Fréttabréf Grenivíkurskóla

1. tbl. 2. árg. - janúar 2021

Kæra skólasamfélag

Fyrir hönd starfsfólks Grenivíkurskóla langar mig að byrja á að senda ykkur öllum bestu nýársóskir með þökk fyrir samstarfið á liðnum árum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ykkur á nýju ári og höfum fulla trú á að 2021 verði okkur heilladrjúgt.


Um áramót gekk í gildi ný reglugerð um skólastarf sem slakar talsvert á þeim takmörkunum sem í gildi voru fram að jólafríi. Reglugerðin þýðir í raun að við, í okkar litla skóla, getum haldið úti hefðbundnu skólastarfi og er það fagnaðarefni. Áfram brýnum við þó fyrir nemendum og starfsfólki að gæta vel að persónubundnum sóttvörnum enda faraldrinum ekki enn lokið þótt nú hylli vissulega undir betri tíð. Áfram eru heimsóknartakmarkanir í gildi og foreldrar og forráðamenn beðnir um að koma ekki í skólann nema brýna nauðsyn beri til.


Annars hlökkum við sem fyrr segir til nýs árs og nýrra áskorana og vonumst eftir snjóléttum vetri og snemmbúnu vori!


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Grænfáninn: Ruslaverkefni

Í nestistímum í desember voru foreldrar og forráðamenn hvattir til þess að takmarka eftir fremsta megni einnota umbúðir og notast frekar við fjölnota ílát undir mat og drykk. Skemmst er frá því að segja að þetta tilraunaverkefni tókst afar vel og gríðarlegur munur á því rusli sem safnaðist í desember í samanburði við það sem safnaðist í nóvember.


Í nóvember, áður en átakið hófst, söfnuðust fernur og plastúrgangur sem fylltu fjóra haldapoka. Í desember fyllti ruslið hins vegar einungis hálfan haldapoka. Margt smátt gerir eitt stórt og þetta verkefni sýnir vel hversu mikil áhrif við getum haft með því að hugsa um okkar neyslu og hvað við getum gert til að draga úr sorpi, sér í lagi einnota umbúðum, t.d. úr plasti.


Við munum fara vel yfir þessar niðurstöður með okkar nemendum. Vonandi sýnir þetta þeim fram á hversu mikið við getum í raun og veru gert með okkar vali og hefur áhrif á hugsunarhátt þeirra sem neytenda til framtíðar.


Þótt átakinu sé formlega lokið stendur eftir sú hvatning til foreldra og forráðamanna að huga að þessum málum þegar kemur að því að velja nesti, reyna að takmarka einnota umbúðir (sér í lagi plastpoka og annað plast) og nota fjölnota ílát undir föstudagsnestið.

Heilsueflandi skóli - jákvæðni

Að temja sér jákvætt hugarfar er ákaflega mikilvægt og raunar ýmsar rannsóknir sem benda til þess að þeir sem markvisst vinna að því að líta á björtu hliðarnar í lífinu lifi almennt hamingjusamara lífi og nái betri árangri en þeir sem gera það ekki. Auðvitað er það ekki alltaf svo einfalt, en þó er ýmislegt hægt að gera til þess að sjá heiminn í jákvæðu ljósi.


Eitt af því sem hægt er að gera er að ákveða að prófa/gera/segja/hugsa eitthvað eitt á hverjum degi sem er til þess fallið að auka jákvæðni og hamingju. Hér að neðan er tengill á dagatal frá velvirk.is þar sem einmitt er búið að setja inn hugmyndir að slíku og um að gera að skoða það og prófa sig áfram. Gangi ykkur vel!


Dagatal velvirk.is - hamingjuríkari janúar 2021

Myndir desembermánaðar

Að venju var margt og mikið um að vera í desember og við reyndum að vera dugleg að taka nokkrar myndir á helstu viðburðum í jólamánuðinum. Hér að neðan eru tenglar á myndaalbúm frá þessum viðburðum.


Laufabrauðsdagur

Möndlugrautur

Kyndlaganga og hátíðarmatur

Litlu-jólin

Útiskóli í janúar

  • 5.-6. bekkur: Grenndarkennsla, nærsamfélagið, talnarýni og fleira.
  • 1.-4. bekkur: Göngutúrar, grenndarkennsla og ruslatínsla.

Á döfinni í janúar

  • 4. janúar: Starfsdagur. Frí hjá nemendum
  • 5. janúar: Skóli hefst að nýju eftir jólafrí
  • 6. janúar: Þrettándinn
  • 22. janúar: Bóndadagur
Big picture

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla