upp þau vinnubrögð sem höfðu þróast í Álfhóls- og Kópavogsskóla svo flestir skólanna verða þáttakendur frá og með skólaárinu sem nú er að hefjast.
Rafræn samskipti
Mentor kerfið verður áfram notað til samskipta kennara og foreldra og einnig goggle classroom á eldra stigi. Notkun á forritinu Seesaw hefur verið hætt meðan verið er að skoða persónuverndarmál nánar. Kennarar eiga að setja allar áætlanir inn í mentor fyrir lok dags á fimmtudögum en áætlanir ná einnig yfir það sem gert er í skólanum.
Réttindaskóli UNICEF
Kópavogsbær hefur verið að innleiða
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við stofnanir bæjarins undanfarin ár. Grunnskólarnir vinna þetta þvert á námsgreinar svo ekki er um sérstakar kennslustundir að ræða heldur er unnið út frá viðfangsefnum hverrar námsgreinar. Í Kópavogsskóla er unnið að undirbúningi vegna innleiðingar á
Réttindaskóla UNICEF þar sem markmiðið er að horfa meira á skólastarfið með augum nemenda og gera þau að virkari þáttakendum. Það þarf að sækja um að gerast réttindaskóli og það er í ferli hjá Kópavogsbæ.
Markvissir fundir
Fundir kennara vegna ýmissa atriði í skólastarfinu hafa aukist mjög mikið undanfarin ár. Þar er helst um að ræða fundi vegna barna með sérþarfir og samráð við sérfræðinga. Í kjarasamningi Félags grunnskólakennara er tekið sérstaklega á þessu og tímafjöldi á viku skilgreindur. Fundirnir verða því skipulagðir með öðrum hætti en verið hefur og markmiðið að þeir verði skilvirkari og því hægt að fara yfir fundarefni á skemmri tíma sem á að gagnast foreldrum ekki síður en kennurum. Síðastliðið skólaár voru skólastjórnendur í Kópavogi (og reyndar víðar um land) á námskeiði og vinnubrögðin sem þar voru kynnt höfð að leiðarljósi á skólaárinu.
Uppeldi til ábyrgðar
Kópavogsskóli hefur frá árinu 2008 unnið samkvæmt uppeldisstefnunni
Uppeldi til ábyrgðar. Markmið stefnunnar er að kenna börnum sjálfsaga og leita lausna á vandamálum með aðstoð fullorðinna ef þarf. Á heimasíðu skólans er að finna
leiðbeiningar sem unnar voru af teymi skólans fyrir nokkrum árum og eru enn í fullu gildi.
Foreldrasamstarf
Undanfarin ár hefur foreldrasamstarf minnkað og
Heimili og skóli - Landssamtök foreldra hvöttu til þess sl. vor að grunnskólarnir og foreldrafélögin settu kraft í að efla það eftir að öllum takmörkunum var aflétt. Það ætlum við að gera og erum að undirbúa fræðslufund fyrir umsjónarkennara og árgangafulltrúa í þeim tilgangi. Stefnt er að því að fundurinn verði fljótlega eftir skólabyrjun og dags- og tímasetning ákveðin í samráði við stjórn foreldrafélagsins.
Aðalnámskrá grunnskóla
Vefur Aðalnámskrár grunnskóla hefur verið uppfærður og einfaldara að fletta í bæði aðalnámskránni sjálfri sem og greinanámskránum. Aðalnámskráin er leiðarvísirinn í skólastarfinu og grunnskólunum ætlað að fylgja henni og þeim markmiðum sem þar eru sett. Smellið
hér til að fara á vef Aðalnámskrárinnar.
Göngum í skólann
Undanfarin ár hefur oft skapast öngþveiti í hringtoginu þegar foreldrar eru að aka börnum í skólann. Það er hægt að minnka þá umferð töluvert ef börn ganga í skólann eða koma á hjóli og í flestum tilvikum er skólinn í göngufæri frá heimilum barnanna. Verkefnið
Göngum í skólann er árlegt en markmið þess er að hvetja til meiri hreyfingar og tilvalið meðan veður er gott að sleppa bílnum:-)