Hvalrekinn

Mars 2019

Big picture

Bolludagur og bræður hans

Ágætu foreldrar.

Vonandi hafa allir átt ánægjulegt vetrarfrí og haft nóg fyrir stafni.

Á Bolludaginn er nemendum velkomið að koma með rjómabollur í nesti ef þeir kjósa það. Skólamatur býður upp á fiskibollur í hádeginu og á þriðjudag, Sprengidag, verður að sjálfsögðu saltkjöt og baunir í matinn.

Hér fyrir neðan getið þið foreldrar séð dagskrá Öskudagsins og eru allir hvattir til þess að koma í skemmtilegum búningum í skólann eða kannski náttfötunum! Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá og verður hefðbundin stundaskrá lögð til hliðar hjá yngstu- og miðdeild. Skóla lýkur á öskudaginn kl. 11.20 og tekur Holtasel þá við þeim nemendum sem þar eru skráðir.
Nemendur í 7. bekk leggja land undir fót og ætla að dvelja í Skólabúðunum á Reykjum í næstu viku. Við óskum þeim góðrar ferðar og góðrar skemmtunar.


Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Öskudagur

Öskudagurinn er á miðvikudaginn 6. mars og hvetjum við alla til að koma í búningi þann dag. Nemendur mæta í skólann samkvæmt stundaskrá og eru til kl. 11:20. Þeir nemendur sem eru í áskrift hjá Skólamat fá samloku, ávaxtadrykk og banana með sér í lok dags.


Þeir nemendur sem eru í Holtaseli geta farið þangað að skóla loknum. Forráðamenn nemenda sem eiga pláss í Holtaseli láti vita ef þeir ætla ekki að nýta það þennan dag.


Breytt dagskrá er hjá nemendum í yngstu- og miðdeild en kennt er samkvæmt stundaskrá hjá nemendum í elstu deild. Hér má sjá nánari dagsrká.

Samræmd könnunarpróf eru hjá nemendum í 9. bekk

Nemendur í 9. bekk fara í samræmd könnunarpróf sem hér segir:

Mánudaginn 11. mars er prófað í íslensku.

Þriðjudaginn 12. mars er prófað í stærðfræði.

Miðvikudaginn 13. mars er prófað í ensku.


Þar sem við reynum að þjónusta nemendur sem best í prófinu og við prófunina þá er nemendahópnum skipt í tvo prófhópa. Fyrri prófhópurinn á að mæta kl. 8:20 í próf og seinni prófhópurinn kl. 11:30. Nemendur fá að vita í hvorum hópnum þeir eru ásamt því að póstur verður sendur á foreldra með þeim upplýsingum.


Við viljum minna á eftirfarandi reglur eru varðar fyrirlögn prófanna:

 • GSM símar eru bannaðir meðan á prófi stendur. Hafi nemendur GSM síma með sér er nauðsynlegt að slökkt sé á þeim og þeim komið í vörslu þess sem situr yfir.

 • Nemendum er óheimilt að vera með tónlist í eyranu í samræmdum könnunarprófum, t.d. úr MP3 eða iPod spilurum. Slíkt getur truflað nemandann sjálfan og nemendur á næstu borðum.

 • Nemendum er heimilt að hafa nesti með sér í próf. Þó skal svo frá því gengið að það sé snyrtilegt og neysla þess trufli ekki aðra.

 • Í prófið í stærðfræðinni eiga nemendur að mæta með góðan vasareikni með sér.

 • Það eru vinsamleg tilmæli frá Menntamálastofnun að nemendur fái ekki að fara út úr prófinu fyrr en próftíminn er liðinn. Við viljum því minna á að gott er fyrir nemendur að hafa með sér bók að lesa í ef þeir þurfa að bíða.

Þá viljum við minna á að góður næstursvefn og næring fyrir próf eru mjög mikilvægir þættir.


Hér má nálgast bréf frá Menntamálastofnun vegna prófunnarinnar annars vegar til foreldra; á íslensku, á ensku , á pólsku. Hins vegar til nemenda; á íslensku, á ensku , á pólsku.

Upplestarhátíð í Hvaleyrarskóla

Í lok febrúar var upplestrarkeppni í 7. bekkjunum. Áður tóku nemendur í bekkjunum þátt í upplestrarkeppni hvers bekkjar fyrir sig. Eftir bekkjarkeppninnar voru 3 valdir úr hverjum bekk til þess að taka þátt upplestrarhátíð í Hvaleyrarskóla. Keppt var um að komast að sem þátttakendur í stóru upplestrarkeppninni sem er haldinn hvert ár í Hafnarborg en í ár verður keppnin haldin þriðjudaginn 2. apríl næstkomandi. Þessir nemendur voru valdir sem fulltrúar Hvaleyrarskóla í þessari keppni: Kamilla Guðrún Lowen, og Ingunn Lind Pétursdóttir en til vara er Andri Snær Gunnarsson. Við óskum þeim til hamingju með þennan áfanga og óskum þeim góðs gengis í aðalkeppninni.

Nemendaferðir í mars

Nú í mars eru fyrirhugaðar eftirfarandi nemendaferðir:

 • Nemendur í 9. bekk eru að Laugum og koma heim í dag, föstudag.
 • Nemendur í 7. bekk fara að Reykjum mánudaginn 4. mars.
 • Nemendur í 10. bekk fara í heimsókn í Flensborgarskólann þann 5. mars.
 • Þann 15. mars fara nemendur í 9. og 10. bekk á Íslandsmótið í iðn- og verkgreinum og framhaldskólakynningu.

Heimavinnuaðstoð í Hvaleyrarskóla

Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti nemendum á bókasafni skólans og aðstoða við heimanámið. Hittumst á þriðjudögum kl. 13:30 - 15. Allir velkomnir!

Um heimavinnuaðstoð / Heilahristing:
Heimavinnuaðstoðin er fyrir öll börn í 1. til 10. bekk. Markmið verkefnisins er að styrkja börnin í námi og kynna fyrir þeim þjónustu bókasafnsins í tengslum við nám og áhugamál.

Nánari upplýsingar veitir:
Hulda M. Rútsdóttir, Verkefnastjóri Rauða krossins, Netfang: hulda@redcross.is

Viðvera hjúkrunarfræðings

Íris Ómarsdóttir Hjaltalín skólahjúkrunarfræðingur er með viðveru í Hvaleyrarskóla á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum frá kl. 8:00 - 15:00 og á þriðjudögum frá kl. 14:00 - 15:00.

Hér má sjá upplýsingar um heilsuvernd skólabarna.

Á döfinni

 • Forinnritun nýnema sem eru að útskrifast úr 10.bekk er 8. mars – 13. apríl.

 • Fræðslan Sjúk Ást verður fyrir nemendur í elstu deild. Fyrir nemendur í 8. og 10. bekk þriðjudaginn 12. mars og fyrir nemendur í 9. bekk fimmtudaginn 14. mars.

 • Þann 15. mars fara nemendur í 9. og 10. bekk á Íslandsmótið í iðn- og verkgreinum og framhaldskólakynningu.

 • 100 - miðaleikurinn hefst þann 18. mars og lýkur þann 22. mars.

 • Þann 20. mars er Skólahreystikeppnin í íþróttahúsinu að Ásvöllum.

 • Þann 21. mars kl. 14:00 - 15:30 er stærðfræðikeppni grunnskólanna í Hafnarfirði haldin í Flensborgarskólanum. Keppnin er ætluð fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk.

 • Samfestingur er fyrir nemendur í elstu deildinni (8. - 10. bekkur) þann 22. mars.

 • Þann 26. mars er boðsundskeppni grunnskólanna í Laugardalslaug.

 • Þann 26. mars fá nemendur í 10. bekk fræðslu frá Fjármálaviti.

 • Nemendur í 10. bekk fara á Skólaþing, 10. SB þann 2. apríl og 10. GB þann 5. apríl.

 • Þemadagar verða 10. - 12. apríl þar sem unnið verður með jörðina mína. Afrakstur vinnunnar verður á opnu húsi föstudaginn 12. apríl.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.